Categories
Greinar

Orkumál og orkuöryggi

Deila grein

01/02/2024

Orkumál og orkuöryggi

Undanfarið hefur verið mikil umræða um orkumál og orkuöryggi þjóðarinnar. Samkvæmt greiningu Byggðastofnunar koma um 20% af heildar atvinnutekjum íbúa Akraness frá framleiðslu og má áætla að flest störfin séu tengd Norðurál og Elkem á Grundartanga. Þá eru ekki meðtalin þau fjölmörgu afleiddu störf sem starfseminni fylgja, varlega áætlað eru þau ekki færri en framleiðslan sjálf skapar hér innan okkar atvinnusvæðis.  Því ætti öllum að vera ljóst að skerðing raforku til lengri eða skemmri tíma, til fyrirtækja sem veita hundruðum íbúa atvinnu, getur haft verulega neikvæð áhrif á afkomu íbúa og fyrirtækja ásamt stöðu bæjarfélagsins.

Samkvæmt gögnum Landsvirkjunar er árlegur vöxtur á almennum markaði um 2-3%. Skýrist það einna helst af því að Íslendingum fer fjölgandi. Eftirspurnin eftir orku í ársbyrjun 2024 var hins vegar tífalt meiri eða um 25%. Það er svo efni í aðra grein hvort og þá hvernig við sem þjóð viljum mæta þessari eftirspurn.

Andstæðum pólum er stillt upp hvor gegn öðrum – og hvorum hópnum ætlar maður að tilheyra? En þarf að tilheyra öðrum hópnum? Má jafnvel samsvara sig með þeim báðum? Setja góð rök framar tilfinningum? Viltu tilheyra hópnum sem sér tækifærin í nýtingu orkukosta og vill nýta þá? Ég er þar, það er minn hópur!

Hvers vegna? Fyrir Skagamenn er nærtækast að horfa til samfélagsins okkar hér á Akranesi og sjá hversu miklu máli orkumálin skipta okkur. Akranes þróaðist í upphafi í kringum útgerð og landbúnað en hefur svo m.a. vaxið og dafnað í kringum iðnað innan bæjarfélagsins og á Grundartanga en á Akranesi reis Sementsverksmiðjan árið 1959 og á Grundartanga reis Íslenska járnblendifélagið 1979 og svo Norðurál 1997. Það dylst vonandi engum hversu mikilvæg þessi fyrirtæki hafa verið okkur Skagamönnum beint og óbeint.

Eða viltu tilheyra hópnum sem vill setja náttúruna í fyrsta sæti og leyfa náttúrunni að njóta vafans? Ég er þar, það er líka minn hópur!

Þau nátturúgæði sem við Íslendingar búum við eru einstök og okkur ber skylda til þess að nálgast þau af sömu virðingu og þær kynslóðir sem ruddu brautina. Sá kraftur sem í nátturunni býr er ein af forsendum áframhaldandi hagsældar þjóðarinnar.

Orkumál eru nefnilega ekki bara svart og hvítt, með eða á móti. Orkumál snúast að svo miklu leyti um það hvernig land við viljum byggja og búa í.

Tryggja þarf jafnvægi á milli nýtingar og verndar og rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í allt of langan tíma. Á síðustu 16 árum hefur t.d. einungis verið virkjað um 380 Mw eða að meðaltali 24 Mw á ári. Það sjá allir að með sama áframhaldi er ljóst að langt er í að markmiðum Íslands í orkuskiptum verði náð.

Ríkistjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040. Til þess að þau markmið gangi eftir þarf að tvöfalda orkuframleiðslu dagsins í dag.

Orkumál eiga ekki og mega ekki eingöngu snúast um að vera með eða á móti stóriðju! Orkusækinn iðnaður er svo miklu meira og fjölbreyttari en sú stóriðja sem okkur dettur fyrst í hug þegar við heyrum orðið nefnt.

En málið er samt ekki svo einfalt að það þurfi bara að tvöfalda framleiðsluna, ef einfalt má kalla. Verkefni stjórnvalda er ekki síður að ráðast í umfangsmikla innviðauppbyggingu þegar kemur að dreifikerfi raforku. Alltof lítið hefur verið gert í alltof langan tíma og þar eru gríðarleg sóknarfæri.

Landsnet hefur lagt mikla áherslu á endurnýjun Blöndulínu 3 og auka þannig afhendingaröryggi og afhendingargetu flutningskerfisins. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og því eðlilegt að velta fyrir sér lagaumhverfinu. Er ásættanlegt að jafn þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir veltist um í kerfinu ár eftir ár og á meðan verði þjóðfélagið af milljarða tekjum?  Áætlað er að umframorka á Norður- og Austurlandi sem tapast árlega vegna flutningstakmarkana geti numið á bilinu 300 til 400 GWst sem jafngildir allri framleiðslu Kröfluvirkjunar. Væri framkvæmdum lokið við Blöndulínu er mjög líklegt að ekki hefði þurft að koma til þeirra skerðinga sem Elkem og Norðurál verða nú fyrir.

Lög og reglur eru mannanna verk og því er mikilvægt að þau sem með valdið fara hverju sinni hafi kjark og þor til þess að beita því þjóðinni til hagsbóta. Stjórnvöld þurfa að stíga inn og skapa skilvirkari lagaumgjörð líkt og gert hefur verið hjá sumum nágrannaþjóðum okkar sem við gjarnan berum okkur saman við eins og t.d. Svíþjóð. Þannig hefur verið smíðað regluverk sem ætlað er að ná utan um þjóðhagslega mikilvæga innviði, hvort sem um er að ræða virkjanir, flutningskerfi raforku, nýtingu jarðvarma, vegi eða aðra grunn innviði. Slíkt lagaumhverfi getur vissulega takmarkað að ákveðnu leyti skipulagsvald sveitarfélaganna en á sama tíma tryggt mun meiri skilvirkni, losað um hömlur og langvarandi tafir í undirbúningi framkvæmda.

Ragnar Sæmundsson, oddviti Framsóknar og Frjálsra á Akranesi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 31. janúar 2024.