Categories
Fréttir Greinar

Komum náminu á Höfn í höfn

Deila grein

05/04/2025

Komum náminu á Höfn í höfn

„Við erum með þrjú gengi sem skiptast á, vinna í klukkutíma í senn við mokstur og niðurbrot á ís. Þannig munum við sigla áfram inn í daginn”, sagði Sveinn Rúnar Kristjánsson á vettvangi aðgerða í kjölfar hrun íshellisins í Breiðamerkurjökli síðastliðið haust.

Í slysinu lést einn ferðamaður. Það minnti harkalega á hversu mikilvæg þekking í leiðsögn er í síbreytilegu umhverfi jökla hér á landi. Þar skiptir fagmennskan öllu. Færni. Reynsla. Ábyrgð.

Þessa þrjá þætti hefur fjallamennskunámið við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Höfn einmitt lagt mikla áherslu á. Námið er eina sinnar tegundar á Íslandi. Það útskrifar fólk með eftirsótta þekkingu fyrir lykilgrein á Íslandi; ferðaþjónustuna. Slíkt er þarft og ekki síst „höfuðstöðvum“ helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúmlega 500% á undanförnum árum.

Samhliða aukningu hafa ný ferðaþjónustufyritæki sprottið fram og eftirspurn eftir fólki með sérhæfða þekkingu í leiðsögn aukist langt umfram framboð. Svo mikið að ráðuneytisstjórahópur sem lagði mat á aðgerðir í kjölfar slyssins ályktaði sérstaklega; „að auka þyrfti kröfur um menntun og reynslu til þess að starfa í Vatnajökulsþjóðgarði“.

Öflugt nám er einfaldlega forsenda þess að leiðsögn á jökla, sem eru eitt helsta aðdráttarafl landsins, sé vönduð, enda er orðspor okkar sem áfangastaðar undir. Allt annað er áhætta fyrir fólk, fyrirtæki og framtíð ferðaþjónustunnar, greinar sem styður jafnframt blómlega byggð um allt land. Námið er einmitt uppskera kraftmikils fólks sem margt hvert sneri aftur heim í Öræfin með fjölbreytta menntun og reynslu í farteskinu.

Námsbrautinni á hins vegar nú að loka. Kostnaðurinn þykir of mikill. Spurningin ætti þó heldur að vera; hvað kostar Ísland að hafa ekki slíkt nám? Að ógna öryggi ferðaþjónustunnar sem telur í dag rúm átta prósent af landsframleiðslu Íslands. Að draga úr vaxtatækifærum í menntun og atvinnu utan höfuðborgarinnar. Hvernig framtíðarsýn er það?

Við mat á verðmæti námsins þarf einfaldlega að setja hlutina í stærra samhengi; víkka linsuna á vaxtatækifærin sem eru til staðar. Hægt væri að sækja hluta tekna til reksturs námsins frá erlendum nemendum og áhugafólki um útivist, og gefa kost á að nýta ákveðnar einingar þess á háskólastigi. Þetta þekkir undirrituð frá því að hafa byggt upp alþjóðlegt nám við Háskólann í Reykjavík og Harvard.

Til viðbótar við ferðaþjónustu mætti einnig horfa á þverrandi líðan ungs fólks og spyrja; er fjallamennskunám mögulega sproti sem við ættum að leyfa okkur sem þjóð að fjárfesta meira í sem hluta af samfélagsáherslu Íslands í menntun. Vel er þekkt að sú vellíðan og liðsheild sem myndast í samveru á fjöllum er á við margar vítamínssprautur og skapar bæði seiglu og þrótt fyrir verkefnin sem við fáum í fangið í lífsins ólgusjó.

Ég skora á hæstvirtan menntamálaráðherra að gefa náminu svigrúm til þess að finna nýjan farveg í stað þess að hætta stuðningi nú. Til þess þarf plan til eins til þriggja ára á meðan fjölbreyttari tekjugrundvöllur er þróaður. Ég trúi því að þingmenn óháð flokkum horfi sömu augum á málið og að við leggjumst öll á árarnar.

Komum náminu á Höfn í höfn; með langtímahagsmuni og metnaðarfulla sýn fyrir Ísland að leiðarljósi.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Deila grein

29/03/2025

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Nú á dög­un­um mælti ég ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar fyr­ir þings­álykt­un um að tak­marka jarðakaup er­lendra aðila. Til­lög­unni er ætlað að tryggja lang­tíma­hags­muni Íslands með því að verja auðlind­ir þjóðar­inn­ar fyr­ir of víðtæku eign­ar­haldi er­lendra fyr­ir­tækja og ein­stak­linga.

Alþjóðleg eft­ir­spurn vek­ur spurn­ing­ar um ís­lenskt eign­ar­hald

Í kjöl­far auk­inn­ar alþjóðlegr­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir nátt­úru­auðlind­um hef­ur áhugi er­lendra aðila á ís­lensk­um jörðum auk­ist veru­lega. Þetta á sér­stak­lega við um jarðir sem hafa verðmæt vatns­rétt­indi eða aðgang að orku­auðlind­um á borð við jarðhita og vindorku, eða svæði sem eru rík af jarðefn­um. Gott dæmi um slík­an áhuga er ný­leg jarðakaup á Mýr­dalss­andi, þar sem stefnt er að meiri hátt­ar út­flutn­ingi jarðefna.

Upp­haf­lega voru ís­lensk lög um nýt­ingu jarðefna sett í þeim til­gangi að tryggja bænd­um og Vega­gerðinni aðgang að sandi og möl til fram­kvæmda inn­an­lands – ekki til út­flutn­ings. Mark­miðið var aldrei að selja Ísland bók­staf­lega úr landi.

Gæt­um að auðlind­um okk­ar til framtíðar

Til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir að at­vinnu­vegaráðherra skipi sér­fræðihóp, í sam­ráði við aðra ráðherra, til að und­ir­búa frum­varp um frek­ari tak­mark­an­ir á jarðakaup­um er­lendra aðila. Mark­mið þess er að tryggja að eign­ar­hald á ís­lensk­um auðlind­um verði áfram að meg­in­stefnu ís­lenskt.

Um leið verði Íslandi áfram haldið opnu fyr­ir alþjóðleg­um viðskipt­um og er­lendri fjár­fest­ingu, en þá frem­ur með nýt­ing­ar­leyf­um en beinu eign­ar­haldi er­lendra aðila á landi og auðlind­um.

Sér­fræðihóp­ur skipaður til að móta skýra stefnu

Í ljósi geopóli­tískra hags­muna og víðtækra framtíðaráhrifa er nauðsyn­legt að stjórn­völd taki af­ger­andi skref til að móta skýra og mark­vissa stefnu á þessu sviði. Sögu­leg­ar bar­átt­ur Íslend­inga fyr­ir eign­ar­haldi á nátt­úru­auðlind­um, svo sem land­helg­is­bar­átt­an og stofn­un Lands­virkj­un­ar, eru góðar fyr­ir­mynd­ir um hvernig tryggja megi lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar.

Nýt­ing­ar­leyfi – leið til að laða að er­lenda fjár­fest­ingu án þess að tapa auðlind­um

Þótt alþjóðleg viðskipti séu lyk­ill­inn að vel­meg­un Íslands og mik­il­væg upp­spretta at­vinnu­sköp­un­ar þýðir það ekki að auðlind­ir lands­ins þurfi að selja úr landi án eft­ir­lits. Reynsl­an frá öðrum lönd­um, til dæm­is Ástr­al­íu, sýn­ir að hægt er að laða að er­lenda fjár­fest­ingu með því að veita nýt­ing­ar­leyfi án þess að glata stjórn á auðlind­un­um sjálf­um. Mörg ríki inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þegar gripið til mun rót­tæk­ari ráðstaf­ana en Ísland til þess að verja land sitt og auðlind­ir.

Stefna til framtíðar

Ljóst er að eign­ar­hald á auðlind­um lands­ins mun gegna lyk­il­hlut­verki við að tryggja efna­hags­lega vel­ferð og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar í alþjóðasam­fé­lag­inu. Þings­álykt­un­ar­til­lag­an er því mik­il­væg­ur grunn­ur að ábyrgri auðlinda­stjórn sem get­ur komið í veg fyr­ir að kom­andi kyn­slóðir líti til baka með eft­ir­sjá yfir því hvernig Íslend­ing­ar nú­tím­ans gættu lands­ins okk­ar og auðlinda.

