Categories
Fréttir Greinar

Aga­leysi bítur

Deila grein

19/09/2025

Aga­leysi bítur

„Það er mikilvægt að barn komi vel sofið, búið að borða og í ró í skólann.“ Þetta sagði við mig kennari sem hefur langa reynslu af skólastofunni. Þetta er forsenda þess að hægt sé að hefja kennslu og nýta tímann til náms. Þegar ró næst fer ekki dýrmætur tími forgörðum. Ætla má að þetta sé það sem við köllum almenna skynsemi og má fullyrða að flestir foreldrar sinna þessu hlutverki vel. Bæta má hins vegar við að foreldrar þjálfi með börnum sínum jákvæðan aga. Íslenskir kennarar eru ellefu mínútum lengur að ná aga eða ró í bekkjastarfi sínu, að meðaltali, miðað við rannsóknir á Norðurlöndunum. Agi er orð sem oft hefur verið misskilið. Fólk hræðist oft að ræða aga eða réttara sagt hvað agaleysi felur í sér. Þegar skoðaðar eru rannsóknir á skaðlegu umhverfi, bæði í uppeldi og á vinnustöðum, er agaleysi flokkuð sem vanræksla. Áhrifin af vanrækslu í uppeldi eru ákaflega skaðleg. Foreldrum ber skylda til að börn sín séu vel undirbúin til skólagöngunnar en með réttu má segja að leikskólar aðstoði foreldra við aðlögun barna að grunnskólanámi. Í stærri samhengi hlutanna bera foreldrar einnig ábyrgð á því að börnin vaxi úr grasi og verði virkir þátttakendur samfélagsins. Þetta er verkefni sem skólinn og foreldar skipta sín á milli, hvor liður mikilvægur í uppvextinum. En þá spyr maður sig, hvað kemur fyrir barn sem aldrei hefur fengið þjálfun í að fara eftir settum reglum, alist upp án aga og marka? Eða unglingar? Hvað gerist þegar einstaklingurinn verður fullorðinn? Það skín í gegn að agaleysi er vandamál sem er viðvarandi. Það kallar á samfélagsleg viðbrögð og við þufum því að velta því fyrir okkur hvernig við getum náð ró í skólastarfinu. Agaleysi er ekki bara áskorun fyrir skólann heldur samfélagslegt vandamál sem hefur afleiðingar langt fram á fullorðins ár.

Ró í skólastofunni.

Ró í skólastofunni miðast að sjálfsögðu við hvern árgang, hvert barn og þann stuðning sem þarf til að halda uppi skipulögðu starfi. Ró næst líka með því að foreldrar sinni samstarfi við skóla, fylgist með daglegu skólastarfi og taki virkan þátt í foreldrasamstarfi. Ali upp virðingu fyrir kennurum, skólastarfi og menntun. Styðji við barnið sitt svo það geti verið í bekkjar umhverfi frá upphafi. Styðji það til jákvæðrar hegðunar, sýni því fram á að óæskileg hegðun hafi afleiðingar og beiti leiðandi uppeldisaðferðum. Árangur í að koma í veg fyrir einelti, sem dæmi, byggir á að barn geti sett sig í spor annarra. Til þess þarf samstarf heimila og skóla og í raun alls samfélagsins. Rannsóknir sýna að sá hæfileiki, sem er grundvallar hluti af hópstarfi, er á niðurleið. Foreldrar þurfa að leggja sig fram um að barni sé leiðbeint þannig í samskiptum að það geti átt í jákvæðum samskiptum við önnur börn og fullorðið fólk. Það er að sjálfsögðu ekki allir sem getað náð þeirri færni í samskiptum. Þeir sem eru með þroska- og hegðunarraskanir þurfa oftar en ekki aðstoð sem skólanum ber að veita.

Hvernig næst ró í skólakerfinu?

Munum að ró í skólastofu hefst heima, þar er lagður grunnur að þeirri færni sem hvert og eitt barn þarf að búa yfir til að ró náist. Ró í skólastofu næst betur t.d. með því að vera ekki með símana til að trufla athygli. Ró næst t.d. þegar virðing er borin fyrir samnemendum og kennurum.

Pólitísk ró?

