Categories
Fréttir Greinar

Varðmenn landsins

Deila grein

09/10/2025

Varðmenn landsins

Þegar við fjölskyldan bjuggum í Boston biðum við alltaf spennt eftir því að íslenska lambið kæmi í verslanir. Þá buðum við gjarnan erlendum gestum í mat til þess að njóta þess saman. Í búðinni kom þó ætíð á óvart að sjá að lambið var nánast ósýnilegt í kjötborðinu. Á meðan rokseldist norski eldislaxinn í næsta rekka í myndskreyttum hátíðlegum konfektkössum.

Bragðið af lambinu sveik þó engan og viðbrögð gesta sannfærðu mig að hægt er að selja alla okkar framleiðslu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir tækifæri sauðfjárbúskapur á undanhaldi. Safnið í réttum landsins hefur skroppið saman í minni sveit og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun um allt land.

Á afrétt spurði ég efnilegt búmannsefni af hverju hann hafði ekki gerst bóndi og fljótt færðist samtalið að háu jarðaverði og slakri afkomu. Hér þarf að efla skilning á því að það að ungt fólk geti ekki hafið búskap er ekki bara leiðinlegar fréttir fyrir hæfileikaríka einstaklinga eða fjölskyldur. Það er afdrifarík niðurstaða fyrir samfélagið okkar. Til langs tíma. Við þurfum að víkka linsuna og fá alla til að hugleiða: Hvað þýðir minna safn, veikari landbúnaður, fyrir Ísland?

Á undanförnum árum hefur fólki hér á landi fjölgað um fimmtíuþúsund og fjöldi ferðamanna vaxið sömuleiðis. Því er lykil spurning: Ætlum við að fæða samfélagið eða láta innflutning taka yfir? Það hlýtur einnig að vera auðséð í viðsjáverðum heimi þurfa sveitir landsins að vera í sókn. Milljarða viðbótarfjárfesting í öryggismálum í nýjum fjárlögum ætti að horfa til innviðafjárfestingar í landbúnaði.

Auk matvælaöryggis er landbúnaður mikilvægur fyrir heilsu okkar og atvinnulíf. Ferðamenn koma ekki hingað fyrir innfluttan kjúkling og kókópöffs: Þeir vilja sjá blómlegar sveitir og njóta heilnæmra afurða sem við eigum á heimsmælikvarða. Öflugur ferðaþjónusta hvílir til langs tíma á kröftugum landbúnaði.

Bændur gæta þannig að jafnvægi ólíkra nytja og okkar einstöku náttúru. Þeir þekkja landið líka eins og lófan sinn, ekki síst í gegnum sauðfjárbúskap sem kallar á samvinnu bæði á bæ og fjalli. Hugsunin þeirra að skilja vel við heimkynnin fyrir komandi kynslóðir er bændum eðlislæg og er langtímasýn sem er samfélagi okkar afar dýrmæt.

Með veikum landbúnaði er einmitt hætt við að fjárfestar éti upp landið. Sala auðlinda vatns, jarðefna og jarðhita til erlendra aðila í gegnum jarðasölu er að mörgu leiti til komin vegna krefjandi stöðu bænda. Án öflugra bænda, rennur landið úr greipum okkar og auðlindirnar með. Hægt og bítandi, jörð fyrir jörð.

Að grafa undan bændasamfélögum veikir jafnframt griðarstað menningar okkar, tungu og hefða; þess sem er ekta eða þar sem rætur okkar hvíla. Slíkar rætur eru akkeri á tímum þar sem margt falskt tröllríðum miðlum. Ef við töpum því sem er ekta þá töpum við smátt og smátt sjálfum okkur sem þjóð.

Í stuttu máli sýnir víða linsan okkur, fólkinu í landinu, að bændur vernda fæðuöryggi okkar og heilbirgði. Þeir varðveita menningu okkar, náttúru og nytjar. Þeir eru fjölskyldufyrirtækin sem styrkja samfélög um allt land. Þeir eru samvinnan og seiglan sem við búum að á ögurstundum. Bændur eru einfaldlega varðmenn landsins. Án öflugra bænda raknar annað upp – allt frá öryggi yfir í menningu og atvinnuþróun.

Við þurfum nýja framtíðarsýn sem kemur lambinu í konfektkassana og bæði breikkar og stækkar tækifærin; nýja gullöld. Til þess duga engin vettlingatök. Hér þarf að horfa á endurskoðun tolla, fjárfestingar, raforkumál, aðkomu ríkis í nýliðun, nýsköpun, markaðssókn og margt fleira. Þessir sameiginlegu hagsmunir okkar Íslendinga verðskulda ekki átök, hvorki innan þings né utan. Berjumst saman í landsleik landbúnaðarins; til sigurs.

Stækkum safnið með varðmönnum landsins. Fyrir okkur öll.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismsaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Deila grein

25/09/2025

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Á Íslandi eru engar kröfur um lágmarksbirgðir eldsneytis. Þetta er alvarlegt mál.

Alþjóðaorkumálastofnunin mælist til að ríki hafi ávallt yfir að ráða 90 daga olíubirgðum. Evrópusambandið leggur slíka kröfu á aðildarríki sín.

Augljósasta viðbragðið við stöðunni í dag

Í dag bólar hins vegar ekki á umbótum þrátt fyrir að óvissa í alþjóðamálum hafi aukist verulega og öryggi og alþjóðasamvinna séu kynnt sem efstu mál ríkisstjórnarinnar. Þetta ætti þó að vera eitt augljósasta og mikilvægasta viðbragð við óvissu í öryggismálum Íslands í dag.

Þjóðaröryggisráð hefur ítrekað fjallað um birgðastöðu eldsneytis og segir m.a. í matskýrslu þeirra frá 2022: Eldsneytismarkaðurinn á Íslandi er rekinn á samkeppnisgrunni þar sem engar kvaðir gilda um að fyrirtækin sem þar starfa viðhaldi lágmarksbirgðum af eldsneyti í landinu. Þannig eru oft takmarkaðar olíubirgðir til innanlands og hafa jafnvel farið niður í nokkurra daga birgðir.

Dýrkeypt að gera ekki neitt

Það blasir við að það felur í sér kostnað að tryggja neyðarbirgðir eldsneytis sem vonandi þarf aldrei að nýta.

Það getur þó líka verið dýrkeypt fyrir eyríkið Ísland að gera ekki neitt því allar okkar samgöngur, landbúnaður, fiskveiðar og millilandasiglingar krefjast eldsneytis. Ef aðfangakeðjur brotna og skortur verður á eldsneyti lamast samfélagið hratt. Það getur tekið allt að sex vikur að bregðast við eftirspurn umfram sveigjanleika birgða sem eru til staðar hverju sinni og hér er ekki gert ráð fyrir mögulegum áhrifum alþjóðlegra átaka.