Rækt­um framtíðina og stuðlum að sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda lands­ins, styrk­ingu lands­byggðar­inn­ar og öfl­ugri vel­ferð þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Deila grein

15/03/2025

Orkuöryggi almennings er forgangsmál

Hver hefði trúað því fyr­ir aðeins nokkr­um miss­er­um að orku­ör­yggi al­menn­ings á Íslandi yrði mál mál­anna? En þannig er staðan á Íslandi í dag.

Hinn 13. mars sl. lagði ég fram til­lögu til þings­álykt­un­ar um að tryggja orku­ör­yggi al­menn­ings. Orku­ör­yggi al­menn­ings verður að vera eitt af for­gangs­mál­um Alþing­is. Það er fátt sem skipt­ir meira máli fyr­ir lífs­gæði lands­manna en ör­uggt aðgengi að raf­orku á hag­kvæmu verði.

Við höf­um nú orðið vitni að mestu hækk­un­um á raf­orku­verði til al­menn­ings í ára­tugi, og þess­ar hækk­an­ir eru alls ekki vegna skorts á raf­orku. Skýr­ing­in ligg­ur í reglu­verki sem vernd­ar ekki venju­lega not­end­ur, okk­ur al­menn­ing. Hér áður fyrr var þessi laga­lega vörn skýr og Lands­virkj­un gegndi því hlut­verki að tryggja orku­ör­yggi heim­ila. Með nýrri orku­lög­gjöf var þessi for­gang­ur felld­ur niður, án þess að koma í stað annarra úrræða sem styðja við okk­ur sem not­um inn­an við fimmt­ung raf­orku­fram­leiðslunn­ar.

Heim­il­in, ein­stak­ling­ar í rekstri og minni fyr­ir­tæki mega ekki lenda í sam­keppni við stór­not­end­ur sem eru með trausta lang­tíma­samn­inga, á sama tíma og við hin, al­menn­ing­ur og minni fyr­ir­tæki, erum varn­ar­laus fyr­ir hækk­un­um.

Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku eykst stöðugt bæði hér­lend­is og er­lend­is, og í dag er ekk­ert sem kem­ur í veg fyr­ir að stærri aðilar bjóði ein­fald­lega hærra verð í ork­una en al­menn­ing­ur get­ur staðið und­ir. Þetta er óá­sætt­an­leg staða fyr­ir heim­ili, bænd­ur og minni fyr­ir­tæki sem eru upp­spretta fjöl­breyti­leika í at­vinnu­lífi og mik­il­vægt mót­vægi gegn samþjöpp­un valds á markaðnum. Hags­mun­ir þess­ara hópa eru um leið hags­mun­ir lands­byggðar­inn­ar; fólk sem býr á köld­um svæðum og sem þarf raf­orku til upp­hit­un­ar hús­næðis býr við tvö­falda áhættu.

Ég trúi því og treysti að Alþingi lag­færi þetta órétt­læti. Því bind ég von­ir við að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra und­ir­búi laga­breyt­ing­ar sem tryggi stöðu og hags­muni al­menn­ings. Við þurf­um að tryggja for­gang heim­ila og viðhalda hag­kvæmu raf­orku­verði sem hef­ur verið grund­vall­ar­hluti af lífs­kjör­um lands­manna.

Á sama tíma þurf­um við einnig að taka upp­lýst­ar og ábyrg­ar ákv­arðanir um nýj­ar virkj­an­ir til að styðja við fjöl­breytt­an iðnað og vöxt sam­fé­lags­ins. Það er efni í aðra grein.

Tryggj­um ör­ugga raf­orku til allra lands­manna.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óður til Græn­lands

Deila grein

10/03/2025

Óður til Græn­lands

Getur þú ímyndað þér að þurfa alltaf að tala annað tungumál á fundum sem skipta einhverju raunverulegu máli í þínu eigin heimalandi? spurði grænlensk samstarfskona mig fyrir nokkrum árum og vísaði hér til dönsku. Þú upplifir að þú sért óæðri á einhvern hátt, þó að það sé kannski ekki ætlunin, þá seytlast sú tilfinning smátt og smátt inn.

Þessi upplifun festist í huga mér. Hún er ein birtingarmynd samskipta Dana við Grænlendinga sem hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar frá árinu 1721 þegar Grænland varð nýlenda Danmerkur. Grænland, stærsta eyja heims, er jafn stórt og Bretland, Þýskaland, Spánn, Ítalía, Austurríki, Sviss og Belgía samanlagt. Landfræðilega tilheyrir það Norður-Ameríkuflekanum og hefur í þúsundir ára verið heimili Inúíta sem hafa sitt eigið tungumál, sögu og menningu.

Í dag hefur margt breyst til hins betra í samskiptum þjóðanna sem birtist meðal annars í formlegri stöðu Grænlands gagnvart Danmörku. Árið 1953 fengu Grænlendingar aukin réttindi sem danskt amt eða hérað í konungsríki Dana. Árið 1979 öðluðust Grænlendingar heimastjórn og grænlenska þjóðþingið var stofnað. Þrjátíu árum síðar greiddu Grænlendingar atkvæði með samkomulagi um aukna sjálfstjórn (e. Self Government Act) sem gaf þeim líka rödd á danska þinginu og varðaði leið Grænlands til sjálfstæðis. Ein helsta efnahagslega hindrunin í þeirri vegferð er að ríflega helmingur tekna Grænlands kemur frá Danmörku.

Saga sjálfstæðisbaráttu Íslands og Grænlands

Grænlendingar þurfa einnig oft að heyra að þeir séu of fáir til að verða sjálfstæð þjóð enda eingöngu um 57 þúsund. Þá er áhugavert að líta aftur í söguna og horfa til þess að við Íslendingar voru líka smá þjóð þegar við öðluðumst fullt sjálfstæði eða um rúm 120 þúsund. Líkindin með sögu og tækifærum Íslands þá og Grænlands í dag eru töluverð eins og sjá má á eftirfarandi dæmum:

Á leið Íslands til sjálfstæðis jókst meðvitund um gildi íslenskrar tungu, menningar og náttúru sem varð grunnur að sjálfstæðisbaráttu okkar og sókn. Sama hefur verið uppi á teningnum í Grænlandi á undanförnum árum.

Þegar Ísland lýsti yfir sjálfstæði skipti stuðningur og viðurkenning Bandaríkjanna sköpum, á tímum þegar Danmörk var hernumin. Núverandi ólga í alþjóðamálum sýnir að samvinna við Bandaríkin getur einnig haft áhrif á þróun Grænlands.

Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki var fiskurinn í sjónum okkar helsta tekjulind. Í Grænlandi er staðan sú sama en allt að þriðjungur landsframleiðslu þeirra kemur frá sjávarútvegi. Sóknarfærin í nýsköpun og aukinni verðmætasköpun á sviði sjávarútvegs geta orðið fjölmörg í framtíð Grænlands, líkt og við höfum reynslu af hér á landi.

Eftir sjálfstæði Íslands nýttum við fallvötn til raforkuframleiðslu til að fjölga stoðum efnahagslífsins og byggðum upp sterka innviði raforku og tengdan iðnað svo sem álframleiðslu og gagnaver. Grænland býr yfir sömu möguleikum á enn stærri skala m.a. með sína ríku möguleika í vatnsafli. Þessir möguleikar orkumálanna geta líka stutt við framleiðslu rafeldsneytis eða nýtingu málma Grænlands, sem er orkufrekur iðnaður. Slík innviðauppbygging getur svo nýst fleiri sviðum samfélagsins til lengri tíma, líkt og raunin varð á Íslandi.

Eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki nýttum við legu landsins mitt milli Evrópu og Bandaríkjanna til að byggja upp millilandaflug. Það rauf einangrun Íslands, efldi viðskipti og varð grunnur ferðaþjónustunnar eins og við þekkjum hana í dag. Grænland er á barmi þessarar þróunar; lega landsins er hagstæð og eftir langa bið sem hefur heft þessa þróun munu þrír alþjóðlegir flugvellir starfa á Grænlandi frá og með 2026, en sá fyrsti opnaði í Nuuk árið 2024. Gera má ráð fyrir að þessar nýju samskiptaæðar muni gjörbreyta möguleikum Grænlendinga í viðskiptum og gera ferðaþjónustu að stærri tekjustoð, enda náttúra Grænlands og menning einstök.

