Categories
Greinar

Um­hverfis­mál: „Hvað get ég gert?“

Deila grein

19/11/2024

Um­hverfis­mál: „Hvað get ég gert?“

Síðustu ár hefur almenningur sem betur fer glaðvaknað til umhverfismeðvitundar. Fjöldi fólks hefur spurt sjálft sig „Hvað get ég gert?” og gripið til aðgerða í stað þess að bíða eftir því að aðrir geri eitthvað.

Átta þúsund plokkarar

Fyrir um átta árum skall þannig á landinu bylgja þar sem einstaklingum sem blöskraði rusl á víðavangi um allt, land klæddi sig í útivistargallann, greip með sér plastpoka í göngutúra og byrjaði að tína upp þetta rusl. Eins og hendi væri veifað fæddist með þessum hætti átta þúsund manna hreyfing sem stundar það að plokka og á sér heimili á samfélagsmiðlum: Plokk á Íslandi.

Heillaspor fyrir umhverfið

Það stórsér á umhverfi flestra sveitarfélaga landsins eftir aðfarir þessa einstaklinga og allt í einu þykir það ekki lengur skrýtið að tína upp rusl eftir aðra. Nú þykir það hvunndagshetjulund og hvunndagshetjurnar fá klapp á bakið og like á myndirnar og smita þannig enn fleiri. Einstaklingarnir eru sannarlega misjafnlega stórtækir, en allt er þetta mikið gagn og til heilla náttúrunni og umhverfinu okkar.

Spornað gegn matarsóun

Á svipuðum tíma hefur orðið til samfélag fólks sem vill sporna við matarsóun og þar eru tólf þúsund manns að verki: Vakandi. Sú hreyfing hefur heldur betur náð árangri og matarsóun er hér fyrir vikið á miklu undanhaldi. Allar stóru smásölukeðjurnar – Bónus, Hagkaup, Krónan og Nettó – bjóða okkur nú að kaupa matvöru á afslætti sem á stutt eftir í síðasta söludag eða er nú þegar komin þangað. Síðan fara margar verslanir með mat til mannúðarsamtaka og keyra jafnvel mat í frískápa sem komið hefur verið upp víða um land.

Sparnaður til gagns

Sífellt fleiri nýta sér afsláttarhillur stórmarkaðaog frískápa, hvort heldur efnaminni einstaklingar og ungt fólk eða bara almenningur sem blöskrar upphæðirnar sem renna í matarkörfuna. Verslanakeðjan Samkaup, eigandi Nettó og fleiri verslana, áætlar að með þessum hætti hafi matvöru fyrir um 100 milljónir króna verið komið til gagns á þessu ári, sem er um fjórðungi meira en í fyrra, auk þess sem talsverðar fjárhæðir sparast við förgun.

Ábatinn er allra

Ábatinn af ofangreindum verkefnum er allra – jafnt umhverfis sem almennings og atvinnulífs. Þátttaka í plokki og spornum við matarsóun er líka einstaklingsframtak í sinni fallegustu mynd. Það má búa til enn fleiri hvata fyrir öll sem að þessum virðiskeðjum koma til að efla enn frekar virkni og árangur. Ég er með nokkra hvata í huga og það væri gaman að fá fleiri góðar hugmyndir frá áhugasömu fólki (einar@medbyr.is). Það ernefnilega hægt að gera svo miklu meira í umhverfismálum en að fljúga með þotu á næstu umhverfisráðstefnu…

Einar Bárðarson, skipar 2. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Verkin og vinnusemin tala sínu máli

Deila grein

03/11/2024

Verkin og vinnusemin tala sínu máli

Ég hef hrifist af þeim fjölmörgu verkum sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur komið til leiða á undanförnum árum til að efla menningu og skapandi greinar á Íslandi, ásamt viðurkenningunni á að um sé að ræða alvöru atvinnugreinar sem skila verulegum efnahagslegum áhrifum til samfélagsins líkt og nýlegar úttektir á hafa staðfest. Það er frábært að eiga menningarmálaráðherra sem tilbúin að taka slaginn í þágu menningarmála, standa með menningunni í blíðu jafnt sem stríðu eins og í heimsfaraldrinum, og er tilbúin að bretta upp ermar og koma hlutum í verk líkt og listinn hér að neðan er til vitnis um, en hann er langt í frá tæmandi.