Fleiri áskoranir geta aukið olíuþörf hratt hér á landi. Eldgosin á Reykjanesi ógnuðu til dæmis hitaveituinnviðum sem hefði getað snögglega aukið þörf á olíukyndingu. Neyðarbirgðir eldsneytis eiga því alltaf við og gildir þá einu hvort allt er með kyrrum kjörum hér heima eða erlendis.

Hvaða leiðir eru í boði?

Neyðarbirgðir eldsneytis eru kostnaðarsamar. Góðu fréttirnar eru að ákveðið birgðapláss er til staðar í landinu, olíufélögin eru öflugir samstarfsaðilar og vinveittir olíuframleiðendur, líkt og Noregur, eru fyrir hendi sömuleiðis. Í þessu ljósi mætti hugsa sér blandaða leið til að tryggja neyðarbirgðir, annars vegar með raunbirgðum sem væru staðsettar á Íslandi og hins vegar með samningum við tiltekin ríki sem virkjaðir væru í neyð. Útfærsla viðbragsðáætlunar væri sömuleiðis nauðsynleg og væntanlega á hendi Almannavarna.

Getur olíuleit á Íslandi eða rafeldsneyti leyst málið?

Getur olíuleit við Ísland eða rafeldsneyti sem framleitt væri hér á landi ekki leyst málið, kann einhver að spyrja? Svarið er fræðilega já. En sá tími sem þarf í að þróa slík verkefni er ekki án óvissu og spannar mörg ár eða áratugi.

Þó er vert að nefna að við erum einstaklega heppin að hafa farið í umhverfisvæna jarðhitaleit og rafvætt okkar samfélag, sem gerir okkur óháð innfluttri orku fyrir húshitun og rafmagn í dag. Áframhaldandi jarðhitaleit sem boðuð hefur verið er dæmi um öryggisverkefni næstu ára sem ber að fagna og það sama á við um orkuskiptaverkefni í víðara samhengi.

Áskorun til ríkisstjórnarinnar: Gangið í málið

Málefni orkuöryggis hafa ekkert með stjórnmál eða stjórnmálaskoðanir að gera. Við verðum að ganga í takt fyrir Ísland. Við verðum að bæta orkuöryggi á óvissutímum með því að innleiða birgðarskyldu á eldsneyti. Slíkt er skynsamlegt viðbragð við aukinni óvissu í alþjóðamálum og með því fylgjum við ráðleggingum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Deila grein

15/05/2025

Í hverri eyju og skeri slær hjarta Vestmannaeyja

Í vik­unni hóf ég umræðu á Alþingi um hvað ný­legt álit óbyggðanefnd­ar frá 10. apríl sl. þýðir fyr­ir Vest­manna­eyj­ar. Í stuttu máli bygg­ist álitið á því að leiðbein­andi laga­regla fel­ist í loka­málslið 2. kapí­tula reka­bálks Jóns­bók­ar frá 1281: Eyj­ar og sker sem „liggja fyr­ir landi“ telj­ist til þeirr­ar jarðar sem næst ligg­ur, nema sýnt sé fram á annað með lög­gern­ingi.

Út frá þess­ari laga­reglu hef­ur óbyggðanefnd mótað það sjón­ar­mið að eyj­ar og sker sem liggja 2 km eða minna frá landi (frá grunn­línu net­laga jarðar eða heima­eyju), séu eign­ar­land en ekki þjóðlenda. Fyr­ir Vest­manna­eyj­ar eru þetta mik­il tíðindi.

Vissu­lega þarf að horfa þarf til margra þátta við end­an­legt mat á því hvort eyj­ar og sker telj­ist til eign­ar­landa allt í kring­um landið. Þetta breyt­ir ekki því að óbyggðanefnd hef­ur slegið nýj­an og mik­il­væg­an tón.

Rétt­ur­inn er sterk­ur

Ríkið (fjár­mála- og efna­hags­ráðherra) þarf að bregðast án taf­ar við áliti óbyggðanefnd­ar og end­ur­meta kröf­ur sín­ar frá grunni. Eign­ar­rétt­ar­leg staða Vest­manna­eyja er mun skýr­ari en áður og kröf­ur rík­is­ins mun meira íþyngj­andi en víðast hvar ann­ars staðar á land­inu.

Rétt er að minn­ast þess að upp­haf­lega (2024) krafðist ríkið þess að sjálf­ur Heimaklett­ur og Blát­ind­ur – auk hlíða Herjólfs­dals og þar á meðal brekk­an sem Brekku­söng­ur­inn á Þjóðhátíð er kennd­ur við, yrðu viður­kennd sem þjóðlend­ur ásamt nýja hraun­inu.

Eign­ar­rétt­ar­leg staða virðist þó aug­ljós en bær­inn keypti árið 1960 all­ar Vest­manna­eyj­ar (með ör­fá­um und­an­tekn­ing­um), þar með talið út­eyj­ar, af rík­inu, sbr. lög frá 1960 sem heim­iluðu rík­is­stjórn­inni að selja „land allt í Vest­manna­eyj­um“ sem þá var í eigu rík­is­ins.

Órjúf­an­leg­ur hluti af sögu og samtíð Vest­manna­eyja

Hinar mörgu út­eyj­ar sem hér um ræðir voru öld­um sam­an mat­arkista Eyja­manna sem sækja þangað enn þann dag í dag. Úteyj­arn­ar geyma því bæði sögu og lif­andi samtíð heima­fólks og eru órjúf­an­leg­ur hluti Vest­manna­eyja; þar sem hjarta þeirra sann­ar­lega slær, eins og seg­ir í þjóðhátíðarlag­inu.

Kröf­ur end­ur­skoðaðar í tíð Fram­sókn­ar

Íþyngj­andi kröf­ur rík­is­ins voru end­ur­skoðar er Fram­sókn tók við mála­flokkn­um. Á vakt for­manns Fram­sókn­ar var ein­ung­is haldið eft­ir kröf­um í Stór­höfða og þær út­eyj­ar þar sem vafi þótti leika á um eign­ar­rétt og skera þurfti úr um málið. Þeim vanda hef­ur nú að miklu leyti verið ýtt til hliðar með áliti óbyggðanefnd­ar.

Afstaða óbyggðanefnd­ar í höfn – en hvað svo?

