Categories
Greinar

Lóðir fyrir 300 íbúðir í Borgarbyggð

Deila grein

04/05/2022

Lóðir fyrir 300 íbúðir í Borgarbyggð

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum. Sér í lagi vegna lóðaskorts á höfuðborgarsvæðinu og einsleitni í lóðaframboði. Sveitarfélög eins og Árborg, Hveragerði og Akranes hafa byggst hratt upp og til að mynda mun íbúum í Árborg að öllum líkindum fjölga um 1800 á þessu ári. Þessari fjölgun hefur einnig fylgt uppbygging þjónustu og innviða í viðkomandi sveitarfélögum sem bæði eru af hálfu hins opinbera og ekki síður hefur hinn aukni íbúafjöldi gert það að verkum að fyrirtæki og þjónusta sem ekki voru til staðar hafa nú öðlast rekstrargrundvöll og dafna og búa til aukinn fjölbreytileika atvinnulífs og betri þjónustu.

Byggjum í Brákarey og Bjargslandi

Við í Framsókn viljum hraða skipulagsvinnu til þess að geta boðið upp á fleiri lóðir í Borgarnesi strax í upphafi næsta árs. Það þarf að flýta vinnu við þróunarverkefni í Brákarey þar sem innviðir eru að stórum hluta til staðar fyrir uppbyggingu og því hægt að byrja fyrr en ef um uppbyggingu á alveg nýju hverfi væri að ræða. Slík þróunarverkefni hafa gefið góða raun í öðrum sveitarfélögum og má þar helst líta á verkefni eins og uppbyggingu nýs miðbæjar á Selfossi, sem var þróunarverkefni þar sem tvinnað var saman atvinnu og verslunarstarfsemi með íbúðabyggð. Einnig viljum við flýta skipulagsferli og gatnagerð á nýrri götu sem er utan um Kveldúlfshöfðann frá enda Fjólukletts þannig að hægt verði að koma því í auglýsingu sem fyrst. Þetta eru forgangsverkefni þar sem nánast ekkert er til af óúthlutuðum lóðum í Borgarnesi í dag. Við viljum uppbyggingu og þá verðum við að flýta þessum verkefnum eins og kostur er.

Byggjum í dreifbýli

Mikilvægt er tryggja lóðaframboð og að gatnagerð sé klár til að hægt sé að úthluta fleiri lóðum á Hvanneyri og Varmalandi þar sem Borgarbyggð á byggingarland. Aðlaga skipulag að þörfum húsbyggjenda og skipuleggja fleiri lóðir til að tryggja nægilegt framboð á hverjum tíma. Við eigum að leitast við að koma í veg fyrir það rof sem hefur orðið í framboðshlið lóðamála í Borgarbyggð. Nægt land er til staðar. Það þarf bara að skipuleggja það og hefja gatnagerð.

Byggjum handan Borgarvogarins

Nú er að fara af stað arkitektasamkeppni um nýja byggð á landi handan Borgarvogarins og er það gríðarlega spennandi framtíðarsýn og við erum ekki í nokkrum vafa um að það verkefni muni slá í gegn þegar fram líða stundir, en það er langhlaup. Það þýðir ekki að það megi halla sér aftur, það þarf að keyra þetta verkefni stöðugt áfram til þess að þetta verði að veruleika fyrr en seinna.

Byggjum upp í Borgarbyggð

Til þess að við sjáum atvinnutækifærum fjölga, til þess að fólkið sem fer og menntar sig geti komið heim, til þess að afi og amma geti minnkað við sig húsnæði á efri árum, þá þarf að byggja. Skipuleggja land, fara í gatnagerð og stuðla að byggingu íbúðarhúsnæðis í allri Borgarbyggð. Viðvarandi húsnæðisskortur hefur verið vandamál undanfarin ár og hefur verið erfitt fyrir þá sem eru á leigumarkaði að fá húsnæði og sama á við um atvinnurekendur sem eru í húsnæðisleit fyrir starfsfólk sitt. Fáar eignir eru á sölu og hefur íbúum ekki fjölgað í takt við það sem gerist hjá nágrannasveitarfélögum eins og til dæmis Akranesi. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna og keyra uppbygginguna í gang. Við þurfum nýja Framsókn í húsnæðismálum!

Davíð Sigurðsson, skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Braggamál í Borgarbyggð

Deila grein

19/10/2020

Braggamál í Borgarbyggð

Meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri-grænna í Borgarbyggð er farinn að minna um margt á borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík. Stjórnun og ábyrgð í stjórnsýslunni er aukaatriði nema þegar um að er ræða mál sem henta meirihlutanum. Það fer mikill tími í að móta stefnur, búa til ferla, halda fundi og gera úttektir á hinu og þessu. Þessar úttektir og innri skoðun ásamt ferlum og stefnum virðast hins vegar ekki pappírsins virði. Mál enda út og suður og svo norður og niður eins og dæmið sem farið er yfir hér á eftir sýnir. Ryki er kastað í augu íbúa með því að vitna í stefnur og ferla en staðreyndin er sú að það stendur ekki steinn yfir steini. Jón og séra Jón er orðatiltæki sem á vel við hjá þessum meirihluta.

