Categories
Fréttir Greinar

Til hamingju Víkingur Heiðar!

Deila grein

29/10/2025

Til hamingju Víkingur Heiðar!

Árið 2008 hitti ég Víking Heiðar í fyrsta sinn. Hann tók þátt í tónleikaröð fyrir rísandi stjörnur í klassískri tónlist, en viðburðurinn var hluti af sérstakri menningarhátíð sem ég átti þátt í að undirbúa í Brussel. Þarna birtist þessi hógværi hlýlegi maður og spilaði einstaklega fallega fyrir nokkuð stóran hóp í sal eins helsta menningarhúss Brussel, Palais de Bozar.

Nú, tæpum 18 árum síðar, var ég viðstödd þegar Víkingur Heiðar hlaut verðlaun Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann er ekki lengur rísandi stjarna, hans stjarna skín skærar sem aldrei fyrr eins og birtist nú með viðurkenningu Norðurlandaráðs en ekki síður í gullverðlaunum Konunglega fílharmóníufélagsins í London og Grammy verðlaunum; en þetta eru aðeins dæmi um þær mörgu alþjóðlegu viðurkenningar sem Víkingur Heiðar hefur hlotið. Hann fyllir tónleikasali hvar sem er í veröldinni, allt frá Belgíu yfir til Bandaríkjanna og Japan og þúsundir hrífast með.

Saga Víkings Heiðars minnir okkur á mikilvægi tónlistarnáms og aðgengi þess fyrir alla óháð efnahag. Hún minnir okkur líka á þá gjöf sem felst í því að búa í samfélagi þar sem við getum ræktað ólík áhugasvið sem oft eru ekki endilega fjárhagslega arðbær eða örugg leið. Síðast en ekki síst minnir saga Víkings okkur á mikilvægi þess að hafa ástríðu og metnað fyrir því sem við vinnum að.

Í ræðu Víkings Heiðars, sem flutt var af sendiherra Íslands í Svíþjóð þar sem Víkingur Heiðar er við tónleikahald í Bandaríkjunum, kom sérstaklega fram mikið þakklæti til allra þeirra sem hafa hjálpað honum að ná árangri í gegnum tíðina. Með þeim ársngri hefur Víkingur Heiðar svo sannarlega lýst upp íslenskt tónlistarlíf og orðið öðrum hvatning og innblástur.

Til hamingju Víkingur Heiðar. Þú ert þjóðinni til sóma.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ég þarf ekki að læra ís­lensku til að búa hérna

Deila grein

25/10/2025

Ég þarf ekki að læra ís­lensku til að búa hérna

„Ég þarf ekki að læra íslensku til að búa hérna,“ sagði leigubílstjórinn og brosti í baksýnisspeglinum.

Hann hafði búið hér í nokkur ár, talaði varla orð á íslensku en var augljóslega metnaðarfullur og hlýr ungur maður. Hann kom frá Evrópu og í heimalandi sínu hafði hann starfað í slökkviliðinu en kom hingað í leit að betra lífi. Með þrautseigju í byggingarvinnu og leigubílaakstri hafði hann náð því sem marga Íslendinga dreymir um – hann hafði keypt sér íbúð.

Þegar ég spurði hvort hann ætlaði þá að setjast hér að, svaraði hann án hiksta: „Já, Ísland er frábært land, hér er gott að búa.“

En þegar ég spurði hvort hann ætlaði að læra íslensku svaraði: „Við hvern á ég eiginlega að tala? Ég þekki engan Íslending.“

Hann sagðist hafa farið á ýmis námskeiði en aldrei ná að æfa sig. „Vinir mínir eru allir frá öðrum löndum og utan vinnu kemst maður ágætlega af með ensku.“

Byggjum brýr tungumálsins

Ég hugsaði um orð hans lengi eftir ferðina.

Þetta er ekki einstök saga. Ég hef heyrt hana aftur og aftur, sögur fólks sem elskar landið en lifir samt lífi sínu á landinu utan tungumálsins. Við finnum öll að íslenskan á í vök að verjast í daglegu lífi.

Erlendu vinnuafli hefur fjölgað um 50.000 manns á örfáum árum. Hlutfall erlendra íbúa nálgast nú fimmtung þjóðarinnar. Það er hraðari breyting en í flestum Evrópulöndum.

Langflestir koma hingað til að leggja samfélaginu lið, vinna í heilbrigðiskerfinu, byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Þeir eru ómissandi hluti af daglegu lífi okkar. En sú fjölgun reynir á tungumálið, og við finnum það í kringum okkur svo sem í verslunum, á vinnustöðum, í leikskólum og á kaffihúsum.

Þetta er staða sem krefst aðgerða, ekki aðeins fallegra orða. Tyllidagaræður og góðar yfirlýsingar nægja ekki lengur. Nú þarf raunverulegar lausnir – fjölbreyttar, mannlegar og framkvæmanlegar.

Við höfum byggt brýr yfir straumharðar jökulár, en við erum hætt að byggja brýr á milli fólks?

Tungumálið – mikilvægasti innviðurinn okkar

Við tölum oft um fjárfestingar í innviðum – brýr, vegi og hafnir. Það er eðlilegt; slík mannvirki tengja byggðir saman og gera fólki og fyrirtækjum kleift að skapa verðmæti. En við gleymum stundum öðrum, jafn mikilvægum innviði: tungumálinu. Það eru brýrnar og vegirnir sem tengja okkur hvert við annað. Góð samskipti og

sameiginlegt tungumál efla skilning, samkennd, traust og kærleika og leggja þannig grunn að samfélaginu sjálfu.

Án þess grunns eykst hættan á klofningi. Þá skapast „við og þið“ menning sem hefur grafið undan samheldni og stöðugleika í mörgum löndum og er þegar farin að gera það hér.

