Categories
Greinar

Virði tungumálsins og sjálfsmynd þjóðar

Deila grein

03/08/2019

Virði tungumálsins og sjálfsmynd þjóðar

Þegar við hugs­um til þess sem helst hef­ur mótað lýðveldið okk­ar og það sem skil­grein­ir okk­ur sem þjóð berst talið oft að menn­ing­unni; að tungu­mál­inu, bók­mennt­un­um og nátt­úr­unni. Í sjálf­stæðis­bar­átt­unni var þjóðtung­an ein helsta rök­semd þess að Íslend­ing­ar væru sér­stök þjóð og sjálf­stæðis­kröf­ur okk­ar rétt­mæt­ar. Tungu­málið er þannig lyk­ill­inn að sjálfs­mynd okk­ar og sjálfs­skiln­ingi. Íslensk stjórn­völd hafa í þessu sam­hengi kynnt heild­stæða áætl­un sem miðar að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar. Mik­il­væg­ur áfangi á þeirri veg­ferð náðist þegar Alþingi samþykkti sam­hljóða þings­álykt­un um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungu­málið verði áfram notað á öll­um sviðum ís­lensks sam­fé­lags.

Víðtæk sam­vinna

Tug­ir um­sagna bár­ust um þings­álykt­un­ina en á grunni henn­ar er unn­in aðgerðaáætl­un til þriggja ára, í víðtækri sam­vinnu og sam­starfi. All­ir sem bú­sett­ir eru á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota ís­lensku til virkr­ar þátt­töku í ís­lensku sam­fé­lagi. Helstu mark­mið þings­álykt­un­ar­inn­ar eru í fyrsta lagi að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, í öðru lagi að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og í þriðja lagi að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Aðgerðaáætl­un­inni er skipt í fimm liði: Vit­und­ar­vakn­ingu um ís­lenska tungu, mennt­un og skólastarf, menn­ingu og list­ir, tækniþróun, aðgengi og ný­sköp­un og að lok­um stefnu­mót­un fyr­ir stjórn­sýslu og at­vinnu­líf.

I. Vit­und­ar­vakn­ing um ís­lenska tungu

Stuðlað verði að vit­und­ar­vakn­ingu um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu, gildi henn­ar og sér­stöðu. Áhersla verði lögð á mik­il­vægi þess að ís­lenska sé lif­andi tungu­mál í stöðugri þróun og helsta sam­skipta­mál sam­fé­lags­ins. Þessi vit­und­ar­vakn­ing, und­ir yf­ir­skrift­inni Áfram ís­lenska!, teng­ist flest­um sviðum þjóðlífs­ins og spegl­ast í þeim aðgerðum sem hér fara á eft­ir.

II. Mennt­un og skólastarf

Mik­il­vægi læsis. Læsi er lyk­ill að lífs­gæðum á alþjóðavísu og unnið verður áfram í skóla­sam­fé­lag­inu að verk­efn­um sem tengj­ast Þjóðarsátt­mála um læsi og leit­ast við að tryggja virka aðkomu heim­ila, bóka­safna, rit­höf­unda og fjöl­miðla að því verk­efni.

Íslenska sem annað móður­mál. Þeir sem bú­sett­ir eru á Íslandi og hafa annað móður­mál en ís­lensku, börn jafnt sem full­orðnir, fái jafn­gild tæki­færi til ís­lensku­náms og stuðning í sam­ræmi við þarf­ir sín­ar. Skipaður hef­ur verið verk­efna­hóp­ur sem ætlað er að marka heild­ar­stefnu í mál­efn­um nem­enda með annað móður­mál en ís­lensku.

Kenn­ara­mennt­un. Vægi ís­lensku verði aukið í al­mennu kenn­ara­námi og áhersla lögð á að örva áhuga verðandi kenn­ara á tungu­mál­inu. Stuðlað verði að því að efla sköp­un­ar­gleði til að byggja upp hæfni nem­enda og stuðla að já­kvæðu viðhorfi til ís­lensk­unn­ar á öll­um skóla­stig­um.

