Categories
Fréttir Greinar

Réttindi allra að tala ís­lensku

Deila grein

27/11/2025

Réttindi allra að tala ís­lensku

Í ræðu sinni í Bandaríkjaþinginu árið 1965 fjallaði þáverandi Bandaríkjaforseti Lyndon B. Johnson um tímann sinn sem grunnskólakennari. Johnson kenndi í Cotulla í Texas þar sem margir nemendur töluðu litla sem enga ensku. Hann sá hversu mikið tungumálahindranir héldu þeim aftur, bæði í námi og lífi. Hann taldi að enskukunnátta væri lykillinn að því að börn gætu tekið fullan þátt í samfélaginu, átt fleiri tækifæri og forðast jaðarsetningu.

Punktur Johnsons er í raun að aðilar sem tala ekki tungumálið í landinu geta aldrei orðið fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Við á Íslandi megum huga að orðum Johnsons, enda stöndum við frammi fyrir sambærilegu vandamáli. Það er orðinn stór hluti af íslenska samfélaginu sem talar ekki íslensku. Suma má afsaka því að þeir eru nýir innflytjendur, eru í tímabundnu námi eða vinnu, eða ætla almennt ekki að dvelja lengi á Íslandi. Aðrir hafa ekki jafn góða ástæðu; þeir eru komnir til að vera, mögulega byrjaðir að setja upp fjölskyldu og eru á öðrum nótum þátttakendur í íslenska samfélaginu.

Það er mér undrun að ekki sé meira gert til að hvetja þessa aðila til að læra málið. Hví er íslenskunám ekki aðgengilegra og af hverju eru ekki fleiri hvatar til að aðstoða þessa aðila við að læra íslensku?

Aftur á móti þarf líka að vera íþyngjandi fyrir fólk að ekki læra málið. Ef þú hefur verið lengur en þrjú ár á Íslandi ætti íslenska ríkið ekki að niðurgreiða túlkunarþjónustu. Á sama hátt ætti að taka tillit til íslenskukunnáttu þegar kemur að framlengingu dvalarleyfa. Með því á ég ekki við að aðilar eigi að vera reiprennandi í íslensku og framleiða meistaraverk á borð við Mosfellinginn Halldór Laxness, heldur að sýna fram á framför.

Ríkið á að hafa skýr markmið fyrir einstaklinga um hvað þeir eiga að læra af íslensku miðað við tímann sem þeir hafa verið hér. Það er réttur innflytjenda að verða hluti af sínu nýja samfélagi, réttur þeirra að læra íslensku og verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Það er líka réttur Íslendinga að tala sitt tungumál í sínu heimalandi. Það er afleitt að ekki sé hægt að búast við að geta klárað kaup í íslenskum verslunum án þess að tala íslensku. Fyrirtæki standa frammi fyrir vanda við að ráða nógu marga íslenskumælandi starfsmenn. þess vegna þurfum við að setja meiri kröfur til fólks sem ætlar að vinna hér að tala tungumál landsins, sem eru ekkert ólíkt kröfum sem aðrar evrópuþjóðir gera.

Það er allt í góðu fyrir okkur Íslendinga að vera stoltir af okkar máli. Við erum með fallegt tungumál, erum sögu- og menningar þjóð og það er okkar að passa upp á að íslenska hverfi ekki.

Það er tímabært að ríkið geri meira til að styðja við aðlögun innflytjenda og jafnframt varðveita okkar menningu og tungumál.

Hrafn Splidt, formaður Sambands Ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. nóvember 2025.

Categories
Greinar

Þegar sam­fé­lagið missir vinnuna

Deila grein

25/08/2025

Þegar sam­fé­lagið missir vinnuna

Gary í Indiana fylki í Bandaríkjunum er dæmi um borg sem hefur upplifað algjört íbúa hrun. Áður fyrr var þetta fjölbreytt borg með heilbrigðu samfélagi, sterkri millistétt og bjartri framtíðarsýn. Í dag er hún hins vegar orðin að stað þar sem atvinnutækifæri eru nánast engin, framtíðin svört, og margir íbúar búa þar einungis vegna þess að þeir hafa ekki efni á að flytja burt.

