Þegar við hugsum til þess sem helst hefur mótað lýðveldið okkar og það sem skilgreinir okkur sem þjóð berst talið oft að menningunni; að tungumálinu, bókmenntunum og náttúrunni. Í sjálfstæðisbaráttunni var þjóðtungan ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur okkar réttmætar. Tungumálið er þannig lykillinn að sjálfsmynd okkar og sjálfsskilningi. Íslensk stjórnvöld hafa í þessu samhengi kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Mikilvægur áfangi á þeirri vegferð náðist þegar Alþingi samþykkti samhljóða þingsályktun um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags.
Víðtæk samvinna
Tugir umsagna bárust um þingsályktunina en á grunni hennar er unnin aðgerðaáætlun til þriggja ára, í víðtækri samvinnu og samstarfi. Allir sem búsettir eru á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi. Helstu markmið þingsályktunarinnar eru í fyrsta lagi að íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, í öðru lagi að íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara og í þriðja lagi að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Aðgerðaáætluninni er skipt í fimm liði: Vitundarvakningu um íslenska tungu, menntun og skólastarf, menningu og listir, tækniþróun, aðgengi og nýsköpun og að lokum stefnumótun fyrir stjórnsýslu og atvinnulíf.
I. Vitundarvakning um íslenska tungu
Stuðlað verði að vitundarvakningu um mikilvægi íslenskrar tungu, gildi hennar og sérstöðu. Áhersla verði lögð á mikilvægi þess að íslenska sé lifandi tungumál í stöðugri þróun og helsta samskiptamál samfélagsins. Þessi vitundarvakning, undir yfirskriftinni Áfram íslenska!, tengist flestum sviðum þjóðlífsins og speglast í þeim aðgerðum sem hér fara á eftir.
II. Menntun og skólastarf
Mikilvægi læsis. Læsi er lykill að lífsgæðum á alþjóðavísu og unnið verður áfram í skólasamfélaginu að verkefnum sem tengjast Þjóðarsáttmála um læsi og leitast við að tryggja virka aðkomu heimila, bókasafna, rithöfunda og fjölmiðla að því verkefni.
Íslenska sem annað móðurmál. Þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar. Skipaður hefur verið verkefnahópur sem ætlað er að marka heildarstefnu í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku.
Kennaramenntun. Vægi íslensku verði aukið í almennu kennaranámi og áhersla lögð á að örva áhuga verðandi kennara á tungumálinu. Stuðlað verði að því að efla sköpunargleði til að byggja upp hæfni nemenda og stuðla að jákvæðu viðhorfi til íslenskunnar á öllum skólastigum.
Starfsþróun kennara. Stutt verði við starfsþróun og símenntun kennara í þeim tilgangi að efla lærdómssamfélag skólanna. Áhersla verði lögð á að auka hæfni kennara í íslensku og að þeir hafi tök á fjölbreyttum kennsluháttum til að kenna íslensku bæði sem móðurmál og sem annað mál.
Háskólakennsla og rannsóknir. Haldið verði áfram uppi öflugri háskólakennslu og rannsóknarstarfsemi í íslensku bæði í grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum.
Kennsla á íslensku. Kennsla í menntakerfinu á 1.-6. þrepi hæfniramma fari fram á íslensku.
Námsgagnaútgáfa. Stuðlað verði að góðu aðgengi nemenda á öllum skólastigum að fjölbreyttu og vönduðu námsefni á íslensku á sem flestum námssviðum.
Íslenskunám fullorðinna innflytjenda. Settur verði hæfnirammi um íslenskunám innflytjenda og viðeigandi námsleiðir þróaðar með auknu framboði námskeiða og námsefnis á öllum stigum. Samhliða verði útbúið rafrænt matskerfi til að meta hæfni fullorðinna innflytjenda í íslensku.
Íslenskukennsla erlendis. Styrkja skal stoðir íslenskukennslu á erlendri grundu. Nýta skal nýjustu tækni til hagsbóta fyrir þá fjölmörgu sem vilja læra íslensku, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni.