Álit óbyggðanefnd­ar er í sinni ein­föld­ustu mynd afar skýrt. Í ljósi hags­muna Vest­manna­eyja og sveit­ar­fé­laga um allt land er mik­il­vægt að kröfu­gerð rík­is­ins verði end­ur­skoðuð hið fyrsta, að hlutaðeig­andi aðilar hefji nýtt sam­tal og málið verði unnið hratt og vel til að eyða allri óvissu.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Aldrei aftur

Deila grein

10/05/2025

Aldrei aftur

Ég man svo vel eftir ritgerð sem ég skrifaði sem nemandi í háskólanum um þjóðarmorðin í Rwanda.

Þegar ég fór yfir söguna greiptist hún fast í huga mér. Þar féllu þúsundir Tútsa fyrir framan augu heimsins og enginn svaraði kallinu. Slátrun Tútsa var síðar staðfest sem þjóðarmorð. Í kjölfar þess stigu fjöldi ríkja fram og leiðtogar heimsins kepptust við að segja; aldrei aftur. Aldrei aftur munum við láta söguna þróast með þessum hætti.

Í dag virðist sagan þó endurtaka sig á Gaza. Og aftur horfir heimurinn þögull á hryllingsmynd í beinni.

Í aðdraganda þeirra kosninga sem haldnar á Íslandi á síðasta ári kepptust leiðtogaefni um að fara yfir hvernig þau myndu leggja hönd á plóg kæmust þau til valda. Hvernig þau ætluðum að nýta rödd sína og áhrif sem boðberar friðar, beita sér í samvinnu við Norðurlöndin og svo lengi mætti telja.

Síðan þá hefur afar lítið gerst þó svo að staðan hafi hríðversnað – en frá því í janúar hafa yfir 30 þúsund látið lífið, mest konur og börn.

Það er ekki boðlegt að leiðtogaefni keppist um að stíga fram sem friðardúfur í aðdraganda kosninga og þegi svo þunnu hljóði úr valdastóli. Afboði sig á mikilvægan friðarviðburð í Auschwitz, gefist strax upp á að ná saman með Norðurlöndum um aðgerðir, og tjái sig takmarkað fyrr en allt í einu um Eurovision þegar þátttaka þjóða í keppninni liggur þegar fyrir.

Sameiginleg yfirlýsing ráðherra í vikunni var þó jákvæð ljóstíra úr dimmum dal deyfðar á málinu miðað við yfirlýsingar. Vert er að undirstrika að allir gera sér grein fyrir að staðan er afar flókin og krefst mikillar vandvirkni.

Kæru ráðamenn þjóðar vor; verið sannar í orðum ykkar og gjörðum. Þið eruð fyrirmyndir, ekki síst fyrir unga fólkið okkar um hvað loforð og yfirlýsingar í raun þýða. Þeim fylgir ábyrgð. Nú þarf að rísa undir þeirri ábyrgð.

Hvar standið þið og þjóðin öll þegar nemendur framtíðarinnar rýna í söguna?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lægjum öldurnar

Deila grein

28/04/2025

Lægjum öldurnar

Er sanngjarnt að greitt sé gjald fyrir notkun á sjávarauðlind þjóðarinnar? Já það er sanngjarnt. Auðlindagjöld sem nálgun í nýtingu takmarkaðra auðlinda er alþjóðlega viðurkennd leið og það er réttlátt að þjóðin fái arð af verðmætum náttúruauðlindum sínum líkt og fisknum í sjónum.

Þá er það næsta stóra spurning: Er svigrúm til að hækka veiðigjaldið? Já, það er svigrúm. Það er hins vegar mjög misjafnt eftir stærð útgerða, eðli vinnslunnar – og ekki sama hvernig það er útfært. Útfærslan hefur ólík áhrif á bæjarfélög og landshluta sem ríkisstjórninni ber skylda að horfa til.

Greiningar og gögn skipta máli

Þess vegna skipta greiningar og gögn máli; þær eru grunnur að því hvert ákvarðanir leiða okkur og hvort markmið, sem verða að vera vel skilgreind, náist. Þessu þarf ríkisstjórnin að sinna þannig að vel sé að verki staðið. Í rekstri er fyrirsjáanleiki líka grundvallaratriði. Því er eðlilegt að mikil breyting á veiðigjaldi með stuttum fyrirvara valdi titringi. Við verðum að tryggja að útflutningsgreinar Íslands séu sterkar, ekki síst nú þegar að óvissa í heiminum er mikil. Samkeppnishæfur aðgangur að alþjóðamörkuðum þrífst best í lygnu viðskiptaumhverfi en ekki í ólgusjó.

Hótanir og herská orðræða er engum til gagns

En það að útgerðin hóti lokun vinnslu; að skella í lás á landsbyggðinni um leið og hækkun gjalda eru nefnd á nafn myndar djúpa gjá í umræðunni og sú gjá er engum til góða. Hún er vatn á myllu frekari deilna. Hún mun ýta undir að sjávarútvegurinn verði talaður niður, í stað upp, í samfélaginu og auka pólitískt umrót hans og áskoranir. Saga margra byggðarlaga, eftir að kvótakerfinu var komið á, er oftar en ekki saga missis og deilna í stað sögu sóknar og trausts. Því þarf sjávarútvegurinn að nálgast orðræðu um gjöld af nýtingu auðlindarinnar af auðmýkt.

Stjórnmálin mega heldur ekki með orðræðu sinni og yfirlýsingum nánast vinna að því að gera sjávarútveginn, hryggjarstykki í efnahagslífi Íslands, að einhvers konar sameiginlegum óvin þjóðarinnar. Það er hvorki gagnlegt né við hæfi. Það að hræða fólk – hvort sem er af útgerðinni eða ríkisstjórninni eins og umræðan er núna – er ekki góð leið til sátta almennt.

Kjölfesta byggðarlaga á marga vegu

Þar sem útgerðir hafa byggt upp og fest rætur hafa samfélög vissulega dafnað á marga vegu. Nægir að nefna Höfn, Dalvík og Vestmannaeyjar. Tekjur sveitarfélaga eru meiri vegna afleiddra starfa sem tengjast sjávarútvegi svo sem í vinnslu, hafnarstarfsemi og iðnaði. Þá eru fjölmargar þjónustugreinar, mennta- og menningarlíf háðar blómlegu atvinnulífi í sjávarbyggðum. Þetta víðfeðma net sem samfélög um allt land treysta á hvílir á grunni sjávarútvegsins og hefur þróun hans og styrkur til skemmri og lengri tíma því áhrif langt út fyrir starfsemi sjálfar útgerðirnar. Þess vegna skipta greiningar og samvinna máli svo að ákvarðanataka sé upplýst og vönduð, og áhættur við allar breytingar lágmarkaðar.

