Categories
Fréttir Greinar

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Deila grein

22/10/2025

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Í stóru og fjölbreyttu sveitarfélagi eins og Múlaþingi er mikilvægt að tryggja að allir íbúar upplifi sig sem virka þátttakendur. Með sameiningu byggðarlaga fylgir sú áskorun að viðhalda nálægð og trausti milli íbúa og stjórnsýslu, og að ákvarðanir endurspegli raunverulegar þarfir fólks á öllum svæðum. Þar koma heimastjórnir sterkt inn sem lykilverkfæri í lifandi lýðræði og fjölkjarna sveitarfélagi.

Fjölkjarna sveitarfélög og lærdómur fyrir Múlaþing

Í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri sem ber heitið Fjölkjarna sveitarfélög og unnin var af þeim Hjalta Jóhannessyni og Arnari Þór Jóhannessyni, er fjallað um reynslu sveitarfélaga sem hafa tekið upp heimastjórnir og önnur form íbúalýðræðis eftir sameiningar. Þar kemur fram að Múlaþing sé eitt af þeim sveitarfélögum sem hefur mótað skýrt kerfi heimastjórna til að tryggja tengsl milli íbúa og sveitarstjórnar.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar gegna heimastjórnir lykilhlutverki í að viðhalda staðbundinni þátttöku og skilningi á þörfum mismunandi byggðarkjarna. Þar sem heimastjórnir starfa með skýru hlutverki, reglubundnum fundum og góðu upplýsingaflæði, eykst traust, gagnsæi og skilvirkni í ákvarðanatöku. 

Hlutverk heimastjórna

Heimastjórnir eru brú milli sveitarstjórnar og íbúa. Þær tryggja að raddir fólks á öllum svæðum heyrist í stefnumótun og ákvörðunum. Þær byggja á þeirri einföldu, en áhrifaríku hugmynd, að bestu ákvarðanirnar fæðast þegar þær eru teknar í samvinnu við þá sem þekkja málin best, íbúana sjálfa.

Í fjölkjarna sveitarfélagi eins og Múlaþingi, þar sem aðstæður eru ólíkar milli byggðarlaga, er þessi nálægð sérstaklega mikilvæg. Heimastjórnir hjálpa til við að forgangsraða rétt, byggja upp traust og varðveita sérkenni hvers svæðis. Þær geta einnig verið vettvangur fyrir frumkvæði innan sveitarfélagsins, þar sem hugmyndir spretta beint úr samfélaginu sjálfu.

Gildi íbúafunda og samráðs

Skýrslan bendir jafnframt á að íbúalýðræði blómstrar ekki af sjálfu sér, það þarf að skapa vettvang fyrir samtal. Þar koma íbúafundir sterkast inn. Þeir eru ekki einungis upplýsingafundir heldur tækifæri til að ræða, spyrja og móta framtíðarsýn saman. Reglulegir íbúafundir og opið samráð tryggja að ákvarðanir sveitarfélagsins byggist á gagnsæi og þátttöku. Samkvæmt RHA er þetta eitt af lykilatriðunum sem aðgreinir þau fjölkjarna sveitarfélög sem ná árangri frá þeim sem glíma við sundrung og vantraust.

Heimastjórnir og íbúasamtal eru ekki formsatriði heldur hjarta virks sveitarfélags. Þær tryggja að lýðræðið sé lifandi, að ákvarðanir séu teknar í samvinnu og að samfélagið styrkist út frá sínum eigin grunni.

