Categories
Fréttir Greinar

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Deila grein

10/11/2024

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Við í Suðurkjördæmi búum á heitasta svæði landsins, þar sem fjögur háhitasvæði og jarðvarmavirkjanir veita okkur einstaka orkuauðlind. En það er ekki nóg að nýta þessar auðlindir eingöngu til rafmagnsframleiðslu eða húshitunar – við verðum að gera meiri kröfur um fjölbreyttari og ábyrgari nýtingu þeirra en nú er gert, sem skilar sér í auknum samfélagslegum verðmætum og fjölbreyttum störfum fyrir alla.

Við jarðvarmavinnslu verða til ýmis steinefni, eins og kísill, sem hafa mikla möguleika í framleiðslu á verðmætum iðnaðar- og heilbrigðisvörum. Ef við getum fullnýtt þessi efni hér á landi með nýsköpun og þróun getum við skapað störf á sviði heilsu-, efna- og byggingariðnaðar í Suðurkjördæmi. Slík nýting stuðlar að fjölbreyttara atvinnulífi, eflir sjálfbærni svæðisins og byggir undir sjálfstæði og stöðugleika heimabyggðar.

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi til framtíðar

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ættu að vera leiðarljós þegar kemur að nýtingu auðlinda á landsbyggðinni. Með því að nýta glatvarma frá gagnaverum og orkuverum, til dæmis í gróðurhúsaræktun eða öðrum verkefnum, getum við skapað fleiri störf án þess að auka orkunotkun. Þannig eykst fjölbreytni atvinnulífsins og nýsköpun í heimabyggð, sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun og dregur úr álagi á náttúruna.

Stuðningur við fjölbreytt atvinnulíf og samfélagslegan ávinning

Þegar við beinum jarðvarmanýtingu ekki aðeins í rafmagnsframleiðslu heldur einnig í iðnað, landbúnað og heilbrigðistengd verkefni, skapast tækifæri fyrir fjölbreyttara og sjálfbærara atvinnulíf. Þessi fjölbreytta nýting auðlinda getur byggt upp sjálfstæð samfélög þar sem aðstæður fyrir heimamenn styrkjast og ný atvinnutækifæri verða til í heimabyggð.

Þetta hefur ekki einungis efnahagslega þýðingu heldur einnig félagslega. Með því að skapa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri gerum við svæðið aðlaðandi fyrir nýja íbúa, þar með talið unga fólkið sem oft flytur í annað í leit að starfi. Fjölbreyttnin eflir grunnstoðir sveitarfélaganna og bætir lífsgæði íbúa, þar sem fjölbreytt atvinnulíf veitir stöðugleika og sjálfbærni.

Styrking sveitarfélaga og sjálfstæð samfélög

Fjölbreytt nýting á auðlindum stuðlar að því að sveitarfélög í Suðurkjördæmi verði ekki aðeins orkuveitur fyrir aðra landshluta heldur verði sjálfstæð, öflug samfélög með blómstrandi atvinnulífi og sjálfbærum innviðum. Með þessu tryggjum við sterkari byggðir og lífvænleg samfélög, þar sem íbúar sjá tækifæri í þeirri þróun sem fram undan er. Sjálfbær samfélög á landsbyggðinni eru forsenda fyrir sterku og lífvænlegu Íslandi til framtíðar.

Tækifærin eru fjölmörg og við eigum öfluga sögu um verðmætasköpun í kringum þekkingu á jarðvarma til að byggja á. Með því að tengjast háskólum og rannsóknarstofnunum má stuðla að þróun nýrra og ábyrgra lausna fyrir jarðvarmanýtingu og sjálfbæran iðnað. Þannig skapast vettvangur fyrir nýsköpun á sviðum eins og efnafræði, umhverfisverkfræði og grænum iðnaði. Slíkt samstarf gerir svæðinu kleift að nýta þá sérstöðu sem það hefur til að leggja sitt af mörkum í alþjóðlegri umhverfisstefnu og sjálfbærni. Með fjárfestingum í rannsóknastarfsemi og frumkvöðlastarfi getur Suðurkjördæmi orðið leiðandi á sviði sjálfbærrar nýtingar og hringrásarhagkerfis, sem ekki aðeins styrkir svæðisbundinn efnahag heldur einnig heildarþróun Íslands í átt að sjálfbærari framtíð.

