Categories
Fréttir

Norrænir jafnréttisvísar

Deila grein

30/06/2016

Norrænir jafnréttisvísar

fæðingarorlofsdagar hjá feðrumÁ vef Norrænu ráðherranefndarinnar, www.norden.org, eru aðgengilegar margvíslegar tölfræðiupplýsingar sem varpa ljósi á líf og aðstæður fólks á Norðurlöndunum og gera mögulegan samanburð milli landa. Jafnréttisvísar eru hluti þessara upplýsinga en um þá segir á vef ráðherranefndarinnar: „Jafnrétti kvenna og karla er grundvallargildi á Norðurlöndum. Söfnun og notkun tölfræðiupplýsinga um jafnrétti kynjanna er lykilþáttur í því að stuðla að jafnrétti kynjanna í samfélaginu. Samstarf Norðurlanda um jafnrétti kynjanna, meðal annars hvað varðar tölfræðiupplýsingar, hefur stuðlað að því að gera Norðurlönd að þeim heimshluta þar sem jafnrétti kynjanna er mest.“
Sem dæmi um jafnréttisvísa má nefna vísa sem varpa ljósi á heilsu karla og kvenna, menntun, atvinnuþátttöku, fjárhag og tekjur, fjölskyldu og umönnun, áhrif og völd.

Íslenskir og sænskir feður taka flesta fæðingarorlofsdaga

Ef skoðaðar eru t.d. upplýsingar um fæðingarorlof  kemur fram að fæðingarorlof á Norðurlöndunum er lengst í Svíþjóð en styst á Íslandi. Danmörk er eina landið þar sem ekki er sérstakur feðrakvóti og feðrakvótinn er lengstur á Íslandi. Feður á Íslandi og í Svíþjóð taka flesta fæðingarorlofsdaga, eins og sést á myndinni hér að ofan. Hlutur feðra í fæðingarorlofi hefur aukist hjá öllum Norðurlandaþjóðunum hefur aukist og sömuleiðis fjöldi fæðingarorlofsdaga á hvert barn á árabilinu 2000 – 2013.

Meðalaldur kvenna við fæðingu fyrsta barnsForeldrar eignast börn æ síðar á ævinni

Karlar og konur eignast börn síðar á ævinni en fyrri kynslóðir og meðalaldur við fæðingu fyrsta barns hækkar stöðugt. Árið 1961 var meðalaldur íslenskra kvenna 22 ár þegar þær eignuðust sitt fyrsta barn en árið 2013 var meðalaldurinn rúm 27 ár. Meðalaldur íslenskra karla sem eignuðustu sitt fyrsta barn var 30 ár árið 2013. Íslenskir foreldrar eru að meðaltali nokkru yngri þegar þeir eignast sitt fyrsta barn en foreldrar annars staðar á Norðurlöndunum, líkt og jafnréttisvísarnir sýna .

Vísar sem varða heilsu karla og kvenna

Í jafnréttisvísunum má m.a. skoða kyngreindar upplýsingar um lífslíkur við fæðingu, daglegar reykingar, dánartíðni vegna krabbameins og vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi, sjálfsvíg, fjarvistir frá vinnu vegna veikinda, fóstureyðingar o.fl. Þar kemur t.d. fram að á Norðurlöndunum veldur krabbamein um fjórðungi allra dauðsfalla og að dánartíðni er hærri hjá körlum og konum á Norðurlöndunum að Færeyjum og Grænlandi undanskildum.

Categories
Greinar

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Deila grein

29/06/2016

Mikilvæg endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni kynnt

Eygló HarðardóttirVerulegar breytingar á almannatryggingakerfinu eru áformaðar eins og sjá má í drögum að frumvarpi sem birt hafa verið til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins.

Allt frá árinu 2005 hefur verið unnið að heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og ófáar nefndir og verkefnahópar komið að þeirri vinnu. Haustið 2013 skipaði ég nefnd undir forystu þingmannanna Péturs Blöndal heitins og Þorsteins Sæmundssonar og eru frumvarpsdrögin byggð á vinnu þeirrar nefndar.
Helstu markmið fyrirhugaðra breytinga eru að einfalda og skýra almannatryggingakerfið, bæta samspil þess við lífeyrissjóðina og auka stuðning við þann hóp aldraðra sem hefur lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Horft er til þess að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku.

