Categories
Greinar

Hver er verðmiðinn á vellíðan barna?

Deila grein

04/05/2022

Hver er verðmiðinn á vellíðan barna?

Nú stendur innleiðing farsældarlaganna yfir, en þau snúa að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Innleiðingin felur meðal annars í sér að endurskoða og samræma verklag allrar þjónustu sem er veitt innan þeirra kerfa er koma að málefnum barna að einhverju leyti. Þannig ná lögin yfir alla þjónustu hvort sem hún er á ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga. Þjónustunni er skipt niður á þrjú stig sem veitir okkur mun betri yfirsýn og tryggir samfellda þjónustu barna. Akureyrarbær hefur tækifæri til að vera leiðandi í þeirri innleiðingu, og sýna þannig fram á að sveitarfélagið er sannarlega Barnvænt sveitarfélag – í orði sem og á borði.

Það er kalt á toppnum

Við sjáum fyrir okkur pýramída sem skiptist í þrennt þar sem neðsti hlutinn, þessi breiðasti, táknar alla grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum og styður við farsæld barna; þarna erum við til dæmis með ungbarnavernd, leik- og grunnskóla og annars konar stuðning sem er veittur í samræmi við mat á þörfum barnsins. Áskoranir barna á fyrsta stigi krefjast í einhverjum tilfellum tímabundinnar þjónustu sem er þá sniðin að þörfum barnsins. Í miðju pýramídans er veittur markvissari stuðningur ef að stuðningur á fyrsta stigi bar ekki árangur, þjónusta annars stigs er einnig oft tímabundin en sem dæmi um þá þjónustu er heilbrigðis- félags- eða skólaþjónusta. Á þessu stigi þarfnast barn mögulega aukins stuðnings vegna til dæmis félagslegrar einangrunar eða námserfiðleika. Efst á pýramídanum, í litla hlutanum, er veitt einstaklingsbundinn og sérhæfður stuðningur sem er oft veittur til lengri tíma. Áskoranir barna sem hafa fetað sig upp pýramídann eru þannig að þau þurfa úrræði svo að heilsu þeirra og öryggi sé ekki ógnað og skortur á stuðningi á þriðja stigi getur haft virkilega alvarlegar afleiðingar. Dæmi um þjónustu á þriðja stigi eru til dæmis vistunarúrræði á grundvelli barnaverndarlaga og fjölþættur stuðningur við jaðarsett börn. Á þriðja stigi eru málin nær undantekningarlaust barnaverndarmál. Auðvitað viljum við ekki að börn þurfi að upplifa það að tróna á toppnum í þessum pýramída, enda getur það verið bæði kalt og einmanalegt. Hinsvegar viljum við að þau börn sem sannarlega þurfa á stuðningi að halda, fái hann og að við útrýmum hættunni á að þau falli fram af eða á milli. Við viljum ekki að þau týnist í kerfinu og með þessari samþættingu þjónustu sjáum við til þess að öryggi barna sé tryggt.

Hvernig byrgjum við brunninn?

Eðlilega upplifum við vanmátt þegar við hugsum um börnin á þriðja stigi, og við getum rætt það þar til við verðum blá í framan með kökkinn í hálsinum, en til að byrgja brunninn er nauðsynlegt að efla grunninn og styrkja stoðir pýramídans. Við þurfum að standa við bakið á þeim sem veita grunnþjónustu innan sveitarfélaga og við þurfum að efla forvarnir. Ef við eflum snemmtæka íhlutun, sem þýðir að við leggjum meiri kraft í forvarnir barna fyrr, veitum við þeim verkfæri sem mun fækka þeim börnum sem leita upp pýramídann. Fyrir þá sem hugsa í krónum og aurum þá er toppurinn dýrastur fyrir kerfið og börnin sem þangað leita kosta sveitarfélögin meira en þau sem eru á fyrsta stigi. Ef við leggjum fjármagn í forvarnir fyrir börn og foreldra þeirra, munum við með tímanum spara sveitarfélaginu töluverða fjármuni. Akureyrarbær býr svo vel að vera með framúrskarandi forvarnarstarf á landsvísu, sem önnur sveitarfélög líta til. Við erum heppin að þurfa ekki að finna upp hjólið, við þurfum bara að smyrja það og ryðverja. Eflum forvarnarstarf sveitarfélagsins enn frekar og styðjum þannig við börnin í þessu fyrsta Barnvæna sveitarfélagi landsins.