Taktfastari tónlistarumhverfi

Ný tónlistarstefna til ársins 2030 markaði vatnaskil fyrir umhverfi tónlistar á Íslandi, þar sem hlúð er meðal annars að tónlistarmenntun og markvissum útflutningi á íslenskri tónlist. Ný heildarlög um tónlist urðu að veruleika og langþráð Tónlistarmiðstöð sömuleiðis. En hlutverk hennar er að stuðla að og styðja við samstarf milli tónlistarfólks, menntastofnana og atvinnulífsins, með það að markmiði að auka samkeppnishæfni og sýnileika íslenskrar tónlistar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Nýr og öflugri Tónlistarsjóður leikur þar lykilhlutverk sem er hluti af þessum breytingum.

Kvikmyndagerð á Íslandi orðin heilsársatvinnugrein

Það hefur nánast verið lygilegt að fylgjast með þeim mikla krafti sem hefur ruðst fram umliðnum árum í kvikmyndagerð á Íslandi víða um land. Ný kvikmyndastefna til ársins 2030 hefur eflt umhverfi kvikmyndagerðar hér á landi til muna og velta stóraukist. Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð var hækkað úr 25% í 35%. Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar og framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi voru hækkuð. Starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda verður að veruleika á næsta ári eftir breytingar á lögum um starfslaun listamanna og unnið er að menningarframlagi streymisveitna sem er ætlað að efla innlenda kvikmyndagerð svo dæmi séu tekin. Það hefur síðan líka bara verið gaman að sjá svo mikið af hæfileikaríku fólki hérlendis getað unnið allt árið um kring í kvikmyndagerð og tengdum greinum.

Bókaþjóðin

Að sama skapi hefur verið hrint til framkvæmdar aðgerðum til þess að efla bókmenntaumhverfið hér á landi. 25% endurgreiðslur vegna bókaútgáfu á íslensku hafa skipt þar sköpum, styrking listamannalauna, efling bókasafna og stofnun barna- og ungmennabókasjóðs eru dæmi um aðgerðir sem ráðist hefur verið í. Þá mun ný bókmenntastefna til ársins 2030 varða leiðina lengra fram á við en meginmarkmið hennar er að stuðla að sköpun á íslensku, aðgengi að fjölbreyttu efni á og treysta með því stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu ásamt því að auknum lestur sem víðast í samfélaginu, með sérstakri áherslu á unga lesendur.

Ofangreind atriði eru dæmi um verulegar breytingar á umgjörð menningarmála sem ráðist hefur verið í. Sem reyndur umboðsmaður sem hefur séð tímanna tvenna í þessum bransa get ég ekki annað en glaðst, enda grundvallast sjálfsmynd okkar að stórum hluta á menningu okkar og tungu og það skiptir því máli að hlúa að þeim af einhverri alvöru, en ekki mæta bara í partýin þegar vel gengur. Til gamans má beitti Lilja sér líka af fullum þunga fyrir því að ChatGPT tali íslensku með snilldarbrag. 12 stig á það.

Hún kynnti myndlistarstefnu til 2030 og stofnaði nýja myndlistarmiðstöð sem hefur stærra hlutverk innanlands. Einnig var sviðslistamiðstöð stofnuð og unnið að sviðslistastefnu til 2030.

Lilja lagði einnig fram frumvarp um Þjóðaróperu fyrir Alþingi og tryggði fyrsta kjarasamninginn fyrir danshöfunda í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur stutt við starfsemi Íslenska dansflokksins og aðstöðu sjálfstæðra sviðslistahópa í Reykjavík.

Á sviði kvikmynda kynnti hún kvikmyndastefnu til 2030 og lagði frumvarp um menningarframlag streymisveitna til að styrkja kvikmyndasjóð. Endurgreiðsla til stærri kvikmyndaverkefna hækkaði í 35%, og nýr styrkjaflokkur fyrir sjónvarpsefni var stofnaður innan kvikmyndasjóðs.

Lilja hefur einnig unnið að því að efla menningu og skapandi greinar um allt land, með áherslu á að tryggja aðgengi að listsköpun og menningu fyrir alla. Hún hefur lagt áherslu á jafnrétti í lista- og menningarstarfi, og að styðja listsköpun fatlaðs fólks.

Með þessum aðgerðum hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir stuðlað að vexti og þróun menningar og skapandi greina á Íslandi, sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið í heild.

Einar Bárðarson, skipar 2. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2024.