Við þurfum því að bregðast við, af krafti og með fjölbreyttum lausnum, til að efla íslenskuna og þar með samheldni þjóðarinnar. Gerum það núna.

Ein tillaga: Æfingafélagar í spjalli

Í síðustu viku lagði ég fram þingsályktunartillögu um nýja lausn sem gæti orðið bæði félagslega og menningarlega verðmætt. Tillagan felur í sér að gefa eldri borgurum, sem þess óska, tækifæri til að afla sér aukatekna án þess að skerða lífeyri eða bætur.

Starfið væri ekki kennsla í hefðbundnum skilningi heldur þátttaka í samtalsþjálfun á skólum og vinnustöðum – að vera eins konar æfingafélagi í íslensku nokkra klukkutíma á viku. Þar gætu myndast falleg tengsl í hversdeginum og hægt væri að ræða um veðrið, fjölskylduna, helgina eða það sem er í fréttunum. Slík samtöl skapa tengsl milli kynslóða og hjálpa fólki að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Ávinningurinn væri tvíþættur:

  • Eldri borgarar, sem vildu, fengju tækifæri til samveru og öflun aukatekna.
  • Samfélagið allt nyti meiri kynslóðatengsla og tungumálalegrar samheldni.

Sumir spyrja kannski hvort þetta dugi ekki sem sjálfboðastarf. Jú, verkefni á borð við það sem Rauði krossinn hefur staðið fyrir eru til fyrirmyndar. En þegar við horfum á þann hóp, um 50.000 manns, sem hefur sest hér að á undanförnum árum, sjáum við að umfangið er allt annað. Við þurfum skýra hvata og markvissar aðgerðir ef við ætlum að ná árangri á næstu þremur til fimm árum og snúa þróuninni við.

Slíkt mun kosta fjármagn en það mun kosta samfélagið margfalt meira til lengri tíma að gera ekki neitt.

Belgíska amman mín

Ég hef sjálf upplifað hversu dýrmætt það getur verið að eiga æfingafélaga í nýju tungumáli. Þegar ég bjó í Brussel þekkti ég í fyrstu aðeins Íslendinga sem unnu með mér. Flestir sem ég kynntist voru aðrir útlendingar í svipuðum störfum, og við töluðum saman á ensku.

Mig langaði þó að læra frönsku, sem er eitt af tungumálum borgarinnar, og var svo heppin að kynnast eldri konu sem hafði mikinn áhuga á Íslandi. Við ákváðum að hittast reglulega, ég myndi segja henni frá Íslandi, ef hún myndi spjalla við mig á frönsku.

Þessi kona, sem var enginn formlegur kennari, gerði miklu meira en að hjálpa mér að bæta tungumálakunnáttu mína. Hún hjálpaði mér að fóta mig í nýju landi, kynnti mér menningu Belga og sögu þeirra, og varð að lokum eins konar belgísk amma mín.

Hún var lykill minn inn í samfélagið – og við þurfum marga slíka lykla að okkar eigin samfélagi í dag.

Æfingafélagaleiðin gæti verið einn af þeim sem opna dyr að betra og samheldnara samfélagi.

Aukum metnaðinn – hækkum ránna

Þessi hugmynd er aðeins ein af mörgum sem hægt væri að útfæra og sameina ef við ætlum að ná árangri. Hér má horfa til fjölbreyttra lausna – tækninýjunga eins og Bara tala, bókaútgáfu, málstefnu atvinnuvega, fleiri íslenskukennara, hvata í löggjöf og öflugs undirbúningsnáms fyrir nýja íbúa landsins okkar.

Heilt yfir þurfum við að hækka ránna og gera meiri kröfur bæði til okkar sjálfra og þeirra sem hingað flytja, hvort sem er til skemmri eða lengri dvalar. Æfum okkur í að skipta ekki sjálfkrafa yfir í ensku. Tölum frekar hægt, hjálpumst að og gleymum ekki að hrós og bros gera kraftaverk í samskiptum.

Fyrirtæki sem ráða starfsfólk erlendis frá bera einnig mikla ábyrgð. Það hlýtur að vera framkvæmanlegt að kenna ungu og efnilegu starfsfólki muninn á snúð og kleinu og hvetja það til að panta pulsu og kók á íslensku. Við eigum að gera skýra kröfu um metnað hjá fyrirtækjum og kröfu til löggjafans um hvata til að efla íslenskuna á vinnustöðum.

Sumir vinnustaðir standa sig greinilega betur en aðrir og þar liggja tækifæri til að læra hver af öðrum og miðla því sem virkar.

Hjálpumst að

Enginn ætlast til þess að þeir sem hingað koma tali íslensku fullkomlega, hvorki um hornaföll né heimsspeki. Alls ekki. Við viljum einfaldlega standa vörð um tungumálið, þennan fjársjóð okkar eins og Bubbi myndi segja, til að tryggja samheldni samfélagsins í stað sundrungar.

Sókn enskunnar grefur undan því og á sama tíma höfum við sjálf misst fótanna í íslenskukunnáttu með tilkomu snjallsímanna. Einangrað eyjaumhverfið sem áður verndaði tungumálið gerir það ekki lengur. Nú þarf vilja, hugrekki og styrk til að halda sjó.

