Categories
Greinar

Vöxtur í alþjóðlegu menntasamstarfi

Deila grein

19/05/2019

Vöxtur í alþjóðlegu menntasamstarfi

Íslend­ing­ar hafa í gegn­um ald­irn­ar verið víðförl­ir, sótt sér mennt­un og leitað sókn­ar­færa víða. Dæmi um ís­lenska mennta- og lista­menn sem öfluðu sér þekk­ing­ar er­lend­is eru Snorri Sturlu­son sem á 13. öld fór til Nor­egs og Svíþjóðar, Ein­ar Jóns­son mynd­höggv­ari sem á 19. og 20. öld­inni dvaldi í Kaup­manna­höfn, Róm, Berlín og Am­er­íku og Gerður Helga­dótt­ir, einnig mynd­höggv­ari, sem nam við skóla í Flórens og Par­ís.

Það er já­kvætt hversu marg­ir velja að læra er­lend­is. Við eig­um að hvetja ungt fólk til að afla sér þekk­ing­ar sem víðast og skapa því viðeig­andi um­gjörð sem ger­ir því það kleift. Í störf­um mín­um sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra legg ég mikla áherslu á að styrkja ís­lenskt mennta­kerfi, til dæm­is með því að bæta starfs­um­hverfi kenn­ara, en ekki síður að við horf­um út í heim og rækt­um góð sam­skipti við aðrar þjóðir á sviði mennta-, vís­inda- og menn­ing­ar­mála. Und­an­farið hafa náðst ánægju­leg­ir áfang­ar á þeirri veg­ferð sem fjölga tæki­fær­um okk­ar er­lend­is.

Merk­ur áfangi í sam­skipt­um við Kína

Í vik­unni var í fyrsta sinn skrifað und­ir samn­ing við Kína um aukið sam­starf í mennta­mál­um. Samn­ing­ur­inn mark­ar tíma­mót fyr­ir bæði ís­lenska og kín­verska náms­menn en hann stuðlar að gagn­kvæmri viður­kenn­ingu á námi milli land­anna og eyk­ur sam­starf á há­skóla­stig­inu. Kína hef­ur gert hliðstæða samn­inga við rúm­lega 50 önn­ur ríki, þar á meðal við hin nor­rænu lönd­in. Rúm­lega 30 kín­versk­ir náms­menn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslend­ing­ar stunda nám í Kína á ári hverju en ís­lensk­ir há­skól­ar eiga þegar í marg­vís­legu sam­starfi við kín­verska há­skóla.

Vægi ut­an­rík­is­viðskipta í lands­fram­leiðslu á Íslandi er um­tals­vert, eins og hjá öðrum litl­um opn­um hag­kerf­um. Greiður aðgang­ur að er­lend­um mörkuðum er lyk­il­atriði hvað varðar hag­sæld og efna­hags­legt ör­yggi til fram­búðar. Mik­il­vægi Kína sem framtíðar­vaxt­ar­markaðar í þessu sam­hengi er veru­legt. Marg­vís­leg tæki­færi fel­ast í sam­skipt­um við Kína og viðskipti milli land­anna hafa auk­ist und­an­far­in ár. Þjón­ustu­út­flutn­ing­ur til Kína hef­ur auk­ist um 201% en heild­arþjón­ustu­út­flutn­ing­ur Íslands um 46% frá ár­inu 2013. Ljóst er að fjöl­mörg tæki­færi eru í sam­starfi ríkj­anna hvað varðar mennt­un, viðskipti, rann­sókn­ir og ný­sköp­un.

Vís­inda- og rann­sókna­sam­starf við Jap­an

Vilji er til þess að efla tengsl Íslands og Jap­ans á sviði mennta- og vís­inda­mála og var ákveðið á fund okk­ar Masa­hi­ko Shi­bayama, mennta­málaráðherra Jap­ans, ný­verið að hefja vinnu við gerð ramma­sam­komu­lags um rann­sókna- og vís­inda­sam­starf ís­lenskra og jap­anskra há­skóla. Að auki hafa lönd­in ákveðið að halda sam­eig­in­lega ráðherra­fund vís­inda­málaráðherra um mál­efni norður­slóða árið 2020. Þess má geta að jap­anska er næst­vin­sæl­asta er­lenda tungu­málið sem kennt er í Há­skóla Íslands en japönsku­deild­in hef­ur verið starf­rækt síðan árið 2003. Einnig er mik­ill áhugi á menn­ingu og sögu Jap­ans við Há­skóla Íslands.

Viðskipti við Jap­an hafa verið nokkuð stöðug en mik­ill áhugi er á vör­um frá Íslandi. Þar má nefna sjáv­ar­út­vegsaf­urðir, lamba­kjöt og snyrti­vör­ur. Ljóst er að jap­anska hag­kerfið er öfl­ugt með stór­an heima­markað, sem hægt er að efla enn frek­ar á kom­andi árum.

Horft til Suður-Kór­eu

Ísland og Suður-Kórea munu auka sam­starf sitt í mennta-, vís­inda- og þró­un­ar­mál­um í fram­haldi af fundi mín­um með Kim Sang-Kon, mennta­málaráðherra og vara­for­sæt­is­ráðherra Suður-Kór­eu, árið 2018. Afrakst­ur þess fund­ar er í far­vatn­inu en vinna við form­legt sam­komu­lag milli ríkj­anna um sam­vinnu í mennta­mál­um er á loka­metr­un­um. Mun það meðal ann­ars ná til kenn­ara­mennt­un­ar og tungu­mála­náms ásamt því að lönd­in hvetji til frek­ari nem­enda­skipta og sam­vinnu milli há­skóla. Suður-Kórea hef­ur getið sér gott orð fyr­ir þrótt­mikið og öfl­ugt mennta­kerfi og hag­kerfi lands­ins er eitt það þróaðasta í heimi.

Auk­um sam­starf við Breta

Við leggj­um áherslu á að efla sam­starf við Bret­land á sviði mennta- og vís­inda­mála óháð niður­stöðu Brex­it. Á fundi með Chris Skidmore, ráðherra há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og vís­inda­mála Bret­lands, ný­verið ræddi ég mögu­leika á lækk­un skóla­gjalda fyr­ir ís­lenska náms­menn í Bretlandi. Íslensk stjórn­völd leggja áherslu á að jafn­ræði ríki meðal landa á evr­ópska efna­hags­svæðinu þegar kem­ur að skóla­gjöld­um í breska há­skóla eft­ir Brex­it. Þetta myndi þýða mögu­lega lækk­un á skóla­gjöld­um fyr­ir ís­lenska náms­menn við breska há­skóla en sem stend­ur greiða ís­lensk­ir nem­end­ur hærri skóla­gjöld við breska há­skóla en náms­menn frá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Slíkt væri til þess fallið að auka tengsl land­anna enn frek­ar og skapa frek­ari hvata fyr­ir ís­lenska náms­menn til að líta til Bret­lands.

Já­kvæð áhrif

Íslenska mennta­kerfið á í um­fangs­miklu sam­starfi við fjöl­mörg ríki í Evr­ópu, Asíu, Norður-Am­er­íku og víðar. Okk­ur miðar vel áfram í að auka alþjóðlegt mennta­sam­starf og eru fram­an­greind dæmi um aukið sam­starf við ein stærstu hag­kerfi ver­ald­ar gott dæmi um slíkt. Ég er sann­færð um að ávinn­ing­ur­inn fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag verði veru­leg­ur og muni hafa já­kvæð áhrif á lífs­kjör Íslands til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. maí 2019.