Categories
Greinar

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Deila grein

19/02/2025

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Sæll Daði Már Kristó­fers­son! Þegar þú ung­ur dreng­ur stóðst á hlaðinu í Reyk­holti og horfðir yfir hið fagra hérað Borg­ar­fjörð, þá hreifstu af hinni miklu feg­urð og land­gæðum sem blöstu við í ríki Snorra Sturlu­son­ar! Gróið hérað glæsi­leg lönd bænda og land­búnaðar­ins, jarðhiti, blóm­leg bænda­býli og gott und­ir bú. Þú hef­ur hugsað til Snorra og bók­fell­anna sem naut­in gáfu til að skrifa sögu Íslands og Norður­land­anna. Þú hef­ur heill­ast af þeim tæki­fær­um sem land­búnaður­inn gaf og gæti enn gefið þjóð þinni. Þú hugsaðir um að gam­an væri að mennta þig í land­búnaðarfræðum og árið 2000 út­skrifaðistu með B.Sc.-gráðu í land­búnaðarfræðum frá Land­búnaðar­há­skóla Íslands á Hvann­eyri. Sama ár sótt­ir þú þér meist­ara­gráðu frá Agricultural Uni­versity í Nor­egi, allt eft­ir hag­fræðinámið.

Þú hef­ur sem land­búnaðar­hag­fræðing­ur sinnt land­búnaði og oft flutt góð er­indi og til­lög­ur á bændaþing­um. Nú skrifa ég þér þess­ar lín­ur af því að þú kannt fræðin bet­ur en flest­ir og komn­ar eru upp deil­ur við ESB út af skil­grein­ingu á ost­um sem snýr að öll­um EES-þjóðunum Íslandi, Nor­egi og Sviss. Um er að ræða 85% mjólkurost með jurta­feiti. Spurn­ing­in er und­ir hvort flokk­ast ost­ur­inn, mjólk eða jurta­ríkið? Þú veist jafn­vel og und­ir­ritaður að 45% vín er sterkt vín, að bjór og hvítt og rautt er létt­vín, hvað þá 85% mjólkurost­ur, hann hlýt­ur að vera frá land­búnaði. Nor­eg­ur og Sviss hafa haldið sinni skil­grein­ingu þrátt fyr­ir kröfu­gerð ESB, Nor­eg­ur í 12 ár. Verði niðurstaða þín röng tapa tíu til fimmtán bænd­ur á Íslandi vinnu sinni við að fram­leiða mjólk að talið er. Og ef þú ger­ir mis­tök munu heild­sal­ar gera kröfu um að þú far­ir rangt að á fleiri sviðum í þinni embætt­is­færslu. Ég treysti þér þar til annað kem­ur í ljós, Daði Már.

Sann­leik­ur­inn birt­ist enn og aft­ur

Er þetta er ritað, 17. fe­brú­ar, ligg­ur fyr­ir enn ein niðurstaða dóm­stóla í máli þar sem sjón­ar­miðum þeirra sem sótt hafa ít­rekað að rík­inu var hafnað enn og aft­ur. Þetta snýst um skil­grein­ing­ar skatta- og tolla­yf­ir­valda um toll­flokk­un á pizza­osti, sem eins og fyrr seg­ir er sam­sett­ur af 85% hluta mjólkurosts. Á það þá að vekja undr­un og jafn­vel átök að slík vara kall­ist ost­ur? Sér­fræðing­ar viðkom­andi stofn­ana hafa unnið sitt starf sam­kvæmt skyldu sinni og af sann­fær­ingu við viðkom­andi toll­flokk­un.

Það er skylda hvers manns, og ekki síst stjórn­mála­manna, að gæta að hags­mun­um okk­ar allra. Þeir fel­ast hvað sterk­ast í því að verja markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni þjóðar­inn­ar sem og at­vinnu­tæki­færi okk­ar. Það er ekki til­vilj­un ein að okk­ur stærri lönd, og sam­bönd þeirra, verji fyrst og fremst markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni sinna þjóða og þá verðmæta­sköp­un sem þeim fylg­ir.

En nú er mál að linni. Þess­ari sneypu­för sem fólg­in er í veg­ferðinni um þenn­an pizza­ost verður að ljúka. Mál­flutn­ing­ur þeirra sem sótt hafa að stofn­un­um rík­is­ins í gegn­um dóm­stóla er bor­inn fram í – að menn halda – fleytifullri fötu sann­leik­ans. En það er ekki svo – fat­an held­ur engu og allt lek­ur úr aft­ur og aft­ur eins og forðum.