Hvað olli þessu hruni? Gary var eitt af helstu miðstöðvum stálframleiðslu í heiminum. Á hápunkti atvinnuþróunar starfaði 30.000 af 178.000 íbúum borgarana í þeim geira. En á sjöunda til níunda áratugnum flutti framleiðslan að miklu leyti til annarra landa og sú atvinna hvarf.

Þetta bitnaði ekki aðeins á þeim sem störfuðu beint við framleiðsluna, heldur á öllu samfélaginu. Fjöldi fyrirtækja sem veittu framleiðslunni þjónustu, bæði beint og óbeint, missti viðskiptin, og peningastreymið inn í staðbundið hagkerfi þornaði upp.

Á Íslandi hafa Vestfirðir staðið frammi fyrir svipuðum áskorunum: samdráttur í atvinnustarfsemi, brottflutningur íbúaog hætta á að samfélög veikist. Sem betur fer virðist sem Vestfirðir muni ekki verða fyrir sömu örlögum og Gary. Á síðustu árum hefur orðið mikil endurreisn í staðbundnu hagkerfi, að mestu leyti vegna fiskeldis.

Fyrir tveimur vikum heimsóttum við, hópur frá Ungum Framsóknarmönnum fyrirtækið Arnarlax, sem rekur sjókvíaeldi í Arnarfirði og víðar á Vestfjörðum. Bæði umfang framleiðslunnar og metnaðarfull framtíðarmarkmið kom okkur skemmtilega á óvart. Arnarlax og önnur fiskeldisfyrirtæki eru einmitt það sem íslenska landsbyggðin þarf: fyrirtæki sem skapa störf á svæðum þar sem fá eða engin önnur atvinnutækifæri eru til staðar.

Áhrif stórra atvinnurekenda, eins og Arnarlax, ná langt út fyrir raðir launafólks og eigenda. Þeir skapa eftirspurn sem nær til margra stoðgreina.

Í byggingariðnaði eykst þörfin fyrir nýju húsnæði og endurbætur á eldri fasteignum.

Í þjónustugeiranum fjölgar viðskiptum hjá verslunum, veitingastöðum og ýmiss konar þjónustufyrirtækjum.

Á sviði samgangna og innviða kallar aukin starfsemi á bættar samgöngur, hafnir og flutningaþjónustu.

Þegar fleiri flytja á svæðið hækkar fasteignaverð, sem í mörgum tilfellum er jákvætt fyrir landsbyggðina. Á Vestfjörðum hefur fasteignaverð oft verið lægra en byggingarkostnaður nýrra húsa. Það hefur gert það hagkvæmt að byggja og dregið úr viðhaldi eldri húsa, þar sem eigendur gátu ekki endurfjármagnað framkvæmdir sem kostuðu meira en húsið var metið á.

Hækkandi fasteignaverð á Vestfjörðum hefur nú snúið þessari þróun við. Það er orðin raunhæfur hvati til að byggja og halda við húsum. Arnarlax hefur til að mynda byggt fasteign sem seldist yfir kostnaðarverði, sem er afrek miðað við markaðsaðstæður svæðisins fyrir örfáum árum.

Saga Gary, Indiana sýnir okkur hvað gerist þegar samfélög missa atvinnugreinina sem heldur þeim uppi. Það leiðir til fólksflótta, hnignunar og brostinnar framtíðar. Vestfirðir eru sönnun þess að hægt er að snúa þessari þróun við ef gripið er til aðgerða á réttum tíma. Með nýjum atvinnugreinum eins og fiskeldi, fjárfestingu í innviðum og stuðningi við frumkvöðla má skapa störf sem halda íbúum á svæðinu og laða nýja að.

Við megum ekki láta landsbyggðina veslast upp. Hvert nýtt starf, hver nýbygging og hver ný fjárfesting er skref í átt að sterkari, sjálfbærri framtíð fyrir svæðin utan höfuðborgarinnar.

Verndum landsbyggðina, sköpum störf og tryggjum framtíð landsins!

Hrafn Splidt Þorvaldsson, varaformaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. ágúst 2025.