Categories
Fréttir Greinar

Fyrir­myndar for­varnar­stefna í Mos­fells­bæ

Deila grein

29/10/2025

Fyrir­myndar for­varnar­stefna í Mos­fells­bæ

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun. Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar” og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:

  • Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
  • Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
  • Hækka frístundastyrki.
  • Styrkja starf félagsmiðstöðva.
  • Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
  • Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
  • Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
  • Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla. Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.

Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru. Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.

Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð. Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.

Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu. Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.

Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.

Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á hvaða veg­ferð er heil­brigðis­ráð­herra?

Deila grein

15/10/2025

Á hvaða veg­ferð er heil­brigðis­ráð­herra?

Heilbrigðismál hafa verið til umræðu í samfélaginu enda málaflokkur sem skiptir miklu máli. Nú þegar nýr heilbrigðisráðherra hefur fengið eitt ár til að hrinda sínum stefnumálum í framkvæmd er vert að spyrja sig – hvað hefur eiginlega verið gert í heilbrigðismálum?

Samráð og stjórnsýsluhættir – traust byggist á gegnsæi

Eitt það sem Alma D. Möller fékk á sig gagnrýni fyrir voru ákvarðanir og yfirlýsingar sem tengjast sérgreinalæknisþjónustu á Akureyri. Þar var bent á að ráðherra hefði ekki átt samráð við forstjóra sjúkrahússins eða þá sem þjónustan snerti beint áður en breytingar voru ræddar. Hún viðurkenndi síðar að hún hefði ekki haft slíkt samráð og ákvað jafnframt að segja sig frá málinu vegna skyldleikatengsla við einn þeirra sem þar starfa.

Það er vissulega jákvætt þegar ráðherra tekur afstöðu og axlar ábyrgð með því að víkja vegna vanhæfis. En hitt er jafnframt ljóst: ákvarðanir sem varða jafn viðkvæma þjónustu ættu alltaf að byggjast á víðtæku samráði og faglegri greiningu áður en tillögur eru kynntar. Þar hefur gagnrýnin stoð – því heilbrigðiskerfið þarf ekki einhliða ákvarðanir, heldur traust, samráð og gagnsæ ferli.

Þjónusta á landsbyggðinni – jöfnuður í orði og verki

Annað sem hefur vakið hörð viðbrögð er möguleg skerðing þjónustu á landsbyggðinni, einkum á Akureyri þar sem sérgreinalæknar veita þjónustu sem nær langt út fyrir sitt svæði. Þingmenn og heilbrigðisstarfsfólk hafa varað við að ef verktakasamningar lækna verði endurskoðaðir án lausna, muni þjónustan dragast saman og sjúklingar þurfa að ferðast suður eftir fyrir þjónustu sem áður var aðgengileg heima fyrir.

Þessi gagnrýni er bæði réttmæt og mikilvæg. Jöfn dreifing heilbrigðisþjónustu er hornsteinn íslenska velferðarkerfisins. Þegar ráðherra boðar breytingar sem hugsanlega veikja þjónustu úti á landi, þarf jafnframt að liggja fyrir áætlun um hvernig jafnræði og aðgengi verða tryggð. Án þess er hætt við að byggðastefna og heilbrigðisstefna rekist á.

POTS-málið – illa ígrunduð stefna ráðherra

Eitt af þeim málum sem hafa vakið sterkustu viðbrögðin er POTS-málið.

Ráðherra hefur verið gagnrýnd fyrir ákvörðun um að hætta greiðsluþátttöku fyrir vökvagjöf, sem margir einstaklingar með POTS treysta á til að lifa við ásættanleg lífsgæði.

Samtök um POTS á Íslandi hafa krafist þess að ráðherra dragi ummæli sín til baka og viðurkenni að um sé að ræða raunverulega læknisfræðilega meðferð – ekki ímyndaðan vanda.

Þótt ráðuneytið hafi skipað vinnuhóp til að skoða þjónustu við einstaklinga með POTS, ME og langvinnt COVID, hafa sjúklingar bent á að skaðinn sé þegar skeður. Fólk hafi misst aðgengi að meðferð, tapað starfsgetu og trausti á heilbrigðiskerfinu.

Það er ekki gott þegar ráðherra dregur í efa meðferðir sem einstaklingar segja bjarga lífi sínu.