Staða Grænlands í dag – Ísland sem ákveðin fyrirmynd og bandamaður

Grænland stendur því að sumu leiti á svipuðum tímamótum og Ísland gerði fyrir nokkrum áratugum. Samhliða og Ísland tryggði sér pólitískt sjálfstæði þurftum við að byggja upp efnahagslegt sjálfstæði, fjölga stoðum atvinnulífsins, byggja upp menntun og heilbrigðiskerfi, og skapa okkur sess á alþjóðavettvangi. Grænland stendur nú frammi fyrir sömu verkefnum: Að treysta efnahagsgrunn sinn, efla innviði, nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og auka alþjóðlega samkeppnishæfni. Þess vegna er Ísland kjörinn samstarfsaðili sem getur verið fyrirmynd í ákveðnum verkefnum í þessari vegferð.

Þrátt fyrir smæð þjóðarinnar hefur Grænland burði til að byggja upp fjölbreytt efnahagslíf, rétt eins og Ísland gerði á sínum tíma. En það sem skiptir jafnvel enn meira máli er að Ísland er eitt af örfáum ríkjum sem skilur að ákveðnu leyti raunverulega hvaða áskoranir Grænland stendur frammi fyrir. Við erum þjóð sem hefur gengið í gegnum sjálfstæðisferli undan Dönum. Við eigum því sögu um samskipti við Danmörku bæði sem fyrrverandi hluti af veldi þeirra og upplifun af farsælum samskiptum eftir sjálfstæði. Þessi reynsla skapar einstakt tækifæri til samvinnu; Ísland hefur bæði reynslu og getu til að styðja Grænland í þeirri leið sem þeir ákveða og það er í okkar hagsmunum að tryggja að rödd Grænlands hljómi skýrar á alþjóðavettvangi.

Aukin samvinna Íslands og Grænlands á að vera forgangsmál

Eins og sjá má þá eru staða og tækifæri Íslands og Grænlendings í fortíð og framtíð lík að ýmsu leyti. Ofan á þessi líkindi hafa Grænlendingar mun fjölbreyttari tækifæri í öðrum auðlindum eins og kopar, gulli, úraníum og olíu. Þess vegna er vægi Grænlands í geopólitík ótvírætt sem skapar bæði tækifæri og ógnir eins og hefur birst á undanförnum vikum.

Hvað sem líður ætti að vera forgangsmál Íslands að efla samstarf við Grænland. Þegar er samvinnan töluverð á sviði rannsókna, í orku, málmum og flugi svo dæmi séu tekin en færa ætti út kvíarnar í samvinnu þvert á geira og samfélag á sem flestum sviðum með framtíðarhagsmuni þessara vinaþjóða að leiðarljósi. Einnig á Ísland að beita sér fyrir því að Grænland verði sem allra fyrst fullgildur meðlimur í Norðurlandaráði til að styrkja möguleika þeirra á að láta rödd sína heyrast.

Við erum til í viðskipti en ekki til sölu

Árið 2019 tók ég á móti utanríkisráðherra Grænlands vegna funda og viðburðar Harvard-háskóla. Stuttu áður hafði Trump lýst yfir áhuga sínum í fyrsta sinn á að kaupa Grænland og aflýst opinberri heimsókn sinni til Danmerkur þegar Danir mótmæltu orðum hans. Á viðburðinum í háskólanum ítrekaði ráðherrann skýra afstöðu Grænlendinga: Við erum til í viðskipti, en við erum ekki til sölu.

Nú, nokkrum árum síðar, kemur áhugi Bandaríkjanna enn skýrar fram með endurkomu Trump. Ástæðan er enn á ný hernaðarlega mikilvæg staðsetning Grænlands og ríkidæmi þeirra í mikilvægum málmum og öðrum auðlindum. Samtímis er staða heimsmálanna er flóknari eftir innrás Rússa í Úkraínu sem meðal annars hefur veikt Norðurskautsráðið mikið sem áður var vettvangur samvinnu um málefni norðursins. Þess ber að geta að í vor taka Danir, sem fara með utanríkis- og varnarmál Grænlands, við formennsku í hálf lömuðu Norðurskautsráðinu og þar innanborðs eru einnig Bandaríkjamenn og Rússar sem eiga ríka hagsmuni í okkar heimshluta. Staðan er flókin á marga vegu en mikilvægi samvinnu og langtímahugsunar í allri ákvarðanatöku hefur sjaldan verið meiri.

Breytir áhugi Bandaríkjanna einhverju fyrir Grænland?

Samtöl mín við samstarfsfólk á Grænlandi hafa öll bent í sömu átt og utanríkisráðherrann nefndi á fundinum 2019 og kannanir um málið þar í landi undirstrika sömuleiðis; það er lítill áhugi á hugmyndum um að ganga í Bandaríkin, en áhugi á samvinnu og viðskiptum er fyrir hendi. Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi hefur hins vegar ýtt við umræðum um framtíð Grænlands og skapað Grænlendingum að einhverju leyti betri samningsstöðu í samvinnu gagnvart Dönum, sem er þeim mikilvæg. Vert er að benda á að beint samstarf Grænlands og Bandaríkjanna hefur verið að aukast mikið undanfarin ár; eins og opnun ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í höfuðborg Grænlands, Nuuk, í fyrri forsetatíð Trumps og skrifstofa Grænlands í Washington sem opnaði árið 2021, eru dæmi um.

Það verður áhugavert að sjá hvort eða hvernig núverandi staða heimsmálanna birtist í kosningunum Grænlandi á þriðjudaginn í samhengi við áherslu á sjálfstæði sem flestir Grænlendingar vilja á einhverjum tímapunkti samkvæmt könnunum. Grænland hefur oft farið sínar eigin leiðir. Þeir gengu til að mynda úr Evrópubandalaginu, forvera Evrópusambandsins, og sögðu sig tímabundið frá loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hvoru tveggja var gert til að tryggja Grænland gæti nýtt auðlindir sínar og byggt upp efnahagslegan styrk í átt að sjálfstæði sem hefur verið þeirra forgangsmál. Þeir eru dugmikil þjóð sem spennandi verður að fylgjast með velja sína leið.

Megi rödd Grænlands hljóma og samvinna aukast

Hver sem niðurstaða kosninganna verður er ljóst, miðað við þróun undanfarinna áratuga og umræður í aðdraganda kosninganna, að Grænland er á vegferð til sjálfstæðis. Ísland hefur bæði reynslu og getu til að styðja Grænlendinga á þessari leið með viðeigandi hætti. Við þekkjum áskoranirnar sem fylgja sjálfstæðisbaráttu smáríkja – en við þekkjum líka tækifærin sem felast í því að byggja upp sterkt og sjálfstætt samfélag og öfluga alþjóðlega samvinnu.

Það er bæði siðferðisleg og pólitísk skylda okkar að styðja Grænland og tryggja að rödd þeirra fái aukið vægi. Ísland og Grænland eiga sameiginlega framtíð á norðurslóðum, og það er undir okkur komið að styrkja það samstarf enn frekar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, meðstofnandi Miðstöðvar norðurslóða (Arctic Initiative) við Harvard-háskóla og fulltrúi Íslands í Norðurlandaráði

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Deila grein

20/02/2025

Ný ríkisstjórn og framtíð orkumála á Íslandi

Að lok­inni þing­setn­ingu, sem fram fór 4. fe­brú­ar sl. og þar sem ný rík­is­stjórn hef­ur lagt fram þing­mála­skrá vorþings, er rétt að minna á eina mik­il­væg­ustu áskor­un sam­tím­ans: orku­mál. Orku­mál hafa um langa hríð verið mikið deilu­efni á Alþingi, en í ljósi þjóðar­hags­muna er nauðsyn­legt að nálg­ast þau af meiri skyn­semi og trausti en verið hef­ur, bæði varðandi nýt­ingu auðlinda og nátt­úru­vernd. Það er von mín að umræða um orku­mál á kom­andi árum verði mark­viss og lausnamiðuð og byggi á sam­eig­in­leg­um lang­tíma­sjón­ar­miðum, öll­um til hags­bóta.

