Categories
Fréttir Greinar

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Deila grein

09/12/2024

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Orðatiltækið „Köld eru kvenna ráð“ kemur úr Njálu og þar er átt er við að ráðleggingum kvenna sé ekki alltaf treystandi. Þessi fornu orð hafa lengi fylgt umræðum um ráðvendni og hlutverk kvenna en nútímarannsóknir sýna að þátttaka þeirra í ákvörðunum styrkir oft útkomur með breiðari sýn, aukinni samvinnu og sjálfbærri nálgun.

Nú, þegar þrjár sterkar konur freista þess að semja um stjórn landsins, er því áhugavert að velta fyrir sér hvort samstarfið geti markað þáttaskil í stjórnmálum Íslands. Gæti það skilað sér í nýrri tegund af kraftmikilli samvinnu á Alþingi? Munu leiðtogarnir jafnvel horfa til mála í stjórnarsáttmála sem voru ekki efst á baugi í kosningabaráttu þeirra en eru ákaflega brýn fyrir samfélagið á næstu árum?

Það er erfitt að spá fyrir um á þessari stundu. En með óbilandi trú á öflugri samvinnu má setja fram óskalista um málefni fyrir nýja ríkisstjórn að umvefja og gera að sínum – fyrir land og þjóð:

1Orkuöryggi almennings: Ef orkuöryggi almennings er ekki betur tryggt þá mun raforku verð til heimila, hárgreiðslustofa, matvöruverslana og garðyrkjubænda halda áfram að hækka. Við verðum að muna að þessi viðkvæmi hópur er í allt annarri samningsstöðu en mjög stórir raforkunotendur sem njóta langtímasamninga. Raforkukerfið okkar var hannað þannig að almenningur nyti verndar en árið 2003 var hún tekin af þegar við byrjuðum að innleiða orkupakka Evrópusambandsins. Margar leiðir eru þó í boði til að bæta stöðuna innan þess kerfis og það þarf að gera. Þetta mál ætti að vera í forgangi hjá nýrri ríkisstjórn.

2) Takmörkum jarðakaup erlendra aðila : Þegar við seljum jarðir úr landi þá seljum við auðlindir vatns, jarðhita og jarðefna með þeim. Það virðist kannski saklaust þegar ein og ein jörð er seld, en þegar fram í sækir teiknast upp heildarmynd sem hefur áhrif á auðlindastýringu og langtímahagsmuni Íslands. Þegar hafa tugir jarða verið seldar. Vöknum og bregðumst við, og lærum af öðrum þjóðum.

3) Nýsköpun-, mennta- og atvinnuþróun : Lífsgæði geta aukis víða um land með áherslu á nýsköpun. Eflum nýsköpunarhraðla og stýrum fjármagni til þeirra með atvinnuþróun á landsbyggð í huga; frá Suðurnesjum og hringinn í kringum landið. Ísland á til dæmis stór tækifæri í orku- og matvælatengdri nýsköpun til sjávar og sveita og við eigum að setja enn meiri kraft í að sækja þau. Sköpum hvata til að ungt fólk með fjölbreytta menntun flytji heim og móti framtíðar Marel og Kerecis. Styrkjum menntun á ólíkum stöðum á landinu fyrir slíka sókn svo sem í gegnum Garðyrkjuskólann í Hveragerði og Keili á Suðurnesjum.

4) Sókn í landbúnaði : Landbúnaður á undir högg að sækja, á sama tíma og okkur fjölgar hratt. Spurningin er; ætlum við að fæða þjóðina innfluttri matvöru eða skapa skilyrði þannig að fjölbreytt matvælaframleiðsla geti blómstrað og vaxið með okkur? Gleymum ekki að öflugur landbúnaður er hluti fæðuöryggi og getur dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda sem fylgir miklum vöruflutningum að utan. Einnig er fæðuframleiðsla hér lýðheilsumál því að í matvælaframleiðslu því lyfjanotkun er algengari erlendis og gæði vatns í framleiðslu ekki þau sömu. Jafnframt verðum við að átta okkur á að sókn í landbúnaði er líka einstaklega mikilvæg fyrir sjálfbærni ferðaþjónustu því að ferðamenn sækja ekki í tómar sveitir og innfluttan mat; heldur blómlega byggð og mat sem er ekta. Til að ná árangri á þessu sviði þarf meðal annars að huga að nýliðun og afkomu bænda, og lánakjörum til uppbyggingar.

5) Auðlindir og umhverfismál: Nýting auðlinda og virðing fyrir umhverfinu á að haldast í hendur. Tryggjum að uppbygging orkuinnviða á borð við flutningskerfi, sé í forgangi þar sem brýn þörf er á svo sem til Vestmannaeyja og Vestfjarða og tengjum landið okkar betur saman svo að nýtni raforkukerfisins aukist. Eflum fjölnýtingu jarðhita og skoðum tækifæri á jöldum svæðum. Sköpum hvata þannig að aukin raforkuframleiðsla rati í markmið stjórnvalda, hvort sem er fyrir atvinnuvegi eða orkuskipti, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Vöndum okkur í framkvæmd. Það er til dæmis ekki einstakri náttúru okkar í hag að teppaleggja landið með vindorkuverum en með skynsamri langtímahugsun er hægt að ná árangri í nýtingu án þess að slíta samfélög í sundur og náttúruna um leið. Útfærum lög þannig að ábati af raforkuframleiðslu rati til samfélagsins og skapi verðmæti í heimabyggð.

6) Framsækin ferðaþjónusta: Ferðaþjónusta er lífæð margra byggða og á mikið inni. Leggjum áherslu á gæði í ferðaþjónustu með sterkri framtíðarsýn. Breytumst ekki í „litlu Ameríku“ þar sem stór auglýsingaskilti og aðgangseyrir lita sífellt meira upplifum. Hægt væri til dæmis að skipta hóflegu gjaldi á hvern ferðamann niður á áfangastaði eftir rafrænni talningu heimsókna og koma þannig í veg fyrir bílastæðaposa við annan hvern hól. Höldum fast í frelsi þess að geta skoðað fallega landið okkar án slíkra takmarkanna.

7) Sterkir innviðir: Hinir mjúku innviðir samfélaga; læknar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og fjölbreyttir fagkennarar, allt frá stærðfræði yfir í tónlist, eru ekki síður mikilvægir og það að byggja brýr, göng og vegi. Aukum áherslu á að byggja upp mjúka og harða innviði á landsbyggðinni því þar verða verðmæti auðlinda til sem við treystum öll á. Sterk samfélög þjóna bæði heimamönnum og draga að hæfileikafólk sem efla atvinnu- og menningarlíf landsins enn frekar.