Til þess þurfum við að hækka ránna og láta verkin tala. Stjórnvöld verða að fjármagna raunhæfar lausnir sem byggja brýr tungumálsins, mikilvægustu samgönguinnviði framtíðarinnar. En við hin getum líka lagt okkar af mörkum og spurt okkur: Get ég verið hluti af lausninni hvern dag með því að kenna einhverjum nýtt orð?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Varðmenn landsins

Deila grein

09/10/2025

Varðmenn landsins

Þegar við fjölskyldan bjuggum í Boston biðum við alltaf spennt eftir því að íslenska lambið kæmi í verslanir. Þá buðum við gjarnan erlendum gestum í mat til þess að njóta þess saman. Í búðinni kom þó ætíð á óvart að sjá að lambið var nánast ósýnilegt í kjötborðinu. Á meðan rokseldist norski eldislaxinn í næsta rekka í myndskreyttum hátíðlegum konfektkössum.

Bragðið af lambinu sveik þó engan og viðbrögð gesta sannfærðu mig að hægt er að selja alla okkar framleiðslu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir tækifæri sauðfjárbúskapur á undanhaldi. Safnið í réttum landsins hefur skroppið saman í minni sveit og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun um allt land.

Á afrétt spurði ég efnilegt búmannsefni af hverju hann hafði ekki gerst bóndi og fljótt færðist samtalið að háu jarðaverði og slakri afkomu. Hér þarf að efla skilning á því að það að ungt fólk geti ekki hafið búskap er ekki bara leiðinlegar fréttir fyrir hæfileikaríka einstaklinga eða fjölskyldur. Það er afdrifarík niðurstaða fyrir samfélagið okkar. Til langs tíma. Við þurfum að víkka linsuna og fá alla til að hugleiða: Hvað þýðir minna safn, veikari landbúnaður, fyrir Ísland?

Á undanförnum árum hefur fólki hér á landi fjölgað um fimmtíuþúsund og fjöldi ferðamanna vaxið sömuleiðis. Því er lykil spurning: Ætlum við að fæða samfélagið eða láta innflutning taka yfir? Það hlýtur einnig að vera auðséð í viðsjáverðum heimi þurfa sveitir landsins að vera í sókn. Milljarða viðbótarfjárfesting í öryggismálum í nýjum fjárlögum ætti að horfa til innviðafjárfestingar í landbúnaði.

Auk matvælaöryggis er landbúnaður mikilvægur fyrir heilsu okkar og atvinnulíf. Ferðamenn koma ekki hingað fyrir innfluttan kjúkling og kókópöffs: Þeir vilja sjá blómlegar sveitir og njóta heilnæmra afurða sem við eigum á heimsmælikvarða. Öflugur ferðaþjónusta hvílir til langs tíma á kröftugum landbúnaði.

Bændur gæta þannig að jafnvægi ólíkra nytja og okkar einstöku náttúru. Þeir þekkja landið líka eins og lófan sinn, ekki síst í gegnum sauðfjárbúskap sem kallar á samvinnu bæði á bæ og fjalli. Hugsunin þeirra að skilja vel við heimkynnin fyrir komandi kynslóðir er bændum eðlislæg og er langtímasýn sem er samfélagi okkar afar dýrmæt.

Með veikum landbúnaði er einmitt hætt við að fjárfestar éti upp landið. Sala auðlinda vatns, jarðefna og jarðhita til erlendra aðila í gegnum jarðasölu er að mörgu leiti til komin vegna krefjandi stöðu bænda. Án öflugra bænda, rennur landið úr greipum okkar og auðlindirnar með. Hægt og bítandi, jörð fyrir jörð.

Að grafa undan bændasamfélögum veikir jafnframt griðarstað menningar okkar, tungu og hefða; þess sem er ekta eða þar sem rætur okkar hvíla. Slíkar rætur eru akkeri á tímum þar sem margt falskt tröllríðum miðlum. Ef við töpum því sem er ekta þá töpum við smátt og smátt sjálfum okkur sem þjóð.

Í stuttu máli sýnir víða linsan okkur, fólkinu í landinu, að bændur vernda fæðuöryggi okkar og heilbirgði. Þeir varðveita menningu okkar, náttúru og nytjar. Þeir eru fjölskyldufyrirtækin sem styrkja samfélög um allt land. Þeir eru samvinnan og seiglan sem við búum að á ögurstundum. Bændur eru einfaldlega varðmenn landsins. Án öflugra bænda raknar annað upp – allt frá öryggi yfir í menningu og atvinnuþróun.

Við þurfum nýja framtíðarsýn sem kemur lambinu í konfektkassana og bæði breikkar og stækkar tækifærin; nýja gullöld. Til þess duga engin vettlingatök. Hér þarf að horfa á endurskoðun tolla, fjárfestingar, raforkumál, aðkomu ríkis í nýliðun, nýsköpun, markaðssókn og margt fleira. Þessir sameiginlegu hagsmunir okkar Íslendinga verðskulda ekki átök, hvorki innan þings né utan. Berjumst saman í landsleik landbúnaðarins; til sigurs.

Stækkum safnið með varðmönnum landsins. Fyrir okkur öll.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismsaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Deila grein

25/09/2025

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Á Íslandi eru engar kröfur um lágmarksbirgðir eldsneytis. Þetta er alvarlegt mál.

Alþjóðaorkumálastofnunin mælist til að ríki hafi ávallt yfir að ráða 90 daga olíubirgðum. Evrópusambandið leggur slíka kröfu á aðildarríki sín.

Augljósasta viðbragðið við stöðunni í dag

Í dag bólar hins vegar ekki á umbótum þrátt fyrir að óvissa í alþjóðamálum hafi aukist verulega og öryggi og alþjóðasamvinna séu kynnt sem efstu mál ríkisstjórnarinnar. Þetta ætti þó að vera eitt augljósasta og mikilvægasta viðbragð við óvissu í öryggismálum Íslands í dag.