Einn af þeim þáttum sem hafa gleymst í þeirri umræðu er að samfélagið hefur breyst hratt á undanförnum árum. Samfélagið innan hvers bekkjar, samfélagið utan bekkjar. Fjölbreytni og þarfir ólíkra hópa hefur vaxið til muna. Skólarnir hafa tekist á við samfélagsbreytingar á aðdáunarverðan máta. Ég hef haft þann heiður að heimsækja marga skóla í Reykjavíkurborg. Þar er unnið fagmannlegt starf. Tími er komin til að við tökum saman höndum um hvernig skólakerfi við viljum. Vandi menntakerfisins liggur í að póltíkin þvælist fyrir. Það er að segja á fjögurra ára fresti er skipt um ráðherra og pólitískt kjörna fulltrúa og þar með stefnumótun í menntakerfinu. Við þurfum að halda okkur við langtímastefnumótun. Þar þarf aga og úthald eins og í uppeldi. Hvolpur sem ekki fær aga í uppeldi getur bitið.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík og situr í Skóla- og frístundarráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Af hverju er Framsóknarfólk hamingjusamast?

Deila grein

23/04/2025

Af hverju er Framsóknarfólk hamingjusamast?

Í nýlegri könnun Gallup kom fram að Framsóknarfólk er hamingjusamast þeirra er svöruðu, þrátt fyrir tímabundið lélegt gengi í skoðanakönnunum og síðstu kosningum. Þetta vakti athygli mína.

Hverjir eru hamingjusamir?

Fyrst ber að nefna hvað einkennir fólk sem er almennt hamingjusamt? Það er sátt, hefur náð árangri í lífi og starfi, er í góðum samskiptum við aðra og líður almennt vel. Þegar fólk er með gott sjálfstraust, er jákvætt og líður vel tekur það betri ákvarðanir.

Hamingjan er öfgalaus

Framsókn hefur á löngum ferli sínum haft veruleg áhrif á íslenskt samfélag. Flokkurinn hefur tekið þátt í mörgum ríkisstjórnum og haft mótandi áhrif á íslenskt samfélag. Framsókn er miðjuflokkur sem byggir stefnu sína á frjálslyndri félagshyggju, jöfnuði, samvinnu og hófsemi. Flokkurinn leggur áherslu á að finna raunhæfar lausnir í gegnum samráð og samvinnu ólíkra hagsmuna. Framsóknarfólk hefur oftar en ekki verið límið á miðjunni sem sættir ólík sjónarhorn innan ríkisstjórna og sveitastjórna öfgalaust.

Framsókn hefur tekið þátt í að skapa stöðugt og traust efnahagsumhverfi sem styður við atvinnusköpun. Hann hefur lagt áherslu á að efla innviði og tryggja jafnvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þannig hefur hann stutt við ferðaþjónustu, landbúnað og sterkar byggðir. Matvælaframleiðsla er um þessar mundir eitt mikilvægasta öryggis- og varnarmál landsins. Flokkurinn hefur verið leiðandi í málefnum innflytjenda á Íslandi. Framsóknarfólk velur að vera hófsamt, skynsamt og ná árangri.

Hamingjan felst í góðum samskiptum

Frá vöggu til grafar þurfum við á hvort öðru að halda. Mest við upphaf og lok ævinnar. Hamingja okkar veltur að stórum hluta á hversu vel okkur gengur að tengjast fólkinu í kringum okkur. Framsókn í Reykjavíkur hefur lagt áherslu á að byggja upp leikskóla með raunhæfum markmiðum. Húsnæðisuppbyggingu sem bíður fólki upp á valkosti og að tryggja samgöngur miðað við núverandi ástand. Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á mannréttindi og velferð. Tryggja heimilislausum þak yfir höfuðið og stóreflt forvarnastarf gagnvart auknu ofbeldi ungmenna. Framsókn stuðlar að því að fólk eigi í góðum samskiptum með menningu, menntun og umbyrðarlyndi.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. apríl 2025.