Framkvæmd og eftirfylgni – stefna þarf að verða að verki

Ítrekuð gagnrýni hefur líka beinst að því að heilbrigðisstefnur séu kynntar án skýrra framkvæmdaráætlana og eftirlits. Dæmi má nefna nýja aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Þótt slík stefna sé mikilvæg, spyrja margir: hvernig verður árangur mældur? Hver ber ábyrgð? Hvenær verður endurskoðun?

Þetta eru ekki smáatriði – þau eru kjarni góðrar stjórnsýslu. Það er auðvelt að kynna áætlanir; erfiðara að fylgja þeim eftir. Hér væri tækifæri fyrir ráðherra að gera betur.

Janus endurhæfing – afleikur ráðherra

Ein stærsta gagnrýnin sem beindist að ráðherra snýr að ákvörðun um að endurnýja ekki samning við Janus endurhæfingu.

Notendur og starfsfólk benda á að úrræðið býður einstaklingum með fjölþættan vanda einmitt þann stuðning sem eigi engan annan stað — geðlæknisaðstoð, tengiliði og þræðir sem hjálpa til við að komast aftur út í samfellda virkni.

Ráðherra hefur í raun ekki ennþá svarað hvernig hún ætli að tryggja þessum hópi þá þjónustu sem hann nauðsynlega þarf á að halda. Það liggur í augum uppi að ráðherra er með þessu að lengja biðlista og það sem verra er – fækka úrræðum.

Þessi gagnrýni er réttmæt og mikilvægt er að leggja spurningu að ráðherra: hvernig verður tryggt að ekki verði þjónusturof, sérstaklega fyrir viðkvæma hópa sem treysta á slík úrræði?

Lokaorð

Það er nauðsynlegt að veita ráðherrum aðhald vegna þess að ábyrgð þeirra er mikil. Hér hefur verið velt vöngum yfir ýmsum málum en þegar öllu er á botninn hvolft verðum við að geta spurt okkur; er þessi vegferð í heilbrigðismálum ásættanleg?

Kjartan Helgi Ólafsson, ritari Sambands ungra Framsóknarmanna og stjórnarmaður Ung Framsókn Kraginn.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Greinar

Valdið og sam­vinnu­hug­sjónin

Deila grein

22/04/2025

Valdið og sam­vinnu­hug­sjónin

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þar sem traust til miðstýrðra kerfa er að rofna, en þráin eftir öðruvísi lausnum vex. Í því samhengi teljum við í Ung Framsókn Kraginn nauðsynlegt að snúa athyglinni að sveitarstjórnarstiginu – og spyrja: Hvernig getum við eflt það með það að markmiði að færa valdið nær fólkinu? Svarið gæti legið í arfleifð sem við höfum næstum gleymt: samvinnuhugsjóninni.

Á síðustu öld byggðu Íslendingar upp eitt öflugasta samvinnukerfi sem þekktist í Evrópu. Kaupfélög, mjólkurbú og samvinnufélög stóðu undir byggð, atvinnu og félagslegri samstöðu um allt land. En þegar Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) stækkaði, safnaði völdum til sín og fór að stjórna í stað þess að þjóna aðildarfélögunum – þá fór kerfið að gliðna. Kjarninn í þeirri sögu er skýr: Þegar vald færist of hátt og of langt frá fólkinu, þá missir það tengingu, trúverðugleika og virkni.

Sama vandamál blasir nú við í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna. Í samanburði við hin Norðurlöndin er íslenska sveitarstjórnarstigið veikara – með minni fjárhagslegu sjálfstæði, þrengra verkefnasviði og minni áhrifum á daglegt líf fólks. Ríkið heldur um taumana, stýrir fjárveitingum, skipulagi og þjónustu – jafnvel þar sem sveitarfélögin sjálf væru best til þess fallin að fara fyrir.

Við þurfum nýja nálgun: að endurvekja anda samvinnunnar, þar sem ákvörðunarvaldið sprettur frá grasrótinni, þjónustan er mótuð af staðbundnum þörfum, og samfélög fá rými til að vaxa út frá eigin forsendum.

Því hvetjum við stjórnvöld til að:

• Færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga – sérstaklega á sviði félagsþjónustu og nærþjónustu.

• Styrkja tekjustofna sveitarfélaga þannig að þau geti staðið sjálfstæð og ábyrgt undir eigin ákvörðunum.

