Categories
Greinar

Vinnum á undirmönnun heilbrigðiskerfisins

Deila grein

23/09/2021

Vinnum á undirmönnun heilbrigðiskerfisins

Á Íslandi viljum við hafa jafnan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Það felst í fleiru en að byggja og reka sjúkrahús og heilsugæslu. Það þarf líka að tryggja að þessar stofnanir hafi starfsfólk til að halda uppi heilbrigðisþjónustu.

Mönnunarvandi heilbrigðisþjónustu

Ísland er þegar fyrir neðan meðaltal þjóða Efnahags- og framfarastofnunar (OECD), sé miðað við leiðréttar tölur sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur lagt fram um fjölda starfandi hjúkrunarfræðinga á hverja 1000 íbúa. Einnig hefur félagið bent á að 4.-5. hver hjúkrunarfræðingur hættir eftir 5 ár í starfi.

Það er ljóst að þegar uppi er staðið er of fáliðað starfslið ávísun á aukin útgjöld í formi yfirvinnu og aukinna veikinda af völdum álags og streitu auk þess að geta skapað hættu fyrir skjólstæðinga kerfisins.

Það eru allir sammála um að mikið hefur mætt á hjúkrunarfræðingum í Covid-faraldrinum, við skipulagningu, umönnun og bólusetningu og hefur stéttin og aðrar heilbrigðisstéttir staðið þessa vakt með miklum sóma. Rétt er að líta til þess að hjúkrunarfræðingar starfa nú samkvæmt kjarasamningum sem eru niðurstaða gerðardóms, sem hjúkrunarfræðingar sjálfir voru mjög ósáttir við. Til að tryggja mönnun sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana til framtíðar er mikilvægt að vinna með markvissum hætti að því að ná sátt í samningum um starfsumhverfi og kjör stétta.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur frestað sumarfríum og jafnvel fæðingarorlofi til að vinna meðan faraldur geisar, en það er hætt við því að eftir að við erum komin fyrir vind hvað Covid varðar þá hafi margir fengið nóg. Því er nauðsynlegt að bregðast við og skapa sátt.

Aðgerðir

Bregðast þarf við brotthvarfi hjúkrunarfræðinga úr starfi og grípa til aðgerða til að hvetja hjúkrunarfræðinga og jafnvel aðrar heilbrigðisstéttir til að starfa áfram á sínu fagsviði.

Covid tengdar álagsgreiðslur eru eitt en svo eru einnig atriði sem horfa til framtíðar eins og t.d. að ríkið greiði af námslánum þeirra meðan þau starfa hjá ríkinu að heilbrigðisþjónustu.

En fyrst og fremst þarf að taka upp samtalið og semja við þessar stéttir, þannig að þær starfi eftir kjarasamningum sem eru niðurstaða samninga en ekki ákvarðana gerðardóms.

Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri og skipar 3. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. september 2021.

Categories
Greinar

Jöfnum leikinn með vaxta­rstyrkjum

Deila grein

02/09/2021

Jöfnum leikinn með vaxta­rstyrkjum

Á síðastliðnum árum hefur samfélagið áttað sig á mikilvægi íþrótta- og tómstunda á þroska barna. Kostirnir við iðkun íþrótta- og tómstunda eru fjölmargir. Í þeim efnum má til dæmis nefna lýðheilsusjónarmið, en frístundaiðkun stuðlar að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Að auki hafa rannsóknir sýnt að ungmenni sem stunda skipulagt frístundastarf eru ólíklegri til að neyta áfengis- eða annarra vímugjafa eða stunda aðra óæskilega hegðun. Forvarnargildi frístundastarfs er óumdeilanlegt.

Frístundastyrkir

Tölfræðin sýnir að íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna hefur aukist innan þeirra sveitarfélaga sem bjóða upp á slíkan styrk. Þrátt fyrir að slíkir styrkir standa mörgum til boða hér á landi þá eru enn fjölskyldur sem standa höllum fæti fjárhagslega og eiga erfitt með að greiða fyrir frístundastarf barna sinna. Það er mat Framsóknar að styðja verði enn betur við börn og ungmenni hér á landi til að stunda þá frístund sem þau vilja ásamt því að styðja við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins.

Jöfnum aðstöðu fjölskyldna með vaxtarstyrkjum

Eitt helsta kosningaloforð Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að ríkið styðji við frístundir barna með árlegri 60 þúsund króna vaxtarstyrkjum til allra barna og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Fyrirkomulag þeirra er mjög sambærilegt frístundastyrkjum, en takmarkast ekki við búsetu eða neina aðra þætti. Allar fjölskyldur eru jafnar þegar að styrknum kemur og öll börn hér á landi geta fengið að njóta góðs af honum.

Hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt atgervi og félagsskap sem börn sem stunda íþróttir og aðrar tómstundir öðlast þá er ljóst að til mikils er að vinna með því að jafna aðstöðu allra barna til þátttöku í íþróttum og tómstundum óháð efnahag. Það á við um allt skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hvort sem það er knattspyrna, píanó, júdó, hestamennska, skák, skátar, körfubolti, myndlist eða hvað annað. Með þessu náum við frekari jöfnuði, stuðlum að lýðheilsu og forvörnum ásamt því að tryggja fjölbreytta íþrótta- og tómstundaiðkun á Íslandi.