Til viðbótar við þennan lista má nefna mikilvæg málefni sem líklega eru þegar á dagskrá í viðræðunum – og eiga sannarlega heima þar:

7) Heima er best: Heimili eiga ekki að vera áhættufjárfesting. Setjum markið á langtíma óverðtryggð lán fyrir heimili og takmörkum samkeppni venjulegs fólks við fagfjárfestingar í fasteignum ætlaðar Airbnb. Setjum reglur þannig ekki sé braskað með lóðir því það hægir á framkvæmdum og hækkar fasteignaverð.

8) Grípum inn í fátækt: Fátækt skilur eftir sig opin sár meðal ungra og aldna sem gagnast engum í okkar ríka samfélagi. Hlustum á skýrt ákall eldri borgara og þeirra sem minna mega sín úr þessum kosningum. Finnum leiðir til að taka skýr skref sem oft tengjast dýrum húsnæðismarkaði.

9) Grunnskólinn sem griðastaður: Sterkt skólakerfi og fjárfesting í æskulýðsstarfi er besta forvörn sem völ er á og hér halda þarf áfram að sækja fram með metnaðarfullum hætti. Ljúkum við innleiðingu nýrra samræmdra prófa og verum leiðandi í framkvæmd símalausra skóla.

10) Tungumálið er hjarta menningar: Íslenskan er límið í menningu okkar. Eflum íslenskukennslu og komum á skýrum hvötum í atvinnulífi til að stuðla að lærdómi hennar svo allir eigi jafna möguleika. Hér getur fjárfesting í menningarstarfi og listum sem tengir saman Íslendinga og innflytjendur hjálpað. Fáum eldri borgara líka með í lið við talþjálfun innflytjenda með því að gefa þeim færi á að afla sér tekna án tekjuskerðingar. Þannig má draga úr einangrun og efla samveru á marga vegu.

Þessi málefnalisti, sem gæti verið mun lengri, á við sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Hann er þó settur fram með þá trú að við séum mögulega í dauðafæri að sjá fyrstu kvenleiddu ríkisstjórn Íslands fæðast, sem geti komist í sögubækurnar með því að slá nýjan tón í samvinnu og málefnaáherslur þvert á flokkadrætti. Stjórn þar sem mýtan „köld eru kvennaráð“ víkur fyrir breiðari áherslu á samstarf í útfærslu og framkvæmd stjórnarsáttmála. Sáttmála sem styðja má við og veita skýrt aðhald á þingi, samfélaginu okkar og framtíð til heilla.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Deila grein

27/11/2024

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Undanfarin þrjú ár hafa verið gefin út leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratuginn á undan.

Þetta sýnir gríðarlega uppbyggingu í orkumálum en dregur jafnframt fram alvarlegan vanda: ný raforka fer oftar en ekki til stórnotenda eins og gagnavera og stóriðju, í stað þess að styrkja innviði sem styðja við almenning, minni fyrirtæki og sjálfbæra framleiðslu. Þessi þróun krefst þess að stjórnmálamenn setji skýrar reglur og hafi pólitískan kjark til að tryggja jafnvægi í nýtingu auðlinda okkar.

Ógn við innlenda framleiðslu

Núverandi kerfi styður við að raforka sé seld hæstbjóðanda á markaði, án þess að veita heimilum og minni fyrirtækjum vernd. Þetta veldur því að mikilvægar greinar eins og matvælaframleiðsla – landbúnaður og garðyrkja, sem eru ekki í nokkurri samkeppnisstöðu gagnvart stórnotendum, verða út undan. Áhrifin eru alvarleg – mikilvægir samfélagsþættir eins og fæðuöryggi, lýðheilsa og sjálfbærni eru í hættu.

Að glata fæðuöryggi og fjölbreytni atvinnulífsins

Garðyrkjubændur og önnur matvælafyrirtæki geta ekki keppt við stórnotendur á orkumarkaði. Hækkun raforkuverðs um 15 til 25%, eins og við höfum verið að sjá undanfarið, grefur undan samkeppnishæfni þeirra og leiðir til hærra matvælaverðs fyrir neytendur og þyngri álaga á framleiðendur sem ógna framtíð þeirra. Í ofanálag tala sumir flokkar um að lækka tolla á innfluttri matvöru, sem gæti gjörbreytt landslagi íslenskrar matvælaframleiðslu.

Erum við tilbúin að fórna heilnæmri innlendri framleiðslu, sem er gjaldeyrissparandi, vistvæn og styður við sjálfbærni, markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum, fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðir landsins?

Nýjar virkjanir leysa ekki vandann einar og sér

Ný og ný virkjun leysir ekki grunnvandann því engin trygging er fyrir því að raforkan rati í samfélagslega mikilvæg verkefni. Eins og staðan er í dag fer orkan þangað sem best er boðið – til stórnotenda með langvarandi samninga og sterka stöðu. Hér er ekki verið að tala gegn fjölbreyttum hópi stórnotenda heldur því að gætt sé að minni aðilum sem ekki eru í sömu samningsstöðu á okkar einangraða raforkumarkaði.

Framkvæmdir sem bæta raforkuöryggi

Við þurfum að sjá til þess að orkan okkar rati til þeirra verkefna sem talað er fyrir. Sem orkumálastjóri samþykkti ég eina metnaðarfyllstu kerfisáætlun í langan tíma. Framkvæmd hennar mun bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og auka nýtingu orkuauðlinda um allt land – sem er lykilatriði fyrir atvinnulíf landsins. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut jafnframt því að skapa hvata til þess að orkan rati til samfélagslega mikilvægra verkefna.

Við höfum gengið of langt í að treysta á markaðslögmál án þess að innleiða varnir fyrir almenning og venjuleg fyrirtæki. Núverandi löggjöf gefur löndum skýrar heimildir til að vernda minni aðila. Fjöldi landa hefur nú þegar innleitt slíkar heimildir í sitt regluverk til að tryggja jafnvægi í notkun auðlinda sinna – Ísland ætti ekki að vera undantekning.