Hraðar breyt­ing­ar á orku­markaði

Ef við horf­um til síðasta ára­tug­ar sést glöggt hversu sveiflu­kennd þróun eft­ir­spurn­ar og fram­boðs á orku get­ur verið. Á þessu tíma­bili var ál­verið í Helgu­vík blásið af. Fram­boð á raf­orku var nægt og orku­verð lágt. Heims­far­ald­ur­inn sem skall á árið 2020 dró enn frek­ar úr eft­ir­spurn eft­ir orku.

Eft­ir COVID-19 far­ald­ur­inn tók orku­markaður­inn stakka­skipt­um. Verð á áli og ra­f­ræn­um gjald­miðlum hækkaði, iðnaður sótti fram og stríð í Evr­ópu ýtti enn frek­ar und­ir eft­ir­spurn eft­ir raf­orku. Á sama tíma varð raf­orku­skort­ur hér á landi vegna verstu vatns­ára í sögu Lands­virkj­un­ar. Nú hef­ur staðan aft­ur lag­ast vegna auk­inna rign­inga, en þessi öfga­fullu og sveiflu­kenndu tíma­bil minna okk­ur á að breyt­ing­ar ger­ast hratt og geta haft víðtæk áhrif. Á kjör­tíma­bil­inu munu svo verða enn frek­ari breyt­ing­ar. Þannig mun ís­lenski raf­orku­markaður­inn þró­ast til sam­ræm­is við reglu­gerðir Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB). Síðast en ekki síst munu sum­ar þeirra virkj­ana sem fyrri rík­is­stjórn samþykkti koma til fram­kvæmda.

Alþjóðleg­ar áskor­an­ir og áhrif á Ísland

Örar breyt­ing­ar á orku­markaði und­ir­strika mik­il­vægi þess að við séum vak­andi fyr­ir þróun á alþjóðleg­um mörkuðum. Banda­rík­in og Evr­ópa hafa til­kynnt gríðarleg­ar fjár­fest­ing­ar í orku­fram­leiðslu og innviðum fyr­ir gervi­greind og spurn­ing­ar vakna um hvaða áhrif þær muni hafa á Ísland. Verðum við eft­ir­sótt­ara land fyr­ir orku­frek­an iðnað? Hver verður sam­keppn­is­hæfni Íslands í ljósi auk­inn­ar fjár­fest­ing­ar í orku­geir­an­um ann­ars staðar? Þetta eru spurn­ing­ar sem við þurf­um að ræða og svara af yf­ir­veg­un og skyn­semi.

Setj­um sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang

Orku­saga Íslands er sam­tvinnuð sögu ungr­ar sjálf­stæðar þjóðar sem leitaði leiða til að bæta lífs­kjör. Við byggðum hita­veit­ur, virkj­an­ir og byggðalínu og tryggðum orku­ör­yggi al­menn­ings í lög­um. Gleym­um ekki sam­fé­lags­áhersl­um nú þegar frjáls orku­markaðar ryður sér til rúms.

Tryggj­um orku­ör­yggi al­menn­ings á nýj­an leik til að koma í veg fyr­ir verðhækk­an­ir líkt og í Evr­ópu. For­gangs­röðum fjár­magni með áherslu á hita­veit­ur og jarðhita­leit, sér­stak­lega á köld­um svæðum. Ýtum und­ir að ein­angraðir staðir, eins og Vest­f­irðir og Vest­manna­eyj­ar, fái sterk­ara flutn­ings­kerfi, sem skipt­ir lyk­il­máli fyr­ir at­vinnu­líf og íbúa. Sköp­um hvata þannig að ný orku­fram­leiðsla efli at­vinnu­tæki­færi um allt land, í takt við ólík mark­mið stjórn­valda, allt frá mat­væla­fram­leiðslu til orku­skipta, en fari ekki til hæst­bjóðenda hverju sinni. Að setja slík­ar sam­fé­lags­áhersl­ur í for­gang kall­ar á skýra póli­tíska sýn og ná­kvæmni í inn­leiðingu stefnu. Þær geta hins veg­ar eflt mögu­leika íbúa og aukið verðmæta­sköp­un at­vinnu­lífs um allt land.

Ný­sköp­un og nátt­úru­vernd í orku­stefnu

Ný­sköp­un, ork­u­nýtni og nátt­úru­vernd þurfa einnig að vera lyk­il­hug­tök í orkupóli­tík framtíðar­inn­ar, ekki síst nú þegar umræðan um vindorku er að aukast. Vindorka get­ur orðið mik­il­væg viðbót við orku­fram­leiðslu lands­ins, en henni fylgja nýj­ar áskor­an­ir sem þarf að tak­ast á við af ábyrgð á grunni heild­stæðrar stefnu­mót­un­ar með verðmæti nátt­úru í huga.

Sam­vinna í orku­mál­um

Orku­mál eiga ekki að vera vett­vang­ur fyr­ir skot­graf­ir og upp­hróp­an­ir. Við þurf­um sam­vinnu, fag­lega nálg­un og lausnamiðaða stefnu sem trygg­ir hags­muni bæði nú­ver­andi og kom­andi kyn­slóða. Framtíð Íslands á það skilið.

Megi traust ríkja í nýt­ingu okk­ar ein­stöku og fjöl­breyttu auðlinda á grunni virðing­ar fyr­ir nátt­úru og um­hverfi.

Ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óður til opin­berra starfs­manna

Deila grein

02/02/2025

Óður til opin­berra starfs­manna

Við mæðgur sitjum lúnar á biðstofunni. Það varð trampólínslys og fóturinn er mögulega brotinn. Svo taka á móti okkur röntgentæknir, sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur og læknir sem leysa verkefnið af alúð.

Það er þröngt á þingi. Stofur og gangar yfirfullar af sjúklingum. Áreitið mikið og fólk í misjöfnu ástandi. Á leiðinni út sjáum við lögregluna koma inn með sjúkraflutningamönnum eftir slys. Hér tekur starfsfólk höggin og fer svo heim, ekki bara þreytt eftir daginn heldur með krefjandi minningar í farteskinu.

Orðræða um opinber störf

Að undanförnu hafa ýmis hagsmunamtök og stjórnmálamenn farið mikinn í neikvæðri umræðu um hið opinbera og um leið rýrt störf þeirra sem þar vinna – mögulega óaðvitandi. Líkt og hjá ríkinu starfi eintómir letihaugar réttindanna vegna, sem stari á klukkuna til þess eins að komast sem fyrst heim. Reynsla mín frá bráðamótttökunni og sem starfsmaður hjá hinu opinbera er hins vegar allt önnur.

Þegar ég vann fyrir utanríkisráðuneytið í Brussel fylgist ég með starfsfólki vinna langa daga drifið áfram af því að verja hagsmuni Íslands. Oft voru krefjandi mál sem reyndu á úthald í samningaviðræðum við aðrar þjóðir og þar var ekki slegið slöku við sama hvað klukkan sló.

Þegar ég starfaði hjá Orkustofnun lagði starfsfólk svo hart að sér í auðlindamálum að þeim tókst að afgreiða fleiri stærri leyfi en tíu árin á undan. Svo komu óveður og eldgos sem ógnuðu orkuinnviðum. Það hljóp enginn heim þó dagur væri á enda; tryggðin við verkefnin var öllu ofar.

Þegar ég var stuðningsfulltrúi í grunnskóla sá ég kennara gefa allt í að nemendur lærðu bæði námsefnið en líka góð samskipti og hlýju. Þar komu líka upp erfið mál í lífi barna sem kennarar lögðu sig alla fram við að leysa, án þess þó að þurfa kannski að gera það.

Almennt er reynslan mín semsagt sú að fólk sem starfar hjá hinu opinbera er drifið áfram af ástríðu þess að starfa í þágu þeirra verkefna sem það sinnir. Það telur ekki mínúturnar því það er helgað málstaðnum og veit að störf þess skipta máli. Það mætir í vinnuna af hugsjón en ekki vegna fríðinda eða starfsöryggis.

Er hið opinbera þá fullkomið?

Hið opinbera er þó langt í frá fullkomið. Í stjórnsýslunni væri hægt sjálfvirknivæða ferla svo nýta mætti tíma starfsfólks betur og draga úr kostnaði við yfirbyggingu. Í mörgum tilfellum er hægt að gera starfsemi árangursmiðaðri og skilvirkari. Opinbera kerfið má sannarlega ekki blása út að óþörfu enda um takmarkaða sameiginlega sjóði sem reka það að ræða.