• Stuðla að valddreifingu með raunverulegu samráði í stað miðstýrðra skipana.

• Viðurkenna að lítil og sjálfbær samfélög þurfa ekki risakerfi – heldur frelsi, trú og tæki til að byggja upp eigin framtíð.

Endurnýjum traustið á því sem vex neðan frá – frá fólki, byggð og félagslegri samstöðu. Það er þar sem raunveruleg velferð verður til – ekki í gegnum stærri ríkisstofnanir, heldur í gegnum meiri nálægð.

Kjartan Helgi Ólafsson, formaður Ungrar Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. apríl 2025.

Categories
Greinar

108 ár – hverjum treystir þú?

Deila grein

27/11/2024

108 ár – hverjum treystir þú?

Íslensk stjórnmál hafa gengið í gegnum ótal umbreytingar síðustu áratugi. Flokkar hafa komið og farið, öfgar hafa verið reiddar fram og óstöðugleiki hefur oft sett mark sitt á landslagið. En eitt stendur upp úr sem stoð í íslenskri samfélagsgerð: Framsóknarflokkurinn. Með 108 ára sögu er Framsókn meira en bara stjórnmálaflokkur – hann er hluti af íslenskri sjálfsmynd og byggir á grunni trausts, stöðugleika og framtíðarsýnar.

Arfleifð byggð á trausti

Frá upphafi hefur Framsókn haft að leiðarljósi að vinna fyrir fólkið í landinu. Með sterkum rótum í sveitum og sjávarbyggðum hefur flokkurinn staðið vörð um hagsmuni alþýðunnar, jafnað réttindi lands og borgar og skapað grundvöll fyrir hagvöxt og velferð. Hvað sem á hefur gengið, hefur Framsókn sýnt og sannað að flokkurinn stendur fyrir lausnum sem virka í raunheimum, ekki bara í orðum.

Við sjáum þetta í stórkostlegum umbótum á sviði húsnæðismála, í aukinni áherslu á stuðning við fjölskyldur og í þrautseigju flokksins að tryggja stöðugleika í efnahagslífi. Þegar aðrir hafa tapað áttum hefur Framsókn staðið vörð um almannahagsmuni – af ábyrgð og yfirvegun.

Forysta framtíðarinnar

Þrátt fyrir sögulega arfleifð snýst Framsókn ekki um að horfa aðeins til baka. Það er vilji flokksins til að nýta reynsluna og samtvinna hana við nýsköpun sem gerir hann einstakan. Framsókn vinnur ekki aðeins fyrir nútímann heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Stefna flokksins í loftslagsmálum, stafrænu Íslandi og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins endurspeglar þessa sýn.

Ungt fólk er að vakna til vitundar um að Framsókn sé ekki bara flokkur fortíðarinnar heldur líka flokkur framtíðarinnar. Með framsæknum leiðtogum sem setja hagsmuni fólks ofar pólitísku leikriti er Framsókn leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.

Hverjum treystir þú?

Treystir þú þeim sem koma og fara með háværan skarkala? Eða þeim sem standa fastir fyrir, jafnvel í mótlæti? Treystir þú flokki sem hefur 108 ára reynslu af því að byggja upp samfélag?

Veldu stöðugleika. Veldu lausnir sem virka. Veldu Framsókn.

Þetta er spurning um traust – og svarið hefur verið augljóst í 108 ár.

Kjartan Helgi Ólafsson skipar 10. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. nóvember 2024.

Categories
Greinar

Nýtt við­horf í hús­næðis­málum

Deila grein

21/08/2024

Nýtt við­horf í hús­næðis­málum

Húsnæðismál hafa lengi verið eitt brýnasta verkefni samfélagsins okkar, en aldrei hefur þörfin verið jafn mikil og nú fyrir nýjar lausnir. Í þessum pistli langar okkur í Ung Framsókn í Kraganum að kynna nokkrar nýjar stefnur sem við teljum að geti hjálpað ungu fólki á húsnæðismarkaðinum. Vert er að nefna að margt í okkar stefnum er í takt við það sem kom fram á nýlegum fundi um húsnæðismál sem Ágúst Bjarni þingmaður átti frumkvæði að og stýrði með glæsibrag.