Tilgangur stóriðjustefnunnar var aldrei að skapa markað þar sem almenningur og minni framleiðendur væru skildir eftir á hliðarlínunni eða þyrftu að keppa við stórnotendur á samkeppnismarkaði um orkuna. Hún var hönnuð til að tryggja ódýra og örugga orku fyrir samfélagið allt, byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og efla efnahagslega sjálfbærni. Því verðum við að endurskoða núverandi regluverk og tryggja að það styðji við þessa grunnþætti.

Tími fyrir pólitískan kjark

Núverandi kerfi setur almannahagsmuni í hættu og grefur undan sjálfbærni Íslands ef ekki er gripið inn í. Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að íslenskur almenningur vill hvorki borga evrópskt raforkuverð né missa innlenda matvælaframleiðslu.

Stjórnvöld verða að axla ábyrgð og hætta að treysta á blind markaðslögmál. Þau þurfa að innleiða reglur sem tryggja forgang heimila, minni fyrirtækja og matvælaframleiðslu að raforku. Það er ekki nóg að byggja upp fleiri virkjanir ef ekki er tryggt að sú orka nýtist í þágu þeirra verkefna sem talað er fyrir og samfélagið kallar eftir.

Ég ætla að vera stjórnmálamaður sem vinnur í þágu almannahagsmuna, fjölbreytts atvinnulífs og innlendrar framleiðslu. Ég ætla að tryggja að íslenskur almenningur og venjuleg fyrirtæki hafi aðgang að raforku á sanngjörnum kjörum, svo við missum hvorki matvælaframleiðslu né sjálfbærni úr höndum okkar.

Við eigum ekki að láta tækifærin sem náttúran hefur gefið okkur fara forgörðum. Það er okkar ábyrgð að nýta þau skynsamlega – fyrir Íslendinga, atvinnulífið og komandi kynslóðir.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 25. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Teppa­leggjum ekki ís­lenska náttúru með vindorku

Deila grein

24/11/2024

Teppa­leggjum ekki ís­lenska náttúru með vindorku

Ímyndaðu þér íslenska náttúru, óspillta og einstaka, teppalagða með hundruðum háreistra vindmylla. Þær gnæfa yfir dali og fjallshlíðar en skila þjóðinni takmörkuðum arði og valda miklum deilum. Þetta er ekki framtíðarsýn sem við viljum – og stjórnmálamenn þurfa að gera betur.

Núverandi regluverk um vindorku tryggir ekki samfélagslegan ávinning og er ávísun á átök. Vindorka getur skapað verðmæti og útflutningstekjur en án skýrra leikreglna er hætta á að fórna verðmætum náttúruperlum fyrir illa ígrunduð verkefni. Við þurfum stefnu sem tryggir jafnvægi milli umhverfis, efnahags og samfélags. Sú er ekki raunin í dag.

Staðan í dag

Auðlindin vindur gerir íslenska náttúru berskjaldaða vegna sinnar sérstöðu sem felst í því að vera ekki bundinn ákveðnum stöðum, svo sem árfarvegi eða jarðhitasvæðum. Því er hægt að staðsetja vindorkuver mjög víða, og hefur skortur á framtíðarsýn leitt til þess að sprottið hafa upp tugir verkefna til skoðunar. Samþykki landeigenda þarf ekki að liggja fyrir til að virkjunarkostir séu teknir til skoðunar í rammaáætlun eða í ferli umhverfismats sem þýðir að hægt er að setja af stað matsferli án samráðs við landeiganda.

Ferðaþjónustuaðilar hafa oft haft samband við mig sem orkumálastjóra til að lýsa áhyggjum af áhrifum vindorkuvera í sínu nærumhverfi. Á sama tíma hafa bændur kvartað yfir háum kostnaði við umsagnir í flóknum matsferlum við verkefni sem geta haft áhrif á verðmæti og nyt þeirra jarða og ég sá samfélög trosna í deilum um slík verkefni.

Ábyrgð hverrar þjóðar að marka stefnu um staðsetningu vindorkuvera – ekki ESB

Evrópskt regluverk og löggjöf um raforku, sem Ísland hefur innleitt, leggur áherslu á græna orku og samkeppni í orkumálum en kveður ekki á um hvar vindorka skuli staðsett. Það er á ábyrgð hverrar þjóðar að taka afstöðu til slíkrar nýtingar og marka stefnu um staðsetningu. Stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér á bak við „frjálsa samkeppni“ sem réttlætingu fyrir því að leyfa vindorkuverum að rísa hvar sem er. Ábyrgð stjórnmálanna er óumdeilanleg.

Meira en allt uppsett afl íslenska raforkukerfisins

Samanlagt afl vindorkuverkefna í ferli er nú meira en allt uppsett afl íslenska raforkukerfisins, sem hefur byggst upp á mörgum áratugum. Vindmyllur, allt að 250 metrar á hæð, hafa veruleg áhrif á landslag, hljóðvist og fuglalíf.Því þarf vönduð skref fram á við.

Hagkvæm nýting

Við þurfum að forðast að óraunhæf verkefni tefji raunhæf áform innan stjórnsýslunnar sem gæti tekið áratugi að vinda ofan af. Til að tryggja ábyrga nýtingu þarf að skilgreina svæði þar sem vindorka er leyfð, í stað þess að einblína aðeins á að útiloka einstök svæði. Byggja þarf upp í skrefum en sú nálgun nýtir lærdóm fyrri verkefna. Hagkvæmni þarf einnig að vera tryggð frá upphafi með ítarlegum rannsóknum á vindgæðum, mati á fýsilegri stærð verkefna, tengikostnaði við flutningskerfi og þörf fyrir jöfnunarorku. Allir þessir þættir hafa áhrif á orkuverðið sem kemur úr framleiðslunni og þarf að vera samkeppnishæft fyrir heimili og atvinnulíf.

Vernd íslenskrar náttúru

Við megum ekki fórna íslenskri náttúru fyrir hraðsoðna vindorkugarða – verkefni sem hvorki hafa verið hugsuð til enda né mótuð um þau skýr stefna hvernig þau þjóna þjóðinni. Betra er að vinna verkefni í skrefum, hafa þau á ólíkum stöðum á landinu því að vindurinn blæs ekki alltaf á sama stað, til að jafna orkuna.