Botn­inn er suður í Borg­ar­f­irði!

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Tek hatt minn ofan fyrir Einari borgarstjóra

Deila grein

14/02/2025

Tek hatt minn ofan fyrir Einari borgarstjóra

Ein­ar Þor­steins­son borg­ar­stjóri hef­ur nú sýnt að hann er flest­um stjórn­mála­mönn­um fremri, sann­fær­ing ræður för. Hann hik­ar ekki við að fórna starfi og stund­ar­frama þegar ekk­ert miðar í þeim áform­um sem hann og flokk­ur hans hétu Reyk­vík­ing­um og þjóðinni í mál­efn­um höfuðborg­ar­inn­ar. Stærst veg­ur þar sú ábyrgð að standa með líf­inu, frammi fyr­ir þeirri lífs­hættu sem flugáhöfn­um og farþegum er bú­inn á Reykja­vík­ur­flug­velli. Þar veg­ur þyngst sjúkra­flug með fólk í lífs­áhættu þar sem ekki mín­út­ur held­ur sek­únd­ur skipta máli. Takið eft­ir, oft er eins og flug­völl­ur­inn í Vatns­mýr­inni sé bara sjúkra­flug­völl­ur lands­byggðarfólks. Reyk­vík­ing­arn­ir og höfuðborg­ar­bú­arn­ir skipta þúsund­um sem eiga flug­vell­in­um líf sitt eða ást­vin­ar síns að launa.

Það er mik­il sorg­ar­saga hvernig stjórn­mála­menn hafa látið leiða sig út í hvert óhæfu­verkið eft­ir annað til að slátra Reykja­vík­ur­flug­velli með heimsku­leg­um aðgerðum. Þrengja mis­kunn­ar­laust að flug­vell­in­um eins og ann­ar flug­völl­ur sé inn­an seil­ing­ar, sem loks­ins er viður­kennt eft­ir ákvörðun Ein­ars og umræðu hans og fleiri um flug­völl­inn að er ekki til staðar og ekki í sjón­máli.

Nú ligg­ur fyr­ir að í Hvassa­hrauni eru glóru­laus áform um vara- og neyðarflug­völl, sem samt er haldið áfram með. Íþrótta­fé­lagið Val­ur hef­ur með mis­kunn­ar­laus­um ásetn­ingi haldið áfram að sækja leyfi til að byggja blokk­ir til að eyðileggja flug­völl­inn, og bygg­ing­arn­ar eru farn­ar að ögra með svipti­vind­um flugi á flug­braut­inni þeirri einu sem opin er. Svo stend­ur til að þrengja svo um mun­ar að flug­vell­in­um með risa­blokk­um í Skerjaf­irði, borg­in með ráðherra­leyfi sem ber að aft­ur­kalla.

Loks­ins tókst þér Ein­ar Þor­steins­son, á neyðar­stundu þegar aðflugi að flug­vell­in­um, neyðarbraut­inni, er lokað, að fá liðið í borg­ar­stjórn­inni til að skipta um skoðun, já eða þora ekki annað en að taka sjúk­linga fram yfir tré. Skóg­ar­höggið er hafið og öll þessi tré eiga að fara og byggja úti­vist­ar­svæði með göngu­braut­um, birki­trjám og blóm­um.

For­sæt­is-, um­hverf­is- og orku­málaráðherra eru geng­in í lið með Ein­ari og krefjast aðgerða. Eyj­ólf­ur Ármanns­son sam­gönguráðherra hef­ur talað skýr­ast allra ráðherra fyrr og síðar, burt með trén. Marg­ir eru söku­dólg­ar í máli flug­vall­ar­ins en einn mann ber þar hæst, hann ætti að spyrja í dags­birtu hvaða skoðun hann hafi á hinni miklu neyðaraðgerð að höggva skóg­inn við þær aðstæður sem nú blasa við, eða lok­un neyðarbraut­ar­inn­ar? Og ann­arri enn mik­il­væg­ari neyðarbraut var áður fórnað og lokað.