Hvatning til fjárfestinga í sjálfbærri framleiðslu

Til að nýta auðlindir Suðurkjördæmis á ábyrgan hátt þarf einnig að stuðla að aukinni fjárfestingu í sjálfbærri framleiðslu og nýsköpun. Samstarf milli stjórnvalda, fjármálastofnana og einkageirans er lykilþáttur í að skapa hagstæða umgjörð fyrir svæðisbundna nýsköpun og efla nýtingu náttúruauðlinda á Suðurnesjum. Markviss fjárfesting í grænum iðnaði getur aukið fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins og dregið úr einhæfri nýtingu jarðhitaauðlinda.

Stuðningur við nýsköpun í heilbrigðistækni, líftækni og matvælaframleiðslu getur byggst á jarðvarma og öðrum náttúrulegum auðlindum svæðisins. Með markvissri stefnumörkun og fjárfestingaráætlunum er mögulegt að laða að frumkvöðla og fyrirtæki sem leggja áherslu á umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir. Þannig skapast fjölbreyttara atvinnulíf sem þjónar samfélaginu á margþættan hátt og styrkir efnahagslega sjálfbærni Suðurkjördæmis til framtíðar.

Framtíðin er ábyrg nýting – fyrir samfélagið og komandi kynslóðir

Við skulum gera kröfur um ábyrga og fjölbreytta nýtingu auðlinda í Suðurkjördæmi, þar sem nýsköpun, sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ganga hönd í hönd. Með því að skapa tækifæri fyrir fjölbreytt störf og verðmætasköpun tryggjum við að auðlindir okkar þjóni samfélaginu á margbreytilegan hátt. Þetta er framtíðin sem við stefnum að – framtíð þar sem landsbyggðin blómstrar og auðlindir okkar eru nýttar á ábyrgan hátt til hagsbóta fyrir alla.

Halla Hrund Logadóttir og Fida Abu Libdeh eru fyrrverandi orkumálastjóri, orku- og umhverfistæknifræðingur og skipa 1. og 4. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Categories
Fréttir Greinar

Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum

Deila grein

04/11/2024

Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum

Forsætisráðherra landsins og formaður Sjálfstæðisflokksins nefndi í viðtali nýlega að hann hefði heyrt dæmi um börn sem neituðu að taka í hönd kvenkennara. Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður flokksins vísaði svo í þessi orð og sagði þau hafa verið til að vekja athygli á menningarlegum áskorunum.

Sem einhver sem hefur sjálf upplifað að vera barn af erlendum uppruna í nýju landi, langar mig að varpa ljósi á hversu hættulegt það getur verið að festa börn í stereótýpur eða búa til sögur sem nýtast í pólitískum tilgangi. Þegar ég kom hingað til Íslands sem sextán ára gömul stúlka frá Palestínu, var ég síður en svo upplitsdjörf. Bakgrunnur minn var flókinn: Faðir minn var blaðamaður sem skrifaði gegn óréttlæti og var reglulega handtekinn, stundum haldið í allt að sex mánuði án dóms eða laga, aldrei lengur því aldrei var hann ákærður fyrir neitt. Barnshugur minn var fullur af ótta um að hann væri verið að pynta og ég óttaðist sífellt hvað myndi gerast næst. Að lokum gafst móðir mín upp á erfiðleikunum og flutti með okkur systkinin til Íslands í leit að öruggara lífi.

Það má vel vera að ég hafi ekki virkað eins og fyrirmyndarbarn á þessum tíma. Ég var táningsstúlka, jafn óörugg og þær eru margar á þessum aldri, en ég var líka í ókunnugu landi þar sem ég þekkti engan, kunni ekki tungumálið, skildi ekki menninguna, var óörugg með húðlitinn minn og klæddi mig öðruvísi en jafnaldrar mínir. Þó að mér hafi gengið vel í raungreinum eins og stærðfræði, gekk mér illa í dönsku og íslensku. Kennararnir mínir gerðu ráð fyrir að erfiðleikarnir væru vegna þess að ég væri útlendingur en löngu seinna kom í ljós að ég var lesblind. Þessir námsörðugleikar áttu ekkert skylt við menningu eða uppruna.