Heimastjórnir hafa boðað til funda tvisvar á ári og hafa þeir fundir reynst okkur afskaplega vel, bæði er hægt að halda kynningar á helstu málum sveitarfélagsins en einnig taka við ábendingum íbúa er varðar hin ýmsu mál. Heimastjórnirnar fjórar eru nú flestar búnar að boða haustfundi með íbúum sínum og ég vil hvetja íbúa okkar til að mæta á sínu svæði, við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B-lista og forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 21. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíð Fram­sóknar byrjar í gras­rótinni

Deila grein

14/10/2025

Fram­tíð Fram­sóknar byrjar í gras­rótinni

Kæru lesendur og annað gott Framsóknarfólk

Grasrótin er hjartað í Framsókn

Framsóknarflokkurinn var stofnaður árið 1916 og er uppruni flokksins er einstakur þar sem hann varð til úr grasrótinni. Hann spratt upp úr kaupfélögunum, úr bændastéttinni, úr sveitarfélögunum, úr lífi og starfi venjulegs fólks sem vildi byggja réttlátara samfélag og sá það gat gert meira saman en í sitthvoru lagi. Hreyfingin varð að veruleika vegna þess að fólk lagði saman krafta sína saman, ekki fyrir sjálft sig, heldur fyrir heildina. Þessi hugsjón lifir enn í dag. Hún er ekki minning um liðna tíma; hún er grunnurinn að framtíðinni.

Framsóknarflokkurinn hefur lifað af tímana vegna þess að hann hefur alltaf treyst á kraft fólksins. Það er þessi trú á manneskjuna, á skynsama manneskjulega nálgun, sem hefur haldið okkur á floti og gert okkur að þeim flokki sem við erum.

Lausnin liggur í grasrótinni

Við getum talað um stefnu, samstarf, stjórnarsáttmála og stjórnmálalega stöðu, en ekkert af þessu skiptir máli nema flokkurinn hafi lifandi, virka og stolta grasrót. Við verðum að leggja áherslu á starfið innanfrá með því að hlusta á félagana, virkja nýtt fólk, og skapa vettvang þar sem hugmyndir spretta fram, þroskast og verða að aðgerðum því þegar grasrótin er sterk, er Framsókn sterk.

Við þurfum að styrkja tengslin milli forystunnar og aðildarfélaganna, tryggja að upplýsingaflæði sé lifandi og gagnkvæmt, og skapa virka farvegi fyrir félaga til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanir. Slíkum markmiðum náum við með markvissum aðgerðum á borð við reglulegum fundum, opnu samtali og skipulögðu reglulegu starfi um allt land.

Að láta meira að okkur kveða í íslenskum stjórnmálum

Framsókn hefur alla burði til að vera sterkara afl í íslenskum stjórnmálum en nokkru sinni fyrr. Við höfum sýnt árangur í verkum í húsnæðismálum, innviðauppbyggingu, menntamálum og efnahagsmálum en það er ekki nóg að vinna vel, við verðum líka að segja frá því. Við verðum að minna fólk á hvers vegna Framsókn skiptir máli. Við erum flokkur jafnvægis, ábyrgðar, samvinnu og í dag þegar samfélagið virðist oft klofið og samtalið hart, er þörfin fyrir miðju og manneskjulega rödd meiri en nokkru sinni.

Hlutverk ritara er að vera brú milli forystu og fólks

Ritari Framsóknar þarf að vera brú milli forystu og félaga og ef mér verður treyst fyrir því hlutverki mun ég vinna að því að styrkja innra starf flokksins með skipulagi og samvinnu, efla þátttöku nýrra félaga með hvatningu og fræðslu.

Ég býð mig fram til ritara Framsóknarflokksins vegna þess að ég trúi á þetta starf okkar, á samvinnu, á félagshyggjuna og á þann kraft sem býr í félögum um land allt. Ég trúi því af heilum hug að framtíð Framsóknar liggi ekki í því að elta strauma, heldur að styrkja rótina. Að lausnin á næstu áratugum hvort sem er í stjórnmálum, samfélagsumræðu eða innra starfi felst í því að efla grasrótina, tengja fólk og byggja traust innan frá.

Þegar við gerum það, verður Framsókn aftur sú kraftmikla hreyfing sem færir fólki von, traust og framtíðarsýn. Því Framsókn er ekki aðeins flokkur hún er hreyfing fólks og framtíðin okkar byrjar í grasrótinni.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti í Múlaþingi, varaþingmaður í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi í embætti ritara Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Deila grein

01/10/2025

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) er öflugur málsvari og drifkraftur byggðaþróunar.