Til ham­ingju Ein­ar Þor­steins­son borg­ar­stjóri, það er stál­vilji og virðing­ar­vert að hverfa frá völd­um og neita að bera ábyrgð þar sem harm­leik­ur get­ur átt sér stað á hverri stundu á skert­um ör­ygg­is­flug­velli Íslands í Reykja­vík. Ég vildi ekki bera ábyrgð á þeirri stöðu. En þú les­andi minn? Lesið svo sög­una á Vísi af Birni Sig­urði Jóns­syni sauðfjár­bónda þar sem lækn­ir hans sagði að tvær mín­út­ur hefðu skilið á milli lífs og dauða. Hjart­anu í Vatns­mýr­inni blæðir nú.

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Framsókn til forsætis

Deila grein

12/11/2024

Framsókn til forsætis

Íslend­ing­ar! Nú þurf­um við að hugsa okk­ar ráð!

Hver verður nú for­sæt­is­ráðherra fari kosn­ing­arn­ar á versta veg? Hvaða ein­stak­ling­ur og flokk­ur er lík­leg­ur til að geta leitt hér þriggja flokka stjórn, svo ekki sé talað um fjög­urra flokka stjórn? Stillið nú upp for­mönn­um flokk­anna og spyrjið ykk­ur sjálf hver þeirra sé lík­leg­ast­ur. Ég ef­ast ekki um að þar er Sig­urður Ingi Jó­hanns­son fremst­ur meðal jafn­ingja. Hann sýndi það vel 2016 þegar Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son varð að segja af sér, þá féll allt strax í ljúfa löð og þjóðin kunni að meta störf Sig­urðar Inga. Með hon­um sækja fram ráðherr­ar sem hver og einn hef­ur getið sér gott orð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, vara­formaður flokks­ins, hef­ur farið fyr­ir mik­illi sókn í menn­ingu og list­um. Lilja hef­ur verið talsmaður ís­lenskr­ar tungu og komið henni inn í gervi­greind og gogg­ul. Lilja stóð í stafni í Seðlabank­an­um þegar þjóðinni var bjargað af gjaldþrots­barmi 2013- 2016.

Will­um Þór Þórs­son er óum­deild­ur einn öfl­ug­asti heil­brigðisráðherra þess­ar­ar ald­ar. Hvar sem ég fer fær hann hrós lækna og heil­brigðis­starfs­fólks sem lausnamiðaður og að hann hafi komið mörg­um mál­um í höfn í starfi sínu, og fólkið vill sjá hann áfram í starfi heil­brigðisráðherra.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason hef­ur reynst íþrótta­hreyf­ing­unni öfl­ug­ur ráðherra og tekið að sér viðkvæm­asta og mik­il­væg­asta mála­flokk­inn, blessuð börn­in, og ekki síst þau sem eiga við erfiðleika að búa.

Halla Hrund klíf­ur tinda

Halla Hrund Loga­dótt­ir er nýr stjórn­mála­maður og magnaður talsmaður hug­sjóna og gilda sem snerta við hverj­um þeim sem hlust­ar á boðskap henn­ar. Hún tal­ar fyr­ir auðlind­um Íslands af meiri virðingu en flest­ir aðrir. Hún vill ekki vind­myll­ur á ann­an hvern hól. Hún tal­ar um land­búnað og bænd­ur af þrótti og ósk­ar þess að lands­menn beri sömu virðingu fyr­ir afurðum land­búnaðar­ins, skyr­inu, lamb­inu, ull­ar­vör­un­um og græn­met­inu, og Frakk­ar gera fyr­ir sín­um vör­um. Hún tal­ar fyr­ir land­vernd, grænni orku og nýt­ingu auðlind­anna af skyn­semi. Marg­ir flokk­ar hafa valið sér fræg and­lit en við fram­sókn­ar­menn setj­um fram konu sem klíf­ur tinda.

Fram­sókn­ar­menn og friðflytj­end­ur! Nú skul­um við efla þann flokk sem oft­ast hef­ur reynst best þegar þjóðin hef­ur staðið á sundr­ung­ar­barmi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn býður upp á lausn­ir í hús­næðismál­um unga fólks­ins, lækkaðan mat­ar­skatt, lægri vexti og að við kjós­um verðbólg­una burtu. Við vilj­um hvorki Trump­ista né sósíal­ískt þjóðfé­lag. Við vilj­um búa í sam­vinnu- og jafnaðarmanna­sam­fé­lagi þar sem at­vinna og at­vinnu­líf blómstr­ar. Send­um sund­ur­lynd­is­fjand­ann á fer­tugt dýpi og kjós­um með land­inu okk­ar og tæki­fær­un­um. Þegar öllu er á botn­inn hvolft er það Fram­sókn sem er besti kost­ur­inn.

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.