Categories
Uncategorized

SKILMÁLAR VEGNA SKRÁNINGAR Í FRAMSÓKNARFLOKKINN

Deila grein

01/07/2018

SKILMÁLAR VEGNA SKRÁNINGAR Í FRAMSÓKNARFLOKKINN

Framsóknarflokkurinn er stofnaður um tiltekin stefnumál og skoðanir, en ein af forsendum lýðræðis er að frjáls starfsemi um stjórnmálaskoðanir fái að þrífast. Af þeirri ástæðu njóta stjórnmálaflokkar stjórnskipulegrar verndar sem sérstaklega mikilvægar félagagerðir í lýðræðisríki. Með aðild að flokknum er tekið undir grundvallarsjónarmið hans.

Framsóknarflokknum er umhugað um að upplýsa flokksmenn um það sem er að gerast á vettvangi flokksins og stendur því fyrir víðtækri upplýsingamiðlun til flokksfélaga sinna. Jafnan felur aðild í sér að flokkur og flokksmaður eigi í samskiptum, m.a. um stefnumál, fundi, framboð, kosningar, fjármál auk annars sem tengist starfsemi flokksins. 

Með samþykkt skilmála þessa við umsókn um aðild að Framsóknarflokknum undirgengst umsækjandi skilmála þá sem settir eru fram í þessu skjali um öflun, varðveislu og vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi sem að neðan er lýst. Á það skal bent, að þegar sótt er um flokksaðild, verður umsækjandi að samþykkja sérstaklega að Framsóknarflokkurinn hafi heimild til að eiga samskipti við félagsmanninn með tölvupósti eða í gegnum síma.

Þær persónuupplýsingar sem gefnar eru upp við skráningu í Framsóknarflokkinn eru vistaðar á skrifstofu hans. Til að tryggja áreiðanleika eru þær uppfærðar eftir þörfum, t.d. með samkeyrslu við þjóðskrá.

Hér að neðan er yfirlit yfir upplýsingar sem flokkurinn kann að afla um flokksmenn og í hvaða tilgangi þessar upplýsingar eru varðveittar.

NAFN

Upplýsingarnar eru notaðar til að halda utan um nöfn þeirra sem aðild eiga að flokknum og einstökum félögum hans. Einnig til að halda utan um þá sem eru í styrktarmannakerfi, greiða félagsgjöld sem og þá sem gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Nöfn, heimilisföng og kennitölur eru notuð til að halda utan um þá sem búa í hverju sveitarfélagi og kjördæmi og eiga m.a. rétt til setu á félagsfundum, njóta kjörgengi í viðkomandi félögum og samböndum og rétt til þátttöku í aðferð við val á framboðslista í aðdraganda alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. 

KENNITALA

Fyrir utan ofangreint eru kennitölur einkum nýttar til að aðgreina þá sem bera sömu nöfn hvern frá öðrum. Kennitölur eru jafnframt notaðar til að afla upplýsinga um aldur og kyn flokksfélaga. Auk þess eru þær notaðar til að sækja mánaðarlega uppfærslu í þjóðskrá um lögheimili og aðrar upplýsingar sem þjóðskrá geymir. Sjá nánar í Persónuverndarstefnu flokksins. 

HEIMILISFANG OG PÓSTNÚMER

Upplýsingar um heimilisfang og póstnúmer eru nýttar til þess að skrá flokksfélaga í rétt flokksfélög innan flokksins, þ.e. þau flokksfélög og ráð sem starfrækt eru í því sveitarfélagi/póstnúmeri þar sem viðkomandi býr. Þá eru upplýsingar um heimilisfang og póstnúmer jafnframt notaðar til að koma áleiðis upplýsingum í pósti varðandi flokksstarfið. Sjá nánar í Persónuverndarstefnu flokksins. 