SSA er málsvari sveitarfélaganna á Austurlandi gagnvart ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum. Sambandið stendur vörð um hagsmuni svæðisins í umræðum um byggðamál, verkefnaflutninga og jöfnun á búsetuskilyrðum milli landshluta. Sambandið er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn á svæðinu til að skiptast á skoðunum, eiga samtal og vinna sameiginlega að verkefnum.

Vegvísir að sameiginlegri framtíð

Árið 2022 var svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 samþykkt af sveitarstjórnum allra sveitarfélaga á Austurlandi. Svæðisskipulag er mikilvægt stjórntæki sem markar sameiginlega framtíðarsýn Austfirðinga fyrir næstu áratugi. Það er stefnumarkandi langtímaáætlun sem tekur til allra sveitarfélaga á Austurlandi.

Svæðisskipulagið er meira en bara áætlun, það er leiðarljós fyrir allt samfélagið á Austurlandi. Með því að marka skýra stefnu um uppbyggingu atvinnu, innviða og ferðaþjónustu hjálpar skipulagið til við að laða að nýja íbúa og fyrirtæki og styrkja núverandi samfélag.

Í svæðisskipulagi Austurlands kemur fram að mikilvægt sé að unnið verði að því að bæta vegi, gera jarðgöng og breikka brýr til að stytta leiðir og auka öryggi. Áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Samhljóða samþykktar bókanir

Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ítrekað bókað um hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og má finna bókanir þess efnis áratugi aftur í tímann. Í bókun aðalfundar allt frá árinu 2007 segir: Fundurinn lítur svo á að Norðfjarðargöng verði fyrsti hluti svokallaðra Miðfjarðaganga sem eru jarðgöng frá Eskifirði um Norðfjörð, Mjóafjörð, Seyðisfjörð til Héraðs.

Árið 2008 er síðan samþykkt að aðalfundurinn lýsi yfir fullum stuðningi við baráttu Seyðfirðinga fyrir jarðgöngum á milli Héraðs og Seyðisfjarðar. Bókanir á aðalfundum SSA eru áþekkar árum saman og er smám saman gengið lengra eftir því sem ný Norðfjarðargöng og göng í öðrum landshlutum, s.s. Dýrafjarðar- og Vaðlaheiðargöng, komast á undirbúnings- og framkvæmdarstig.

Áherslur sveitarfélaganna á Austurlandi um næstu göng voru og eru skýrar: Fjarðarheiðargöng eiga að vera næstu göng á Austurlandi. Þung áhersla hefur verið lögð á að hönnun ganga frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar fari fram samhliða vinnu við Fjarðarheiðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Við tölum skýrt

Haustþing SSA krefst þess að ráðist verði tafarlaust í hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og í löngu tímabærar úrbætur á Suðurfjarðavegi og Öxi í samræmi við áherslur svæðisskipulags Austurlands 2022-2044.

Haustþing SSA ítrekar jafnframt gagnvart núverandi stjórnvöldum að Austurland sé næst í röðinni hvað varðar jarðagangauppbyggingu. Það er ólíðandi að stjórnvöld reyni að komast undan þeirri ábyrgð með því að draga fram gömul þrætuepli í tilraunum sínum til að fjármagna uppbyggingu annars staðar á landinu.

Kæru þingmenn og ráðherrar, það er ekki hægt að vera skýrari í máli. Það er skýlaus krafa okkar að þið talið okkar máli og hlustið á okkar samhljóða samþykktar ályktanir.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og fulltrúi á haustþingi SSA á Vopnafirði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­gönguáætlun – skuld­binding, ekki kosninga­lof­orð

Deila grein

01/09/2025

Sam­gönguáætlun – skuld­binding, ekki kosninga­lof­orð

Samgönguáætlun er lögbundin langtímaáætlun ríkisins um samgöngur og fjarskipti og er samþykkt af Alþingi. Hún skiptist í annars vegar tólf ára stefnumarkandi áætlun, þar sem sett eru fram markmið og áherslur stjórnvalda, og hins vegar fjögurra ára framkvæmdaáætlun. Markmið hennar er að tryggja að uppbygging innviða sé markviss, samræmd og fjármögnuð. Hún er þannig grundvallartæki til að tengja saman framtíðarsýn, stefnumótun og fjármögnun í innviðauppbyggingu.