Aukinn sveigjanleiki við starfslok
Markmiðið er einnig að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkandi hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar. Lagt er til að auka sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku og skapa þannig hvata fyrir aldraða til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu hvers og eins. Auk þessa verði lífeyristökualdur hækkaður í skrefum um þrjú ár á næstu 24 árum.

Aukinn sveigjanleiki felur í sér tillögu um heimild fólks til að fresta lífeyristöku allt til áttræðs og möguleika á að flýta lífeyristöku hjá almannatryggingum til 65 ára aldurs. Miðað er við að lífeyrisþegar fái hærri lífeyri ef lífeyristöku er frestað, en lægri lífeyri ef lífeyristöku er flýtt. Til lengri tíma er stefnt að því að lífeyrisþegum verði gert kleift að taka hálfan ellilífeyri frá lífeyrissjóði en fresta töku hins helmingsins sem hækkar þá í samræmi við reglur sjóðsins. Samhliða geti fólk tekið hálfan ellilífeyri frá almannatryggingum.

Einfaldara kerfi og færri bótaflokkar
Lagt er til að bótaflokkarnir grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu verði sameinaðir í einn bótaflokk; þ.e. ellilífeyri. Frítekjumörk verða afnumin og mun fjárhæð ellilífeyris almannatrygginga lækka um sama hlutfall, eða 45%, vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en í dag er þetta hlutfall mismunandi eftir tegund tekna. Áfram er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir tekna, s.s. greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, verði undanskildar við útreikning á tekjuviðmiðinu.

Jákvæð efnahagsleg áhrif
Áætlað er að kostnaður þessara breytinga á almannatryggingakerfinu nemi 5,3 milljörðum króna fyrsta árið. Greiningarfyrirtækið Analytica lagði mat á efnahagsleg áhrif breytinganna. Niðurstaðan er sú að breytingarnar hafi á heildina litið jákvæð efnahagsleg áhrif. Gera megi ráð fyrir að hækkun á lífeyristökualdri leiði til fjölgunar fólks á vinnumarkaði og auki þannig með beinum hætti framleiðslu og auknar skatttekjur. Þá megi reikna með að sveigjanleg starfslok stuðli að hagkvæmara fyrirkomulagi framleiðslu sem geti aukið hana enn frekar.

Sú kynslóð kvenna sem nú er á lífeyrisaldri hefur frekar en karlar gert hlé á atvinnuþátttöku sinni á vinnualdri, t.d. vegna fjölskylduábyrgðar, á almennt minni réttindi í lífeyrissjóðum, hefur búið við kynbundinn launamun þorra starfsævinnar og treystir því frekar á almannatryggingakerfið sér til framfærslu. Lagðar eru til breytingar í því skyni að auka réttindi allra þeirra sem hafa áunnið sér lítinn eða jafnvel engan rétt í lífeyrissjóðakerfinu vegna lítillar atvinnuþátttöku, jafnt karla sem kvenna, en konur munu hagnast meira á því en karlar vegna lægri tekna. Gangi þessar breytingar eftir er áætlað að tæplega 68% aukinna útgjalda muni fara til kvenna en um 32% til karla.

Samstarfsverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats
Í niðurstöðu nefndarinnar um endurskoðun almannatrygginga var samstaða um breytingar á bótakerfi aldraðra en ágreiningur um breytingar sem snúa að öryrkjum. Því er lagt til að komið verði á fót tilraunaverkefni um starfsendurhæfingu og innleiðingu starfsgetumats í samstarfi ríkis, sveitarfélaga, samtaka aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunasamtaka fólks með skerta starfsgetu í þeim tilgangi að efla atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu.