Finnum farveg til samvinnu og samheldni

Því miður er tilfinningin sú að endurtekin átök tengd þessum grunnatvinnuvegi hafi leitt af sér að fólki almennt þyki almennt minna vænt um sjávarútveginn en áður; grein sem ætti að vera sterkara sameinandi afl. Saga okkar er samofin sjósókn og þar höfum við höfum byggt upp einstaka þekkingu á heimsvísu. Í störfum mínum hjá utanríkisráðuneytinu og Harvard sótti ég reglulega stærstu sjávarútvegssýningar heims, fyrst í Brussel og síðar Boston, og upplifði svo sterkt að það horfa allir til Íslands í þessari mikilvægu grein.

Verðmætasköpun og hátækni fyrir Ísland

Mörg af áhugaverðustu hátæknifyrirtækjum sem Ísland hefur gefið af sér, svo sem Marel og Kerecis, hafa einmitt sprottið fram í gegnum sjávarútveginn. Sjá má gróskuna í nýsköpun tengd sjávarauðlindinni í starfsemi Sjávarklasans sem hýsir fjölmörg fyrirtæki. Sóknartækifærin eru mörg ekki síst á landsbyggðinni líkt og líftæknifyrirtækin Genís og Primex á Siglufirði, sem bæði bæta nýtingu sjávarafurða og auka verðmætasköpun, eru dæmi um. Greinin hefur líka náð árangri í loftslagsmálum í gegnum bætta orkunýtni fiskiskipa og er sú vegferð rétt að hefjast. Margt hefur áunnist og tækifærin sem rækta má og þróa eru óteljandi.

Lægjum öldurnar

Við höfum verið og verðum að vera áfram stolt af sjávarútveginum. Dýpri gjá og átök munu ekki leiða það af sér. Deilurnar snúast fyrst og fremst um veiðigjöldin; gjöld fyrir aðgengi að sameiginlegri auðlind íslensku þjóðarinnar og þangað á umræðan umfram allt að beinast. Þar bera ríkisstjórn og hagaðilar mikla ábyrgð á að ná lendingu sem stækkar kökuna fyrir samfélagið.

Lægjum öldurnar. Hættum herskárri orðræðu og leitum vandaðra lausna í samvinnu og af yfirvegun. Fyrir þá sem sótt hafa sjóinn og þá sem sækja hann enn. Fyrir atvinnulíf um allt land. Fyrir okkur öll; fólkið í landinu, en ekki síst fyrir framtíðina.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greini birtist fyrst á visir.is 27. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Komum náminu á Höfn í höfn

Deila grein

05/04/2025

Komum náminu á Höfn í höfn

„Við erum með þrjú gengi sem skiptast á, vinna í klukkutíma í senn við mokstur og niðurbrot á ís. Þannig munum við sigla áfram inn í daginn”, sagði Sveinn Rúnar Kristjánsson á vettvangi aðgerða í kjölfar hrun íshellisins í Breiðamerkurjökli síðastliðið haust.

Í slysinu lést einn ferðamaður. Það minnti harkalega á hversu mikilvæg þekking í leiðsögn er í síbreytilegu umhverfi jökla hér á landi. Þar skiptir fagmennskan öllu. Færni. Reynsla. Ábyrgð.

Þessa þrjá þætti hefur fjallamennskunámið við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Höfn einmitt lagt mikla áherslu á. Námið er eina sinnar tegundar á Íslandi. Það útskrifar fólk með eftirsótta þekkingu fyrir lykilgrein á Íslandi; ferðaþjónustuna. Slíkt er þarft og ekki síst „höfuðstöðvum“ helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúmlega 500% á undanförnum árum.

Samhliða aukningu hafa ný ferðaþjónustufyritæki sprottið fram og eftirspurn eftir fólki með sérhæfða þekkingu í leiðsögn aukist langt umfram framboð. Svo mikið að ráðuneytisstjórahópur sem lagði mat á aðgerðir í kjölfar slyssins ályktaði sérstaklega; „að auka þyrfti kröfur um menntun og reynslu til þess að starfa í Vatnajökulsþjóðgarði“.

Öflugt nám er einfaldlega forsenda þess að leiðsögn á jökla, sem eru eitt helsta aðdráttarafl landsins, sé vönduð, enda er orðspor okkar sem áfangastaðar undir. Allt annað er áhætta fyrir fólk, fyrirtæki og framtíð ferðaþjónustunnar, greinar sem styður jafnframt blómlega byggð um allt land. Námið er einmitt uppskera kraftmikils fólks sem margt hvert sneri aftur heim í Öræfin með fjölbreytta menntun og reynslu í farteskinu.

Námsbrautinni á hins vegar nú að loka. Kostnaðurinn þykir of mikill. Spurningin ætti þó heldur að vera; hvað kostar Ísland að hafa ekki slíkt nám? Að ógna öryggi ferðaþjónustunnar sem telur í dag rúm átta prósent af landsframleiðslu Íslands. Að draga úr vaxtatækifærum í menntun og atvinnu utan höfuðborgarinnar. Hvernig framtíðarsýn er það?

Við mat á verðmæti námsins þarf einfaldlega að setja hlutina í stærra samhengi; víkka linsuna á vaxtatækifærin sem eru til staðar. Hægt væri að sækja hluta tekna til reksturs námsins frá erlendum nemendum og áhugafólki um útivist, og gefa kost á að nýta ákveðnar einingar þess á háskólastigi. Þetta þekkir undirrituð frá því að hafa byggt upp alþjóðlegt nám við Háskólann í Reykjavík og Harvard.

Til viðbótar við ferðaþjónustu mætti einnig horfa á þverrandi líðan ungs fólks og spyrja; er fjallamennskunám mögulega sproti sem við ættum að leyfa okkur sem þjóð að fjárfesta meira í sem hluta af samfélagsáherslu Íslands í menntun. Vel er þekkt að sú vellíðan og liðsheild sem myndast í samveru á fjöllum er á við margar vítamínssprautur og skapar bæði seiglu og þrótt fyrir verkefnin sem við fáum í fangið í lífsins ólgusjó.

Ég skora á hæstvirtan menntamálaráðherra að gefa náminu svigrúm til þess að finna nýjan farveg í stað þess að hætta stuðningi nú. Til þess þarf plan til eins til þriggja ára á meðan fjölbreyttari tekjugrundvöllur er þróaður. Ég trúi því að þingmenn óháð flokkum horfi sömu augum á málið og að við leggjumst öll á árarnar.