Tímamörk og endurgreiðslur: Hvatning til framkvæmda

Til að tryggja að úthlutaðar lóðir séu nýttar á markvissan hátt, leggjum við til að settar verði reglur um að lóðir, sem úthlutað er til einkaaðila eða fyrirtækja, skuli nýttar innan ákveðins tímabils, til dæmis innan 2-3 ára. Ef framkvæmdir hefjast ekki innan þess tíma, gæti lóðin verið tekin til baka af sveitarfélaginu eða sett aftur í sölu. Þetta stuðlar að því að nýbyggingar hefjist án tafa og lóðirnar nýtist samfélaginu sem best.

Við leggjum einnig til að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við nýbyggingar, viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði verði hækkað í 60%. Þetta mun ekki aðeins draga úr byggingarkostnaði, heldur einnig hvetja til viðhalds og endurbóta á núverandi húsnæði, sem eykur gæði og öryggi heimila á sama tíma og það skapar störf og eflir atvinnulífið.

Efling einkaframtaksins í húsnæðismálum

Við í Ung Framsókn í Kraganum teljum að einkaframtakið gegni lykilhlutverki í því að leysa húsnæðisvandann. Með því að draga úr opinberum álögum og einfalda regluverk í byggingariðnaði getum við skapað aðstæður þar sem einkaaðilar geta brugðist hratt og örugglega við þeirri miklu eftirspurn sem ríkir á húsnæðismarkaði. Auk þess væri hægt að auka framboð á byggingarlóðum og einfalda ferlið fyrir byggingarleyfi, sem mun hvetja til nýsköpunar og fjölbreytni í húsnæðisuppbyggingu. Með því að skapa jákvætt og samkeppnishæft umhverfi fyrir einkaframtakið tryggjum við að lausnirnar verði fjölbreyttari, hraðvirkari og betur sniðnar að þörfum íbúanna. Einkaframtakið, með stuðningi opinberra aðgerða, er lykillinn að því að tryggja aðgengi að öruggu og hagkvæmu húsnæði fyrir alla.

Endurnýting atvinnuhúsnæðis

Við horfum einnig til nýsköpunar og umhverfisverndar með því að nýta ónotað atvinnuhúsnæði fyrir íbúðabyggð. Með viðeigandi skipulagsbreytingum er hægt að bæta 500 nýjum íbúðum við þéttbýli á næstu fimm árum. Þetta mun ekki aðeins auka framboð á íbúðum heldur einnig draga úr kolefnislosun með því að nýta núverandi byggingar.

Samþætting húsnæðis- og umhverfisstefnu

Sjálfbærni ætti að vera lykilatriði í allri okkar stefnumótun. Með því að samþætta húsnæðis- og umhverfisstefnu, sem leggur áherslu á græna innviði og kolefnishlutleysi, getum við stuðlað að því að auka hlut vistvænna íbúða um 20% á næstu fimm árum. Þetta er stórt skref í átt að sjálfbærri framtíð fyrir okkur öll.

Stuðningur við fyrstu kaupendur

Það er ljóst að ungt fólk stendur frammi fyrir sívaxandi áskorunum þegar kemur að því að eignast sitt fyrsta heimili. Til að mæta þessu ættum við að hækka hlutdeildarlán til ungs fólks um 20% og lækka vexti á þessum lánum. Með þessu stefnum við að því að fjölga fyrstu kaupendum um 15% á næstu þremur árum. Ungt fólk á ekki að þurfa að gefa eftir drauminn um eigið heimili vegna fjárhagslegra hindrana.

Efling innviða og ný tækni

Á meðan við horfum fram á veginn, er nauðsynlegt að tæknin fylgi með. Með innleiðingu stafrænna lausna til að samræma umsóknir um byggingarleyfi, getum við stytt tíma frá umsókn til útgáfu leyfa um 25%. Tæknin á að styðja við, ekki tefja, uppbyggingu samfélagsins okkar.

Við trúum því að með þessum aðgerðum sé hægt að snúa við neikvæðri þróun á húsnæðismarkaði og skapa umhverfi þar sem ungt fólk getur öðlast öryggi í eigin húsnæðismálum. Við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessari umræðu og styðja við okkar framtíðarsýn – þar sem allir hafa tækifæri til að skapa sér heimili.

Kjartan Helgi Ólafsson, formaður Ungrar Framsóknar í Kraganum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. ágúst 2024.