Afnám vasapeningakerfis á öldrunarheimilum
Í frumvarpsdrögunum er lögð til sérstök heimild til að hefja tilraunaverkefni um breytt fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum um afnám gildandi vasapeningakerfis. Þetta hefur lengi verið baráttumál samtaka aldraðra, en með því myndu íbúar á þessum heimilum halda lífeyrisgreiðslum sínum og greiða milliliðalaust fyrir veru sína á heimilunum að undanskildum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Ég hvet fólk til að kynna sér efni frumvarpsins sem er aðgengilegt á vefnum www.vel.is og koma athugasemdum á framfæri, en umsagnarfrestur er til 31. júlí næstkomandi.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2016.

Categories
Fréttir

Náið samráð EFTA-ríkja vegna ákvörðunar Breta

Deila grein

27/06/2016

Náið samráð EFTA-ríkja vegna ákvörðunar Breta

utanríkisráðherrar norðurlandannaEFTA-ríkin munu eiga með sér náið samráð til að viðhalda nánum efnahags- og viðskiptatengslum við Bretland, samkvæmt ákvörðun ráðherrafundar EFTA sem haldinn er í Bern í Sviss. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, situr fundinn fyrir hönd Íslands.
Á fundinum var í dag rætt um þá stöðu sem upp er komin í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, þar sem meirihluti kjósenda var fylgjandi úrsögn úr Evrópusambandinu.
EFTA-ríkin munu leita lausna samhliða viðræðum Breta við Evrópusambandið, eftir því sem frekast er unnt, til að koma í veg fyrir lagalegt tómarúm þegar útgöngusamningur Breta við ESB tekur gildi. Að svo stöddu telja þau hins vegar ótímabært að staðhæfa hvaða leiðir skili EFTA-ríkjunum bestum árangri.
Á fundinum ræddi Lilja um mikilvægi góðs viðskiptasambands Íslands við Bretland og fagnaði áhuga EFTA-ríkjanna á að ráðfæra sig við hvert annað til að tryggja sem bestan árangur.
Ísland í forystu EFTA og EES
Ísland tekur við forystu í EFTA þann 1. júlí. Samband aðildarríkjanna við Bretland verður efst á baugi í formennskutíð Íslands, en að auki bíður það samtakanna að halda áfram og ljúka fríverslunarviðræðum sem eru í gangi við lönd utan EFTA. Þá lýsti utanríkisráðherra því yfir, að setning jafnréttisstefnu fyrir EFTA verði meðal forgangsverkefna í formennskutíð Íslands og er undirbúningur þess þegar hafinn. Rætt var um þá fyrirætlan Íslands á fundinum í dag og ákveðið að hefja undirbúning að gerð slíkrar stefnu.
Samhliða forystu í EFTA gegnir Ísland forystu í EES frá 1. júlí, sem skapar góð tækifæri til samræmingar í áherslum.
Ráðherrafundinum lýkur í kvöld.

Categories
Greinar

Loftslagsvænn landbúnaður

Deila grein

23/06/2016

Loftslagsvænn landbúnaður

sigrunmagnusdottir-vefmyndÁ dögunum skrifuðu undirrituð og Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) á Hvanneyri, undir tvo samninga um verkefni sem eru hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Annar samningurinn snýr að því að fá yfirlit og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Hinn samningurinn lýtur að útreikningum á kolefnislosun í landbúnaði. Upplýsingar og gögn frá þessum verkefnum munu gagnast við gerð vegvísis, þar sem stefna og markmið um að útfæra minnkun í losun frá landbúnaði er mótuð í samvinnu við Bændasamtökin.

Það skiptir miklu máli að bæta tölulegar upplýsingar varðandi þátt landbúnaðar og landnotkunar í kolefnislosun og -bindingu hér á landi. Samningarnir við LBHÍ eru þýðingarmikið skref í því að auka vísindaþekkingu innan skólans á þessu sviði um leið og þeir styrkja þessa mikilvægu stoð í stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Samvinna
Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er til þriggja ára og samanstendur af 16 fjölbreyttum verkefnum sem unnin verða í samstarfi við atvinnulífið og stofnanir. Ekki hefur áður verið lagt jafn mikið fé til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum hérlendis. Sóknaráætlunin miðar að því að virkja atvinnulíf og stofnanir því loftslagsmál tengjast nær öllum atvinnugreinum. Því þarf samstillt átak til að takast á við þær áskoranir sem eru samfara þeim auk þess sem loftslagsmál hafa gríðarleg áhrif á efnahagslífið.

