Categories
Greinar

Vinnumálastofnun virkjar hæfileikana – alla hæfileikana

Deila grein

12/05/2016

Vinnumálastofnun virkjar hæfileikana – alla hæfileikana

Eygló HarðardóttirÁkvörðun um að færa ábyrgð á atvinnumálum fatlaðs fólks til Vinnumálastofnunar um síðustu áramót markaði tímamót. Með þessu var settur lokapunktur við langt ferli og umræður um fyrirkomulag þessara mála. Allir landsmenn ganga nú um sömu dyr þegar óskað er aðstoðar við atvinnuleit. Þetta er góð niðurstaða í anda jafnræðis og áherslunnar á eitt samfélag fyrir alla.

Vinnumálastofnun og sveitarfélögin deila ábyrgðinni í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks. Vinnumálastofnun tekur við umsóknum um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, þar með talin er vernduð vinna og hæfing, og sérfræðingar stofnunarinnar leggja mat á vinnufærni og þjónustuþörf umsækjenda. Sveitarfélögin aftur á móti fjármagna og reka vinnumarkaðsúrræðin og bera ábyrgð á áframhaldandi uppbyggingu vinnu- og hæfingarstöðva.

Það er mikilvægt að fjölga tækifærum fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði. Til þess þarf útsjónarsemi, víðtækt samráð og aukinn skilning á því að fjölbreytni er styrkur hvers samfélags og það gildir líka um vinnumarkaðinn. Það þarf að horfa á styrkleika hvers og eins og virkja hæfileika allra.
Vinnumálastofnun leggur áherslu á að veita faglega þjónustu í samræmi við þarfir umsækjenda og beita aðferðum sem vel hafa gefist í þjónustu við fatlað fólk samhliða því að skapa og þróa nýjar leiðir og lausnir sem greiða götu fatlaðs fólks út í atvinnulífið. Ég veit að stofnunin axlar þetta verkefni með sóma.

Það eiga allir að fá séns!
Árið 2015 var efnt til átaksverkefnisins »Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana« sem skilaði fjölmörgum störfum um allt land, skapaði mikilvæg tengsl milli aðila og jók skilning og þekkingu á þeim starfskröftum og tækifærum sem hægt er að virkja í samfélaginu.

Í dag eru um 1.200 fatlaðir einstaklingar í vinnu og virkni hjá vinnu- og hæfingarstöðvum á landinu. Flestar stöðvanna eru reknar af sveitarfélögum, aðrar af félagasamtökum eða einkaaðilum samkvæmt þjónustusamningum við sveitarfélög eða Vinnumálastofnun.

Um 800 vinnusamningar öryrkja eru í gildi en Vinnumálastofnun tók við umsjón þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins um síðustu áramót. Flest fatlað fólk á vinnumarkaði er með slíkan samning en einnig margt fólk með skerta starfsgetu þótt það sé ekki með fötlunargreiningu.

Ársfundur Vinnumálastofnunar er í dag. Yfirskrift fundarins er »Eiga allir séns? Fjölbreytileiki á vinnumarkaði.« Það er því miður ekki þannig í dag að allir eigi séns, en engu að síður stefnum við í rétta átt og augu samfélagsins eru hægt en örugglega að opnast fyrir því að fjölbreytileikinn er styrkur og að víða leynast hæfileikar sem geta blómstrað fái þeir svolítinn áburð og gott atlæti.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. maí 2016.