Categories
Fréttir Greinar

Gefum í – því ung­lingarnir okkar eiga það skilið

Deila grein

15/10/2025

Gefum í – því ung­lingarnir okkar eiga það skilið

Það eru margar leiðir að því að stuðla að vellíðan barna og unglinga. Ein af áhrifaríkustu leiðunum er félagsmiðstöðin. Þessi opni vettvangur þar sem ungmenni fá að vera þau sjálf, prófa sig áfram, læra, skapa og vera hluti af hópi þar sem virðing, lýðræði og þátttaka eru leiðarljós. Þarna blómstrar sjálfsmyndin og þar liggur styrkur samfélagsins. Í tilefni af því að í dag er félagsmiðstöðvardagurinn er tækifæri til að draga þær fram.

Félagsmiðstöðvar eru meira en hús með borðtennisborði og PlayStation. Þær eru faglegt uppeldisstarf sem byggir á rannsóknum, hugmyndafræði og menntun sérfræðinga í frítímastarfi. Starfið er markvisst og meðvitað og það byggir á trausti, tengslum og að mæta börnum og unglingum á þeirra eigin forsendum.

Við vitum að þegar við bjóðum unglingum upp á öruggt rými með jákvæðum fyrirmyndum og fjölbreyttum viðfangsefnum, þá aukum við líkurnar á heilbrigðum lífsstíl og drögum úr áhættuhegðun. Félagsmiðstöðvar eru því ekki bara „góð viðbót“, þær eru kjarninn í forvarnarstarfi og félagslegu öryggisneti ungs fólks.

En nú er verið að draga úr! Ekki auka þessa grunnstoð. Á Akureyri var til að mynda öllu fagfólki félagsmiðstöðva sagt upp í sl. vor og starfsemin færð undir stjórn skólastjórnenda. Til að setja í samhengi má segja að það sé eins og við myndum leggja niður heilbrigðisþjónustu og segja leikskólastjórum að sinna skurðlækningum. Þetta er ekki spurning um góðan ásetning heldur spurning um fagmennsku.

Það skiptir máli að frítími barna sé skipulagður af fólki sem hefur menntun í tómstunda- og félagsmálafræði. Fólki sem hefur þjálfun í að styðja við sjálfsmynd barna, efla félagsfærni og byggja upp verndandi tengslanet í kringum unglinga. Þetta er ekki hlutverk skólastjóra, sem sinna allt öðru fagstarfi, heldur sérfræðinga í frístundastarfi, sérfræðinga í hópaþróun, sérfræðinga í að finna styrkleika og efla þá í hverjum á einum á þeirra forsendum. Sérfræðinga í að skapa öruggt rými þar sem hægt er að rekast á í samskiptum og sérfræðinga í að veita tólin og tækin til að vinna úr þeim árekstrum ásamt öruggu rými til þess að læra af því. Sérfræðinga í ígrundun og reynslunámi. Sérfræðinga í félagsfærni sem skiptir mestu máli á tímum gervigreindar. Sérfræðinga í frítíma barna og ungmenna.

Við sjáum merki um breytingar í unglingamenningu og í raun miklu meira en merki. Við sjáum aukna vanlíðan, aukna áhættuhegðun og aukið ofbeldi. Það sýnir hversu mikilvægt það er að eiga einhvern sem maður getur treyst. Einhvern sem segir: „Ég sé þig. Þú ert velkomin/n/ð.“ Sá “einhver” er oftar en ekki starfsfólkið í félagsmiðstöðvunum.

Við verðum að spyrja okkur: Viljum við virkilega veikja þessa starfsemi? Eða ætlum við að styrkja hana, efla hana og veita henni þá virðingu sem hún á skilið? Því sem samfélag getum við valið. Við getum staðið með börnum og unglingum. Við getum veitt þeim rými, traust og tengsl. Við getum sagt: „Tíminn þinn skiptir máli og við erum hér til að styðja þig.“

Ég vil að við gefum í.

Til hamingju við öll með félagsmiðstöðvar og öryggið sem þær færa börnunum okkar og unglingum.

Ásta Björg Björgvinsdóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknar og formaður Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Greinar

Borg þarf breidd, land þarf lausnir

Deila grein

12/05/2025

Borg þarf breidd, land þarf lausnir

Ég var svo dásamlega lánsöm að alast upp á heimili þar sem rætt var um stjórnmál og enn lánsamari með það að ekki voru öll sammála. Við borðið hjá ömmu þar sem ég dvaldi öllum mögulegum stundum voru sjónarmið sósíalista yfir í frjálshyggju og allt þar á milli rædd yfir kaffinu. Fólk ræddi málin, hækkaði stundum röddina en naut þess jafnframt að verja tíma saman og borða saman. Ef til vill hef ég öðlast skilning á því að hversu ólíkar skoðanir fólks geta verið við það að alast upp við frjáls og óheft skoðanaskipti. Fólk fær drifkraft frá ólíkum hlutum og hefur misjafna sýn á lífið, þó það sé úr sömu fjölskyldunni. Alla tíð hef ég litið á það sem gjöf að í stjórn landsins sé fólk sem er fulltrúar þessarar fjölbreytni.

Það er að mínu viti ómögulegt að ætla að stýra landi eða sveitarfélagi út frá einni stefnu, því þá þjónum við bara einum hópi fólks. Við erum samfélag mismunandi heima, ólíkrar reynslu og fjölbreyttra skoðanna. Til að skapa trúverðugt og traust samfélag þar sem við þjónum breiðum hópi fólks þá þarf að vera fjölbreytni, ólíkar lausnir og fjölbreyttar leiðir að markmiðum. Borgin má og á að vera fjölbreytt. Fólk þarf að hafa val um það hvort það vill nýta sér þær samgöngur sem eru í boði en þær þurfa þá einnig að vera raunverulegur valkostur fyrir fólk. Einnig á fólk að geta valið hvort það vill búa á svæði umkringt litlum grænum svæðum eða á þéttbýlum reit þar sem þú getur skokkað á náttsloppnum í næstu verslun því mjólkin gleymdist.

En umfram allt þurfum við að vera tilbúin að hlusta hvert á annað. Með virðingu og hlustun getum við setið við sama borðið og notið samverunnar þrátt fyrir ólíkar skoðanir. Ef við hlustum, heyrum við líka að um margt erum við sammála. Það þarf að moka snjóinn þegar það snjóar, hvort heldur fyrir gangandi, hjólandi eða akandi svo við komumst leiðar okkar. Það þarf einnig að hirða sorpið því okkur líður betur í hreinni og vel hirtri borg. Það þarf að huga að innviðum því við viljum ekki að fólk þurfi að stunda vinnu sína eða nám í óheilnæmu umhverfi.

Það er nefnilega þannig að það er meira sem sameinar okkur en sundrar ef við erum tilbúin að hlusta.

Af hverju framsókn?

Þegar ég er í kringum Framsóknarfólk, þá er ég í kringum fólk sem skilur einnig að borg þarf breidd. Landið þarf lausnir. Fólk sem skilur og setur í fólk og fjölskyldur í forgang. Framsóknarfólk skilur að jafnrétti og fjölbreytileiki eru ekki bara hugtök, heldur lykillinn að hamingjusömu samfélagi. Kannanir hafa sýnt að Framsóknarfólk er hamingjusamara og það kemur mér ekki á óvart.

Ásta Björg Björgvinsdóttir, formaður Framsóknarflokksins í Reykjavík og varaborgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. maí 2025.