Alfa Jóhannsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir starfar sem forvarnarfulltrúi gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum og skipar 3. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Störf óháð staðsetningu

Deila grein

17/04/2022

Störf óháð staðsetningu

Ég hef verið heppin með atvinnu í gegnum tíðina – ég hef fengið tækifæri til að starfa með góðu fólki sem ég hef lært af, notið samvista við og bæði eflst og þroskast sem einstaklingur í starfi. Þegar við fjölskyldan ákváðum að elta hamingjuna og flytja aftur heim til Akureyrar á síðasta ári gerði örlítill ótti vart við sig þar sem ég gat því miður ekki flutt þáverandi starf með mér. Það sem ég fékk hinsvegar í staðinn var dásamlegt starf óháð staðsetningu, starf sem ég fæ að taka þátt í að þróa á meðan ég bý með fjölskyldunni þar sem okkur líður best. Í okkar heimabæ, Akureyri. Stefna stjórnvalda er skýr og felur í sér að fjölga störfum án staðsetningar hjá ríkisstofnunum. Auðvitað þarf ríkið að stíga fast til jarðar í þessum efnum og standa við gefin loforð, en það erum við sem færum störfin. Við, fólkið í landsbyggðunum, sem sækjum um störf óháð staðsetningu og sýnum fram á vilja til þess að starfa í okkar heimabyggðum. Störf óháð staðsetningu eru í eðli sínu byggðamál og því hljóta markmið okkar að snúa að því að styðja við atvinnustarfsemi og ríkisumsvif á atvinnumarkaði í landsbyggðunum. Það er því líka hreint og klárt byggðamál að auka aðgengi að vinnuaðstöðu fyrir þá einstaklinga sem vilja starfa óháð staðsetningu.

Erfiðir vinnufélagar

Ég er til dæmis orðin ansi sjóuð í heimavinnu eins og margir, eftir Covid-19, og er með ágætis vinnuaðstöðu við borðstofuborðið heima. Raunveruleikinn er sá að borðstofuborðið var orðið að vinnuaðstöðu og kaffitímarnir fóru í að taka úr þvottavél og ganga frá eftir matinn. Vinnufélagarnir þurftu aðstoð við heimalestur, klósett- og baðferðir. Þau þurftu knús og athygli og stundum skelltu þau hurðum eða mættu óboðin á fundi hjá mér. Þau voru líka minn eini félagsskapur – og vildu helst bara ræða Fortnite og Harry Potter. Þannig varð heimilið að vinnustaðnum mínum. Það er því mikilvægt í þeirri vegferð okkar að fjölga störfum óháð staðsetningu að huga vel að félagslega þættinum og í því tilliti hefur verið rætt um svokallaða atvinnuklasa. Þar fær starfsfólk sem starfar fjarri höfuðstöðvum stofnana sinna tækifæri til að starfa innan um annað fólk, deila aðstöðu með öðrum og þannig efla félagslega þáttinn sem er eðlilega stór hluti af menningu og upplifun í starfi.

Blómlegt atvinnu- og félagslíf

Til að einfalda flutning starfa þarf að treysta innviðina þannig að mögulegt sé að taka á móti þeim sem vilja vera um kyrrt í heimabyggð að námi lokni eða snúa aftur. Við þurfum að vera samkeppnishæf fyrir ungt fólk að loknu námi. Við viljum byggja upp svæðisborgina Akureyri og til að stuðla að enn blómlegra atvinnulífi þá þurfum við að tryggja aðgengi að húsnæði og aðstöðu fyrir einskonar atvinnuklasa. Þar getur sveitarfélagið stigið inn í með því að hvetja til og styðja við slíka uppbyggingu. Ég er heppin að hafa fengið aðstöðu í atvinnuklasa utan heimilis hér á Akureyri þar sem ég nýt félagsskapar og sameiginlegra kaffitíma með þeim sem deila með mér rými og ég þarf hvorki að hjálpa þeim á klósettið eða ræða kills í Fortnite.

Alfa Jóhannsdóttir, starfar sem Forvarnarfulltrúi gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum og skipar 3. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 17. apríl 2022.