Það hlýtur því að teljast ámælisvert þegar ráðherra gefur í skyn að samgönguáætlun sé fyrst og fremst pólitískt plagg sem megi breyta eftir hentugleikum eða jafnvel nota sem verkfæri í kjördæmapoti. Með slíkum málflutningi er dregið í efa að verkefnum sé raðað eftir faglegri og ígrundaðri forgangsröðun og gefið til kynna að fyrri ákvarðanir Alþingis skipti ekki máli þegar nýir ráðherrar kjósa að fara aðra leið.

Dæmi um þetta má sjá í umræðunni um Fjarðarheiðargöng. Þau hafa verið hluti af samgönguáætlun frá árinu 2011, voru jafnframt inni í áætluninni árið 2016 og eru nú á gildandi samgönguáætlun, sem var samþykkt samhljóða á Alþingi með stuðningi allra flokka. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar með þeim hætti hlýtur almenningur og sveitarfélög að mega vænta þess að aðgerðir fylgi í kjölfarið.

Það hlýtur einnig að vekja spurningar um traust sveitarfélaga gagnvart ríkinu þegar stjórnvöld sýna slíkan sveigjanleika í afstöðu sinni. Það er ekki trúverðugt að hrósa Múlaþingi fyrir farsæla sameiningu og lýsa henni sem fyrirmynd annarra, en ætla síðan ekki að standa við þau loforð sem voru grundvallarforsenda sameiningarinnar og staðfest í samgönguáætlun.

Frá árinu 2013 hafa bókanir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi verið skýrar: næstu jarðgöng á Austurlandi skulu verða Fjarðarheiðargöng. Þau eru fyrsti áfangi í hringtengingu Austurlands – innviðaverkefni sem sambandið hefur kallað eftir í áratugi. Það er óásættanlegt að sveitarstjórnarráðherra, sem ber ábyrgð á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sýni sveitarstjórnum þá óvirðingu að hunsa samhljóða og langvarandi kröfur um forgangsröðun framkvæmda.

Samgönguáætlun er ekki hugmyndaskjal sem má víkja til hliðar að hentugleikum. Hún er skuldbinding Alþingis og stjórnvalda gagnvart almenningi og sveitarfélögum landsins. Það er því lágmarkskrafa að hún sé virt og framkvæmd í samræmi við þann trúnað sem liggur til grundvallar.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Leið­réttum kerfis­bundið mis­rétti

Deila grein

15/05/2025

Leið­réttum kerfis­bundið mis­rétti

Í dag eru rafveitur undanþegnar fasteignamati. Það þýðir að stærstur hluti mannvirkja til orkuframleiðslu – svo sem stíflur, lón og önnur tilheyrandi mannvirki – bera ekki fasteignaskatt. Eingöngu er greiddur fasteignaskattur af stöðvarhúsum, og það eitt.

Fasteignaskattur er þó einn af þremur lögbundnum tekjustofnum sveitarfélaga, ásamt útsvari og greiðslum úr Jöfnunarsjóði. Þessi undanþága veldur því að sveitarfélög verða af verulegum tekjum, sérstaklega þau sem hýsa stórar virkjanir.

Nefna má mitt eigið sveitarfélag, Múlaþing. Þar er að finna Kárahnjúkavirkjun. Uppistöðulón hennar, Hálslón, er 57 ferkílómetra stórt – það er allt innan marka Múlaþings, hefur 600 metra fallhæð og afkastagetu upp á 690 megavött. Hálslón er svo stórt að það sést frá geimnum – það er stærra en Bermúdaeyjar.