Brynja Dan Gunnarsdóttir, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Norður.

Sigrún Elsa Smáradóttir, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Landhelgi íslenskrar ferðaþjónustu – 0 mílur

Deila grein

25/08/2021

Landhelgi íslenskrar ferðaþjónustu – 0 mílur

Fyrir Covid var komin af stað réttmæt umræða um að rekstrarstaða margra íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja væri slæm og hefði versnað. Hluti vandans var rakin till falls WOW en einnig til almenns rekstrarvanda í greininni og skakkrar samkeppnisstöðu.

Umsvif erlendra ferðaskrifstofa var nánast í veldisvexti hér á landi fyrir Covid. Lítið sem ekkert var gert til að tryggja að þessi fyrirtæki færu eftir sömu kjarasamningum, lögum og reglum og innlendu fyrirtækin. Ekkert var heldur gert til að sporna við þessari þróun. Í mörgum löndum er t.d. krafa um að leiðsögumaður sem er búsettur og viðurkenndur af þarlendum stjórnvöldum sé til staðar í öllum skipulögðum hópferðum.

Sameining og sjálfvirknivæðing

Hinsvegar voru hér haldnir fundir og málþing sem mörg báru þann boðskap að sameining fyrirtækja og sjálfvirknivæðing væri nauðsynleg í ferðaþjónustu.

Í þessu sambandi hefur oft verið vísað til arðsemisaukningar í sjávarútvegi þar sjálfvirknivæðing hefur verið gríðarleg og fyrirtæki hafa sameinast og orðið stærri og “öflugri.” Það þarf ekki að tíunda að sú samþjöppun hefur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á byggðarþróun, skiptingu auðs og skuldsetningu greinarinnar sjálfrar.

Það má þó segja að ógnin sem að þjóðarbúinu stafar af samþjöppun í sjávarútvegi sé minni en af samþjöppun í ferðaþjónustu. Í EES-samningum eru ákveðnar girðingar þegar kemur að eignarhaldi erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Engar slíkar girðingar eru þegar kemur að eignarhaldi ferðaþjónustufyrirtækja.

Erlend yfirtaka?

Það er ekkert sem segir að stór íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sem sum hver hafa á undanförnum árum keppst við að kaupa upp fjölda smærri fyrirtækja til að blása út efnahagsreikning sinn verði seld í heilu lagi til erlendra aðila. Hvar stöndum við þá?

Skiptir það máli hvort innlendir eða erlendir aðilar eigi innviði íslenskrar ferðaþjónustu?

Svarið er já, það skiptir verulegu máli fyrir menningarleg og efnahagsleg áhrif greinarinnar. Erlent fyrirtæki með starfsemi á Íslandi greiða skatta erlendis og geta þessvegna gert út starfsfólk, íslenskt eða erlent, með ráðningarsamband erlendis.

Þá verður mun erfiðara fyrir íslensk stjórnvöld og verkalýðshreyfingu að hafa eftirlit með því að þeir sem starfa hér í ferðaþjónustu séu að vinna eftir gildandi kjarasamningum.

Þetta mun skekkja enn frekar samkeppnisstöðu innlendra ferðaþjónustufyrirtækja gagnvart erlendum ferðaskrifstofum sem gera hér út nú þegar í stórum stíl.

Ferðamálayfirvöld hafa ekki nýtt tímann í Covid til að vinna að því að efla samkeppnisstöðu innlendra ferðaþjónustufyrirtækja til framtíðar.

Viðbrögð ferðamálayfirvalda fyrir og í Covid hafa fremur verið að leggja auknar kvaðir á innlend fyrirtæki sem stunda leyfisskylda starfsemi á sviði ferðþjónustu, krefjast árlega ítarlegri gagna til að viðhalda leyfum og sömu kvaðir lagðar á stór fyrirtæki og ör fyrirtæki.

Samanburður við sjávarútveg

Það er áhugavert að velta því fyrir sér, hverjar afleiðingarnar hefðu orðið af afskiptaleysi stjórnvalda í landhelgisdeilunni. Ef stjórnvöld hefðu litið fram hjá veiðum erlendra þjóða á landgrunninum en sett í staðinn íþyngjandi kvaðir á íslenska flotann – þær sömu á stórútgerðir og trillur! Hvatt til uppkaupa og sameingingar og svo bara beðið eftir því að erlendir aðilar hefðu keypt stórútgerðirnar upp. Ef þessi leið hefði verið farin er óumdeilt að efnahagsleg staða á Íslandi væri önnur í dag en hún er.

Nú erum við með atvinnugrein sem í eðlilegu árferði skilar meiri gjaldeyristekjum og skapar fleiri störf en sjávarútvegur og hefur alla burði til þess að vera undirstaða hagsældar í landinu til framtíðar. En ferðamálayfirvöld eru uppteknari af því að sauma að litlum innlendum fyrirtækjum en að reyna að tryggja samkeppnisstöu innlendrar ferðaþjónustu fyrir ágangi erlendra fyrirtækja og finna leiðir til að sporna við erlendri yfirtöku á greininni.

Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri í ferðaþjónustu og skipar 3. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2021.