Til að forðast bókleg fög eins og dönsku ákvað ég að læra bifvélavirkjun í Iðnskólanum en þegar ég varð 18 ára neyddi kerfið mig til að hætta í skóla og fara að vinna. Samkvæmt reglum þurfa innflytjendur að sanna framfærslugetu sína þegar þeir teljast fullorðnir, nema foreldrar þeirra hafi háar tekjur – sem er sjaldgæft hjá fólki sem er nýkomið til landsins. Þetta var erfitt, því ég vissi að menntun væri leið mín til betra lífs og þar sem ég gat ekki haldið áfram í skóla fékk ég mikið færri tækifæri til að eignast vini eða taka þátt í félagslífi en og jafnaldrar mínir af íslenskum uppruna. Þannig er staða ungmenna í hópi innflytjenda enn í dag.

Á næstu árum unnum við systurnar hvar sem við gátum – í fiski, í bakaríi og öðrum störfum. Vinnuveitendur þurftu að sækja um dvalarleyfi fyrir okkur og það var erfitt að fá umsagnaraðila eða atvinnu. Við gáfumst samt ekki upp. Við unnum hörðum höndum og sóttum kvöldskóla í FB samhliða vinnu, þar sem við reyndum að komast áfram í náminu. Dagarnir voru langir – 10-12 tíma vinnudagar, og síðan kvöldskóli þar sem ég lærði íslensku á sama stigi og íslenskir nemendur. Ég var þreytt og óörugg og ég hef eflaust ekki horft djúpt í augun á kennurunum mínum eða tekið eftir útréttri hönd þeirra á þessum tíma – frekar en í grunnskóla.

Árið 2007 opnuðust loksins nýjar dyr fyrir mig, þegar ég hóf nám í Háskólabrú Keilis. Þar fékk ég undanþágu frá dönskunni til að klára stúdentinn og það markaði tímamót í lífi mínu. Ég lauk síðan námi í orku- og umhverfisverkfræði frá HÍ og MBA nám við HR, þar sem ég ásamt samnemanda mínum stofnaði GeoSilica. Það sem hófst sem rannsóknarverkefni í háskólanum þróaðist í alvöru fyrirtæki. Nýsköpun kallar á mikla þrautseigju og það er ekkert áhlaupaverkefni fyrir þá sem gefast auðveldlega upp. Orkugeirinn er mjög karllægur og aðeins 2% af nýsköpunarfjármagni rennur til fyrirtækja sem stjórnað er af konum. Þrátt fyrir þetta hefur GeoSilica náð árangri. Í dag er áhersla okkar á Evrópumarkað, þar sem 70% af tekjum okkar koma frá. Það krafðist mikillar vinnu en það hefur borgað sig. Framtíðarmarkmið mitt er að vinna að frekari vexti GeoSilica, en ég legg líka mikla áherslu á að vera virkur þátttakandi í samfélagi fólks af erlendum uppruna og íslensku samfélagi. Ég vil vera fyrirmynd og vekja athygli á mikilvægi þess að hlusta á og virða sjónarmið innflytjenda. Ég verð ævinlega þakklát íslenskum konum sem hafa stutt mig á þessari leið, almenningi sem lét sér ekki standa á sama um mig.

Mér þykir vænt um að hafa getað fært verðmæti til íslensks samfélags. Mér þykir vænt um að geta verið fyrirmynd í augum innflytjendabarna. Mér þykir vænt um að hafa ekki bugast undan kerfi sem gerði mér ekki kleift að vera í námi og eignast vini eins og innfæddir Íslendingar fengu. Ég segi þessa sögu samt ekki til að hreykja mér af verkum mínum, heldur til að minna á að barnið sem ekki vildi taka í hönd kvenkennarans gæti verið að glíma við eitthvað sem er alls óskylt menningu – kannski er eitthvað allt annað sem hvílir á því. Í ár hafa 20 drengir á grunnskólaaldri fengið alþjóðlega vernd hér á landi, utan Úkraínu. Þarf það að vera svo flókið að nálgast barnið sem neitaði að taka í höndina á kennaranum og kanna hvort eitthvað ami að, frekar en að gera þessa hegðun að pólitískri áróðurssögu?