Til að setja þetta í samhengi: Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, kostaði 146 milljarða króna við upphaf og er núvirt í dag rúmlega 335 milljarðar. Árið 2023 nam hagnaður Landsvirkjunar af grunnrekstri (fyrir skatta) 50 milljörðum króna, og árið þar á undan 40 milljörðum.

Þrátt fyrir þessa gríðarlegu verðmætasköpun fær Múlaþing einungis fasteignaskatt af vatnsréttindum – um 15 milljónir króna á ári. Fljótsdalshreppur fær einnig tekjur af stöðvarhúsi og vatnsréttindum – um 150 milljónir. Samtals fær Austurland því rétt tæplega 170 milljónir í fasteignaskatt vegna þessarar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar.

Það er mikilvægt að minna á að verðmætin verða ekki til í rafmagnslínunum heldur í náttúrunni – þar sem orkan er framleidd, ekki endilega nýtt.

Enn í dag bíðum við eftir þriggja fasa rafmagni á Jökuldal – þótt risavirkjunin sé staðsett í bakgarðinum. Fjöldi starfa vegna raforkuframleiðslunnar er hverfandi – áætlað er að innan við tuttugu störf falli til vegna hennar á Austurlandi. Og ofan á þetta greiðum við háar upphæðir í dreifbýlisgjald raforku.

Nærsamfélög eiga skýlausan rétt á sanngjörnum hlut af þeim verðmætum sem verða til innan þeirra. Því fagna ég sérstaklega þeim áformum innviðaráðherra sem birtust í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni – um að leggja fram frumvarp á haustþingi sem afnemur undanþágu vatnsafls-, jarðvarma- og vindorkuvera frá fasteignamati.

Þetta skref er ekki einungis eðlilegt heldur sanngjarnt og réttlátt.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og stjórnarmaður í Samtökum orkusveitarfélaga.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Um jarð­göng, ráð­herra og blaða­menn

Deila grein

04/02/2025

Um jarð­göng, ráð­herra og blaða­menn

Þegar ný ríkisstjórn kemur til starfa er mjög freistandi að halda að það skapist forsendur til að umbreyta öll því sem áður hefur verið gert. Svo má í það minnsta lesa í fréttaflutning Kristjáns Más Unnarssonar blaðamanns í frétt á Stöð 2 og Vísi þann 30. janúar síðastliðinn í frétt sem ber yfirheitið „Segir nýja forgangsröðun jarðganga uppi á borðinu“ þar sem blaðamaður leyfir sér að túlka frjálslega orð nýs ráðherra um næstu jarðgögn. En hafa skal það sem rétt reynist og blaðamenn ættu að gæta að hlutleysi í fréttaflutningi.

Ráðherra samgöngumála Eyjólfur Ármansson hefur sagt að jarðgagnaáætlun, sem er hluti af samgönguáætlun, yrði á þingmálaskrá í haust. Um röðun jarðgangna ætlar ráðherra ekkert að gefa út fyrr en áætlunin verði kynnt.

Burtséð frá því hvað ráðherra vill gefa mikið út um samgönguáætlun á sínum fyrstu dögum þá skal því haldið til haga að í 3 kafla stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að ríkisstjórnin muni rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð. Ljóst er að leggja þarf fram fjármálaáætlun á næstu vikum og í henni kemur í ljós hvort fjármagn verði sett í jarðgangnagerð á Íslandi á kjörtímabilinu. Verði svo, er ljóst að Fjarðarheiðargöng eru einu gögnin sem eru tilbúin, fullhönnuð og bíða útboðs og hefur Vegagerðin nú sett um 600 milljónir í hönnun þeirra. Önnur göng verða hreinlega ekki tilbúin til útboðs á þessu kjörtímabili.