Lærdómur frá Noregi: Mistök sem við verðum að forðast

Vindorkan getur gefið möguleika á að styðja við orkuskipti og bæta orkuöryggi en ef svo á að vera þarf að marka leiðina almennilega. Nýlegt dæmi frá Noregi sýnir hvernig vanhugsaðar ákvarðanir geta valdið sundrung í samfélaginu. Til að gera langa sögu stutta þá hafði norskum almenningi verið talið trú um að uppbygging vindorkuvera gæti bætt orkuöryggi heimila og nýst til orkuskipta. En þegar vindorkuverin höfðu risið hækkaði orkuverð til almennings upp úr öllu valdi í kjölfar orkukrísunnar í Evrópu. Jafnframt kom á daginn að stærstur hluti vindorkunnar fór í að stækka samninga orkufreks iðnaðar í stað þess að nýtast heimilum. Norska þjóðin upplifði sig svikinn af loforðum um bætt orkuöryggi, snérist gegn frekari uppbyggingu vindorku, og traust á stjórnvöldum beið hnekki.

Norska vatna- og orkumálastofnunin (NVE) hefur gefið út upplýsingar um áhrif vindorkuvera á landnotkun. Samkvæmt NVE hafa vindorkuver í Noregi valdið því að um 385 ferkílómetrar teljast ekki lengur ósnortin náttúra. Það samsvarar um 54.000 fótboltavöllum en áhrifasvæðið sjálft er mun stærra.

Mistök Norðmanna eru dýrmæt lexía sem við verðum að nýta. Strax eftir kosningar þarf að tryggja að verkefnin þjónusti samfélagið. Öryggisventlar, sem veita almenningi forgang að orku, eru grundvallaratriði til að vindorkan stuðli að sátt og skapi raunverulegan ávinning fyrir þjóðina.

Samtímis má nýta hvata til að efla orkuskiptin sérstaklega, með uppbyggingu orkugjafans, eða til að styðja við önnur samfélagslega mikilvæg verkefni.

Ætlum við að gefa hafsvæði?

Einnig er tími til að ljúka við regluverk vindorku á hafi, en erlend orkufyrirtæki sækjast þegar eftir nýtingu hér við land og mikilvægt að við gefum ekki hafsvæði frá okkur ókeypis, heldur leigjum gegn gjaldi og í ákveðinn tíma líkt og aðrar þjóðir.

Hver græðir á vindorku?

Hvort vindorka verður raunveruleg auðlind fyrir samfélagið veltur alfarið á því hvernig nýting hennar er skipulögð. Hingað til hefur nýting orkuauðlinda á Íslandi skilað samfélaginu beinum arði, meðal annars í gegnum fyrirtæki sem eru í eigu þjóðarinnar eða sveitarfélaga. Með vindorkunni birtist hins vegar ný mynd, þar sem flest verkefni eru í höndum einkaaðila. Þessi breytta mynd á grundvallarinnviðum þjóðarinnar hefur birst án þess að nokkur umræða hafi farið fram um hana. Það þýðir einnig að beinn arður af auðlindinni fer síður til samfélagsins, nema sérstakar reglur séu settar. Þegar um auðlindanýtingu er lágmark að útfæra löggjöf þannig að auður streymi áfram til þjóðarinnar og ekki síst nærsamfélaga. Það hefur ekki enn verið gert.

Vindorka sem viðbót við orkukerfið

Við þurfum að fara rétt að hlutunum í upphafi. Við Íslendingar eigum fjölda dæma þar sem farið hefur verið í uppbyggingu verkefna án þess að rammi hafi verið settur um þau. Við vitum hve erfitt er að breyta slíku eftir á og að lagaleg óvissa er skaðleg bæði fyrir þá sem eru með og á móti verkefnum. Í slíku ástandi hafa skapast átök sem rista djúpt í hjörtum samfélaga og stundum í allri þjóðarsálinni. Við þurfum ekki að endurtaka slíkt. Ef almennilega er staðið að málum getur vindorka orðið mikilvæg viðbót við vatnsafl og jarðhita, sérstaklega yfir vetrartímann þegar lón eru undir álagi. Með ábyrgri nýtingu á völdum stöðum getum við styrkt raforkukerfið og minnkað þörf fyrir innflutning jarðefnaeldsneytis. Vindorkuver eins og Búrfellslundur, sem líklega verður fyrsta stóra vindorkuverið hérlendis, gefur okkur tækifæri til að læra og móta framtíðina.

Með skýrri stefnu getum við nýtt vindinn sem auðlind sem tryggir jafnvægi milli náttúru og samfélags. Til að svo megi verða þarf pólitískan kjark og fyrirhyggju í útfærslu og skipulagi.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Eld­gos og inn­viðir: Tryggjum öryggi Suður­nesja

Deila grein

21/11/2024

Eld­gos og inn­viðir: Tryggjum öryggi Suður­nesja

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að tryggja öryggi samfélagsins. Frá því að eldgosin á Reykjanesi hófust hef ég sem orkumálastjóri lagt ríka áherslu á orkuöryggi svæðisins og unnið að fjölda verkefna sem mörg hver hafa nú þegar orðið að veruleika í samvinnu við ráðuneyti, almannavarnir, stofnanir og fyrirtæki. Þessi vinna er lykilatriði til að tryggja að allir geti ávallt treyst á heitt og kalt vatn, rafmagn – og jólaljós – í sínum heimahögum.

Sem stjórnmálamaður mun ég halda áfram að leggja áherslu á orkuöryggi og öfluga og sveigjanlega innviðauppbyggingu á svæðinu. Orkuöryggi er spurning um öryggi og lífsgæði. Við vonum alltaf það besta, en undirbúum okkur fyrir það versta – fyrir Suðurnesin, fyrir Ísland.

Hvað hefur áunnist – fyrirhyggja í aðgerðum

Þrátt fyrir áskoranir hefur verið unnið markvisst að því að draga úr áhættu og styrkja innviði á Suðurnesjum.

  • Varavatnsból við Árnarétt í Garði: Nýtt varavatnsból tryggir vatnsöryggi í tilfelli hraunflæðis eða skemmda á vatnsæðum.
  • Neyðarhitarar: Neyðarhitarar hafa verið keyptir til að halda húsnæði ofan við frostmark ef kerfisbilun verður.
  • Verndun Njarðvíkuræðarinnar: Njarðvíkuræðin hefur verið fergð til að tryggja stöðugan flutning heits vatns í neyðartilfellum, en ljóst er að frekari ráðstafanir þurfa að fylgja.
  • Samráð og neyðarviðbrögð: Orkustofnun hefur unnið með almannavörnum, HS Orku og HS Veitum að áætlunum til að tryggja vatns- og hitaveitu í verstu aðstæðum.
  • Nýjar borholur: Nýjar borholur hafa verið boraðar til að auka nýtingu jarðhita og styrkja stöðugleika hitaveitunnar.

