Categories
Fréttir Greinar

Námslánakerfið – stuðningur eða skuldagildra?

Deila grein

09/10/2025

Námslánakerfið – stuðningur eða skuldagildra?

Námslán á Íslandi hafa lengi verið kynnt sem leið til að tryggja jafnan rétt allra til menntunar, óháð félagslegri stöðu og efnahag. Þessi hugmyndafræði hefur verið meginröksemd fyrir tilvist kerfisins, þó að hægt sé að deila um hversu vel það hafi tekist í framkvæmd.

Fyrir þá sem tóku G-lán fyrir 2010 og H-lán á árunum 2010-2019 er veruleikinn sá að í stað þess að vera stuðningur til náms hefur lánið orðið að lífstíðarbyrði.

Lán hafa, þrátt fyrir áratugalanga niðurgreiðslu, vaxið upp í hærri skuldir en upphaflega voru teknar. Ástæðan er verðtryggingin, sem tryggir að höfuðstóll hækkar í takt við verðbólgu. Einstaklingur sem tók tvö G-lán, upphafleg fjárhæð 4.388.705 og 3.234.098, alls 7.622.803, skuldar í dag 8.330.052 þrátt fyrir að hafa greitt af þessum lánum í 12 ár og er þetta því miður ekki einsdæmi.

Þetta er kerfisleg ósanngirni. Þeir sem tóku lán í gamla kerfinu sitja fastir í skuldafeni á meðan nýtt lánakerfi, sem tók gildi 2020, býður upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði. Það er gott skref, en það nær aðeins til nýrra lána.

Eldri lánþegar sitja eftir, bundnir við úrelta skilmála sem gera lítið annað en að tryggja að skuldir hækki áfram. Þessir lánþegar sitja eftir í verðtryggingarvítahringnum. Þetta gengur þvert gegn þeim tilgangi sem lánin eiga að þjóna. Eldri lán ættu að fá að fylgja nýjum reglum, svo lánþegar sem þegar hafa lagt sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum menntun og vinnu geti átt raunhæfan möguleika á að greiða niður sínar skuldir eins og nýir lánþegar.

Menntun er fjárfesting fyrir allt samfélagið, hún á ekki að vera fjármálalegt fangelsi. Ef stjórnvöld vilja standa undir þeim gildum sem námslánakerfið var upphaflega byggt á, þá er nauðsynlegt að gera breytingar núna og tryggja að sanngirni ráði ríkjum, óháð því hvenær lánin voru tekin. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða þetta strax og gera nauðsynlegar breytingar til að gefa öllum þeim sem hafa tekið námslán kost á að sitja við sama niðurgreiðsluborð.

Díana Hilmarsdóttir, G-lántakandi og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Deila grein

07/10/2025

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Við stöndum frammi fyrir risastóru samfélagslegu máli: stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi. Ætlum við að halda áfram að benda hvert á annað – sveitarfélögin, heilbrigðiskerfið, fyrri ríkisstjórnir, núverandi ríkisstjórn, hinn og þennan ráðherra eða ráðamann– eða ætlum við að taka höndum saman og skapa raunverulega þjónustu sem bjargar mannslífum?

Fréttir af sjálfsvígum, alvarlegri vanlíðan, áhættuhegðun og ofbeldisbrotum, sem rekja má að miklu leyti til vanrækslu á geðheilbrigðisþjónustu og úrræðaleysi, eru að verða daglegt brauð á samfélagsmiðlum. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að skortur á geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu, ónógur stuðningur í skólum og alltof langir biðlistar hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Árið 2023 voru 47 sjálfsvíg á Íslandi, sem jafngildir um 12,4 á hverja 100.000 íbúa. Fyrstu sex mánuði ársins 2024 voru skráð 22 sjálfsvíg. Þetta eru ekki bara tölur – þetta eru einstaklingar, fjölskyldur og samfélög í sorg.

Staðan hjá börnum er sérstaklega sláandi: Í ágúst 2024 biðu 2.020 börn eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna, samanborið við 738 börn í desember 2021. Tilvísanir hafa nær tvöfaldast á tveimur árum og meðalbiðtími er allt að 12–24 mánuðir. Á þessum tíma gætu börnin verið án nauðsynlegrar hjálpar. Starfsemi geðdeilda og sú vinna sem þar fer fram er oftast góð, en biðin og sá fjölþætti vandi sem við stöndum frammi fyrir kallar á fjölbreyttari úrræði sem geðdeildir hafa því miður ekki upp á að bjóða í dag.

Ísland kallar sig velferðarsamfélag – þá verðum við líka að haga okkur sem slíkt.      

    Það þarf að:

  • Fjármagna aðgerðir sem stytta biðlista.
  • Tryggja snemmtæka íhlutun og sálfræðiaðstoð í skólum.
  • Auka aðgengi að þjónustu óháð efnahag eða búsetu.

