Categories
Greinar

Björgum göngustígunum!

Deila grein

04/05/2022

Björgum göngustígunum!

Undirritaður er útivistarmaður og mætti þar af leiðandi finna rök með því að greinarstúfur þessi sé skrifaður með hlutdrægu hugarfari.

Það er þó einlæg skoðun mín að umfjöllunarefnið komi okkur öllum við enda um manngerð fyrirbæri að ræða sem eiga að einfalda okkur leið til þess að njóta náttúrunnar.

Hér er ég að tala um göngustíga í sveitarfélaginu Norðurþingi, ekki síst á og í kringum Húsavík. Á sínum tíma var lyft miklu grettistaki í gerð göngustíga á svæðinu og er úrval þeirra í grunninn mjög mikið. Þeir tengja saman miklar perlur eins og Botnsvatn, Skrúðgarðinn, Katlavöll og Húsavíkurfjall. Undanfarin ár hafa margir af þessum göngustígum dalað og viðhaldi þeirra lítið sinnt í flestum tilfellum. Það er þróun sem þarf að stoppa enda mikil hlunnindi fólgin í því að geta tölt um náttúruna á flottum stígum sem falla vel að umhverfinu. Viðhald göngustíga er engu að síður allnokkur vinna sem þarf að gera í áföngum eftir þeirri goggunarröð sem réttust þykir.

Á kjörtímabilinu sem leið ákvað Skipulags- og framkvæmdaráð að skoða þágildandi gönguleiðakort Húsavíkur og skipta leiðunum niður í forgangsröð hvað viðhald varðaði. Til þess að árangur náist sem fyrst ætti sveitarfélagið að beita sér fyrir því að sá möguleiki verði fyrir hendi að félagasamtök taki að sér viðhald afmarkaðra gönguleiða. Verkefnin væru þá unnin í samstarfi við starfsmenn framkvæmdasviðs og gætu verið hluti af þjónustusamningum sem sveitarfélagið er aðili að. Undanfarin misseri hafa verið gerðir nokkrir samningar sem lúta að skógrækt. Það er afar jákvætt en að sama skapi hljóta að liggja mikil tækifæri í því að vilji slíkra félagasamtaka til umhverfisverkefna í þágu samfélagsins verði nýttur í viðhald á því sem fyrir er. Þar koma göngustígar sterkir inn og að nægu að taka.

Heiðar Rafn Halldórsson, í 8. sæti á lista Framsóknar og félagshyggju fyrir sveitastjórnarkosningar í Norðurþingi vorið 2022.

Greinin birtist fyrst á 640.is 4. maí 2022.