Categories
Greinar

Búum til „vanda­mál“ – leysum það með sam­ræmdum prófum

Deila grein

05/11/2024

Búum til „vanda­mál“ – leysum það með sam­ræmdum prófum

Umræða um skólastarf hefur verið hávær frá því í vor. Viðskiptaráð var leiðandi í þeirri umræðu en framkvæmdarstjóri þess talaði um „neyðarástand“ í grunnskólum landsins. Nú sjáum við að tilgangurinn helgar meðalið. Sjálfstæðisflokkurinn boðar „umbreytingu á menntakerfinu.“ Þetta á að gera m.a. með að taka aftur upp samræmd próf. Leysum vanda framtíðar með því að beita aðferðum fortíðar. Menntamálaráðherrar Framsóknar, Lilja D. Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, eiga það sameiginlegt að þykja vænt um íslenska menntakerfið. Í skrifum sjálfstæðismanna birtist ekki væntumþykja heldur vilji til að tala niður skólakerfi með undirliggjandi tón um að einkavæða það.

Niðurstöður úr Pisa gefa vissulega tilefni til að endurskoða og setja í forgang viðbrögð til að auka árangur menntakerfis okkar. Yfirvöld hafa sett af stað faglega vinnu, bæði til greiningar og til að bregðast við. Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, hefur unnið að því hörðum höndum að endurskoða menntakerfið heildstætt. Úr þeirri vinnu, sem hófst árið 2020, kom m.a. nýtt matsferli sem leysir gömlu samræmdu prófin af hólmi.

Hlutverk matferilsins er tvíþætt:

  • Tryggja heildstæða og skýra mynd af stöðu hvers barns í námi og framförum þess jafnt og þétt yfir skólagönguna, m.a. með að markmiði að það fái viðeigandi kennslu og stuðning þegar þörf er á. Til þess fá skólar aðgang að fjölbreyttum matstækjum og verkfærum. Upplýsingarnar sem við það skapast eiga jafnframt að nýtast nemendum og forráðamönnum þeirra og stuðla að trausti í samstarfi heimila og skóla um nám við hæfi hvers og eins barns.
  • Afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild, með skyldubundnu samræmdu námsmati, þannig að stefnumótandi aðilar, sem og aðrir, geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir, bæði í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu.

Matsferilinn hefur í för með sér bætt aðgengi foreldra, barna, skóla og menntayfirvalda að upplýsingum um stöðu og framvindu barnsins í gegnum skólakerfið sem og stöðu menntakerfisins í heild sinni. Allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Þannig er betur hægt að stuðla að árangursríkum snemmtækum stuðningi og tryggja að börn fái aðstoð um leið og þörf vaknar, sem er lykilþáttur í því að draga úr eða koma í veg fyrir frekari námsvanda á síðari stigum. Þetta er algjörlega ný og heildstæð nálgun.

Innleiðing matsferilsins hefur þegar farið af stað. Matsferillinn mun nýtast kennurum mun betur í starfi. Verið er að færa skólasamfélagið fram um marga áratugi. Þetta er unnið í samráði við kennara sjálfa.

Sjálfstæðisflokkurinn vill takast á við nútímann með því að horfa í baksýnispegilinn. Nota gamlar aðferðir til að mæla getu nemanda. Pólitískar herferðir sem beinst hafa gegn skólakerfinu gleyma að benda á nokkrar staðreyndir. Íslenskt samfélag hefur gerbreyst hratt undanfarin ár. Við höfum þurft að aðlagast um leið og við tökumst á við breytt samfélag. Heimsfaraldurinn umturnaði kennslu þar sem íslenskt skólasamfélag opnaði faðminn fyrir nemendum. Þetta gerðu þeir með því að hólfa niður og skipuleggja skólastarfsemi á einni helgi. Í samræmi við þessa þrautseigju sýna rannsóknir að íslenskum nemendum líður almennt vel í skólanum. Nemendum finnst þau almennt tilheyra í skólanum og sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, ásamt því að treysta kennurum sínum.

Hagsæld okkar til framtíðar grundvallast á gæðum menntunar. Við þurfum vissulega að horfast í augu við vandamálin en framtíðin krefst þess að við horfum fram á veginn – en ekki í baksýnisspegilinn.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður Skóla – og frístundarsviðs Reykjavíkurborgar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. nóvember 2024.