Þjóðaröryggisráð hefur ítrekað fjallað um birgðastöðu eldsneytis og segir m.a. í matskýrslu þeirra frá 2022: Eldsneytismarkaðurinn á Íslandi er rekinn á samkeppnisgrunni þar sem engar kvaðir gilda um að fyrirtækin sem þar starfa viðhaldi lágmarksbirgðum af eldsneyti í landinu. Þannig eru oft takmarkaðar olíubirgðir til innanlands og hafa jafnvel farið niður í nokkurra daga birgðir.

Dýrkeypt að gera ekki neitt

Það blasir við að það felur í sér kostnað að tryggja neyðarbirgðir eldsneytis sem vonandi þarf aldrei að nýta.

Það getur þó líka verið dýrkeypt fyrir eyríkið Ísland að gera ekki neitt því allar okkar samgöngur, landbúnaður, fiskveiðar og millilandasiglingar krefjast eldsneytis. Ef aðfangakeðjur brotna og skortur verður á eldsneyti lamast samfélagið hratt. Það getur tekið allt að sex vikur að bregðast við eftirspurn umfram sveigjanleika birgða sem eru til staðar hverju sinni og hér er ekki gert ráð fyrir mögulegum áhrifum alþjóðlegra átaka.

Fleiri áskoranir geta aukið olíuþörf hratt hér á landi. Eldgosin á Reykjanesi ógnuðu til dæmis hitaveituinnviðum sem hefði getað snögglega aukið þörf á olíukyndingu. Neyðarbirgðir eldsneytis eiga því alltaf við og gildir þá einu hvort allt er með kyrrum kjörum hér heima eða erlendis.

Hvaða leiðir eru í boði?

Neyðarbirgðir eldsneytis eru kostnaðarsamar. Góðu fréttirnar eru að ákveðið birgðapláss er til staðar í landinu, olíufélögin eru öflugir samstarfsaðilar og vinveittir olíuframleiðendur, líkt og Noregur, eru fyrir hendi sömuleiðis. Í þessu ljósi mætti hugsa sér blandaða leið til að tryggja neyðarbirgðir, annars vegar með raunbirgðum sem væru staðsettar á Íslandi og hins vegar með samningum við tiltekin ríki sem virkjaðir væru í neyð. Útfærsla viðbragsðáætlunar væri sömuleiðis nauðsynleg og væntanlega á hendi Almannavarna.

Getur olíuleit á Íslandi eða rafeldsneyti leyst málið?

Getur olíuleit við Ísland eða rafeldsneyti sem framleitt væri hér á landi ekki leyst málið, kann einhver að spyrja? Svarið er fræðilega já. En sá tími sem þarf í að þróa slík verkefni er ekki án óvissu og spannar mörg ár eða áratugi.

Þó er vert að nefna að við erum einstaklega heppin að hafa farið í umhverfisvæna jarðhitaleit og rafvætt okkar samfélag, sem gerir okkur óháð innfluttri orku fyrir húshitun og rafmagn í dag. Áframhaldandi jarðhitaleit sem boðuð hefur verið er dæmi um öryggisverkefni næstu ára sem ber að fagna og það sama á við um orkuskiptaverkefni í víðara samhengi.

Áskorun til ríkisstjórnarinnar: Gangið í málið

Málefni orkuöryggis hafa ekkert með stjórnmál eða stjórnmálaskoðanir að gera. Við verðum að ganga í takt fyrir Ísland. Við verðum að bæta orkuöryggi á óvissutímum með því að innleiða birgðarskyldu á eldsneyti. Slíkt er skynsamlegt viðbragð við aukinni óvissu í alþjóðamálum og með því fylgjum við ráðleggingum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Deila grein

15/05/2025

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Í vik­unni hóf ég umræðu á Alþingi um hvað ný­legt álit óbyggðanefnd­ar frá 10. apríl sl. þýðir fyr­ir Vest­manna­eyj­ar. Í stuttu máli bygg­ist álitið á því að leiðbein­andi laga­regla fel­ist í loka­málslið 2. kapí­tula reka­bálks Jóns­bók­ar frá 1281: Eyj­ar og sker sem „liggja fyr­ir landi“ telj­ist til þeirr­ar jarðar sem næst ligg­ur, nema sýnt sé fram á annað með lög­gern­ingi.

Út frá þess­ari laga­reglu hef­ur óbyggðanefnd mótað það sjón­ar­mið að eyj­ar og sker sem liggja 2 km eða minna frá landi (frá grunn­línu net­laga jarðar eða heima­eyju), séu eign­ar­land en ekki þjóðlenda. Fyr­ir Vest­manna­eyj­ar eru þetta mik­il tíðindi.

Vissu­lega þarf að horfa þarf til margra þátta við end­an­legt mat á því hvort eyj­ar og sker telj­ist til eign­ar­landa allt í kring­um landið. Þetta breyt­ir ekki því að óbyggðanefnd hef­ur slegið nýj­an og mik­il­væg­an tón.

Rétt­ur­inn er sterk­ur

Ríkið (fjár­mála- og efna­hags­ráðherra) þarf að bregðast án taf­ar við áliti óbyggðanefnd­ar og end­ur­meta kröf­ur sín­ar frá grunni. Eign­ar­rétt­ar­leg staða Vest­manna­eyja er mun skýr­ari en áður og kröf­ur rík­is­ins mun meira íþyngj­andi en víðast hvar ann­ars staðar á land­inu.

Rétt er að minn­ast þess að upp­haf­lega (2024) krafðist ríkið þess að sjálf­ur Heimaklett­ur og Blát­ind­ur – auk hlíða Herjólfs­dals og þar á meðal brekk­an sem Brekku­söng­ur­inn á Þjóðhátíð er kennd­ur við, yrðu viður­kennd sem þjóðlend­ur ásamt nýja hraun­inu.