Komum náminu á Höfn í höfn; með langtímahagsmuni og metnaðarfulla sýn fyrir Ísland að leiðarljósi.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Deila grein

29/03/2025

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Nú á dög­un­um mælti ég ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar fyr­ir þings­álykt­un um að tak­marka jarðakaup er­lendra aðila. Til­lög­unni er ætlað að tryggja lang­tíma­hags­muni Íslands með því að verja auðlind­ir þjóðar­inn­ar fyr­ir of víðtæku eign­ar­haldi er­lendra fyr­ir­tækja og ein­stak­linga.

Alþjóðleg eft­ir­spurn vek­ur spurn­ing­ar um ís­lenskt eign­ar­hald

Í kjöl­far auk­inn­ar alþjóðlegr­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir nátt­úru­auðlind­um hef­ur áhugi er­lendra aðila á ís­lensk­um jörðum auk­ist veru­lega. Þetta á sér­stak­lega við um jarðir sem hafa verðmæt vatns­rétt­indi eða aðgang að orku­auðlind­um á borð við jarðhita og vindorku, eða svæði sem eru rík af jarðefn­um. Gott dæmi um slík­an áhuga er ný­leg jarðakaup á Mýr­dalss­andi, þar sem stefnt er að meiri hátt­ar út­flutn­ingi jarðefna.

Upp­haf­lega voru ís­lensk lög um nýt­ingu jarðefna sett í þeim til­gangi að tryggja bænd­um og Vega­gerðinni aðgang að sandi og möl til fram­kvæmda inn­an­lands – ekki til út­flutn­ings. Mark­miðið var aldrei að selja Ísland bók­staf­lega úr landi.

Gæt­um að auðlind­um okk­ar til framtíðar

Til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir að at­vinnu­vegaráðherra skipi sér­fræðihóp, í sam­ráði við aðra ráðherra, til að und­ir­búa frum­varp um frek­ari tak­mark­an­ir á jarðakaup­um er­lendra aðila. Mark­mið þess er að tryggja að eign­ar­hald á ís­lensk­um auðlind­um verði áfram að meg­in­stefnu ís­lenskt.

Um leið verði Íslandi áfram haldið opnu fyr­ir alþjóðleg­um viðskipt­um og er­lendri fjár­fest­ingu, en þá frem­ur með nýt­ing­ar­leyf­um en beinu eign­ar­haldi er­lendra aðila á landi og auðlind­um.

Sér­fræðihóp­ur skipaður til að móta skýra stefnu

Í ljósi geopóli­tískra hags­muna og víðtækra framtíðaráhrifa er nauðsyn­legt að stjórn­völd taki af­ger­andi skref til að móta skýra og mark­vissa stefnu á þessu sviði. Sögu­leg­ar bar­átt­ur Íslend­inga fyr­ir eign­ar­haldi á nátt­úru­auðlind­um, svo sem land­helg­is­bar­átt­an og stofn­un Lands­virkj­un­ar, eru góðar fyr­ir­mynd­ir um hvernig tryggja megi lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar.

Nýt­ing­ar­leyfi – leið til að laða að er­lenda fjár­fest­ingu án þess að tapa auðlind­um

Þótt alþjóðleg viðskipti séu lyk­ill­inn að vel­meg­un Íslands og mik­il­væg upp­spretta at­vinnu­sköp­un­ar þýðir það ekki að auðlind­ir lands­ins þurfi að selja úr landi án eft­ir­lits. Reynsl­an frá öðrum lönd­um, til dæm­is Ástr­al­íu, sýn­ir að hægt er að laða að er­lenda fjár­fest­ingu með því að veita nýt­ing­ar­leyfi án þess að glata stjórn á auðlind­un­um sjálf­um. Mörg ríki inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þegar gripið til mun rót­tæk­ari ráðstaf­ana en Ísland til þess að verja land sitt og auðlind­ir.

Stefna til framtíðar

Ljóst er að eign­ar­hald á auðlind­um lands­ins mun gegna lyk­il­hlut­verki við að tryggja efna­hags­lega vel­ferð og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar í alþjóðasam­fé­lag­inu. Þings­álykt­un­ar­til­lag­an er því mik­il­væg­ur grunn­ur að ábyrgri auðlinda­stjórn sem get­ur komið í veg fyr­ir að kom­andi kyn­slóðir líti til baka með eft­ir­sjá yfir því hvernig Íslend­ing­ar nú­tím­ans gættu lands­ins okk­ar og auðlinda.

Rækt­um framtíðina og stuðlum að sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda lands­ins, styrk­ingu lands­byggðar­inn­ar og öfl­ugri vel­ferð þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Deila grein

15/03/2025

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Hver hefði trúað því fyr­ir aðeins nokkr­um miss­er­um að orku­ör­yggi al­menn­ings á Íslandi yrði mál mál­anna? En þannig er staðan á Íslandi í dag.

Hinn 13. mars sl. lagði ég fram til­lögu til þings­álykt­un­ar um að tryggja orku­ör­yggi al­menn­ings. Orku­ör­yggi al­menn­ings verður að vera eitt af for­gangs­mál­um Alþing­is. Það er fátt sem skipt­ir meira máli fyr­ir lífs­gæði lands­manna en ör­uggt aðgengi að raf­orku á hag­kvæmu verði.

Við höf­um nú orðið vitni að mestu hækk­un­um á raf­orku­verði til al­menn­ings í ára­tugi, og þess­ar hækk­an­ir eru alls ekki vegna skorts á raf­orku. Skýr­ing­in ligg­ur í reglu­verki sem vernd­ar ekki venju­lega not­end­ur, okk­ur al­menn­ing. Hér áður fyrr var þessi laga­lega vörn skýr og Lands­virkj­un gegndi því hlut­verki að tryggja orku­ör­yggi heim­ila. Með nýrri orku­lög­gjöf var þessi for­gang­ur felld­ur niður, án þess að koma í stað annarra úrræða sem styðja við okk­ur sem not­um inn­an við fimmt­ung raf­orku­fram­leiðslunn­ar.

Heim­il­in, ein­stak­ling­ar í rekstri og minni fyr­ir­tæki mega ekki lenda í sam­keppni við stór­not­end­ur sem eru með trausta lang­tíma­samn­inga, á sama tíma og við hin, al­menn­ing­ur og minni fyr­ir­tæki, erum varn­ar­laus fyr­ir hækk­un­um.

Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku eykst stöðugt bæði hér­lend­is og er­lend­is, og í dag er ekk­ert sem kem­ur í veg fyr­ir að stærri aðilar bjóði ein­fald­lega hærra verð í ork­una en al­menn­ing­ur get­ur staðið und­ir. Þetta er óá­sætt­an­leg staða fyr­ir heim­ili, bænd­ur og minni fyr­ir­tæki sem eru upp­spretta fjöl­breyti­leika í at­vinnu­lífi og mik­il­vægt mót­vægi gegn samþjöpp­un valds á markaðnum. Hags­mun­ir þess­ara hópa eru um leið hags­mun­ir lands­byggðar­inn­ar; fólk sem býr á köld­um svæðum og sem þarf raf­orku til upp­hit­un­ar hús­næðis býr við tvö­falda áhættu.

Ég trúi því og treysti að Alþingi lag­færi þetta órétt­læti. Því bind ég von­ir við að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra und­ir­búi laga­breyt­ing­ar sem tryggi stöðu og hags­muni al­menn­ings. Við þurf­um að tryggja for­gang heim­ila og viðhalda hag­kvæmu raf­orku­verði sem hef­ur verið grund­vall­ar­hluti af lífs­kjör­um lands­manna.

Á sama tíma þurf­um við einnig að taka upp­lýst­ar og ábyrg­ar ákv­arðanir um nýj­ar virkj­an­ir til að styðja við fjöl­breytt­an iðnað og vöxt sam­fé­lags­ins. Það er efni í aðra grein.

Tryggj­um ör­ugga raf­orku til allra lands­manna.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óður til Græn­lands

Deila grein

10/03/2025

Óður til Græn­lands

Getur þú ímyndað þér að þurfa alltaf að tala annað tungumál á fundum sem skipta einhverju raunverulegu máli í þínu eigin heimalandi? spurði grænlensk samstarfskona mig fyrir nokkrum árum og vísaði hér til dönsku. Þú upplifir að þú sért óæðri á einhvern hátt, þó að það sé kannski ekki ætlunin, þá seytlast sú tilfinning smátt og smátt inn.

Þessi upplifun festist í huga mér. Hún er ein birtingarmynd samskipta Dana við Grænlendinga sem hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar frá árinu 1721 þegar Grænland varð nýlenda Danmerkur. Grænland, stærsta eyja heims, er jafn stórt og Bretland, Þýskaland, Spánn, Ítalía, Austurríki, Sviss og Belgía samanlagt. Landfræðilega tilheyrir það Norður-Ameríkuflekanum og hefur í þúsundir ára verið heimili Inúíta sem hafa sitt eigið tungumál, sögu og menningu.

Í dag hefur margt breyst til hins betra í samskiptum þjóðanna sem birtist meðal annars í formlegri stöðu Grænlands gagnvart Danmörku. Árið 1953 fengu Grænlendingar aukin réttindi sem danskt amt eða hérað í konungsríki Dana. Árið 1979 öðluðust Grænlendingar heimastjórn og grænlenska þjóðþingið var stofnað. Þrjátíu árum síðar greiddu Grænlendingar atkvæði með samkomulagi um aukna sjálfstjórn (e. Self Government Act) sem gaf þeim líka rödd á danska þinginu og varðaði leið Grænlands til sjálfstæðis. Ein helsta efnahagslega hindrunin í þeirri vegferð er að ríflega helmingur tekna Grænlands kemur frá Danmörku.

Saga sjálfstæðisbaráttu Íslands og Grænlands

Grænlendingar þurfa einnig oft að heyra að þeir séu of fáir til að verða sjálfstæð þjóð enda eingöngu um 57 þúsund. Þá er áhugavert að líta aftur í söguna og horfa til þess að við Íslendingar voru líka smá þjóð þegar við öðluðumst fullt sjálfstæði eða um rúm 120 þúsund. Líkindin með sögu og tækifærum Íslands þá og Grænlands í dag eru töluverð eins og sjá má á eftirfarandi dæmum:

Á leið Íslands til sjálfstæðis jókst meðvitund um gildi íslenskrar tungu, menningar og náttúru sem varð grunnur að sjálfstæðisbaráttu okkar og sókn. Sama hefur verið uppi á teningnum í Grænlandi á undanförnum árum.

Þegar Ísland lýsti yfir sjálfstæði skipti stuðningur og viðurkenning Bandaríkjanna sköpum, á tímum þegar Danmörk var hernumin. Núverandi ólga í alþjóðamálum sýnir að samvinna við Bandaríkin getur einnig haft áhrif á þróun Grænlands.

Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki var fiskurinn í sjónum okkar helsta tekjulind. Í Grænlandi er staðan sú sama en allt að þriðjungur landsframleiðslu þeirra kemur frá sjávarútvegi. Sóknarfærin í nýsköpun og aukinni verðmætasköpun á sviði sjávarútvegs geta orðið fjölmörg í framtíð Grænlands, líkt og við höfum reynslu af hér á landi.

Eftir sjálfstæði Íslands nýttum við fallvötn til raforkuframleiðslu til að fjölga stoðum efnahagslífsins og byggðum upp sterka innviði raforku og tengdan iðnað svo sem álframleiðslu og gagnaver. Grænland býr yfir sömu möguleikum á enn stærri skala m.a. með sína ríku möguleika í vatnsafli. Þessir möguleikar orkumálanna geta líka stutt við framleiðslu rafeldsneytis eða nýtingu málma Grænlands, sem er orkufrekur iðnaður. Slík innviðauppbygging getur svo nýst fleiri sviðum samfélagsins til lengri tíma, líkt og raunin varð á Íslandi.

Eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki nýttum við legu landsins mitt milli Evrópu og Bandaríkjanna til að byggja upp millilandaflug. Það rauf einangrun Íslands, efldi viðskipti og varð grunnur ferðaþjónustunnar eins og við þekkjum hana í dag. Grænland er á barmi þessarar þróunar; lega landsins er hagstæð og eftir langa bið sem hefur heft þessa þróun munu þrír alþjóðlegir flugvellir starfa á Grænlandi frá og með 2026, en sá fyrsti opnaði í Nuuk árið 2024. Gera má ráð fyrir að þessar nýju samskiptaæðar muni gjörbreyta möguleikum Grænlendinga í viðskiptum og gera ferðaþjónustu að stærri tekjustoð, enda náttúra Grænlands og menning einstök.