III. Menning og listir
Bókmenning. Sköpuð séu skilyrði fyrir fjölbreytta útgáfu bóka svo tryggt sé að áfram geti fólk á öllum aldri lært, lesið og skapað á íslensku. Alþingi hefur nú þegar samþykkt lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku með því að heimila endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu þeirra. Þá verður sérstök áhersla lögð á efni fyrir yngri lesendur, meðal annars með nýjum styrktarsjóði fyrir barna- og ungmennabækur. Sjóðnum, sem gefið var nafnið Auður, hefur þegar verið komið á laggirnar og var úthlutað úr honum í fyrsta sinn í sumar. Einnig verður hugað betur að hlutverki og mikilvægi þýðinga fyrir þróun tungumálsins, ekki síst í upplýsingatækni, vefefni, hug- og tæknibúnaði.
Lögð verði áhersla á notkun íslensku í listgreinum s.s. tónlist, myndlist, sviðslistum, kvikmyndagerð og framleiðslu sjónvarpsefnis. Þar verði stuðlað að aukinni frumsköpun á íslensku, kynningu og greiningu listar á íslensku og skapandi notkun tungumálsins á öllum sviðum. Áfram verði dyggilega stutt við gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis á íslensku og hugað sérstaklega að efni fyrir yngri áhorfendur með áherslu á þýðingar, textun og talsetningu.
Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að eflingu íslenskunnar. Stefnt verði að því að efla innlenda dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og einnig tryggja aðgengi að fjölbreyttu efni á íslensku, íslensku táknmáli eða texta. Þá verði stutt við starfsemi einkarekinna fjölmiðla vegna öflunar og miðlunar frétta og fréttatengds efnis á íslensku.
Bókasöfn. Starfsemi skólabókasafna og almenningsbókasafna verði efld og þjónusta við nemendur og almenning bætt. Áhersla verði lögð á aðgang að nýju og fjölbreyttu lesefni á íslensku.
IV. Tækniþróun, aðgengi og nýsköpun
Máltækni – stafræn framtíð tungunnar. Framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð. Unnið verði samkvæmt verkáætlun um máltækni fyrir íslensku 2018-2022. Verkefnið endurspeglist í fjármálaáætlun og brautargengi þess verði tryggt til framtíðar.
Orðasöfn og orðanefndir. Stuðlað verði að opnu aðgengi almennings að upplýsingaveitum um íslenskt mál, svo sem orðabókum, orðasöfnum og málfarssöfnum. Þá verði stutt við starf orðanefnda til að tryggja að íslenskur fræðiorðaforði eflist.
V. Stefnumótun, stjórnsýsla og atvinnulíf
Viðmið um málnotkun. Sett verði viðmið um notkun íslensku og annarra tungumála í upplýsinga- og kynningarefni á vegum stjórnvalda og atvinnulífs. Þar höfum við að markmiði að íslenska sé ávallt notuð „fyrst og fremst“, þ.e.a.s. kynningartexti á íslensku komi á undan erlendum þýðingum. Þetta á ekki síst við um íslensk örnefni en borið hefur á því í auknum mæli að nöfn sögufrægra staða á Íslandi hafi verið þýdd á erlend tungumál eða stöðunum jafnvel gefin ný erlend heiti sem ratað hafa inn á landakort á netinu.
Málstefna um íslenskt táknmál. Gerð verði málstefna um íslenskt táknmál og skal hún liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2020. Málnefnd um íslenskt táknmál hafi umsjón með því verkefni.
Íslensk málstefna. Málstefnan sem samþykkt var árið 2009 – Íslenska til alls – verði endurskoðuð til samræmis við breytta tíma og byggt verði á mati á núverandi málstefnu. Ný málstefna skal liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2021. Íslensk málnefnd hafi umsjón með því lögbundna verkefni. Hvatt sé til þess að sem flestar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök marki sér málstefnu.
Lokaorð
Það hlýtur hverjum manni að vera ljóst að íslenskan þarf ötula málsvara og fylgismenn ef við ætlum að nota hana áfram hér á landi. Við þurfum öll að leggjast á árar til að tryggja að svo megi verða. Tungumálið varðveitir sögu okkar og menningu, svo ekki sé talað um örnefnin sem að sjálfsögðu eiga að vera rituð á íslensku um aldur og ævi. Ég vitna oft í orð fyrrverandi forseta, frú Vigdísar Finnbogadóttur, sem sagði: „Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð.“ Því setjum við íslenskuna í öndvegi með því að nota hana fyrst og fremst og áttum okkur á því að virði hennar er okkur ómetanlegt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.