Eign­ar­rétt­ar­leg staða virðist þó aug­ljós en bær­inn keypti árið 1960 all­ar Vest­manna­eyj­ar (með ör­fá­um und­an­tekn­ing­um), þar með talið út­eyj­ar, af rík­inu, sbr. lög frá 1960 sem heim­iluðu rík­is­stjórn­inni að selja „land allt í Vest­manna­eyj­um“ sem þá var í eigu rík­is­ins.

Órjúf­an­leg­ur hluti af sögu og samtíð Vest­manna­eyja

Hinar mörgu út­eyj­ar sem hér um ræðir voru öld­um sam­an mat­arkista Eyja­manna sem sækja þangað enn þann dag í dag. Úteyj­arn­ar geyma því bæði sögu og lif­andi samtíð heima­fólks og eru órjúf­an­leg­ur hluti Vest­manna­eyja; þar sem hjarta þeirra sann­ar­lega slær, eins og seg­ir í þjóðhátíðarlag­inu.

Kröf­ur end­ur­skoðaðar í tíð Fram­sókn­ar

Íþyngj­andi kröf­ur rík­is­ins voru end­ur­skoðar er Fram­sókn tók við mála­flokkn­um. Á vakt for­manns Fram­sókn­ar var ein­ung­is haldið eft­ir kröf­um í Stór­höfða og þær út­eyj­ar þar sem vafi þótti leika á um eign­ar­rétt og skera þurfti úr um málið. Þeim vanda hef­ur nú að miklu leyti verið ýtt til hliðar með áliti óbyggðanefnd­ar.

Afstaða óbyggðanefnd­ar í höfn – en hvað svo?

Álit óbyggðanefnd­ar er í sinni ein­föld­ustu mynd afar skýrt. Í ljósi hags­muna Vest­manna­eyja og sveit­ar­fé­laga um allt land er mik­il­vægt að kröfu­gerð rík­is­ins verði end­ur­skoðuð hið fyrsta, að hlutaðeig­andi aðilar hefji nýtt sam­tal og málið verði unnið hratt og vel til að eyða allri óvissu.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Aldrei aftur

Deila grein

10/05/2025

Aldrei aftur

Ég man svo vel eftir ritgerð sem ég skrifaði sem nemandi í háskólanum um þjóðarmorðin í Rwanda.

Þegar ég fór yfir söguna greiptist hún fast í huga mér. Þar féllu þúsundir Tútsa fyrir framan augu heimsins og enginn svaraði kallinu. Slátrun Tútsa var síðar staðfest sem þjóðarmorð. Í kjölfar þess stigu fjöldi ríkja fram og leiðtogar heimsins kepptust við að segja; aldrei aftur. Aldrei aftur munum við láta söguna þróast með þessum hætti.

Í dag virðist sagan þó endurtaka sig á Gaza. Og aftur horfir heimurinn þögull á hryllingsmynd í beinni.

Í aðdraganda þeirra kosninga sem haldnar á Íslandi á síðasta ári kepptust leiðtogaefni um að fara yfir hvernig þau myndu leggja hönd á plóg kæmust þau til valda. Hvernig þau ætluðum að nýta rödd sína og áhrif sem boðberar friðar, beita sér í samvinnu við Norðurlöndin og svo lengi mætti telja.

Síðan þá hefur afar lítið gerst þó svo að staðan hafi hríðversnað – en frá því í janúar hafa yfir 30 þúsund látið lífið, mest konur og börn.

Það er ekki boðlegt að leiðtogaefni keppist um að stíga fram sem friðardúfur í aðdraganda kosninga og þegi svo þunnu hljóði úr valdastóli. Afboði sig á mikilvægan friðarviðburð í Auschwitz, gefist strax upp á að ná saman með Norðurlöndum um aðgerðir, og tjái sig takmarkað fyrr en allt í einu um Eurovision þegar þátttaka þjóða í keppninni liggur þegar fyrir.

Sameiginleg yfirlýsing ráðherra í vikunni var þó jákvæð ljóstíra úr dimmum dal deyfðar á málinu miðað við yfirlýsingar. Vert er að undirstrika að allir gera sér grein fyrir að staðan er afar flókin og krefst mikillar vandvirkni.

Kæru ráðamenn þjóðar vor; verið sannar í orðum ykkar og gjörðum. Þið eruð fyrirmyndir, ekki síst fyrir unga fólkið okkar um hvað loforð og yfirlýsingar í raun þýða. Þeim fylgir ábyrgð. Nú þarf að rísa undir þeirri ábyrgð.

Hvar standið þið og þjóðin öll þegar nemendur framtíðarinnar rýna í söguna?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lægjum öldurnar

Deila grein

28/04/2025

Lægjum öldurnar

Er sanngjarnt að greitt sé gjald fyrir notkun á sjávarauðlind þjóðarinnar? Já það er sanngjarnt. Auðlindagjöld sem nálgun í nýtingu takmarkaðra auðlinda er alþjóðlega viðurkennd leið og það er réttlátt að þjóðin fái arð af verðmætum náttúruauðlindum sínum líkt og fisknum í sjónum.

Þá er það næsta stóra spurning: Er svigrúm til að hækka veiðigjaldið? Já, það er svigrúm. Það er hins vegar mjög misjafnt eftir stærð útgerða, eðli vinnslunnar – og ekki sama hvernig það er útfært. Útfærslan hefur ólík áhrif á bæjarfélög og landshluta sem ríkisstjórninni ber skylda að horfa til.

