Stjórnmálaflokkarnir keppast nú við að kynna hugmyndir sínar um framtíðina. Sumir vilja gera allt fyrir alla, sem er vel meint en óraunhæft til lengri tíma. Umsvif og útgjöld ríkisins hafa aukist mjög vegna tímabundinna aðstæðna, en slíkt útstreymi úr ríkissjóði má ekki verða varanlegt enda ósjálfbært. Mikilvægasta verkefni stjórnvalda á næsta kjörtímabili er að finna jafnvægið milli opinbera geirans og almenna markaðarins – tryggja stöðugt efnahagsástand og búa svo um hnútana, að fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum geti blómstrað. Aðeins þannig getum við fjármagnað lífsgæði okkar, bæði til einka- og samneyslu.
Framsóknarflokkurinn gengur með skýra sýn til móts við nýtt kjörtímabil. Við viljum kraftmikið atvinnulíf, sem fjármagnar góða opinbera þjónustu. Við viljum nota tekjur ríkissjóðs til að fjárfesta í fólki og halda áfram að laga kerfi hins opinbera að þörfum fólksins í landinu. Við erum trúverðugur kostur þegar kemur að því, eins og kerfisbreytingar síðustu ára eru til marks um. Við höfum leitt mikil umbótamál, með grundvallarbreytingum á kerfum sem voru ryðguð föst. Nýtt lána- og styrkjakerfi námsmanna er gott dæmi um það, bylting í málefnum barna, nýjungar í húsnæðismálum, Loftbrúin og stórsókn í samgöngum um allt land. Samhliða hefur fyrirtækjarekstur almennt gengið vel, með þeirri augljósu undantekningu sem viðburða- og ferðaþjónustufyrirtækin eru.
Það er brýnt að þau fái nú tækifæri til að blómstra, líkt og önnur fyrirtæki, því öflugt atvinnulíf er forsenda stöðugleika í efnahagslífinu. Sérstaklega þarf að huga að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, nýsköpun og fyrirtækjum í skapandi greinum. Nær ótakmörkuð tækifæri eru í hugverkaiðnaði, svo sem líftækni, lyfjaframleiðslu og tengdum greinum, og þá sprota viljum við vökva. Við viljum efla kvikmyndagerð, sem skapar milljarða í gjaldeyristekjur, og auka útflutning á ráðgjöf, hugviti og þekkingu.
Ekkert af ofangreindu gerist í tómarúmi, heldur einungis með framsóknarlegri samvinnu og seiglu. Dugnaði og framtakssemi einstaklinga og fyrirtækja. Kerfi og stofnanir ríkisins þurfa líka að taka þátt, hugsa í lausnum og hvetja til framfara. Skattkerfið gegnir þar lykilhlutverki, enda mikilvægt jöfnunartæki sem hefur þó frekar sýnt sveigjanleika gagnvart fólki en fyrirtækjum.
Framsóknarflokkurinn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald. Lækka tryggingagjald á lítil og meðalstór fyrirtæki og taka samhliða upp þrepaskiptan tekjuskatt, þar sem ofurhagnaður er skattlagður meira en hóflegur. Þannig dregur skattlagning ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi, heldur dreifist hún með öðrum hætti en áður.
Framsóknarflokkurinn leggur ekki til töfralausnir, heldur finnur praktískar lausnir á flóknum verkefnum. Við erum reiðubúin til samstarfs við þá sem hugsa á sömu nótum, deila með okkur sýninni um samvinnu og réttlátt samfélag þar sem fólk blómstrar á eigin forsendum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og frambjóðandi Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. september 2021.