Förum yfir tímalínu jarðgagnagerðar. Umhverfismat og jarðfræðirannsóknir taka almennt 2 ár, hönnun er unnin samhliða rannsóknum og tekur um 3-4 ár og er skipulagsvinna unnin samhliða. Þá tekur við útboðsferill sem getur tekið um ár. Glöggir lesendur sjá, jú 4-5 ár fram að fyrstu skóflustungu en þá bætist við verktími, sem yfirleitt er nokkur ár, Gerð Fjarðarheiðarganga tekur til að mynda um 7 ár. Sjá má að ansi langur tími líður frá hugmynd á blaði í samgönguáætlun og fram að því að spenntur ráðherra getur klippt á borða og hleypt umferð um göngin.

Gildandi samgönguáætlun 2020-2034 segir til um að í framhaldi af Fjarðaheiðargöngum eigi að fara í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og þaðan yfir á Norðfjörð (Mjóafjarðargöng). Svokölluð hringtenging Austurlands. Því skal haldið hér til haga að vilji meirihluta samgöngunefndar við samþykkt samgönguáætlunar árið 2020 var skýr, hefja ætti rannsóknir og hönnun á Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöngum um leið og vinna við Fjarðarheiðargöng myndi hefjast. Það var svikið í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem lögð var fram á vorþingi 2024.

Þegar slá á ryki í augu okkar vongóðra sveitarstjórnarmanna um uppbyggingu nauðsynlegra samgönguinnviða er vísað til ósamstöðu innan landshlutans. Því er ekki fyrir að fara heldur hefur fólk hér einfaldlega ekki trú á því að við munum fá öll þau jarðgöng sem okkur hefur verið lofað og veldur það togstreitu sem nærir einhverja blaðamenn.

Sveitarstjórnir á öllu Austurlandi samþykktu í byrjun þessa kjörtímabils svæðisskipulag það sem fram kemur að áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands. Vert er að bæta við að samkvæmt efnahagsgreiningu sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi lét vinna kemur fram að Austfirðingar, sem eru 2,9% af heildarmannfjölda Íslands, skapa nær fjórðung útflutningstekna (af vöruútflutningi). Þannig má segja að hver Austfirðingur framleiði tífalt á við aðra í landinu. Til að halda áfram og auka verðmætasköpun landshlutans þurfum við á hringtengingunni að halda.

Við ráðherra vil ég segja, kæri ráðherra samgöngumála, ég hvet þig að hafa hringtengingu Austurlands áfram í forgangi í jarðgangnamálum líkt og er í gildandi samgönguáætlun og að hefja útboð á Fjarðaheiðargöngum sem fyrst.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Um leiðar­val að Fjarðar­heiðar­göngum

Deila grein

13/03/2023

Um leiðar­val að Fjarðar­heiðar­göngum

Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings þann 14. september síðastliðinn var ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin staðfest. Var þar með samþykkt að vegur að Fjarðarheiðargöngum liggi um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur þessarar ákvörðunar eru meðal annars að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn í fyllingu tímans. Jafnframt er lögð áhersla á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.

Aðdragandi þessarar ákvörðunar er drjúgur, eins og kemur fram í umhverfismatsskýrslu framkvæmdanna. Árið 2020 lagði Vegagerðin til við starfshóp á vegum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að jarðgangamunninn yrði við Dalhús. Rök fyrir þeirri staðsetningu eru meðal annars að þannig næst meiri ávinningur fyrir samfélagið á Austurlandi í heild auk þess að með þessari staðsetningu næst jafnframt stytting á jarðgöngunum.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs féllst á þessa tillögu Vegagerðarinnar en þar með var ljóst að gildandi aðalskipulag Fljótsdalshéraðs þyrfti að breyta enda er í gildandi aðalskipulagi gert ráð fyrir að gangnamunninn sé við Steinholt. Vegagerðin vann fyrst tillögu að matsáætlun fyrir umhverfismat og var hún kynnt í október 2020. Í framhaldi var gerð umhverfismatsskýrsla sem var kynnt með tillögu Vegagerðarinnar um aðalvalkost í apríl síðastliðnum. Þessi gögn má kynna sér á vefsjá Vegagerðarinnar um framkvæmdina  https://fjardarheidargong.netlify.app/.

Samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þarf Vegagerðin að færa rök fyrir vali sínu á aðalvalkosti í umhverfismatsskýrslu. Með hliðsjón af þeim þáttum sem þar voru til skoðunar lagði Vegagerðin til að farin verði svonefnd suðurleið Héraðsmegin og að einnig verði ný veglína Seyðisfjarðarmegin.

Í umhverfismatsskýrslu koma suðurleið og miðleið betur út en norðurleið hvað varðar umferðaröryggi, kostnað, þjóðhagslegan ávinning og áhrif á náttúrufar, landnotkun, fornleifar og samfélagsleg áhrif. Vegagerðin telur því mestan ávinningin koma fram með því að fara suðurleið.

Matið sýnir einnig að allir valkostir fela í sér rask innan verndarsvæða og á vistgerðum, þ.e. birki og votlendi, sem njóta verndar skv. 61. gr. Náttúruverndarlaga. Því er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum sem felast í uppgræðslu og endurheimt vistgerða.

Sú aðalskipulagsbreyting sem nú er unnið að á sér því umtalsverðan aðdraganda. Vinnslutillaga fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi var kynnt íbúum 14. júlí sl. og var frestur til að senda inn athugasemdir til 25. ágúst.

Það er mikilvægt að fá fram afstöðu íbúa og annarra hagsmunaaðila til þeirra valkosta sem fjallað er um í umhverfissmatsskýrslu framkvæmdanna (suðurleið, miðleið og norðurleið) og var það gert með opnum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar voru til viðtals og sátu fyrir svörum um framhaldið. Fáar athugasemdir komu frá íbúum á þessum kynningartíma.

Í kjölfar þessa ferlis tók sveitarstjórn ákvörðun um leiðarvalið og er nú unnið að gerð endanlegrar tillögu til breytinga á aðalskipulaginu í samræmi við þá ákvörðun. Sú tillaga kemur síðan til sveitarstjórnar til afgreiðslu þegar hún verður orðin fullunnin síðar í vetur.

Það er ljóst að sveitarfélagið þarf síðan einnig að horfa á þessa skipulagsbreytingu í stærra samhengi. Þar má vísa til þess við horfum til þess hvernig ný veglína getur átt samleið með stækkun flugvallar sem og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar. Enda berum við þá von í brjósti að skammt sé í þær framkvæmdir.

Við teljum að með hinni nýju suðurleið myndist tækifæri til að færa Lagarfljótsbrúnna innar og best væri að ná þjóðveginum inn fyrir þéttbýlið án þess að aftengja það um of. Horfandi til möguleika á lengingu flugbrautarinnar, það er til suðurs eins og gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi, teljum við að ná megi því markmiði að koma þungaumferð út fyrir þéttbýlin okkar hér við fljótið án þess að missa snertiflöt við bæinn, þannig að vegurinn liggi einkum að og um svæði fyrir verslun, þjónustu og iðnað.

Það má fastlega gera ráð fyrir því að þegar Seyðfirðingar og Fjarðarbúar koma í Egilsstaði til að sinna sínum erindum munu þeir áfram fara um miðleið. Umferð um hana mun hinsvegar minnka verulega því sú umferð sem ekki á beint erindi í Egilsstaði mun fara um suðurleið.

Suðurleiðin skapar möguleika á beinni tengingu af þjóðvegi inn á iðnaðarsvæðið á Miðási sem er gríðarlega mikilvægt og grunnforsenda þess að við náum því markmiði að þungaflutningar verði sem mest utan bæjarmarkanna. Til að ýta enn frekar undir þetta markmið má einnig beita ýmsum takmarkandi umferðarstýringum með þetta fyrir augum þó að tekið verið tillit til innanbæjarflutninga. Sú útfærsla bíður betri tíma og mögulegt er að til þess þurfi ekki að koma rætist sú ósk okkar að þungaflutningar leiti í akstur um beina og breiða þjóðvegi frekar en að fara um miðbæinn.