Staða Grænlands í dag – Ísland sem ákveðin fyrirmynd og bandamaður

Grænland stendur því að sumu leiti á svipuðum tímamótum og Ísland gerði fyrir nokkrum áratugum. Samhliða og Ísland tryggði sér pólitískt sjálfstæði þurftum við að byggja upp efnahagslegt sjálfstæði, fjölga stoðum atvinnulífsins, byggja upp menntun og heilbrigðiskerfi, og skapa okkur sess á alþjóðavettvangi. Grænland stendur nú frammi fyrir sömu verkefnum: Að treysta efnahagsgrunn sinn, efla innviði, nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og auka alþjóðlega samkeppnishæfni. Þess vegna er Ísland kjörinn samstarfsaðili sem getur verið fyrirmynd í ákveðnum verkefnum í þessari vegferð.

Þrátt fyrir smæð þjóðarinnar hefur Grænland burði til að byggja upp fjölbreytt efnahagslíf, rétt eins og Ísland gerði á sínum tíma. En það sem skiptir jafnvel enn meira máli er að Ísland er eitt af örfáum ríkjum sem skilur að ákveðnu leyti raunverulega hvaða áskoranir Grænland stendur frammi fyrir. Við erum þjóð sem hefur gengið í gegnum sjálfstæðisferli undan Dönum. Við eigum því sögu um samskipti við Danmörku bæði sem fyrrverandi hluti af veldi þeirra og upplifun af farsælum samskiptum eftir sjálfstæði. Þessi reynsla skapar einstakt tækifæri til samvinnu; Ísland hefur bæði reynslu og getu til að styðja Grænland í þeirri leið sem þeir ákveða og það er í okkar hagsmunum að tryggja að rödd Grænlands hljómi skýrar á alþjóðavettvangi.

Aukin samvinna Íslands og Grænlands á að vera forgangsmál

Eins og sjá má þá eru staða og tækifæri Íslands og Grænlendings í fortíð og framtíð lík að ýmsu leyti. Ofan á þessi líkindi hafa Grænlendingar mun fjölbreyttari tækifæri í öðrum auðlindum eins og kopar, gulli, úraníum og olíu. Þess vegna er vægi Grænlands í geopólitík ótvírætt sem skapar bæði tækifæri og ógnir eins og hefur birst á undanförnum vikum.

Hvað sem líður ætti að vera forgangsmál Íslands að efla samstarf við Grænland. Þegar er samvinnan töluverð á sviði rannsókna, í orku, málmum og flugi svo dæmi séu tekin en færa ætti út kvíarnar í samvinnu þvert á geira og samfélag á sem flestum sviðum með framtíðarhagsmuni þessara vinaþjóða að leiðarljósi. Einnig á Ísland að beita sér fyrir því að Grænland verði sem allra fyrst fullgildur meðlimur í Norðurlandaráði til að styrkja möguleika þeirra á að láta rödd sína heyrast.

Við erum til í viðskipti en ekki til sölu

Árið 2019 tók ég á móti utanríkisráðherra Grænlands vegna funda og viðburðar Harvard-háskóla. Stuttu áður hafði Trump lýst yfir áhuga sínum í fyrsta sinn á að kaupa Grænland og aflýst opinberri heimsókn sinni til Danmerkur þegar Danir mótmæltu orðum hans. Á viðburðinum í háskólanum ítrekaði ráðherrann skýra afstöðu Grænlendinga: Við erum til í viðskipti, en við erum ekki til sölu.

Nú, nokkrum árum síðar, kemur áhugi Bandaríkjanna enn skýrar fram með endurkomu Trump. Ástæðan er enn á ný hernaðarlega mikilvæg staðsetning Grænlands og ríkidæmi þeirra í mikilvægum málmum og öðrum auðlindum. Samtímis er staða heimsmálanna er flóknari eftir innrás Rússa í Úkraínu sem meðal annars hefur veikt Norðurskautsráðið mikið sem áður var vettvangur samvinnu um málefni norðursins. Þess ber að geta að í vor taka Danir, sem fara með utanríkis- og varnarmál Grænlands, við formennsku í hálf lömuðu Norðurskautsráðinu og þar innanborðs eru einnig Bandaríkjamenn og Rússar sem eiga ríka hagsmuni í okkar heimshluta. Staðan er flókin á marga vegu en mikilvægi samvinnu og langtímahugsunar í allri ákvarðanatöku hefur sjaldan verið meiri.

Breytir áhugi Bandaríkjanna einhverju fyrir Grænland?

Samtöl mín við samstarfsfólk á Grænlandi hafa öll bent í sömu átt og utanríkisráðherrann nefndi á fundinum 2019 og kannanir um málið þar í landi undirstrika sömuleiðis; það er lítill áhugi á hugmyndum um að ganga í Bandaríkin, en áhugi á samvinnu og viðskiptum er fyrir hendi. Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi hefur hins vegar ýtt við umræðum um framtíð Grænlands og skapað Grænlendingum að einhverju leyti betri samningsstöðu í samvinnu gagnvart Dönum, sem er þeim mikilvæg. Vert er að benda á að beint samstarf Grænlands og Bandaríkjanna hefur verið að aukast mikið undanfarin ár; eins og opnun ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í höfuðborg Grænlands, Nuuk, í fyrri forsetatíð Trumps og skrifstofa Grænlands í Washington sem opnaði árið 2021, eru dæmi um.

Það verður áhugavert að sjá hvort eða hvernig núverandi staða heimsmálanna birtist í kosningunum Grænlandi á þriðjudaginn í samhengi við áherslu á sjálfstæði sem flestir Grænlendingar vilja á einhverjum tímapunkti samkvæmt könnunum. Grænland hefur oft farið sínar eigin leiðir. Þeir gengu til að mynda úr Evrópubandalaginu, forvera Evrópusambandsins, og sögðu sig tímabundið frá loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hvoru tveggja var gert til að tryggja Grænland gæti nýtt auðlindir sínar og byggt upp efnahagslegan styrk í átt að sjálfstæði sem hefur verið þeirra forgangsmál. Þeir eru dugmikil þjóð sem spennandi verður að fylgjast með velja sína leið.

Megi rödd Grænlands hljóma og samvinna aukast

Hver sem niðurstaða kosninganna verður er ljóst, miðað við þróun undanfarinna áratuga og umræður í aðdraganda kosninganna, að Grænland er á vegferð til sjálfstæðis. Ísland hefur bæði reynslu og getu til að styðja Grænlendinga á þessari leið með viðeigandi hætti. Við þekkjum áskoranirnar sem fylgja sjálfstæðisbaráttu smáríkja – en við þekkjum líka tækifærin sem felast í því að byggja upp sterkt og sjálfstætt samfélag og öfluga alþjóðlega samvinnu.

