Categories
Greinar

Við vorum kosin til að gera breytingar

Deila grein

23/02/2014

Við vorum kosin til að gera breytingar

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSíðustu alþingiskosningar snerust fyrst og fremst um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera til að koma samfélagi okkar upp úr hjólförunum. Það er vel þekkt staðreynd að í djúpri niðursveiflu felast tækifæri til að ná snöggri uppsveiflu. En á Íslandi varð biðin eftir viðsnúningi löng, enda voru mörg tækifæri vannýtt og árum saman fylgt stefnu sem var síst til þess fallin að ýta undir vinnu, vöxt og velferð. Óþreyjan eftir framförum var því orðin mikil.

Margar þeirra breytinga sem kallað var eftir við kosningar eru gríðarlega stórar og mikilvægar fyrir framtíð Íslands. Þar má meðal annars nefna leiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna, einföldun skattkerfisins, breytingu á samskiptum Íslands og Evrópusambandsins, bætt viðhorf stjórnvalda til atvinnulífsins, grundvallarbreytingar á fjármálaumhverfinu, m.a. vegna afnáms verðtryggðra neytendalána, skuldaskil þrotabúa gömlu bankanna og afnám fjármagnshafta.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar fengu mjög afdráttarlaus skilaboð í alþingiskosningunum. Þau skilaboð tökum við alvarlega. Við vorum kosin til að gera breytingar. Það erum við að gera og munum gera áfram.

Breytingar mæta iðulega mótspyrnu. Miklar breytingar mæta mikilli mótspyrnu og hún getur tekið á sig ýmsar myndir. Gagnrýni og rökræða eru nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Þegar ráðist er samtímis í margar stórar og afgerandi samfélagslegar breytingar sem skipta máli fyrir afkomu heimilanna, skipan fjármálakerfisins, samskipti okkar við umheiminn og komið í veg fyrir að kröfuhöfum bankanna séu tryggð þau sérkjör sem einhverjir þeirra virðast hafa haft væntingar um, þá þarf ekki að koma á óvart að mótstaðan verði bæði mikil og áköf og gangi jafnvel lengra en talist getur til eðlilegrar gagnrýni.

Breytt stefna kallar alltaf á andstöðu þeirra sem vildu halda óbreyttri stefnu (eða stefnuleysi) og þeirra sem hafa hag af óbreyttu ástandi.

Strax og þessi ríkisstjórn tók við kom í ljós að þær breytingar sem boðaðar voru í kosningum, og ríkisstjórnin var mynduð um, mættu mikilli mótspyrnu. Sú mikla varnarbarátta sem nú er háð gegn hreyfiafli breytinganna, bæði í fjölmiðlum og annars staðar í samfélaginu, hefur ekki farið fram hjá neinum og er skýrt merki þess að breytingarnar séu byrjaðar að skila árangri.

Upp úr hjólförunum

Um allt land sjást þess nú merki að íslenskt samfélag er að vakna af þyrnirósarsvefni áranna eftir bankahrunið. Efnahagslífið er að taka við sér með verulega auknum hagvexti, hvarvetna eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast. Merki um framfarir blasa víða við.

Ný þjóðhagsspá Arion banka var kynnt á ráðstefnu í vikunni með yfirskriftinni »komin upp úr hjólförunum«. Í fyrra var yfirskrift sömu ráðstefnu »föst í fyrsta gír« og sést ágætlega á þeirri breytingu að mikið hefur gerst á undanförnu ári.

Hagvöxtur tók stökk á afgerandi og jákvæðan hátt síðastliðið haust, hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir næsta ár er nú mun jákvæðari en von var á. Fjárfesting hefur aukist meðal smærri fyrirtækja á árinu og byggingariðnaðurinn er að taka verulega við sér. Talið er að um 2.000 störf bætist við í byggingariðnaði á næstu árum og því er spáð að atvinnuleysi muni lækka niður undir 3% – eða nálægt atvinnuleysistölum í venjulegu árferði á Íslandi. Auk þess er því nú spáð að verðbólga muni fara lækkandi fram eftir árinu sem er sérstaklega mikilvægt vegna þess að brýna nauðsyn ber til að auka kaupmátt heimilanna.

Ekkert lát er á fjölgun erlendra ferðamanna og um allt land er uppbygging á spennandi tækifærum í ferðaþjónustu í fullum gangi. Við þetta bætist að hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum okkar fara nú batnandi, lánshæfi landsins er orðið stöðugt og ýmsar vísbendingar eru um bætt vaxtakjör og meira traust á íslenska ríkinu.

Það er því full ástæða til að gleðjast yfir þeim áberandi jákvæðu breytingum sem hafa orðið á stöðu landsins og aðstæðum í samfélaginu síðastliðið ár.

Ísland er land tækifæranna

Framundan eru stór verkefni og mikilvægar breytingar.

Ein þeirra er afnám fjármagnshafta, sem nú er unnið að með skipulegum hætti. Um er að ræða grundvallarmál sem snertir líf allra landsmanna og komandi kynslóða Íslendinga. Inn í það mál blandast gífurlegir hagsmunir vogunarsjóða sem eiga kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Skuldaskil þeirra eru eitt þeirra verkefna sem leysa þarf af kostgæfni og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi, svo að hægt sé að afnema fjármagnshöft. Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur og íslenskt atvinnulíf taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan aðrir eru skildir eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.

Það er skiljanlegt að þeir sem eiga gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við uppgjör föllnu bankanna reyni að verja þá hagsmuni með kjafti og klóm. En ríkisstjórnin mun ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því er óhætt að treysta.

Það er ástæða til að vera mjög bjartsýnn á framtíð Íslands. Íslendingar hafa á liðnum áratugum oft fengið storminn í fangið en í hvert sinn staðið uppréttir eftir. Þjóðin hefur sýnt að hún er fullfær um að standa gegn hvers konar þrýstingi til að verja framtíðarhagsmuni sína.

Nú, þegar við erum loks komin upp úr hjólförunum, eru landinu allir vegir færir. Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri vel og leggja áherslu á að eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti við öll þau lönd sem vilja vinna með okkur á slíkum grundvelli.

Þó að breytingar mæti alltaf mótstöðu, þeim mun meiri mótstöðu eftir því sem hagsmunirnir eru meiri, þá mun ríkisstjórnin hvergi hvika. Við vorum kosin til að gera breytingar og það munum við gera.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2014.)