Greiningar og gögn skipta máli

Þess vegna skipta greiningar og gögn máli; þær eru grunnur að því hvert ákvarðanir leiða okkur og hvort markmið, sem verða að vera vel skilgreind, náist. Þessu þarf ríkisstjórnin að sinna þannig að vel sé að verki staðið. Í rekstri er fyrirsjáanleiki líka grundvallaratriði. Því er eðlilegt að mikil breyting á veiðigjaldi með stuttum fyrirvara valdi titringi. Við verðum að tryggja að útflutningsgreinar Íslands séu sterkar, ekki síst nú þegar að óvissa í heiminum er mikil. Samkeppnishæfur aðgangur að alþjóðamörkuðum þrífst best í lygnu viðskiptaumhverfi en ekki í ólgusjó.

Hótanir og herská orðræða er engum til gagns

En það að útgerðin hóti lokun vinnslu; að skella í lás á landsbyggðinni um leið og hækkun gjalda eru nefnd á nafn myndar djúpa gjá í umræðunni og sú gjá er engum til góða. Hún er vatn á myllu frekari deilna. Hún mun ýta undir að sjávarútvegurinn verði talaður niður, í stað upp, í samfélaginu og auka pólitískt umrót hans og áskoranir. Saga margra byggðarlaga, eftir að kvótakerfinu var komið á, er oftar en ekki saga missis og deilna í stað sögu sóknar og trausts. Því þarf sjávarútvegurinn að nálgast orðræðu um gjöld af nýtingu auðlindarinnar af auðmýkt.

Stjórnmálin mega heldur ekki með orðræðu sinni og yfirlýsingum nánast vinna að því að gera sjávarútveginn, hryggjarstykki í efnahagslífi Íslands, að einhvers konar sameiginlegum óvin þjóðarinnar. Það er hvorki gagnlegt né við hæfi. Það að hræða fólk – hvort sem er af útgerðinni eða ríkisstjórninni eins og umræðan er núna – er ekki góð leið til sátta almennt.

Kjölfesta byggðarlaga á marga vegu

Þar sem útgerðir hafa byggt upp og fest rætur hafa samfélög vissulega dafnað á marga vegu. Nægir að nefna Höfn, Dalvík og Vestmannaeyjar. Tekjur sveitarfélaga eru meiri vegna afleiddra starfa sem tengjast sjávarútvegi svo sem í vinnslu, hafnarstarfsemi og iðnaði. Þá eru fjölmargar þjónustugreinar, mennta- og menningarlíf háðar blómlegu atvinnulífi í sjávarbyggðum. Þetta víðfeðma net sem samfélög um allt land treysta á hvílir á grunni sjávarútvegsins og hefur þróun hans og styrkur til skemmri og lengri tíma því áhrif langt út fyrir starfsemi sjálfar útgerðirnar. Þess vegna skipta greiningar og samvinna máli svo að ákvarðanataka sé upplýst og vönduð, og áhættur við allar breytingar lágmarkaðar.

Finnum farveg til samvinnu og samheldni

Því miður er tilfinningin sú að endurtekin átök tengd þessum grunnatvinnuvegi hafi leitt af sér að fólki almennt þyki almennt minna vænt um sjávarútveginn en áður; grein sem ætti að vera sterkara sameinandi afl. Saga okkar er samofin sjósókn og þar höfum við höfum byggt upp einstaka þekkingu á heimsvísu. Í störfum mínum hjá utanríkisráðuneytinu og Harvard sótti ég reglulega stærstu sjávarútvegssýningar heims, fyrst í Brussel og síðar Boston, og upplifði svo sterkt að það horfa allir til Íslands í þessari mikilvægu grein.

Verðmætasköpun og hátækni fyrir Ísland

Mörg af áhugaverðustu hátæknifyrirtækjum sem Ísland hefur gefið af sér, svo sem Marel og Kerecis, hafa einmitt sprottið fram í gegnum sjávarútveginn. Sjá má gróskuna í nýsköpun tengd sjávarauðlindinni í starfsemi Sjávarklasans sem hýsir fjölmörg fyrirtæki. Sóknartækifærin eru mörg ekki síst á landsbyggðinni líkt og líftæknifyrirtækin Genís og Primex á Siglufirði, sem bæði bæta nýtingu sjávarafurða og auka verðmætasköpun, eru dæmi um. Greinin hefur líka náð árangri í loftslagsmálum í gegnum bætta orkunýtni fiskiskipa og er sú vegferð rétt að hefjast. Margt hefur áunnist og tækifærin sem rækta má og þróa eru óteljandi.

Lægjum öldurnar

Við höfum verið og verðum að vera áfram stolt af sjávarútveginum. Dýpri gjá og átök munu ekki leiða það af sér. Deilurnar snúast fyrst og fremst um veiðigjöldin; gjöld fyrir aðgengi að sameiginlegri auðlind íslensku þjóðarinnar og þangað á umræðan umfram allt að beinast. Þar bera ríkisstjórn og hagaðilar mikla ábyrgð á að ná lendingu sem stækkar kökuna fyrir samfélagið.

Lægjum öldurnar. Hættum herskárri orðræðu og leitum vandaðra lausna í samvinnu og af yfirvegun. Fyrir þá sem sótt hafa sjóinn og þá sem sækja hann enn. Fyrir atvinnulíf um allt land. Fyrir okkur öll; fólkið í landinu, en ekki síst fyrir framtíðina.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greini birtist fyrst á visir.is 27. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Komum náminu á Höfn í höfn

Deila grein

05/04/2025

Komum náminu á Höfn í höfn

„Við erum með þrjú gengi sem skiptast á, vinna í klukkutíma í senn við mokstur og niðurbrot á ís. Þannig munum við sigla áfram inn í daginn”, sagði Sveinn Rúnar Kristjánsson á vettvangi aðgerða í kjölfar hrun íshellisins í Breiðamerkurjökli síðastliðið haust.