En í stað þess að etja opinberum stéttum og einkageirann saman í einhvers konar keppni um hvor er mikilvægari hlýtur að vera farsælla að beina sjónum því að hvaða gagn ólíkar stéttir gera fyrir samfélagið og sameinast um að bæta kerfin þar sem við á. Munum að stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að breyta og bæta flest kerfin; það er ekki við starfsfólk sem gerir sitt besta innan þeirra að sakast.

Hvernig vinnur hið opinbera og einkageirinn saman?

Á Íslandi gefur nýting fjölbreyttra náttúruauðlinda af sér afar mikilvægar tekjur. Sömuleiðis skapar öflugt atvinnulíf gríðarleg verðmæti sem eykst sífellt ef nýsköpun er í hávegum höfð. Hér þarf fjölbreytta hæfni og duglega einstaklinga því hér verða til grunnstoðir tekna og atvinnu samfélagsins til sem við nýtum í rekstur hins opinbera.

Verðmætin sem hið opinbera býr til á móti er að mennta fólk, bæta heilsu og efla fjölbreytta innviði svo einstaklingar geti látið til sín taka á marga vegu í samfélaginu, ekki síst í atvinnulífi, svo að kakan stækki fyrir alla. Þannig eigum við að hugsa kerfin og samspil þeirra og hér þarf stöðugt bæta og uppfæra svo okkur farnist sem best.

Lausnamiðuð umræða með virðingu og þakklæti í huga

Við vitum að sagan af manninum sem réð sig í vinnu til að fá sem flesta veikindadaga á alltaf að vera undantekning bæði í kerfi ríkisins og í einkageiranum. Slíkt er sannarlega ekki saga fólksins sem tók á móti okkur mæðgum á bráðamóttökunni. Það heldur ekki saga lögreglumannsins sem lagði líf sitt í hættu eða fólksins sem stóð vaktina í eldgosunum.

Verum óhrædd og lausnarmiðuð í að gagnrýna kerfi hins opinbera en gætum þess að rífa ekki störf þeirra sem þeim sinna fyrir okkur öll niður um leið. Þau standa vaktina fyrir okkur öll – í sjúkrahúsum, skólum, stjórnsýslu, menningarstarfi, löggæslu, vegagerð og á ótal öðrum sviðum sem skipta sköpum fyrir samfélagið okkar. Þau eiga enga tortryggni skilið – heldur þakkaróð og virðingu fyrir þau mikilvægu verkefni sem þau sinna fyrir land og þjóð.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Deila grein

09/12/2024

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Orðatiltækið „Köld eru kvenna ráð“ kemur úr Njálu og þar er átt er við að ráðleggingum kvenna sé ekki alltaf treystandi. Þessi fornu orð hafa lengi fylgt umræðum um ráðvendni og hlutverk kvenna en nútímarannsóknir sýna að þátttaka þeirra í ákvörðunum styrkir oft útkomur með breiðari sýn, aukinni samvinnu og sjálfbærri nálgun.

Nú, þegar þrjár sterkar konur freista þess að semja um stjórn landsins, er því áhugavert að velta fyrir sér hvort samstarfið geti markað þáttaskil í stjórnmálum Íslands. Gæti það skilað sér í nýrri tegund af kraftmikilli samvinnu á Alþingi? Munu leiðtogarnir jafnvel horfa til mála í stjórnarsáttmála sem voru ekki efst á baugi í kosningabaráttu þeirra en eru ákaflega brýn fyrir samfélagið á næstu árum?

Það er erfitt að spá fyrir um á þessari stundu. En með óbilandi trú á öflugri samvinnu má setja fram óskalista um málefni fyrir nýja ríkisstjórn að umvefja og gera að sínum – fyrir land og þjóð:

1Orkuöryggi almennings: Ef orkuöryggi almennings er ekki betur tryggt þá mun raforku verð til heimila, hárgreiðslustofa, matvöruverslana og garðyrkjubænda halda áfram að hækka. Við verðum að muna að þessi viðkvæmi hópur er í allt annarri samningsstöðu en mjög stórir raforkunotendur sem njóta langtímasamninga. Raforkukerfið okkar var hannað þannig að almenningur nyti verndar en árið 2003 var hún tekin af þegar við byrjuðum að innleiða orkupakka Evrópusambandsins. Margar leiðir eru þó í boði til að bæta stöðuna innan þess kerfis og það þarf að gera. Þetta mál ætti að vera í forgangi hjá nýrri ríkisstjórn.

2) Takmörkum jarðakaup erlendra aðila : Þegar við seljum jarðir úr landi þá seljum við auðlindir vatns, jarðhita og jarðefna með þeim. Það virðist kannski saklaust þegar ein og ein jörð er seld, en þegar fram í sækir teiknast upp heildarmynd sem hefur áhrif á auðlindastýringu og langtímahagsmuni Íslands. Þegar hafa tugir jarða verið seldar. Vöknum og bregðumst við, og lærum af öðrum þjóðum.

3) Nýsköpun-, mennta- og atvinnuþróun : Lífsgæði geta aukis víða um land með áherslu á nýsköpun. Eflum nýsköpunarhraðla og stýrum fjármagni til þeirra með atvinnuþróun á landsbyggð í huga; frá Suðurnesjum og hringinn í kringum landið. Ísland á til dæmis stór tækifæri í orku- og matvælatengdri nýsköpun til sjávar og sveita og við eigum að setja enn meiri kraft í að sækja þau. Sköpum hvata til að ungt fólk með fjölbreytta menntun flytji heim og móti framtíðar Marel og Kerecis. Styrkjum menntun á ólíkum stöðum á landinu fyrir slíka sókn svo sem í gegnum Garðyrkjuskólann í Hveragerði og Keili á Suðurnesjum.

4) Sókn í landbúnaði : Landbúnaður á undir högg að sækja, á sama tíma og okkur fjölgar hratt. Spurningin er; ætlum við að fæða þjóðina innfluttri matvöru eða skapa skilyrði þannig að fjölbreytt matvælaframleiðsla geti blómstrað og vaxið með okkur? Gleymum ekki að öflugur landbúnaður er hluti fæðuöryggi og getur dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda sem fylgir miklum vöruflutningum að utan. Einnig er fæðuframleiðsla hér lýðheilsumál því að í matvælaframleiðslu því lyfjanotkun er algengari erlendis og gæði vatns í framleiðslu ekki þau sömu. Jafnframt verðum við að átta okkur á að sókn í landbúnaði er líka einstaklega mikilvæg fyrir sjálfbærni ferðaþjónustu því að ferðamenn sækja ekki í tómar sveitir og innfluttan mat; heldur blómlega byggð og mat sem er ekta. Til að ná árangri á þessu sviði þarf meðal annars að huga að nýliðun og afkomu bænda, og lánakjörum til uppbyggingar.

5) Auðlindir og umhverfismál: Nýting auðlinda og virðing fyrir umhverfinu á að haldast í hendur. Tryggjum að uppbygging orkuinnviða á borð við flutningskerfi, sé í forgangi þar sem brýn þörf er á svo sem til Vestmannaeyja og Vestfjarða og tengjum landið okkar betur saman svo að nýtni raforkukerfisins aukist. Eflum fjölnýtingu jarðhita og skoðum tækifæri á jöldum svæðum. Sköpum hvata þannig að aukin raforkuframleiðsla rati í markmið stjórnvalda, hvort sem er fyrir atvinnuvegi eða orkuskipti, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Vöndum okkur í framkvæmd. Það er til dæmis ekki einstakri náttúru okkar í hag að teppaleggja landið með vindorkuverum en með skynsamri langtímahugsun er hægt að ná árangri í nýtingu án þess að slíta samfélög í sundur og náttúruna um leið. Útfærum lög þannig að ábati af raforkuframleiðslu rati til samfélagsins og skapi verðmæti í heimabyggð.