Mikilvægt er að allir beri ábyrgð í loftlagsmálum, en mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um að finna raunhæfar lausnir. Til að vel megi takast og standa undir væntingum þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma þarf því að örva og virkja samfélagið, fyrirtæki sem og einstaklinga til þátttöku og aukinnar vitundar. Sóknaráætlunin tekur mið af þess konar samvinnu og má nefna eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu, átak gegn matarsóun, vegvísi í sjávarútvegi, endurheimt votlendis og loftslagsvænan landbúnað.

Kolefnisútreikningar
Landbúnaður og landnotkun hefur vissulega áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda en þar eru jafnframt tækifæri til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti með skógrækt, landgræðslu og fleiri aðgerðum. Nauðsynlegt er að fá betri kortlagningu og útreikninga á hvernig losunin dreifist innan geirans og hvar tækifæri í bindingu liggja svo markmið og áætlanir um samdrátt í losun nái fram að ganga.

Bestu vörslumenn landsins
Bændur gegna miklu hlutverki varðandi endurheimt landgæða og hafa verið ötulir talsmenn þess að græða landið frá fjöru til fjalla. Ríkisstjórnin hefur veitt aukið fjármagn til skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Fyrr í vor setti ég af stað verkefni um endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftslagsmálum og fól Landgræðslu ríkisins framkvæmdina. Verkefnin verða unnin í náinni samvinnu við landeigendur en margir sjá aukna möguleika fyrir svæði sem ekki eru nýtt til búskapar og geta með endurheimt haft aukið útivistargildi, m.a. í fjölbreyttara fuglalífi og fiskgengd.

Þá er skógrækt viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Margir bændur eiga land sem ekki nýtist við búskapinn og gæti hentað vel til skógræktar. Með skógræktaráætlun skapast möguleikar á nýrri skógarauðlind og sjálfbærni í nýtingu lands samhliða bættri ímynd.

Minna kolefnisfótspor
Framundan eru áskoranir í loftslagsmálum sem þarf að mæta með breyttu og jákvæðu hugarfari. Fjöldi þeirra 175 ríkja sem skrifuðu undir Parísarsamkomulagið styrkir okkur í þeirri trú að þjóðir heims hafi tekið ákvörðun um að hefjast handa við að sporna gegn loftslagsbreytingum. Tillaga um fullgildingu samningsins af Íslands hálfu verður lögð fram á Alþingi að loknu sumarfríi – efndir munu fylgja orðum. Markmiðum Íslands verður fylgt eftir, kolefnisfótsporið þarf að minnka og mun stefna Íslands í loftslagsmálum leiða okkur að loftslagsvænum lausnum og nýsköpun.

Sigrún Magnúsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2016.

Categories
Greinar

Ísland njóti bestu kjara

Deila grein

23/06/2016

Ísland njóti bestu kjara

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Bretar ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag hvort þeir yfirgefi Evrópusambandið eða verði þar áfram. Viðhorfskannanir gefa til kynna að úrslitin verði tvísýn og þjóðin virðist skiptast í tvo jafn stóra hópa, þar sem annar vill aukið efnahagspólitískt sjálfstæði en hinn halda Evrópusamstarfinu áfram.

Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslands. Íslendingar fluttu út vörur og þjónustu til Bretlands fyrir meira en 120 milljarða króna á síðasta ári. Á móti fluttum við inn vörur og þjónustu frá Bretlandi fyrir 90 milljarða. Bretar eru um 19% erlendra ferðamanna á Íslandi og eru fjölmennastir í hópi þeirra sem sækja okkur heim. Flugferðir milli landanna voru um 6.400 talsins á síðasta ári og um 2.200 Íslendingar eru skráðir með lögheimili í Bretlandi.