Í slysinu lést einn ferðamaður. Það minnti harkalega á hversu mikilvæg þekking í leiðsögn er í síbreytilegu umhverfi jökla hér á landi. Þar skiptir fagmennskan öllu. Færni. Reynsla. Ábyrgð.

Þessa þrjá þætti hefur fjallamennskunámið við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Höfn einmitt lagt mikla áherslu á. Námið er eina sinnar tegundar á Íslandi. Það útskrifar fólk með eftirsótta þekkingu fyrir lykilgrein á Íslandi; ferðaþjónustuna. Slíkt er þarft og ekki síst „höfuðstöðvum“ helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúmlega 500% á undanförnum árum.

Samhliða aukningu hafa ný ferðaþjónustufyritæki sprottið fram og eftirspurn eftir fólki með sérhæfða þekkingu í leiðsögn aukist langt umfram framboð. Svo mikið að ráðuneytisstjórahópur sem lagði mat á aðgerðir í kjölfar slyssins ályktaði sérstaklega; „að auka þyrfti kröfur um menntun og reynslu til þess að starfa í Vatnajökulsþjóðgarði“.

Öflugt nám er einfaldlega forsenda þess að leiðsögn á jökla, sem eru eitt helsta aðdráttarafl landsins, sé vönduð, enda er orðspor okkar sem áfangastaðar undir. Allt annað er áhætta fyrir fólk, fyrirtæki og framtíð ferðaþjónustunnar, greinar sem styður jafnframt blómlega byggð um allt land. Námið er einmitt uppskera kraftmikils fólks sem margt hvert sneri aftur heim í Öræfin með fjölbreytta menntun og reynslu í farteskinu.

Námsbrautinni á hins vegar nú að loka. Kostnaðurinn þykir of mikill. Spurningin ætti þó heldur að vera; hvað kostar Ísland að hafa ekki slíkt nám? Að ógna öryggi ferðaþjónustunnar sem telur í dag rúm átta prósent af landsframleiðslu Íslands. Að draga úr vaxtatækifærum í menntun og atvinnu utan höfuðborgarinnar. Hvernig framtíðarsýn er það?

Við mat á verðmæti námsins þarf einfaldlega að setja hlutina í stærra samhengi; víkka linsuna á vaxtatækifærin sem eru til staðar. Hægt væri að sækja hluta tekna til reksturs námsins frá erlendum nemendum og áhugafólki um útivist, og gefa kost á að nýta ákveðnar einingar þess á háskólastigi. Þetta þekkir undirrituð frá því að hafa byggt upp alþjóðlegt nám við Háskólann í Reykjavík og Harvard.

Til viðbótar við ferðaþjónustu mætti einnig horfa á þverrandi líðan ungs fólks og spyrja; er fjallamennskunám mögulega sproti sem við ættum að leyfa okkur sem þjóð að fjárfesta meira í sem hluta af samfélagsáherslu Íslands í menntun. Vel er þekkt að sú vellíðan og liðsheild sem myndast í samveru á fjöllum er á við margar vítamínssprautur og skapar bæði seiglu og þrótt fyrir verkefnin sem við fáum í fangið í lífsins ólgusjó.

Ég skora á hæstvirtan menntamálaráðherra að gefa náminu svigrúm til þess að finna nýjan farveg í stað þess að hætta stuðningi nú. Til þess þarf plan til eins til þriggja ára á meðan fjölbreyttari tekjugrundvöllur er þróaður. Ég trúi því að þingmenn óháð flokkum horfi sömu augum á málið og að við leggjumst öll á árarnar.

Komum náminu á Höfn í höfn; með langtímahagsmuni og metnaðarfulla sýn fyrir Ísland að leiðarljósi.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Deila grein

29/03/2025

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Nú á dög­un­um mælti ég ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar fyr­ir þings­álykt­un um að tak­marka jarðakaup er­lendra aðila. Til­lög­unni er ætlað að tryggja lang­tíma­hags­muni Íslands með því að verja auðlind­ir þjóðar­inn­ar fyr­ir of víðtæku eign­ar­haldi er­lendra fyr­ir­tækja og ein­stak­linga.

Alþjóðleg eft­ir­spurn vek­ur spurn­ing­ar um ís­lenskt eign­ar­hald

Í kjöl­far auk­inn­ar alþjóðlegr­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir nátt­úru­auðlind­um hef­ur áhugi er­lendra aðila á ís­lensk­um jörðum auk­ist veru­lega. Þetta á sér­stak­lega við um jarðir sem hafa verðmæt vatns­rétt­indi eða aðgang að orku­auðlind­um á borð við jarðhita og vindorku, eða svæði sem eru rík af jarðefn­um. Gott dæmi um slík­an áhuga er ný­leg jarðakaup á Mýr­dalss­andi, þar sem stefnt er að meiri hátt­ar út­flutn­ingi jarðefna.

Upp­haf­lega voru ís­lensk lög um nýt­ingu jarðefna sett í þeim til­gangi að tryggja bænd­um og Vega­gerðinni aðgang að sandi og möl til fram­kvæmda inn­an­lands – ekki til út­flutn­ings. Mark­miðið var aldrei að selja Ísland bók­staf­lega úr landi.

Gæt­um að auðlind­um okk­ar til framtíðar

Til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir að at­vinnu­vegaráðherra skipi sér­fræðihóp, í sam­ráði við aðra ráðherra, til að und­ir­búa frum­varp um frek­ari tak­mark­an­ir á jarðakaup­um er­lendra aðila. Mark­mið þess er að tryggja að eign­ar­hald á ís­lensk­um auðlind­um verði áfram að meg­in­stefnu ís­lenskt.

Um leið verði Íslandi áfram haldið opnu fyr­ir alþjóðleg­um viðskipt­um og er­lendri fjár­fest­ingu, en þá frem­ur með nýt­ing­ar­leyf­um en beinu eign­ar­haldi er­lendra aðila á landi og auðlind­um.