6) Framsækin ferðaþjónusta: Ferðaþjónusta er lífæð margra byggða og á mikið inni. Leggjum áherslu á gæði í ferðaþjónustu með sterkri framtíðarsýn. Breytumst ekki í „litlu Ameríku“ þar sem stór auglýsingaskilti og aðgangseyrir lita sífellt meira upplifum. Hægt væri til dæmis að skipta hóflegu gjaldi á hvern ferðamann niður á áfangastaði eftir rafrænni talningu heimsókna og koma þannig í veg fyrir bílastæðaposa við annan hvern hól. Höldum fast í frelsi þess að geta skoðað fallega landið okkar án slíkra takmarkanna.

7) Sterkir innviðir: Hinir mjúku innviðir samfélaga; læknar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og fjölbreyttir fagkennarar, allt frá stærðfræði yfir í tónlist, eru ekki síður mikilvægir og það að byggja brýr, göng og vegi. Aukum áherslu á að byggja upp mjúka og harða innviði á landsbyggðinni því þar verða verðmæti auðlinda til sem við treystum öll á. Sterk samfélög þjóna bæði heimamönnum og draga að hæfileikafólk sem efla atvinnu- og menningarlíf landsins enn frekar.

Til viðbótar við þennan lista má nefna mikilvæg málefni sem líklega eru þegar á dagskrá í viðræðunum – og eiga sannarlega heima þar:

7) Heima er best: Heimili eiga ekki að vera áhættufjárfesting. Setjum markið á langtíma óverðtryggð lán fyrir heimili og takmörkum samkeppni venjulegs fólks við fagfjárfestingar í fasteignum ætlaðar Airbnb. Setjum reglur þannig ekki sé braskað með lóðir því það hægir á framkvæmdum og hækkar fasteignaverð.

8) Grípum inn í fátækt: Fátækt skilur eftir sig opin sár meðal ungra og aldna sem gagnast engum í okkar ríka samfélagi. Hlustum á skýrt ákall eldri borgara og þeirra sem minna mega sín úr þessum kosningum. Finnum leiðir til að taka skýr skref sem oft tengjast dýrum húsnæðismarkaði.

9) Grunnskólinn sem griðastaður: Sterkt skólakerfi og fjárfesting í æskulýðsstarfi er besta forvörn sem völ er á og hér halda þarf áfram að sækja fram með metnaðarfullum hætti. Ljúkum við innleiðingu nýrra samræmdra prófa og verum leiðandi í framkvæmd símalausra skóla.

10) Tungumálið er hjarta menningar: Íslenskan er límið í menningu okkar. Eflum íslenskukennslu og komum á skýrum hvötum í atvinnulífi til að stuðla að lærdómi hennar svo allir eigi jafna möguleika. Hér getur fjárfesting í menningarstarfi og listum sem tengir saman Íslendinga og innflytjendur hjálpað. Fáum eldri borgara líka með í lið við talþjálfun innflytjenda með því að gefa þeim færi á að afla sér tekna án tekjuskerðingar. Þannig má draga úr einangrun og efla samveru á marga vegu.

Þessi málefnalisti, sem gæti verið mun lengri, á við sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Hann er þó settur fram með þá trú að við séum mögulega í dauðafæri að sjá fyrstu kvenleiddu ríkisstjórn Íslands fæðast, sem geti komist í sögubækurnar með því að slá nýjan tón í samvinnu og málefnaáherslur þvert á flokkadrætti. Stjórn þar sem mýtan „köld eru kvennaráð“ víkur fyrir breiðari áherslu á samstarf í útfærslu og framkvæmd stjórnarsáttmála. Sáttmála sem styðja má við og veita skýrt aðhald á þingi, samfélaginu okkar og framtíð til heilla.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Deila grein

27/11/2024

Pólitískan kjark fyrir Ísland: Verndum íslenska framleiðslu og framtíðina

Undanfarin þrjú ár hafa verið gefin út leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratuginn á undan.

Þetta sýnir gríðarlega uppbyggingu í orkumálum en dregur jafnframt fram alvarlegan vanda: ný raforka fer oftar en ekki til stórnotenda eins og gagnavera og stóriðju, í stað þess að styrkja innviði sem styðja við almenning, minni fyrirtæki og sjálfbæra framleiðslu. Þessi þróun krefst þess að stjórnmálamenn setji skýrar reglur og hafi pólitískan kjark til að tryggja jafnvægi í nýtingu auðlinda okkar.

Ógn við innlenda framleiðslu

Núverandi kerfi styður við að raforka sé seld hæstbjóðanda á markaði, án þess að veita heimilum og minni fyrirtækjum vernd. Þetta veldur því að mikilvægar greinar eins og matvælaframleiðsla – landbúnaður og garðyrkja, sem eru ekki í nokkurri samkeppnisstöðu gagnvart stórnotendum, verða út undan. Áhrifin eru alvarleg – mikilvægir samfélagsþættir eins og fæðuöryggi, lýðheilsa og sjálfbærni eru í hættu.

Að glata fæðuöryggi og fjölbreytni atvinnulífsins

Garðyrkjubændur og önnur matvælafyrirtæki geta ekki keppt við stórnotendur á orkumarkaði. Hækkun raforkuverðs um 15 til 25%, eins og við höfum verið að sjá undanfarið, grefur undan samkeppnishæfni þeirra og leiðir til hærra matvælaverðs fyrir neytendur og þyngri álaga á framleiðendur sem ógna framtíð þeirra. Í ofanálag tala sumir flokkar um að lækka tolla á innfluttri matvöru, sem gæti gjörbreytt landslagi íslenskrar matvælaframleiðslu.

Erum við tilbúin að fórna heilnæmri innlendri framleiðslu, sem er gjaldeyrissparandi, vistvæn og styður við sjálfbærni, markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum, fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðir landsins?

Nýjar virkjanir leysa ekki vandann einar og sér

Ný og ný virkjun leysir ekki grunnvandann því engin trygging er fyrir því að raforkan rati í samfélagslega mikilvæg verkefni. Eins og staðan er í dag fer orkan þangað sem best er boðið – til stórnotenda með langvarandi samninga og sterka stöðu. Hér er ekki verið að tala gegn fjölbreyttum hópi stórnotenda heldur því að gætt sé að minni aðilum sem ekki eru í sömu samningsstöðu á okkar einangraða raforkumarkaði.

Framkvæmdir sem bæta raforkuöryggi

Við þurfum að sjá til þess að orkan okkar rati til þeirra verkefna sem talað er fyrir. Sem orkumálastjóri samþykkti ég eina metnaðarfyllstu kerfisáætlun í langan tíma. Framkvæmd hennar mun bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og auka nýtingu orkuauðlinda um allt land – sem er lykilatriði fyrir atvinnulíf landsins. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut jafnframt því að skapa hvata til þess að orkan rati til samfélagslega mikilvægra verkefna.

Við höfum gengið of langt í að treysta á markaðslögmál án þess að innleiða varnir fyrir almenning og venjuleg fyrirtæki. Núverandi löggjöf gefur löndum skýrar heimildir til að vernda minni aðila. Fjöldi landa hefur nú þegar innleitt slíkar heimildir í sitt regluverk til að tryggja jafnvægi í notkun auðlinda sinna – Ísland ætti ekki að vera undantekning.

Tilgangur stóriðjustefnunnar var aldrei að skapa markað þar sem almenningur og minni framleiðendur væru skildir eftir á hliðarlínunni eða þyrftu að keppa við stórnotendur á samkeppnismarkaði um orkuna. Hún var hönnuð til að tryggja ódýra og örugga orku fyrir samfélagið allt, byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og efla efnahagslega sjálfbærni. Því verðum við að endurskoða núverandi regluverk og tryggja að það styðji við þessa grunnþætti.

Tími fyrir pólitískan kjark

Núverandi kerfi setur almannahagsmuni í hættu og grefur undan sjálfbærni Íslands ef ekki er gripið inn í. Við verðum að horfast í augu við þann veruleika að íslenskur almenningur vill hvorki borga evrópskt raforkuverð né missa innlenda matvælaframleiðslu.

Stjórnvöld verða að axla ábyrgð og hætta að treysta á blind markaðslögmál. Þau þurfa að innleiða reglur sem tryggja forgang heimila, minni fyrirtækja og matvælaframleiðslu að raforku. Það er ekki nóg að byggja upp fleiri virkjanir ef ekki er tryggt að sú orka nýtist í þágu þeirra verkefna sem talað er fyrir og samfélagið kallar eftir.