Starfsþróun kenn­ara. Stutt verði við starfsþróun og símennt­un kenn­ara í þeim til­gangi að efla lær­dóms­sam­fé­lag skól­anna. Áhersla verði lögð á að auka hæfni kenn­ara í ís­lensku og að þeir hafi tök á fjöl­breytt­um kennslu­hátt­um til að kenna ís­lensku bæði sem móður­mál og sem annað mál.

Há­skóla­kennsla og rann­sókn­ir. Haldið verði áfram uppi öfl­ugri há­skóla­kennslu og rann­sókn­ar­starf­semi í ís­lensku bæði í grunn­rann­sókn­um og hag­nýt­um rann­sókn­um.

Kennsla á ís­lensku. Kennsla í mennta­kerf­inu á 1.-6. þrepi hæfniramma fari fram á ís­lensku.

Náms­gagna­út­gáfa. Stuðlað verði að góðu aðgengi nem­enda á öll­um skóla­stig­um að fjöl­breyttu og vönduðu náms­efni á ís­lensku á sem flest­um náms­sviðum.

Íslensku­nám full­orðinna inn­flytj­enda. Sett­ur verði hæfnirammi um ís­lensku­nám inn­flytj­enda og viðeig­andi náms­leiðir þróaðar með auknu fram­boði nám­skeiða og náms­efn­is á öll­um stig­um. Sam­hliða verði út­búið ra­f­rænt mat­s­kerfi til að meta hæfni full­orðinna inn­flytj­enda í ís­lensku.

Íslensku­kennsla er­lend­is. Styrkja skal stoðir ís­lensku­kennslu á er­lendri grundu. Nýta skal nýj­ustu tækni til hags­bóta fyr­ir þá fjöl­mörgu sem vilja læra ís­lensku, með sér­stakri áherslu á börn og ung­menni.

III. Menn­ing og list­ir

Bók­menn­ing. Sköpuð séu skil­yrði fyr­ir fjöl­breytta út­gáfu bóka svo tryggt sé að áfram geti fólk á öll­um aldri lært, lesið og skapað á ís­lensku. Alþingi hef­ur nú þegar samþykkt lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku með því að heim­ila end­ur­greiðslu 25% kostnaðar vegna út­gáfu þeirra. Þá verður sér­stök áhersla lögð á efni fyr­ir yngri les­end­ur, meðal ann­ars með nýj­um styrkt­ar­sjóði fyr­ir barna- og ung­menna­bæk­ur. Sjóðnum, sem gefið var nafnið Auður, hef­ur þegar verið komið á lagg­irn­ar og var út­hlutað úr hon­um í fyrsta sinn í sum­ar. Einnig verður hugað bet­ur að hlut­verki og mik­il­vægi þýðinga fyr­ir þróun tungu­máls­ins, ekki síst í upp­lýs­inga­tækni, ve­f­efni, hug- og tækni­búnaði.

Lögð verði áhersla á notk­un ís­lensku í list­grein­um s.s. tónlist, mynd­list, sviðslist­um, kvik­mynda­gerð og fram­leiðslu sjón­varps­efn­is. Þar verði stuðlað að auk­inni frumsköp­un á ís­lensku, kynn­ingu og grein­ingu list­ar á ís­lensku og skap­andi notk­un tungu­máls­ins á öll­um sviðum. Áfram verði dyggi­lega stutt við gerð kvik­mynda og sjón­varps­efn­is á ís­lensku og hugað sér­stak­lega að efni fyr­ir yngri áhorf­end­ur með áherslu á þýðing­ar, textun og tal­setn­ingu.