Hvað þarf að gera – langtímalausnir fyrir Suðurnes

Næstu skref fela í sér að tryggja varanlegar lausnir:

  • Suðurnesjalína 2: Koma þarf þessu lykilverkefni úr kæruferli og í framkvæmd til að styrkja raforkuflutning innan svæðisins og milli virkjana.
  • Stærri neyðarbúnaður: Skoða þarf fjárfestingu í varaafli og búnaði til að mæta hugsanlegum neyðartilvikum.
  • Þróun Krýsuvíkursvæðisins: Auka þarf þróun Krýsuvíkursvæðisins sem tengipunkts til að styrkja orkuöryggi Reykjaness og Suðurnesja.
  • Langtímalausnir fyrir orkuöryggi: Halda þarf áfram þróun nýrra jarðhitakosta á Reykjanesi og tengja hitaveitukerfi við fleiri orkulindir til að tryggja sjálfbærni og öryggi.
  • Samvinna og stefnumótun: Halda áfram markvissu samstarfi við ráðuneyti, sveitarfélög og fyrirtæki til að styrkja innviði og viðbúnað í ljósi náttúruvár.

Sameiginlegt verkefni allra

Það er ljóst að tryggt orkuöryggi er sameiginlegt verkefni okkar allra. Viðbrögð stjórnvalda og samstarf opinberra aðila, fyrirtækja og sveitarfélaga er lykilatriði til að tryggja að nauðsynlegar leyfisveitingar og framkvæmd nauðsynlegra aðgerða tefjist ekki.

Betur má ef duga skal

Við höfum þegar séð hvernig velgengni í neyðarviðbrögðum, eins og með varaafli fyrir Svartsengisvirkjun, hefur tryggt að íbúar á Suðurnesjum hafi ekki orðið fyrir truflunum í grunnþjónustu. Samt sem áður er ljóst að betur má ef duga skal og þar gegna stjórnmál mikilvægu hlutverki.

Svartsengi og Reykjanesvirkjun – lífæðar svæðisins í þrengingum

Svartsengi og Reykjanesvirkjun eru lykilinnviðir á Suðurnesjum og fyrir Ísland. Svartsengi framleiðir bæði heitt vatn og rafmagn fyrir heimili, fyrirtæki og hitaveitukerfi svæðisins. Heitavatnsframleiðslan byggir á bæði köldu vatni úr Lágum, norðvestan við Svartsengi, og rafmagni frá Svartsengislínu. Reykjanesvirkjun gegnir mikilvægu hlutverki í raforkuframleiðslu og tengingu svæðisins við landsnetið. Þessir innviðir eru lífsnauðsynlegir fyrir stöðugleika samfélagsins og getu þess til að takast á við óvænt áföll.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður, þar sem hraun frá eldgosi hefur þegar runnið yfir bæði kalda- og heitavatnslagnir ásamt því að Svartsengislína féll út, hefur tekist að viðhalda heitavatnsframleiðslu í Svartsengi að mestu en áhættan er áþreifanleg.

Njarðvíkuræðin og varavatnsból – lykilþættir í vatnsöryggi

Njarðvíkuræðin hefur verið fergð og varin gegn hraunflæði til að tryggja öryggi vatnsflutninga á Suðurnesjum. Þessi aðgerð er lykilatriði í því að viðhalda stöðugri þjónustu til heimila. Auk þess hefur verið komið upp varavatnsbólum, svo sem við Árnarétt í Garði, sem tryggja vatnsöryggi ef skemmdir verða á kerfinu. Þessar aðgerðir, sem unnar hafa verið í nánu samstarfi opinberra aðila og einkaaðila, hafa skilað áþreifanlegum árangri í því að styrkja grunninnviði svæðisins. Þær undirstrika mikilvægi samvinnu og markvissra aðgerða til að mæta náttúruvá og tryggja lífsgæði íbúa. Framhald er nauðsynlegt til að viðhalda þessum árangri og tryggja að Suðurnesin geti staðist framtíðaráskoranir.

Langtímalausnir og framtíðarsýn

Til að byggja upp varanlega lausn þarf að þróa innviði á svæðinu frekar, svo sem með nýtingu jarðhita á fleiri stöðum og tengingu hitaveitukerfa við fleiri orkulindir. Þannig tryggjum við öryggi og sjálfbærni. Þannig verður samfélagið betur í stakk búið til að takast á við náttúruvá og ófyrirséðar áskoranir.

Sem stjórnmálamaður í Suðurkjördæmi mun ég halda áfram að vinna að hagsmunum Reykjaness. Að tryggja heitt vatn, rafmagn og grunnþjónustu er spurning um öryggi og lífsgæði. Betur má ef duga skal!

Halla Hrund Logadóttir
, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

„Hve­nær var þetta sam­tal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn

Deila grein

17/11/2024

„Hve­nær var þetta sam­tal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn

Í vikunni heimsótti ég garðyrkjubændur á Suðurlandi. Úti var dimmur nóvember og veturinn minnti á sig með ísköldum vindkviðum, en inni í gróðurhúsunum ríkti hlýja og birta. Þar var lífið fullt af litum og ferskum ilmi. Það er alltaf jafn heillandi að sjá hvernig jarðhiti og hrein orka landsins skapa þessar ótrúlegu aðstæður sem við Íslendingar höfum byggt upp.

Samt er það ekki þessi hlýlega stemning sem er efst í huga mér heldur spurning sem einn garðyrkjubóndinn varpaði fram í umræðum um raforkumál. Þar ræddum við hvernig almenningur og minni fyrirtæki eiga sífellt erfiðara með að tryggja sér raforku á hagkvæmum kjörum vegna aukinnar samkeppni við stórnotendur, meðal annars garðyrkjubændur sem leika lykilhlutverk í grænmetisframleiðslu landsins og styðja þannig við fæðuöryggi, lýðheilsu og loftslagsmál og færa okkur litagleði blóma víða sömuleiðis. Hann spurði: „Hvenær var þetta samtal tekið, vill þjóðin þetta?“

Þessi spurning hefur setið í mér síðan. Hún hitti beint í hjartastað vegna þess að hún snertir kjarna þess sem ég glímdi við sem orkumálastjóri – hvernig við tryggjum að raforka, þessi sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sé nýtt í þágu almennings og smærri fyrirtækja, frekar en að lúta markaðslögmálum þar sem þeir sterkustu ráða ferðinni. Til að skilja hvernig við komumst á þennan stað þurfum við að líta til baka.