Ég ætla að vera stjórnmálamaður sem vinnur í þágu almannahagsmuna, fjölbreytts atvinnulífs og innlendrar framleiðslu. Ég ætla að tryggja að íslenskur almenningur og venjuleg fyrirtæki hafi aðgang að raforku á sanngjörnum kjörum, svo við missum hvorki matvælaframleiðslu né sjálfbærni úr höndum okkar.

Við eigum ekki að láta tækifærin sem náttúran hefur gefið okkur fara forgörðum. Það er okkar ábyrgð að nýta þau skynsamlega – fyrir Íslendinga, atvinnulífið og komandi kynslóðir.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 25. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Teppa­leggjum ekki ís­lenska náttúru með vindorku

Deila grein

24/11/2024

Teppa­leggjum ekki ís­lenska náttúru með vindorku

Ímyndaðu þér íslenska náttúru, óspillta og einstaka, teppalagða með hundruðum háreistra vindmylla. Þær gnæfa yfir dali og fjallshlíðar en skila þjóðinni takmörkuðum arði og valda miklum deilum. Þetta er ekki framtíðarsýn sem við viljum – og stjórnmálamenn þurfa að gera betur.

Núverandi regluverk um vindorku tryggir ekki samfélagslegan ávinning og er ávísun á átök. Vindorka getur skapað verðmæti og útflutningstekjur en án skýrra leikreglna er hætta á að fórna verðmætum náttúruperlum fyrir illa ígrunduð verkefni. Við þurfum stefnu sem tryggir jafnvægi milli umhverfis, efnahags og samfélags. Sú er ekki raunin í dag.

Staðan í dag

Auðlindin vindur gerir íslenska náttúru berskjaldaða vegna sinnar sérstöðu sem felst í því að vera ekki bundinn ákveðnum stöðum, svo sem árfarvegi eða jarðhitasvæðum. Því er hægt að staðsetja vindorkuver mjög víða, og hefur skortur á framtíðarsýn leitt til þess að sprottið hafa upp tugir verkefna til skoðunar. Samþykki landeigenda þarf ekki að liggja fyrir til að virkjunarkostir séu teknir til skoðunar í rammaáætlun eða í ferli umhverfismats sem þýðir að hægt er að setja af stað matsferli án samráðs við landeiganda.

Ferðaþjónustuaðilar hafa oft haft samband við mig sem orkumálastjóra til að lýsa áhyggjum af áhrifum vindorkuvera í sínu nærumhverfi. Á sama tíma hafa bændur kvartað yfir háum kostnaði við umsagnir í flóknum matsferlum við verkefni sem geta haft áhrif á verðmæti og nyt þeirra jarða og ég sá samfélög trosna í deilum um slík verkefni.

Ábyrgð hverrar þjóðar að marka stefnu um staðsetningu vindorkuvera – ekki ESB

Evrópskt regluverk og löggjöf um raforku, sem Ísland hefur innleitt, leggur áherslu á græna orku og samkeppni í orkumálum en kveður ekki á um hvar vindorka skuli staðsett. Það er á ábyrgð hverrar þjóðar að taka afstöðu til slíkrar nýtingar og marka stefnu um staðsetningu. Stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér á bak við „frjálsa samkeppni“ sem réttlætingu fyrir því að leyfa vindorkuverum að rísa hvar sem er. Ábyrgð stjórnmálanna er óumdeilanleg.

Meira en allt uppsett afl íslenska raforkukerfisins

Samanlagt afl vindorkuverkefna í ferli er nú meira en allt uppsett afl íslenska raforkukerfisins, sem hefur byggst upp á mörgum áratugum. Vindmyllur, allt að 250 metrar á hæð, hafa veruleg áhrif á landslag, hljóðvist og fuglalíf.Því þarf vönduð skref fram á við.

Hagkvæm nýting

Við þurfum að forðast að óraunhæf verkefni tefji raunhæf áform innan stjórnsýslunnar sem gæti tekið áratugi að vinda ofan af. Til að tryggja ábyrga nýtingu þarf að skilgreina svæði þar sem vindorka er leyfð, í stað þess að einblína aðeins á að útiloka einstök svæði. Byggja þarf upp í skrefum en sú nálgun nýtir lærdóm fyrri verkefna. Hagkvæmni þarf einnig að vera tryggð frá upphafi með ítarlegum rannsóknum á vindgæðum, mati á fýsilegri stærð verkefna, tengikostnaði við flutningskerfi og þörf fyrir jöfnunarorku. Allir þessir þættir hafa áhrif á orkuverðið sem kemur úr framleiðslunni og þarf að vera samkeppnishæft fyrir heimili og atvinnulíf.

Vernd íslenskrar náttúru

Við megum ekki fórna íslenskri náttúru fyrir hraðsoðna vindorkugarða – verkefni sem hvorki hafa verið hugsuð til enda né mótuð um þau skýr stefna hvernig þau þjóna þjóðinni. Betra er að vinna verkefni í skrefum, hafa þau á ólíkum stöðum á landinu því að vindurinn blæs ekki alltaf á sama stað, til að jafna orkuna.

Lærdómur frá Noregi: Mistök sem við verðum að forðast

Vindorkan getur gefið möguleika á að styðja við orkuskipti og bæta orkuöryggi en ef svo á að vera þarf að marka leiðina almennilega. Nýlegt dæmi frá Noregi sýnir hvernig vanhugsaðar ákvarðanir geta valdið sundrung í samfélaginu. Til að gera langa sögu stutta þá hafði norskum almenningi verið talið trú um að uppbygging vindorkuvera gæti bætt orkuöryggi heimila og nýst til orkuskipta. En þegar vindorkuverin höfðu risið hækkaði orkuverð til almennings upp úr öllu valdi í kjölfar orkukrísunnar í Evrópu. Jafnframt kom á daginn að stærstur hluti vindorkunnar fór í að stækka samninga orkufreks iðnaðar í stað þess að nýtast heimilum. Norska þjóðin upplifði sig svikinn af loforðum um bætt orkuöryggi, snérist gegn frekari uppbyggingu vindorku, og traust á stjórnvöldum beið hnekki.

Norska vatna- og orkumálastofnunin (NVE) hefur gefið út upplýsingar um áhrif vindorkuvera á landnotkun. Samkvæmt NVE hafa vindorkuver í Noregi valdið því að um 385 ferkílómetrar teljast ekki lengur ósnortin náttúra. Það samsvarar um 54.000 fótboltavöllum en áhrifasvæðið sjálft er mun stærra.

Mistök Norðmanna eru dýrmæt lexía sem við verðum að nýta. Strax eftir kosningar þarf að tryggja að verkefnin þjónusti samfélagið. Öryggisventlar, sem veita almenningi forgang að orku, eru grundvallaratriði til að vindorkan stuðli að sátt og skapi raunverulegan ávinning fyrir þjóðina.

Samtímis má nýta hvata til að efla orkuskiptin sérstaklega, með uppbyggingu orkugjafans, eða til að styðja við önnur samfélagslega mikilvæg verkefni.

Ætlum við að gefa hafsvæði?

Einnig er tími til að ljúka við regluverk vindorku á hafi, en erlend orkufyrirtæki sækjast þegar eftir nýtingu hér við land og mikilvægt að við gefum ekki hafsvæði frá okkur ókeypis, heldur leigjum gegn gjaldi og í ákveðinn tíma líkt og aðrar þjóðir.

Hver græðir á vindorku?

Hvort vindorka verður raunveruleg auðlind fyrir samfélagið veltur alfarið á því hvernig nýting hennar er skipulögð. Hingað til hefur nýting orkuauðlinda á Íslandi skilað samfélaginu beinum arði, meðal annars í gegnum fyrirtæki sem eru í eigu þjóðarinnar eða sveitarfélaga. Með vindorkunni birtist hins vegar ný mynd, þar sem flest verkefni eru í höndum einkaaðila. Þessi breytta mynd á grundvallarinnviðum þjóðarinnar hefur birst án þess að nokkur umræða hafi farið fram um hana. Það þýðir einnig að beinn arður af auðlindinni fer síður til samfélagsins, nema sérstakar reglur séu settar. Þegar um auðlindanýtingu er lágmark að útfæra löggjöf þannig að auður streymi áfram til þjóðarinnar og ekki síst nærsamfélaga. Það hefur ekki enn verið gert.