27 milljóna lóðahönnunarbíó

Eitt nærtækasta dæmið er hönnun leiksvæða við skólahúsnæði sveitarfélagsins. Þar má sjá framúrkeyrslur á framúrkeyrslur ofan. Hönnunarkostnaður við útisvæði grunnskólans í Borgarnesi er kominn í rúmlega 15,3 milljónir króna. Já, þið lásuð rétt; 15,3 milljónir króna. Þetta er bara kostnaður við hönnun útisvæðis. Inn í þessari tölu er hvorki efni, vinna eða tæki. Bara teikningar á blaði og ekki nóg með það heldur afhenti meirihlutinn þetta allt til hönnunaraðila án útboðs eða verðkönnunar þrátt fyrir að byggingarnefnd skólans hafi ákveðið og bókað að slíkt ferli yrði viðhaft. Sem er líka lögbrot þar sem samkvæmt innkaupareglum sveitarfélagsins á að bjóða öll þjónustukaup út sem fara yfir 10 milljónir króna. Til vara er hægt að gera formlegar verðkannanir með forvali. Þetta er ekki allt og bíóið heldur áfram. Á Kleppjárnsreykjum er verið að byggja 30 barna leikskóla sem þörf var á fyrir okkur íbúa uppsveitanna. En þar eins og í Borgarnesi þarf leiksvæði fyrir börnin og það þarf að sjálfsögðu að vera vandað. En er það virkilega þess virði að hanna leiksvæði þar sem kostnaðurinn við einungis hönnunina er kominn í 11,8 milljónir króna? Aftur eins og í Borgarnesi er ekki neitt efni, vinna eða tæki inn í þessari tölu. En eins og þetta sé ekki nóg þá átti nú heldur betur að vanda til verka uppi á Kleppjárnsreykjum og sleppa við framúrkeyrslu eins og áttu sér stað í kringum alla framkvæmd Grunnskólans í Borgarnesi og samið var við arkitekt um alla hönnunarvinnu leiksvæðisins. Samningurinn var undirritaður í nóvember 2018 og hljóðaði uppá 2 milljónir króna! Hvað gerðist?  Þetta er bara hönnun, nú má ekki misskilja mig á þann veg að mér finnist ekki mikilvægt að hafa fallega hönnuð svæði við menntastofnanir sveitarfélagsins en fyrr má nú vera. Til að setja málið í samhengi við eitthvað sem að við öll þekkjum þá var kostnaður per. íbúa (1. jan. 2020) í Reykjavík vegna Braggamálsins 3.164 kr. en lóðahönnunarfíaskóið í Borgarbyggð er nú þegar búið að kosta hvern íbúa sveitarfélagsins (1. jan. 2020) 7.009 kr. og er þeirri hönnun ekki allri lokið enn. Braggamálið í Reykjavík var gott dæmi um stórkostlega óstjórn, en það er nú sennilega barnaleikur miðað við framúrkeyrsluna í þeim verkefnum sem meirihlutinn hefur farið af stað með í Borgarbyggð. Hönnun leiksvæðis á Kleppjárnsreykjum er komin 490% fram úr áætlun og í Borgarnesi 337% fram úr áætlun. En Bragginn frægi í Reykjavík fór einungis um 160% fram úr áætlun.

Slönguspil í boði meirihlutans

Erfiðir tímar eru framundan í rekstri Borgarbyggðar og er meirhlutinn eins og vant er á hröðu undanhaldi frá raunveruleikanum og staðreyndum um rekstur. Ekki á að skera niður í rekstri eða staldra við í framkvæmdagleðinni og draga andann djúpt og átta sig betur á hvaða afleiðingar þessi tekjumissir sem hefur orðið af völdum Covid-19 muni hafa á fjárfestingagetu sveitarfélagsins, heldur á að taka lán ofan á lán til þess að borga óráðsíuna. Hvernig á svo að borga af þeim lánum? Á kannski bara að setja okkur í þá stöðu að neyðast til þess að hækka álögur á íbúa enn frekar? Loksins þegar búið var að ná tökum á rekstri Borgarbyggðar sem hófst með vegferðinni „Brúin til framtíðar“ árið 2014 og búið var að greiða niður mikið af skuldum þá er eins og setja eigi fólk aftur á byrjunarreit. Þetta er eins og að vera að koma í mark í slönguspili en lenda á næstsíðasta reit á slöngunni og fljúga aftur niður á upphafsreit. Það er allavega morgunljóst að það er íbúum Borgarbyggðar fyrir bestu að núverandi meirihluti láti það bara vera að framkvæma meira. Meirihlutinn virðist bara ekki hafa yfirsýn yfir verkefnin sem hann fer í og kostnaðurinn fer ekki bara út og suður heldur líka norður og niður, eins og sést glögglega á þessum hönnunarkostnaði og það væri óskandi að þetta væri það versta en því fer fjarri, yfirferð á öðrum framkvæmdum sveitarfélagsins bíður betri tíma.

Davíð Sigurðsson, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 19. október 2020.