Í hvert sinn sem ég heyri af eða les um eineltismál fæ ég sting í hjartað. Þetta eru erfið mál og sorgleg fyrir alla hlutaðeigandi. Við vitum að líðan nemenda í íslenskum grunnskólum er almennt góð; um 90% grunnskólanemenda líður vel eða þokkalega í skólanum samkvæmt könnun Rannsóknastofu í tómstundafræðum við Háskóla Íslands. Fyrir þá nemendur, og aðstandendur þeirra, sem ekki tilheyra þeim hópi skiptir tölfræði hins vegar engu máli.
Skilningur á einelti og afleiðingum þess hefur aukist en því miður verða enn of margir fyrir einelti í okkar samfélagi. Í alþjóðlegum samanburði er tíðni eineltis í íslenskum skólum lág en eineltismál koma engu að síður reglulega upp og skólarnir verða þá að hafa leiðir, ferla og verkfæri til að bregðast við. Við, sem samfélag, viljum ekki að „lausnin“ felist í því að þolandi eineltis neyðist til að víkja úr sínum hverfisskóla. Það er óviðunandi niðurstaða.
Til að koma í veg fyrir það þurfa stjórnvöld, skólasamfélagið og ekki síst samfélagið í heild að skoða hvað megi gera betur. Ég hef haft þennan málaflokk til skoðunar og hef samþykkt að endurskoða og styrkja lagaumgjörð eineltismála. Vegna eðlis málanna eru úrlausnaraðilar oft í erfiðri og flókinni stöðu, en þá þarf kerfið okkar að grípa alla hlutaðeigandi og tryggja faglega lausn.
Öflugar forvarnir gegn einelti eiga að vera algjört forgangsatriði. Fræðsla er lykillinn að því að uppræta eineltismál og koma í veg fyrir þau og ég mun því leggja ríka áherslu á að efla forvarnir innan skólanna.
Fagráð eineltismála var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum. Hlutverk þess er að veita stuðning með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Jafnframt geta nemendur, forráðamenn og starfsfólk skóla leitað eftir aðkomu þess ef ekki hefur tekist að finna fullnægjandi lausn innan skólanna. Fagráðið hefur margoft sannað mikilvægi sitt fyrir skólasamfélagið, bæði með ráðgjöf og við úrlausn erfiðra mála og mikið framfaraspor var stigið þegar ráðinu var gert að liðsinna einnig framhaldsskólunum. Okkar helsta verkefni er nú að auka sýnileika ráðsins og skerpa á hlutverki þess. Afar mikilvægt er að skólasamfélagið og forráðamenn viti hvaða úrræði standa þeim til boða við úrlausn eineltismála.
Rannsóknir sýna að afleiðingar eineltismála til framtíðar geta verið gríðarlegar. Við verðum því að gera allt til að koma í veg fyrir að eineltismál komi upp. Við verðum að styrkja umgjörðina, fræðsluna og síðast en ekki síst styrkja hvert annað til að sporna við eineltismálum í samfélaginu. Eitt mál er einu máli of mikið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október 2020.