Vindorka sem viðbót við orkukerfið

Við þurfum að fara rétt að hlutunum í upphafi. Við Íslendingar eigum fjölda dæma þar sem farið hefur verið í uppbyggingu verkefna án þess að rammi hafi verið settur um þau. Við vitum hve erfitt er að breyta slíku eftir á og að lagaleg óvissa er skaðleg bæði fyrir þá sem eru með og á móti verkefnum. Í slíku ástandi hafa skapast átök sem rista djúpt í hjörtum samfélaga og stundum í allri þjóðarsálinni. Við þurfum ekki að endurtaka slíkt. Ef almennilega er staðið að málum getur vindorka orðið mikilvæg viðbót við vatnsafl og jarðhita, sérstaklega yfir vetrartímann þegar lón eru undir álagi. Með ábyrgri nýtingu á völdum stöðum getum við styrkt raforkukerfið og minnkað þörf fyrir innflutning jarðefnaeldsneytis. Vindorkuver eins og Búrfellslundur, sem líklega verður fyrsta stóra vindorkuverið hérlendis, gefur okkur tækifæri til að læra og móta framtíðina.

Með skýrri stefnu getum við nýtt vindinn sem auðlind sem tryggir jafnvægi milli náttúru og samfélags. Til að svo megi verða þarf pólitískan kjark og fyrirhyggju í útfærslu og skipulagi.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Eld­gos og inn­viðir: Tryggjum öryggi Suður­nesja

Deila grein

21/11/2024

Eld­gos og inn­viðir: Tryggjum öryggi Suður­nesja

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að tryggja öryggi samfélagsins. Frá því að eldgosin á Reykjanesi hófust hef ég sem orkumálastjóri lagt ríka áherslu á orkuöryggi svæðisins og unnið að fjölda verkefna sem mörg hver hafa nú þegar orðið að veruleika í samvinnu við ráðuneyti, almannavarnir, stofnanir og fyrirtæki. Þessi vinna er lykilatriði til að tryggja að allir geti ávallt treyst á heitt og kalt vatn, rafmagn – og jólaljós – í sínum heimahögum.

Sem stjórnmálamaður mun ég halda áfram að leggja áherslu á orkuöryggi og öfluga og sveigjanlega innviðauppbyggingu á svæðinu. Orkuöryggi er spurning um öryggi og lífsgæði. Við vonum alltaf það besta, en undirbúum okkur fyrir það versta – fyrir Suðurnesin, fyrir Ísland.

Hvað hefur áunnist – fyrirhyggja í aðgerðum

Þrátt fyrir áskoranir hefur verið unnið markvisst að því að draga úr áhættu og styrkja innviði á Suðurnesjum.

  • Varavatnsból við Árnarétt í Garði: Nýtt varavatnsból tryggir vatnsöryggi í tilfelli hraunflæðis eða skemmda á vatnsæðum.
  • Neyðarhitarar: Neyðarhitarar hafa verið keyptir til að halda húsnæði ofan við frostmark ef kerfisbilun verður.
  • Verndun Njarðvíkuræðarinnar: Njarðvíkuræðin hefur verið fergð til að tryggja stöðugan flutning heits vatns í neyðartilfellum, en ljóst er að frekari ráðstafanir þurfa að fylgja.
  • Samráð og neyðarviðbrögð: Orkustofnun hefur unnið með almannavörnum, HS Orku og HS Veitum að áætlunum til að tryggja vatns- og hitaveitu í verstu aðstæðum.
  • Nýjar borholur: Nýjar borholur hafa verið boraðar til að auka nýtingu jarðhita og styrkja stöðugleika hitaveitunnar.

Hvað þarf að gera – langtímalausnir fyrir Suðurnes

Næstu skref fela í sér að tryggja varanlegar lausnir:

  • Suðurnesjalína 2: Koma þarf þessu lykilverkefni úr kæruferli og í framkvæmd til að styrkja raforkuflutning innan svæðisins og milli virkjana.
  • Stærri neyðarbúnaður: Skoða þarf fjárfestingu í varaafli og búnaði til að mæta hugsanlegum neyðartilvikum.
  • Þróun Krýsuvíkursvæðisins: Auka þarf þróun Krýsuvíkursvæðisins sem tengipunkts til að styrkja orkuöryggi Reykjaness og Suðurnesja.
  • Langtímalausnir fyrir orkuöryggi: Halda þarf áfram þróun nýrra jarðhitakosta á Reykjanesi og tengja hitaveitukerfi við fleiri orkulindir til að tryggja sjálfbærni og öryggi.
  • Samvinna og stefnumótun: Halda áfram markvissu samstarfi við ráðuneyti, sveitarfélög og fyrirtæki til að styrkja innviði og viðbúnað í ljósi náttúruvár.

Sameiginlegt verkefni allra

Það er ljóst að tryggt orkuöryggi er sameiginlegt verkefni okkar allra. Viðbrögð stjórnvalda og samstarf opinberra aðila, fyrirtækja og sveitarfélaga er lykilatriði til að tryggja að nauðsynlegar leyfisveitingar og framkvæmd nauðsynlegra aðgerða tefjist ekki.

Betur má ef duga skal

Við höfum þegar séð hvernig velgengni í neyðarviðbrögðum, eins og með varaafli fyrir Svartsengisvirkjun, hefur tryggt að íbúar á Suðurnesjum hafi ekki orðið fyrir truflunum í grunnþjónustu. Samt sem áður er ljóst að betur má ef duga skal og þar gegna stjórnmál mikilvægu hlutverki.

Svartsengi og Reykjanesvirkjun – lífæðar svæðisins í þrengingum

Svartsengi og Reykjanesvirkjun eru lykilinnviðir á Suðurnesjum og fyrir Ísland. Svartsengi framleiðir bæði heitt vatn og rafmagn fyrir heimili, fyrirtæki og hitaveitukerfi svæðisins. Heitavatnsframleiðslan byggir á bæði köldu vatni úr Lágum, norðvestan við Svartsengi, og rafmagni frá Svartsengislínu. Reykjanesvirkjun gegnir mikilvægu hlutverki í raforkuframleiðslu og tengingu svæðisins við landsnetið. Þessir innviðir eru lífsnauðsynlegir fyrir stöðugleika samfélagsins og getu þess til að takast á við óvænt áföll.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður, þar sem hraun frá eldgosi hefur þegar runnið yfir bæði kalda- og heitavatnslagnir ásamt því að Svartsengislína féll út, hefur tekist að viðhalda heitavatnsframleiðslu í Svartsengi að mestu en áhættan er áþreifanleg.

Njarðvíkuræðin og varavatnsból – lykilþættir í vatnsöryggi

Njarðvíkuræðin hefur verið fergð og varin gegn hraunflæði til að tryggja öryggi vatnsflutninga á Suðurnesjum. Þessi aðgerð er lykilatriði í því að viðhalda stöðugri þjónustu til heimila. Auk þess hefur verið komið upp varavatnsbólum, svo sem við Árnarétt í Garði, sem tryggja vatnsöryggi ef skemmdir verða á kerfinu. Þessar aðgerðir, sem unnar hafa verið í nánu samstarfi opinberra aðila og einkaaðila, hafa skilað áþreifanlegum árangri í því að styrkja grunninnviði svæðisins. Þær undirstrika mikilvægi samvinnu og markvissra aðgerða til að mæta náttúruvá og tryggja lífsgæði íbúa. Framhald er nauðsynlegt til að viðhalda þessum árangri og tryggja að Suðurnesin geti staðist framtíðaráskoranir.

Langtímalausnir og framtíðarsýn

Til að byggja upp varanlega lausn þarf að þróa innviði á svæðinu frekar, svo sem með nýtingu jarðhita á fleiri stöðum og tengingu hitaveitukerfa við fleiri orkulindir. Þannig tryggjum við öryggi og sjálfbærni. Þannig verður samfélagið betur í stakk búið til að takast á við náttúruvá og ófyrirséðar áskoranir.

Sem stjórnmálamaður í Suðurkjördæmi mun ég halda áfram að vinna að hagsmunum Reykjaness. Að tryggja heitt vatn, rafmagn og grunnþjónustu er spurning um öryggi og lífsgæði. Betur má ef duga skal!

Halla Hrund Logadóttir
, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2024.