Fjöl­miðlar gegna mik­il­vægu hlut­verki þegar kem­ur að efl­ingu ís­lensk­unn­ar. Stefnt verði að því að efla inn­lenda dag­skrár­gerð fyr­ir ljósvakamiðla og einnig tryggja aðgengi að fjöl­breyttu efni á ís­lensku, ís­lensku tákn­máli eða texta. Þá verði stutt við starf­semi einka­rek­inna fjöl­miðla vegna öfl­un­ar og miðlun­ar frétta og frétta­tengds efn­is á ís­lensku.

Bóka­söfn. Starf­semi skóla­bóka­safna og al­menn­ings­bóka­safna verði efld og þjón­usta við nem­end­ur og al­menn­ing bætt. Áhersla verði lögð á aðgang að nýju og fjöl­breyttu les­efni á ís­lensku.

IV. Tækniþróun, aðgengi og ný­sköp­un

Mál­tækni – sta­f­ræn framtíð tung­unn­ar. Framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Unnið verði sam­kvæmt ver­káætl­un um mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Verk­efnið end­ur­spegl­ist í fjár­mála­áætl­un og braut­ar­gengi þess verði tryggt til framtíðar.

Orðasöfn og orðanefnd­ir. Stuðlað verði að opnu aðgengi al­menn­ings að upp­lýs­inga­veit­um um ís­lenskt mál, svo sem orðabók­um, orðasöfn­um og mál­fars­söfn­um. Þá verði stutt við starf orðanefnda til að tryggja að ís­lensk­ur fræðiorðaforði efl­ist.

V. Stefnu­mót­un, stjórn­sýsla og at­vinnu­líf

Viðmið um mál­notk­un. Sett verði viðmið um notk­un ís­lensku og annarra tungu­mála í upp­lýs­inga- og kynn­ing­ar­efni á veg­um stjórn­valda og at­vinnu­lífs. Þar höf­um við að mark­miði að ís­lenska sé ávallt notuð „fyrst og fremst“, þ.e.a.s. kynn­ing­ar­texti á ís­lensku komi á und­an er­lend­um þýðing­um. Þetta á ekki síst við um ís­lensk ör­nefni en borið hef­ur á því í aukn­um mæli að nöfn sögu­frægra staða á Íslandi hafi verið þýdd á er­lend tungu­mál eða stöðunum jafn­vel gef­in ný er­lend heiti sem ratað hafa inn á landa­kort á net­inu.

Mál­stefna um ís­lenskt tákn­mál. Gerð verði mál­stefna um ís­lenskt tákn­mál og skal hún liggja fyr­ir eigi síðar en í árs­lok 2020. Mál­nefnd um ís­lenskt tákn­mál hafi um­sjón með því verk­efni.

Íslensk mál­stefna. Mál­stefn­an sem samþykkt var árið 2009 – Íslenska til alls – verði end­ur­skoðuð til sam­ræm­is við breytta tíma og byggt verði á mati á nú­ver­andi mál­stefnu. Ný mál­stefna skal liggja fyr­ir eigi síðar en í árs­lok 2021. Íslensk mál­nefnd hafi um­sjón með því lög­bundna verk­efni. Hvatt sé til þess að sem flest­ar stofn­an­ir, fyr­ir­tæki og fé­laga­sam­tök marki sér mál­stefnu.

Loka­orð

Það hlýt­ur hverj­um manni að vera ljóst að ís­lensk­an þarf öt­ula mál­svara og fylg­is­menn ef við ætl­um að nota hana áfram hér á landi. Við þurf­um öll að leggj­ast á árar til að tryggja að svo megi verða. Tungu­málið varðveit­ir sögu okk­ar og menn­ingu, svo ekki sé talað um ör­nefn­in sem að sjálf­sögðu eiga að vera rituð á ís­lensku um ald­ur og ævi. Ég vitna oft í orð fyrr­ver­andi for­seta, frú Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur, sem sagði: „Ef ís­lensk­an hverf­ur tap­ast þekk­ing og við hætt­um að vera þjóð.“ Því setj­um við ís­lensk­una í önd­vegi með því að nota hana fyrst og fremst og átt­um okk­ur á því að virði henn­ar er okk­ur ómet­an­legt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.