Það er bæði siðferðisleg og pólitísk skylda okkar að styðja Grænland og tryggja að rödd þeirra fái aukið vægi. Ísland og Grænland eiga sameiginlega framtíð á norðurslóðum, og það er undir okkur komið að styrkja það samstarf enn frekar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, meðstofnandi Miðstöðvar norðurslóða (Arctic Initiative) við Harvard-háskóla og fulltrúi Íslands í Norðurlandaráði

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Deila grein

20/02/2025

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Að lok­inni þing­setn­ingu, sem fram fór 4. fe­brú­ar sl. og þar sem ný rík­is­stjórn hef­ur lagt fram þing­mála­skrá vorþings, er rétt að minna á eina mik­il­væg­ustu áskor­un sam­tím­ans: orku­mál. Orku­mál hafa um langa hríð verið mikið deilu­efni á Alþingi, en í ljósi þjóðar­hags­muna er nauðsyn­legt að nálg­ast þau af meiri skyn­semi og trausti en verið hef­ur, bæði varðandi nýt­ingu auðlinda og nátt­úru­vernd. Það er von mín að umræða um orku­mál á kom­andi árum verði mark­viss og lausnamiðuð og byggi á sam­eig­in­leg­um lang­tíma­sjón­ar­miðum, öll­um til hags­bóta.

Hraðar breyt­ing­ar á orku­markaði

Ef við horf­um til síðasta ára­tug­ar sést glöggt hversu sveiflu­kennd þróun eft­ir­spurn­ar og fram­boðs á orku get­ur verið. Á þessu tíma­bili var ál­verið í Helgu­vík blásið af. Fram­boð á raf­orku var nægt og orku­verð lágt. Heims­far­ald­ur­inn sem skall á árið 2020 dró enn frek­ar úr eft­ir­spurn eft­ir orku.

Eft­ir COVID-19 far­ald­ur­inn tók orku­markaður­inn stakka­skipt­um. Verð á áli og ra­f­ræn­um gjald­miðlum hækkaði, iðnaður sótti fram og stríð í Evr­ópu ýtti enn frek­ar und­ir eft­ir­spurn eft­ir raf­orku. Á sama tíma varð raf­orku­skort­ur hér á landi vegna verstu vatns­ára í sögu Lands­virkj­un­ar. Nú hef­ur staðan aft­ur lag­ast vegna auk­inna rign­inga, en þessi öfga­fullu og sveiflu­kenndu tíma­bil minna okk­ur á að breyt­ing­ar ger­ast hratt og geta haft víðtæk áhrif. Á kjör­tíma­bil­inu munu svo verða enn frek­ari breyt­ing­ar. Þannig mun ís­lenski raf­orku­markaður­inn þró­ast til sam­ræm­is við reglu­gerðir Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB). Síðast en ekki síst munu sum­ar þeirra virkj­ana sem fyrri rík­is­stjórn samþykkti koma til fram­kvæmda.

Alþjóðleg­ar áskor­an­ir og áhrif á Ísland

Örar breyt­ing­ar á orku­markaði und­ir­strika mik­il­vægi þess að við séum vak­andi fyr­ir þróun á alþjóðleg­um mörkuðum. Banda­rík­in og Evr­ópa hafa til­kynnt gríðarleg­ar fjár­fest­ing­ar í orku­fram­leiðslu og innviðum fyr­ir gervi­greind og spurn­ing­ar vakna um hvaða áhrif þær muni hafa á Ísland. Verðum við eft­ir­sótt­ara land fyr­ir orku­frek­an iðnað? Hver verður sam­keppn­is­hæfni Íslands í ljósi auk­inn­ar fjár­fest­ing­ar í orku­geir­an­um ann­ars staðar? Þetta eru spurn­ing­ar sem við þurf­um að ræða og svara af yf­ir­veg­un og skyn­semi.

Setj­um sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang

Orku­saga Íslands er sam­tvinnuð sögu ungr­ar sjálf­stæðar þjóðar sem leitaði leiða til að bæta lífs­kjör. Við byggðum hita­veit­ur, virkj­an­ir og byggðalínu og tryggðum orku­ör­yggi al­menn­ings í lög­um. Gleym­um ekki sam­fé­lags­áhersl­um nú þegar frjáls orku­markaðar ryður sér til rúms.

Tryggj­um orku­ör­yggi al­menn­ings á nýj­an leik til að koma í veg fyr­ir verðhækk­an­ir líkt og í Evr­ópu. For­gangs­röðum fjár­magni með áherslu á hita­veit­ur og jarðhita­leit, sér­stak­lega á köld­um svæðum. Ýtum und­ir að ein­angraðir staðir, eins og Vest­f­irðir og Vest­manna­eyj­ar, fái sterk­ara flutn­ings­kerfi, sem skipt­ir lyk­il­máli fyr­ir at­vinnu­líf og íbúa. Sköp­um hvata þannig að ný orku­fram­leiðsla efli at­vinnu­tæki­færi um allt land, í takt við ólík mark­mið stjórn­valda, allt frá mat­væla­fram­leiðslu til orku­skipta, en fari ekki til hæst­bjóðenda hverju sinni. Að setja slík­ar sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang kall­ar á skýra póli­tíska sýn og ná­kvæmni í inn­leiðingu stefnu. Þær geta hins veg­ar eflt mögu­leika íbúa og aukið verðmæta­sköp­un at­vinnu­lífs um allt land.

Ný­sköp­un og nátt­úru­vernd í orku­stefnu

Ný­sköp­un, ork­u­nýtni og nátt­úru­vernd þurfa einnig að vera lyk­il­hug­tök í orkupóli­tík framtíðar­inn­ar, ekki síst nú þegar umræðan um vindorku er að aukast. Vindorka get­ur orðið mik­il­væg viðbót við orku­fram­leiðslu lands­ins, en henni fylgja nýj­ar áskor­an­ir sem þarf að tak­ast á við af ábyrgð á grunni heild­stæðrar stefnu­mót­un­ar með verðmæti nátt­úru í huga.

Sam­vinna í orku­mál­um

Orku­mál eiga ekki að vera vett­vang­ur fyr­ir skot­graf­ir og upp­hróp­an­ir. Við þurf­um sam­vinnu, fag­lega nálg­un og lausnamiðaða stefnu sem trygg­ir hags­muni bæði nú­ver­andi og kom­andi kyn­slóða. Framtíð Íslands á það skilið.

Megi traust ríkja í nýt­ingu okk­ar ein­stöku og fjöl­breyttu auðlinda á grunni virðing­ar fyr­ir nátt­úru og um­hverfi.

Ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.