Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn sem þjónar fólki, ekki kerfum

Deila grein

13/10/2025

Fram­sókn sem þjónar fólki, ekki kerfum

Ég býð mig fram til ritara Framsóknar af þeirri sannfæringu að framtíð flokksins liggi í því að vera hreyfiafl breytinga sem þjóna fólki – ekki kerfum. Framsókn hefur verið sterkt afl á sveitarstjórnastiginu og leitt umbætur á þjónustu við fjölskyldur og leitt öflögt uppbyggingarstarf. Nú þurfum við að virkja baráttugleðina og nýta þá fjölbreyttu reynslu sem við búum yfir fyrir áframhaldandi framfarir um allt land.

Framsókn á að vera flokkur sem leiðir umbætur í opinberri stjórnsýslu. Við eigum að efla sveitarfélögin, treysta þeim til að leysa fleiri verkefni og færa ákvarðanir nær fólkinu. Við vitum að þegar ábyrgðin er skýr, nálægðin meiri og valdið nær íbúunum – þá verður þjónustan betri. Þetta hefur sannað sig í verkefnum sem þegar hafa færst til sveitarfélaga, svo sem á sviði menntamála og þjónustu við fatlað fólk.

Við höfum líka leitt róttækar breytingar í ríkisrekstrinum sjálfum – ekki síst þegar málefni barna voru sett í forgrunn með stofnun barnamálaráðuneytis, sem hefur markað nýja sýn á réttindi og velferð barna. Slíkar kerfisbreytingar sýna að Framsókn getur verið afl framfara og umbóta þegar hugrekki og framtíðarsýn fara saman.

Ég vil sjá að Framsókn ráðist í skipulagða málefnavinnu um það hvernig við gerum íslenska stjórnsýslu skilvirkari, hagkvæmari og betur í stakk búna til að þjónusta fólkið í landinu. Við þurfum að nýta tækifærin sem felast í nýrri tækni – þ.m.t. gervigreind – til að einfalda ferla, stytta biðtíma og bæta upplýsingagjöf til almennings. Tæknin getur gert hið opinbera gagnsærra og aðgengilegra – ef við nýtum hana rétt og með ábyrgð.

Við eigum að vera óhrædd við að leggja til róttækar breytingar þar sem við sjáum að kerfi eru helst til þess fallin að viðhalda sjálfum sér í stað þess að þjónusta samfélagið.

Við þurfum að taka heiðarlegt samtal um stöðu menntakerfisins. Framsókn getur leitt það samtal sem ætti að mínu mati að ala á aukinni virðingu fyrir því verkefni sem það er að kenna börnunum okkar. Það er áhyggjuefni að Ísland standi ekki jafnfætis öðrum þjóðum í alþjóðlegum samanburði og við eigum að taka djörf skref til þess að snúa við þeirri þróun og byggja upp menntakerfi sem byggir á metnaði og framsýni.

Ég vil taka þátt í því að móta starf sem markar Framsókn stöðu sem framtíðarafl í íslenskum stjórnmálum – flokkur sem þjónar fólki, ekki kerfum. Ég býð mig fram til ritara Framsóknar til að vinna að því markmiði í góðri samvinnu með flokksfélögum.

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps og frambjóðandi í embætti ritara Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. október 2025.

Categories
Greinar

Fjárfest í framtíð íslenskunnar

Deila grein

24/10/2024

Fjárfest í framtíð íslenskunnar

Mik­il­vægt skref hef­ur verið stigið í átt að því að tryggja betri aðlög­un og inn­gild­ingu er­lendra íbúa í Mýr­dals­hreppi og vinna mark­visst að efl­ingu ís­lenskukunn­áttu. Sveit­ar­stjórn hef­ur ákveðið að setja fjár­magn í ráðningu verk­efna­stjóra ís­lensku og inn­gild­ing­ar í fjár­hags­áætl­un næsta árs. Mark­miðið er að bæta stöðu þess fjölda íbúa sveit­ar­fé­lags­ins sem hafa annað móður­mál en ís­lensku og stuðla að sterk­ari sam­fé­lags­legri teng­ingu. Fjár­veit­ing­in í stöðu verk­efna­stjóra er beint fram­hald af öfl­ugu starfi ensku­mæl­andi ráðs sveit­ar­fé­lags­ins og er mik­il­vægt skref til að efla stöðu er­lendra íbúa og auka sam­fé­lags­lega virkni.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Íslensk­an er lyk­ill­inn að sam­fé­lag­inu og for­senda þess að íbú­ar geti tekið full­an þátt í dag­legu lífi og störf­um inn­an sveit­ar­fé­lags­ins. Sér­stak­lega er öfl­ug og mark­viss ís­lensku­kennsla mik­il­væg þegar kem­ur að því að tryggja fjöltyngd­um börn­um jöfn tæki­færi á við aðra til framtíðar litið. Sveit­ar­fé­lagið vinn­ur um þess­ar mund­ir að mót­un inn­gild­ing­ar­stefnu og hef­ur með þessu markað þá stefnu að fjár­fest verði í mannauði til þess að fylgja henni eft­ir og vinna mark­visst að efl­ingu ís­lensk­unn­ar. Einnig er mik­il­vægt að mótuð verði mál­stefna og henni fylgt eft­ir til þess að styðja við og hvetja sem flesta til að efla ís­lenskukunn­áttu sína.

Viðbragð við breyt­ing­um

Sam­fé­lagið í Vík og ná­grenni hef­ur tekið mikl­um breyt­ing­um á síðustu árum. Mik­il­vægt er að hið op­in­bera sé sveigj­an­legt til þess að bregðast við slík­um breyt­ing­um og sveit­ar­fé­lagið hef­ur eft­ir fremsta megni lagt sig fram um að gera það með hag allra íbúa að leiðarljósi.

Sam­hliða er ekki síður mik­il­vægt að ríkið haldi áfram að þróa og bæta sína þjón­ustu. Þjón­ustu­stig af hálfu rík­is­ins hef­ur staðið í stað eða dreg­ist sam­an á sama tíma og sam­fé­lagið vex. Sú staða er eng­an veg­inn ásætt­an­leg og mik­il­vægt að ríkið rétti af kúrsinn og vinni með sveit­ar­fé­lög­um að efl­ingu þjón­ustu í sam­ræmi við vöxt á öðrum sviðum.

Framtíðar­sýn

Mýr­dals­hrepp­ur er staðráðinn í að vera sveit­ar­fé­lag sem tek­ur vel á móti öll­um íbú­um sín­um, óháð þjóðerni og bak­grunni. Með þess­ari fjár­fest­ingu í framtíð ís­lensk­unn­ar er mörkuð skýr framtíðar­sýn um að öll­um íbú­um séu tryggð jöfn tæki­færi til að taka full­an þátt í sam­fé­lag­inu.

Einar Freyr Elínarson, sveit­ar­stjóri Mýr­dals­hrepps.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2024.