Ábyrgðarleysi gagnvart orkuöryggi almennings

Árið 2003 var Landsvirkjun leyst undan þeirri lagalegu skyldu að tryggja orkuöryggi almennings. Með innleiðingu raforkutilskipana Evrópusambandsins í íslensk lög var ábyrgðin færð frá einni stofnun án þess að hún væri sett í hendur annars aðila. Þetta hefur skapað pólitískt tómarúm sem hefur skilið almenning eftir berskjaldaðan – án trygginga um orkuöryggi.

Margir kostir hafa fylgt þessari löggjöf og innan hennar eru heimildir sem hægt er að nota til að tryggja forgang almennings en samt ríkir þetta tómarúm enn í dag. Enginn hefur formlega skyldu til að tryggja að heimili og lítil fyrirtæki njóti aðgangs að nægri orku, jafnvel í neyðarástandi.

Ólíkt því sem víða þekkist eru stórnotendur hér, svo sem álver og gagnaver, ráðandi í raforkunotkuninni. Þeir nýta 80 prósent allrar raforku á Íslandi, önnur fyrirtæki um 15 prósent og heimili einungis 5 prósent. Undanfarið hefur ásókn í orku hér á landi vaxið mjög á sama tíma og við höfum verið að glíma við náttúrulegar áskoranir eins og sögulega lága vatnsstöðu í lónum.

Heimilin senda ekki lögmann til samningagerðar um orkuverð

Sem orkumálastjóri fékk ég oft spurninguna: „Af hverju tryggir þú ekki að nóg sé virkjað?“ Staðreyndin er sú að á síðustu þremur árum hafa verið gefin út leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratuginn á undan. Fjöldi nýrra verkefna er í undirbúningi. Hins vegar leysir ný og ný virkjun ekki grunnvandann.

Ný framleiðsla fer einfaldlega þangað sem hæst verð er boðið. Stórnotendur, sem hafa sterka samningsstöðu og fjárhagslegan styrk, tryggja sér forgang með langvarandi samningum. Þetta þýðir að:

  • Orkan getur farið beint í stór verkefni, eins og stóriðju eða útflutning, í stað þess að styðja við almennar þarfir.
  • Minni orkunotendur, eins og grænmetisbændur, lítil og meðalstór fyrirtæki eða heimili, sitja eftir með sama ótrygga aðgang og áður.

Almenningur hefur engan lögmann sem semur fyrir þeirra hönd eða tryggir hagstæða skilmála á orkuverði langt fram í tímann. Venjulegt fólk og slík fyrirtæki treysta því á að stjórnvöld taki þessa ábyrgð að sér og gæti hagsmuna þeirra.

Getum við sætt okkur við að framtíð íslensks atvinnulífs og auðlindanýtingar sé ákvörðuð án þess að þjóðin fái að segja sitt álit? Höfum við raunverulega tekið umræðuna um það hvort við séum tilbúin að fórna garðyrkjubændum okkar, litlum fyrirtækjum og fjölbreyttu atvinnulífi fyrir hámarksarðsemi? Það er ekki lýðræði – það er tómlæti.

Almannahagsmunir mega ekki sitja á hakanum. Við þurfum að spyrja okkur: Viljum við samfélag sem stendur vörð um fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun og sjálfbærni – eða samfélag sem leyfir stærstu aðilunum að stjórna því hvernig við viljum haga framleiðslu okkar og áherslum?

Skortur á stefnu í þágu almennings

Mikið er talað um mikilvægi grænnar orkuöflunar fyrir orkuskipti og heimilin í landinu, þótt vitað sé að það eru ekki þessir aðilar sem geta borgað hæsta verðið fyrir orkuna. Ný uppbygging tryggir því ekki að orkan rati í þau verkefni sem sagt er að eigi að virkja fyrir.

Nýlegt dæmi um þá sundrung sem getur skapast þegar almenningi þykir á hagsmunum annarra troðið má finna í Noregi. Þar snerist almenningur harkalega gegn orkumálunum þegar orkuverð til heimila rauk upp úr öllu valdi í orkukrísunni og skortur var á vernd fyrir almennan notanda.

Auk þess hafa skapast miklar deilur um þróun vindorku í Noregi. Þar hefur allt að 70% af raforkuframleiðslu vindorkuvera farið til stækkunar orkufreks iðnaðar, en almenningur upplifir sig svikinn af fölskum loforðum um að þessi uppbygging myndi bæta orkuöryggi þeirra. Þetta hefur valdið djúpstæðum átökum og traust á stjórnvöldum hefur beðið hnekki.

Þess vegna skiptir sköpum að innleiða öryggisventla sem tryggja almenningi skjól og forgang í orkumálum. Slíkir ventlar gera það ekki aðeins mögulegt að beina nýrri orku í verkefni sem þjóna samfélaginu og grænum orkuskiptum, heldur stuðla einnig að því að heimilin og minni aðilar hafi raunverulegan ávinning af uppbyggingu orkukerfisins. Þegar slíkt jafnvægi er til staðar minnka líkurnar á átökum og vantrausti gagnvart nýjum nýtingarmöguleikum.

Að tryggja almenningi ávinning og vernd í þessum málaflokki er ekki aðeins réttlætismál heldur lykill að því að byggja upp traust og stuðla að þróun sem er til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir sem allir ættu að geta sameinast um.

Rifjum upp tilgang stóriðjustefnunnar

Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar, lýsti tilgangi stóriðjustefnunnar sem leið stjórnvalda til að nýta íslenskar orkuauðlindir á hagkvæman hátt og stuðla að efnahagslegum framförum. Í viðtali við Frjálsa verslun árið 2019 sagði hann:

„Markmiðið var að gera okkur kleift að ráðast í hagkvæma stórvirkjun með því að selja verulegan hluta orkunnar til orkufrekrar stóriðju. Þannig var annars vegar komið á fót nýjum útflutningsatvinnuvegi, en hins vegar tryggð hagkvæm raforka fyrir innlenda markaðinn.“

Hann bætti við að með sölu á orku til nýrrar stóriðju hefði bæði verið hægt að koma á nýjum útflutningsiðnaði og tryggja ódýra orku fyrir innlendan markað um langa framtíð.