Sér­fræðihóp­ur skipaður til að móta skýra stefnu

Í ljósi geopóli­tískra hags­muna og víðtækra framtíðaráhrifa er nauðsyn­legt að stjórn­völd taki af­ger­andi skref til að móta skýra og mark­vissa stefnu á þessu sviði. Sögu­leg­ar bar­átt­ur Íslend­inga fyr­ir eign­ar­haldi á nátt­úru­auðlind­um, svo sem land­helg­is­bar­átt­an og stofn­un Lands­virkj­un­ar, eru góðar fyr­ir­mynd­ir um hvernig tryggja megi lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar.

Nýt­ing­ar­leyfi – leið til að laða að er­lenda fjár­fest­ingu án þess að tapa auðlind­um

Þótt alþjóðleg viðskipti séu lyk­ill­inn að vel­meg­un Íslands og mik­il­væg upp­spretta at­vinnu­sköp­un­ar þýðir það ekki að auðlind­ir lands­ins þurfi að selja úr landi án eft­ir­lits. Reynsl­an frá öðrum lönd­um, til dæm­is Ástr­al­íu, sýn­ir að hægt er að laða að er­lenda fjár­fest­ingu með því að veita nýt­ing­ar­leyfi án þess að glata stjórn á auðlind­un­um sjálf­um. Mörg ríki inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þegar gripið til mun rót­tæk­ari ráðstaf­ana en Ísland til þess að verja land sitt og auðlind­ir.

Stefna til framtíðar

Ljóst er að eign­ar­hald á auðlind­um lands­ins mun gegna lyk­il­hlut­verki við að tryggja efna­hags­lega vel­ferð og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar í alþjóðasam­fé­lag­inu. Þings­álykt­un­ar­til­lag­an er því mik­il­væg­ur grunn­ur að ábyrgri auðlinda­stjórn sem get­ur komið í veg fyr­ir að kom­andi kyn­slóðir líti til baka með eft­ir­sjá yfir því hvernig Íslend­ing­ar nú­tím­ans gættu lands­ins okk­ar og auðlinda.

Rækt­um framtíðina og stuðlum að sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda lands­ins, styrk­ingu lands­byggðar­inn­ar og öfl­ugri vel­ferð þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Deila grein

15/03/2025

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Hver hefði trúað því fyr­ir aðeins nokkr­um miss­er­um að orku­ör­yggi al­menn­ings á Íslandi yrði mál mál­anna? En þannig er staðan á Íslandi í dag.

Hinn 13. mars sl. lagði ég fram til­lögu til þings­álykt­un­ar um að tryggja orku­ör­yggi al­menn­ings. Orku­ör­yggi al­menn­ings verður að vera eitt af for­gangs­mál­um Alþing­is. Það er fátt sem skipt­ir meira máli fyr­ir lífs­gæði lands­manna en ör­uggt aðgengi að raf­orku á hag­kvæmu verði.

Við höf­um nú orðið vitni að mestu hækk­un­um á raf­orku­verði til al­menn­ings í ára­tugi, og þess­ar hækk­an­ir eru alls ekki vegna skorts á raf­orku. Skýr­ing­in ligg­ur í reglu­verki sem vernd­ar ekki venju­lega not­end­ur, okk­ur al­menn­ing. Hér áður fyrr var þessi laga­lega vörn skýr og Lands­virkj­un gegndi því hlut­verki að tryggja orku­ör­yggi heim­ila. Með nýrri orku­lög­gjöf var þessi for­gang­ur felld­ur niður, án þess að koma í stað annarra úrræða sem styðja við okk­ur sem not­um inn­an við fimmt­ung raf­orku­fram­leiðslunn­ar.

Heim­il­in, ein­stak­ling­ar í rekstri og minni fyr­ir­tæki mega ekki lenda í sam­keppni við stór­not­end­ur sem eru með trausta lang­tíma­samn­inga, á sama tíma og við hin, al­menn­ing­ur og minni fyr­ir­tæki, erum varn­ar­laus fyr­ir hækk­un­um.

Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku eykst stöðugt bæði hér­lend­is og er­lend­is, og í dag er ekk­ert sem kem­ur í veg fyr­ir að stærri aðilar bjóði ein­fald­lega hærra verð í ork­una en al­menn­ing­ur get­ur staðið und­ir. Þetta er óá­sætt­an­leg staða fyr­ir heim­ili, bænd­ur og minni fyr­ir­tæki sem eru upp­spretta fjöl­breyti­leika í at­vinnu­lífi og mik­il­vægt mót­vægi gegn samþjöpp­un valds á markaðnum. Hags­mun­ir þess­ara hópa eru um leið hags­mun­ir lands­byggðar­inn­ar; fólk sem býr á köld­um svæðum og sem þarf raf­orku til upp­hit­un­ar hús­næðis býr við tvö­falda áhættu.

Ég trúi því og treysti að Alþingi lag­færi þetta órétt­læti. Því bind ég von­ir við að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra und­ir­búi laga­breyt­ing­ar sem tryggi stöðu og hags­muni al­menn­ings. Við þurf­um að tryggja for­gang heim­ila og viðhalda hag­kvæmu raf­orku­verði sem hef­ur verið grund­vall­ar­hluti af lífs­kjör­um lands­manna.

Á sama tíma þurf­um við einnig að taka upp­lýst­ar og ábyrg­ar ákv­arðanir um nýj­ar virkj­an­ir til að styðja við fjöl­breytt­an iðnað og vöxt sam­fé­lags­ins. Það er efni í aðra grein.

Tryggj­um ör­ugga raf­orku til allra lands­manna.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2025.