NETFANG

Netföng eru notuð í þeim tilgangi að senda upplýsingar til flokksfélaga, sem geta verið af hvaða tagi sem er og varðað t.d. viðburði, fundi, skilaboð, fjáröflum, stefnumál auk ýmissa hluta í tengslum við kosningar o.fl. Haldið er utan um netföng þeirra sem veitt hafa fyrir því heimild.

SÍMANÚMER

Símanúmer eru notuð í þeim tilgangi að miðla upplýsingum til flokksfélaga, sem geta verið af hvaða tagi sem er og varðað t.d. viðburði, fundi, skilaboð, fjáröflun, stefnumál auk ýmissa hluta í tengslum við kosningar o.fl. Haldið er utan um símanúmer þeirra sem veitt hafa fyrir því heimild. 

MEÐHÖNDLUN FLOKKSSKRÁR

Aðgang að flokksskránni í heild hafa einungis þeir starfsmenn Framsóknarflokksins sem vegna starfa sinna þurfa þess og er henni ekki deilt með þriðja aðila, sjá nánar í kafla um miðlun persónuupplýsinga í persónuverndarstefnu flokksins. 

Í miðlægri flokksskrá er haldið utan um upplýsingar um félagatal hvers aðildarfélags. Aðgang að slíku félagatali hafa einungis formenn þeirra og stjórnir í lögmætum tilgangi til þess að geta rækt skyldur við félagsmenn, m.a. vegna aðal- og félagsfunda auk við aðferð við val á framboðslista. Á það eftir atvikum líka við um flokksmenn í sérstökum trúnaðarstörfum eins og fundarstjóra og starfsmenn félagsfunda auk kjörstjórna og uppstillinganefnda í tengslum við aðferð við val á framboðslista. Stjórnir félaga geta veitt ákveðnum hópi félagsmanna takmarkaðan aðgang að félagatali, í húsnæði á vegum flokksins, til að miðla upplýsingum til annarra félagsmanna, t.a.m. í aðdraganda alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. Þegar slík skrá er útbúin koma fram kennitölur, nöfn, heimilisföng, póstnúmer og eftir atvikum símanúmer allra sem aðild eiga að félagi. Félög og sambönd fá ekki afhent netföng úr flokksskrá, en skrifstofa flokksins sendir út skilaboð í tölvupósti á starfssvæði hvers félags og sambands eftir þörfum hverju sinni. Slíkur aðgangur að félagatali er einungis veittur gegn undirritun trúnaðarskuldbindingar um meðferð þess og að meðferð þess samræmist í einu og öllu reglum flokksins og landslögum.

Í tengslum við aðferð við val á framboðslista, röðun og kosningar til trúnaðarstarfa til félaga og sambanda flokksins geta frambjóðendur í þeim fengið aðgang að kjörskrá, þ.e. viðkomandi félagatali, gegn því að undirrita trúnaðarskuldbindingar um meðferð kjörskrárinnar, að meðferð hennar samræmist í einu og öllu reglum flokksins og landslögum. Við gerð kjörskrár eru netföng viðkomandi aldrei afhent þriðja aðila, en einstaka frambjóðendum gefst í aðferð við val á framboðslista kostur á að biðja skrifstofu flokksins um að senda út tölvupóst í sínu nafni á þá aðila sem eru á kjörskrá. 

Megintilgangurinn með öflun og vinnslu persónuupplýsinga er að flokkurinn geti efnt skyldur sínar og rækt hlutverk sitt gagnvart flokksmönnum. Upplýsingar eru ekki nýttar í öðrum tilgangi en þeirra var aflað til. 

Almenn lýsing á öflun og vinnslu persónuupplýsinga er sett fram í persónuverndarstefnu Framsóknarflokksins, sem hægt er að nálgast á heimasíðu flokksins, www.framsokn.is, og skoðast hún sem hluti skilmála þessara. 

Framsóknarflokkurinn hvetur alla sem óska eftir aðild að flokknum til að kynna sér stefnuna vel.