Þegar við skoðum fortíðina sjáum við hvernig fyrri kynslóðir lögðu grunn að því orkuöryggi sem við njótum í dag. Vel er vitað að orkuöryggi Íslendinga í dag er ekki síst afrakstur orkufrekrar iðnaðaruppbyggingar fyrri kynslóða. Sú hugsun fyrirrennara að byggja upp iðnað, en á sama tíma hlúa ætíð um leið að orkuöryggi almennings, lagði mikilvægan grunn að þeim lífsgæðum sem við búum við í dag, eins og kemur glögglega fram í ævisögu Jóhannesar Nordal. Eða eins og Steingrímur Hermannsson sagði árið 1977 í ræðu um skipulag orkumála: Markmiðið var að tryggja að „allir landsmenn gætu haft aðgang að nægri orku, öruggri orku og ódýrri orku.“

Flestum er ljóst að fjölbreyttur iðnaður á Íslandi er mikilvægur fyrir nútíð og framtíð landsins. Hins vegar er jafn ljóst að stefna okkar í orkumálum þarf að byggja á samhug og skýrri forgangsröðun, þar sem hagsmunir almennings og smærri fyrirtækja eru tryggðir. Að stuðla að sundrung og skipa í fylkingar getur vart talist gott veganesti fyrir frekari uppbyggingu orkumála hér á landi. Við þurfum að læra af fortíðinni, nýta þá reynslu og tryggja að framtíðarsýn okkar taki mið af þörfum allra.

Tilgangur stjórnvalda með því að fá stórfyrirtæki hingað til lands til að byggja upp stóriðju var ekki að íslenskur almenningur myndi keppa við þau um orku á samkeppnismarkaði, eins og sumir fulltrúar stjórnmálanna virðast halda. Heldur var tilgangurinn að efla íslenskt atvinnulíf, að almenningur nyti góðs af uppbyggingu dreifkerfisins og að samfélagið allt myndi njóta efnahagslegs ávinnings af starfseminni og hafa eitthvað um hana að segja.

Þegar um er að ræða auðlindir í þjóðareign er ekki hægt að sætta sig við að almenningur og venjuleg fyrirtæki séu skilin eftir á hliðarlínunni – áhrifalaus og áhorfandi að því hvernig framtíð þeirra er mótuð án þeirra þátttöku.

Og eitt til viðbótar: Bæði Jóhannes Nordal og Steingrímur Hermannsson lögðu áherslu á mikilvægi þess að tryggja jafnvægi milli nýtingar auðlinda og náttúruverndar í ræðum og skrifum sínum.

Þörf á skýrum forgangi

Í starfi mínu sem orkumálastjóri lagði ég mikla áherslu á að tryggja raforkuöryggi fyrir almenning. Ég talaði fyrir því að setja öryggisventla í kerfið – reglur sem myndu tryggja að heimili og minni fyrirtæki fengju raforku í forgangi, sérstaklega á tímum umframeftirspurnar. Þessar tillögur mættu þó andstöðu.

Meðal annars var ég kölluð „skömmtunarstjóri ríkisins“ fyrir það eitt að leggja til að stórnotendur gætu ekki gert nýja samninga á kostnað almennings. En ég trúi því að forgangur heimila og minni fyrirtækja sé ekki skömmtun – það er sanngirni og almannahagsmunir!

Í íslenskri orkustefnu er skýrt kveðið á um að heimili eigi að njóta forgangs og fyrir þeirri stefnu tala ég. En á meðan engar reglur styðja þessa stefnu og enginn stjórnmálamaður talar fyrir henni er hún bara orð á blaði. Eins og fulltrúi Landsvirkjunar sagði nýlega: „Það blasir við að ef aðrir framleiðendur draga úr sölu á raforku inn á almenna markaðinn og selja hana þess í stað til stórnotenda, ógnar það raforkuöryggi almennings.“ Ég benti á þetta fyrir ári síðan en sem embættismaður gat ég ekki tekið endanlegar ákvarðanir eða breytt löggjöf. Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að bregðast við.

Eitt helsta erindi mitt í íslensk stjórnmál er að tryggja að hagsmunir almennings mæti ekki afgangi stjórnmálamanna. Ég ætla mér ekki að vera stjórnmálamaður sem stýrist af háværustu hagaðilum með mestu áhrifin í bakherbergjunum. Ég ætla mér að vera stjórnmálamaður sem vinnur í þágu allra landsmanna.

Tími til að hefja samtalið

Spurning garðyrkjubóndans situr enn í mér: „Hvenær var samtal tekið við þjóðina?“ Þetta samtal hefur aldrei verið tekið. Þjóðin hefur ekki verið spurð hvernig við viljum nýta auðlindir okkar eða hverjir eiga að njóta þeirra mest. Það er kominn tími til að breyta því.

Raforka er ekki bara vara sem seld er til hæstbjóðanda. Hún er lífæð samfélagsins, grundvöllur daglegs lífs og atvinnurekstrar. Nú þarf að tryggja að allir njóti góðs af henni. Líka venjuleg fyrirtæki, garðyrkjubændur og heimilin í landinu.

Viljum við verða verstöð fyrir erlenda fjárfestingasjóði, þar sem við seljum auðlindir okkar sem hrávöru til hæstbjóðanda, eða viljum við byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem styður við nýsköpun, minni fyrirtæki, virðisaukandi framleiðslu og gjaldeyrissparandi starfsemi? Þetta er ekki aðeins spurning um hagnað eða markaðslögmál – þetta er spurning um stefnu, gildi og framtíðarsýn fyrir Ísland.

Raforka á ekki að vera lúxusvara sem einungis þeir sterkustu geta leyft sér að nýta á sínum forsendum. Hún er réttur allra landsmanna, réttur sem stjórnvöld verða að tryggja með skýrum reglum.

Garðyrkjubóndinn spurði: „Hvenær var samtal tekið við þjóðina?“ Nú er kominn tími til að svara þeirri spurningu með aðgerðum, ekki bara orðum. Við þurfum að setja hagsmuni almennings í fyrsta sæti, tryggja réttláta nýtingu auðlinda og byggja upp samfélag sem veitir öllum tækifæri til að njóta góðs af þeim lífsgæðum sem náttúra okkar býður upp á. Þetta er spurning um réttlæti, sjálfbærni og framtíðarsýn – og framtíðin byrjar núna.

Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri og oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Deila grein

10/11/2024

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Við í Suðurkjördæmi búum á heitasta svæði landsins, þar sem fjögur háhitasvæði og jarðvarmavirkjanir veita okkur einstaka orkuauðlind. En það er ekki nóg að nýta þessar auðlindir eingöngu til rafmagnsframleiðslu eða húshitunar – við verðum að gera meiri kröfur um fjölbreyttari og ábyrgari nýtingu þeirra en nú er gert, sem skilar sér í auknum samfélagslegum verðmætum og fjölbreyttum störfum fyrir alla.

Við jarðvarmavinnslu verða til ýmis steinefni, eins og kísill, sem hafa mikla möguleika í framleiðslu á verðmætum iðnaðar- og heilbrigðisvörum. Ef við getum fullnýtt þessi efni hér á landi með nýsköpun og þróun getum við skapað störf á sviði heilsu-, efna- og byggingariðnaðar í Suðurkjördæmi. Slík nýting stuðlar að fjölbreyttara atvinnulífi, eflir sjálfbærni svæðisins og byggir undir sjálfstæði og stöðugleika heimabyggðar.

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi til framtíðar

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ættu að vera leiðarljós þegar kemur að nýtingu auðlinda á landsbyggðinni. Með því að nýta glatvarma frá gagnaverum og orkuverum, til dæmis í gróðurhúsaræktun eða öðrum verkefnum, getum við skapað fleiri störf án þess að auka orkunotkun. Þannig eykst fjölbreytni atvinnulífsins og nýsköpun í heimabyggð, sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun og dregur úr álagi á náttúruna.

Stuðningur við fjölbreytt atvinnulíf og samfélagslegan ávinning

Þegar við beinum jarðvarmanýtingu ekki aðeins í rafmagnsframleiðslu heldur einnig í iðnað, landbúnað og heilbrigðistengd verkefni, skapast tækifæri fyrir fjölbreyttara og sjálfbærara atvinnulíf. Þessi fjölbreytta nýting auðlinda getur byggt upp sjálfstæð samfélög þar sem aðstæður fyrir heimamenn styrkjast og ný atvinnutækifæri verða til í heimabyggð.

Þetta hefur ekki einungis efnahagslega þýðingu heldur einnig félagslega. Með því að skapa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri gerum við svæðið aðlaðandi fyrir nýja íbúa, þar með talið unga fólkið sem oft flytur í annað í leit að starfi. Fjölbreyttnin eflir grunnstoðir sveitarfélaganna og bætir lífsgæði íbúa, þar sem fjölbreytt atvinnulíf veitir stöðugleika og sjálfbærni.

Styrking sveitarfélaga og sjálfstæð samfélög

Fjölbreytt nýting á auðlindum stuðlar að því að sveitarfélög í Suðurkjördæmi verði ekki aðeins orkuveitur fyrir aðra landshluta heldur verði sjálfstæð, öflug samfélög með blómstrandi atvinnulífi og sjálfbærum innviðum. Með þessu tryggjum við sterkari byggðir og lífvænleg samfélög, þar sem íbúar sjá tækifæri í þeirri þróun sem fram undan er. Sjálfbær samfélög á landsbyggðinni eru forsenda fyrir sterku og lífvænlegu Íslandi til framtíðar.

Tækifærin eru fjölmörg og við eigum öfluga sögu um verðmætasköpun í kringum þekkingu á jarðvarma til að byggja á. Með því að tengjast háskólum og rannsóknarstofnunum má stuðla að þróun nýrra og ábyrgra lausna fyrir jarðvarmanýtingu og sjálfbæran iðnað. Þannig skapast vettvangur fyrir nýsköpun á sviðum eins og efnafræði, umhverfisverkfræði og grænum iðnaði. Slíkt samstarf gerir svæðinu kleift að nýta þá sérstöðu sem það hefur til að leggja sitt af mörkum í alþjóðlegri umhverfisstefnu og sjálfbærni. Með fjárfestingum í rannsóknastarfsemi og frumkvöðlastarfi getur Suðurkjördæmi orðið leiðandi á sviði sjálfbærrar nýtingar og hringrásarhagkerfis, sem ekki aðeins styrkir svæðisbundinn efnahag heldur einnig heildarþróun Íslands í átt að sjálfbærari framtíð.

Hvatning til fjárfestinga í sjálfbærri framleiðslu

Til að nýta auðlindir Suðurkjördæmis á ábyrgan hátt þarf einnig að stuðla að aukinni fjárfestingu í sjálfbærri framleiðslu og nýsköpun. Samstarf milli stjórnvalda, fjármálastofnana og einkageirans er lykilþáttur í að skapa hagstæða umgjörð fyrir svæðisbundna nýsköpun og efla nýtingu náttúruauðlinda á Suðurnesjum. Markviss fjárfesting í grænum iðnaði getur aukið fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins og dregið úr einhæfri nýtingu jarðhitaauðlinda.

Stuðningur við nýsköpun í heilbrigðistækni, líftækni og matvælaframleiðslu getur byggst á jarðvarma og öðrum náttúrulegum auðlindum svæðisins. Með markvissri stefnumörkun og fjárfestingaráætlunum er mögulegt að laða að frumkvöðla og fyrirtæki sem leggja áherslu á umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir. Þannig skapast fjölbreyttara atvinnulíf sem þjónar samfélaginu á margþættan hátt og styrkir efnahagslega sjálfbærni Suðurkjördæmis til framtíðar.

Framtíðin er ábyrg nýting – fyrir samfélagið og komandi kynslóðir

Við skulum gera kröfur um ábyrga og fjölbreytta nýtingu auðlinda í Suðurkjördæmi, þar sem nýsköpun, sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ganga hönd í hönd. Með því að skapa tækifæri fyrir fjölbreytt störf og verðmætasköpun tryggjum við að auðlindir okkar þjóni samfélaginu á margbreytilegan hátt. Þetta er framtíðin sem við stefnum að – framtíð þar sem landsbyggðin blómstrar og auðlindir okkar eru nýttar á ábyrgan hátt til hagsbóta fyrir alla.

Halla Hrund Logadóttir og Fida Abu Libdeh eru fyrrverandi orkumálastjóri, orku- og umhverfistæknifræðingur og skipa 1. og 4. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.