Sú gagnrýni hefur komið fram að betra hefði verið að hugsa til framtíðar hvað varðar stækkun byggðar áður en veglína yrði ákveðin. Í því sambandi er rétt að benda á að í gildandi aðalskipulagi er töluvert rými til stækkunar þéttbýlis sem ekki er búið að fullnýta og skerðist á engan hátt við þetta leiðarval. Það verður síðan eitt af verkefnunum við gerð nýs aðalskipulags að ákveða næstu skref í stækkun þéttbýlisins. Fjölmargir góðir valkostir standa til boða hvað það varðar og gildir þá einu hvaða leið hefði verið valin fyrir þessar framkvæmdir.

Við erum þess fullviss að þessi ákvörðun sveitarstjórnar að samþykkja tillögu Vegagerðarinnar verði okkur öllum til heilla og að við munum innan skamms sjá vinnu við Fjarðarheiðargöng hefjast.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti svetiarstjórnar og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2023.

Categories
Greinar

Kanntu brauð að baka?

Deila grein

11/09/2020

Kanntu brauð að baka?

Við sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi verður til víðfeðmt sveitarfélag með fjóra ólíka byggðakjarna. Þessi samfélög munu halda í sína sérstöðu en framundan er að samþætta og samræma margt sem enn liggur ekki fyrir hvernig á að framkvæma, það er í höndum næstu sveitarstjórnar. Stefnumótun og framtíðarsýn er eitt það mikilvægasta sem kjörnir fulltrúar þurfa að horfa til á næsta kjörtímabili. Við bökum nefnilega yfirleitt kökur eftir uppskriftum.

Fjármál á tímum COVID

Ábyrg fjármálastefna skiptir öllu máli fyrir nýja sveitarfélagið. Staðreyndin er sú að það verður hægara sagt en gert að ná utan um heildarfjármál þess þar sem sameiningin á sér stað á tímum Covid-19. Það er stærsti óvissuþátturinn þegar kemur að næsta vetri.

Auðlegð í starfsfólkinu

Það sem er mikilvægast er að sameiningin sjálf heppnist vel, að kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins vinni vel þá gríðarlega miklu og mikilvægu vinnu að sameina sveitarfélögin. Kjörnir fulltrúar þurfa því að taka margar stefnumótandi ákvarðanir um stóra sem smáa þætti er varða framtíðina.

Það þarf að tryggja að stjórnsýslan fái það svigrúm og stuðning sem hún þarf til að vinna verkin sem framundan eru, undir styrkri leiðsögn þeirra sem hafa til þess lýðræðislegt umboð. Til að taka góðar stefnumótandi ákvarðanir þarf samtal, samtal við kjósendur og starfsfólk sveitarfélagsins. Við vitum það nefnilega að nýja sveitarfélagið hefur á að skipa öflugu starfsfólki með mikla reynslu. Það að skapa góðan vinnuanda og gott starfsumhverfi fyrir þau er grundvallaratriði .

Frambjóðendur á lista Framsóknarfélags Múlaþings hafa gríðarlega mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, þekkja vel sveitarfélögin fjögur sem eru að sameinast og einsetja sér það markmið að klára sameininguna með farsælum hætti. Við vitum að verkefnið er ærið, umsvifamikið og krefjandi – þess vegna bjóðum við okkur fram. Framsóknarflokkurinn er framkvæmdaflokkur, við hikum ekki við að horfa til framtíðar, móta okkur stefnu – og halda okkur við hana.

Jónína Brynjólfsdóttir, viðskiptalögfræðingur með MLM gráðu í forystu og stjórnun frá Bifröst og skipar hún skipar 3. sæti lista Framsóknarfélags Múlaþings til sveitarstjórnarkosninga í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. september 2020.