Ísland stærir sig af því að vera velferðarsamfélag. Förum að haga okkur þannig og gera ráðstafanir til þess að geta staðið undir því. Það er svo mikilvægt að vera með snemmtækar íhlutanir, að geta brugðist við áður en það er orðið of seint, áður en einstaklingurinn er kominn of langt, á verri stað sem getur haft svo afdrifaríkar afleiðingar á einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. Skólakerfið hefur öskrað á hjálp, velferðarkerfið hefur öskrað á hjálp, heilbrigðiskerfið hefur öskrað á hjálp, foreldrar hafa öskrað á hjálp, börn, ungmenni og fullorðnir hafa öskrað á hjálp.

Þingsályktun um geðheilbrigðisþjónustu til 2030 var samþykkt árið 2022 og setur fram góða framtíðarsýn. En stefnur einar og sér bjarga engum – það þarf raunverulegt plan, fjármagn og framkvæmd.

Við getum breytt þessu. Aðgerðir í dag kosta minna en aðgerðaleysi á morgun. Stöndum saman og tryggjum öllum aðgang að nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er haldinn 10.október ár hvert og er hann tileinkaður vitund, fræðslu og umræðu um geðheilbrigði um allan heim. Ég vill hvetja alla til að klæðast grænu þennan dag sem táknar von, endurnýjun, jafnvægi, stuðning og samstöðu.

Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 7. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Börn og ungmenni – áskoranir, ábyrgð og stuðningur

Deila grein

18/09/2025

Börn og ungmenni – áskoranir, ábyrgð og stuðningur

Vellíðan barnanna okkar er eitthvað sem skiptur okkur öll máli. Á undanförnum árum hefur orðið vart við verulega aukningu í vanlíðan meðal barna og ungmenna. Kvíði, depurð og félagsleg einangrun eru meðal algengra einkenna sem hrjá unga fólkið okkar. Samhliða þessu má sjá vísbendingar um aukið ofbeldi og jafnvel vopnaburð í þessum hópi. Slíkt ástand hefur alvarleg áhrif, ekki aðeins á þau börn og ungmenni sem í hlut eiga, heldur á samfélagið allt. Því er mikilvægt að bregðast við þessari þróun sem fyrst svo hægt sé að hlúa að börnunum okkar.

Foreldrar gegna lykilhlutverki í að bregðast við. Það skiptir máli að fylgjast með líðan barna og ungmenna, sýna þeim áhuga og tala opinskátt um tilfinningar, vináttu og áskoranir daglegs lífs. Þegar grunur vaknar um vanlíðan eða áhættuhegðun er mikilvægt að grípa inn í snemma og leita aðstoðar.

Foreldrum og forráðamönnum stendur til boða fjölbreytt stuðningsnet. Félagsþjónusta sveitarfélaga býður upp á ráðgjöf og úrræði sem geta létt undir með fjölskyldum í erfiðleikum. Í skólunum og hjá sveitarfélaginu starfa námsráðgjafar, félagsráðgjafar og sálfræðingar sem eru reiðubúnir að veita aðstoð. Lögreglan sinnir ekki aðeins refsivörslu heldur vinnur einnig í forvörnum og getur gripið inn í þegar ofbeldi eða vopnaburður kemur upp. Heilbrigðisþjónustan, til dæmis heilsugæslur og sértæk geðheilbrigðisteymi, geta veitt faglega aðstoð þegar vanlíðan verður mikil. Þá sinna frjáls félagasamtök og stuðningshópar mikilvægu hlutverki með fræðslu, félagsstarfi og vettvangi fyrir samveru.

Rannsóknir sýna að þátttaka barna og ungmenna í íþróttum og tómstundastarfi hefur jákvæð áhrif á líðan þeirra, sjálfsmynd og félagsfærni. Slík þátttaka getur dregið úr einangrun, aukið vellíðan og minnkað líkur á áhættuhegðun. Rannsóknir á Suðurnesjum sýna að hlutfallslega færri börn og ungmenni sækja skipulagt tómstundastarf en nemendur á landsvísu. Fjölbreytt framboð af frístundastarfi á Suðurnesjum má finna á www.fristundir.is en vefurinn hefur að geyma upplýsingar um allar þær íþróttir og tómstundir sem í boði eru.

Til þess að stemma stigu við þessari þróun þarf samvinnu allra og ganga í takt. Með samstilltu átaki foreldra, skóla, félagsþjónustu, lögreglu, heilbrigðisþjónustu, íþrótta- og tómstundastarfs og samfélagsins alls er hægt að draga úr vanlíðan og stuðla að því að börn og ungmenni fái að vaxa upp við öryggi, virðingu og umhyggju.

Við berum öll ábyrgð á því að skapa börnunum okkar heilbrigð og örugg skilyrði til framtíðar.

Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. september 2025.