Ég hef þá trú að betra sé að spyrja þau hvort eitthvað ami að og leita leiða til að þau nái að þroska áhugamál sín og styrkleika í þágu samfélagsins. Hver veit nema að barnið sem ekki vildi taka í höndina á kennara sínum muni stofna verðmætt fyrirtæki síðar eða verði jafnvel næsti formaður Sjálfstæðisflokksins? Barn sem vex upp, fær tækifæri til að blómstra, ann samfélaginu sínu og leggur því eitthvað nýtt til.

Fida Abu Libdeh, orku- og umhverfistæknifræðingur og skipar 4. sæti lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sjálfbærni er þjóðaröryggismál

Deila grein

29/10/2024

Sjálfbærni er þjóðaröryggismál

Við hjá Framsókn stöndum fyrir því að nýta okkar náttúruauðlindir á ábyrgan hátt og byggja undir sjálfbæra framtíð fyrir land og þjóð. Sjálfbærni snýst um að vera sjálfum okkur nóg, hvort sem það er í matvælaframleiðslu, orkumálum eða annarri verðmætasköpun. Með sjálfbærnistefnu fylgir mikil ábyrgð, sérstaklega þegar kemur að því að fullnýta þá orku sem við eigum þegar til – til að tryggja þjóðaröryggi okkar.

Það er mikilvægt að við nýtum alla orkuna sem er tiltæk. Ef við sjáum gufustróka rísa frá virkjunum eða jarðhitavökva dælt niður við 120°C, vitum við að við erum ekki að fullnýta orkuna. Við viljum sjá nýtingu og nýsköpun handan hefðbundinnar orkunýtingar og horfa til orkugjafa eins og sólar- og vindorku til viðbótar við jarðhita og vatnsafl. Það er lykilatriði fyrir þjóðaröryggi.

Landbúnaður er okkur mikilvæg atvinnugrein og sjálfbærni í landbúnaði skiptir sköpum til framtíðar og styrkir stoðir öflugrar matvælaframleiðslu hér á landi í síbreytilegum heimi. Með því að stuðla að enn frekari sjálfbærni í landbúnaði getum við byggt traustari grunn að sjálfstæði þjóðarinnar. Ætlum í því samhengi að taka sjávarútveginn til fyrirmyndar, sem nær að nýta allt að 90% af hráefnum sínum. Með stuðningi við nýsköpun og hringrásarhagkerfi í landbúnaði getum við stuðlað að atvinnuþróun í öllum landshlutum og aukið verðmætasköpun í heimabyggð.

Það er löngu kominn tími til að efla stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Á Suðurnesjum er til dæmis ekki til staðar neitt frumkvöðlasetur eða stuðningsaðstaða fyrir nýsköpun. Við hjá Framsókn teljum að þetta þurfi að breytast. Við eigum að setja spurningamerki við sjálfbærni þess að auðlindir séu fluttar úr landi. Við verðum að styðja með öflugum hætti við verðmætasköpun hér á landi og nýta þær auðlindir sem við eigum yfir að ráða með sjálfbærum hætti.

Við erum í dauðafæri og höfum allar forsendur til að skapa sjálfbært Ísland. Við í Framsókn ætlum að vera leiðandi í þeirri vegferð með öflugu stuðningsnet fyrir nýsköpun og atvinnuuppbyggingu víðsvegar um landið. Sjálfbærni er þjóðaröryggismál, og nú er kominn tími til að setja landsbyggðina í forgang, byggja undir verðmætasköpun og öryggi allra landsmanna.

Fida Abu Libdeh, frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi og skipar fjórða sæti.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. október 2024.