Grundvallast á EES–samningnum
Samskipti Íslands og Bretlands grundvallast að miklu leyti á EES-samningnum. Hann kveður á um frelsi í viðskiptum og fjárfestingum, frjálsa búsetu fólks og samstarf á ýmsum sviðum. Samningurinn helst óbreyttur ef Bretar velja sér áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Ef Bretar segja skilið við sambandið munu þeir þurfa að semja um viðskiptakjör og ýmis samskipti sín við aðrar þjóðir, þar með taldar aðildarþjóðir EES-samningsins. Engar breytingar yrðu þó á samskiptum Íslands og Bretlands í a.m.k. tvö ár frá ákvörðun um úrsögn, samkvæmt sáttmálum ESB. Með samhljóða ákvörðun allra aðildarríkjanna má lengja þann tíma.

Í startholunum
Íslensk stjórnvöld hafa fylgst náið með þróun mála undanfarna mánuði og búið sig undir niðurstöðuna, hver sem hún kann að verða. Í báðum tilvikum er markmiðið það sama; að tryggja festu og stöðugleika í samskiptum landanna, að viðskiptakjör verði framvegis a.m.k. jafn góð og hingað til og frelsi íbúanna til ferða og búsetu í hvoru landi fyrir sig haldist óbreytt. Leiðirnar að því markmiði hafa verið kortlagðar og við erum í startholunum, ef á þarf að halda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Grein birtist í Fréttablaðinu 23. júní.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi fundar með aðstoðarframkvæmdastjóra OECD

Deila grein

21/06/2016

Sigurður Ingi fundar með aðstoðarframkvæmdastjóra OECD

sij hja oecdSigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra,  átti í dag fund með Mari Kiviniemi, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, sem nú gegnir stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD). Meðal þess sem rætt var um voru  staða og horfur í efnahagsmálum á Íslandi, losun fjármagnshafta, staðan á vinnumarkaði og sjávarútvegsmál. Fram kom í máli fulltrúa OECD að þrátt fyrir jákvæða efnahagslega þróun á Íslandi undanfarin ár, væru ýmsar áskoranir sem þyrfti að takast á við, eins og til dæmis að auka framleiðni í ýmsum greinum. Fram kom í máli fulltrúa OECD að íslenskur sjávarútvegur væri í fremstu röð á heimsvísu og aðrar þjóðir hefðu margt að læra af Íslendingum í þeim efnum.
,,Fundurinn var uppbyggilegur og ljóst að á vettvangi OECD er mikil þekking sem kemur Íslendingum vel,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. Þá segir forsætisráðherra ánægjulegt að heyra að mjög sé litið til Íslands þegar kemur að sjávarútvegsmálum og nýtingu auðlinda hafsins.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Greinar

19. júní – „betur má ef duga skal“

Deila grein

19/06/2016

19. júní – „betur má ef duga skal“

Anna-Kolbrun-ArnadottirÞað er við hæfi að líta um öxl á þessum degi. Árið 1911 samþykkti Alþingi með miklum meirihluta frumvarp um algert jafnrétti kynjanna til skólagöngu, námsstyrkja og embætta. Árið 1915, 19. júní, staðfesti konungur stjórnarskrána með réttindum kvenna, sem þær síðan hafa haft. Þessu ber að fagna og minnast, jafnvel rúmum 100 árum seinna. Í dag mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenda styrki úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður árið 2015, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna.
Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Nú nýlega birtist mynd af Þjóðhagsráði Íslands en í ráðinu sitja sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Vissulega getur það reynst flókið að huga að kynjajafnrétti í slíku ráði en þó ætti það ekki að vera svo flókið ef betur er að gáð. Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sitja í ráðinu stöðu sinnar vegna, en svo er tiltekið að forsvarsmenn SA, SÍS og SÍ eigi sæti í ráðinu og þar er vel hægt, ef vilji er fyrir hendi, að huga að kynjajafnrétti þar sem stjórnir þessara samtaka og stofnana eru skipaðar bæði körlum og konum. Að þessu sögðu er hægt að horfa til þeirra viðbragða við skipan ráðsins sem birtust í samfélaginu og óhætt er að draga þá ályktun að okkur hefur miðað áfram, fólk tók eftir þessari skökku mynd og benti á hið augljósa, að Þjóðhagsráð ætti að sjálfsögðu að vera skipað körlum og konum.

Um leið og við minnumst dagsins innanlands er gott að við hugum einnig að konum utan landsteinanna. Það eru enn verkefni sem við þurfum að vinna að, alltaf þarf að standa jafnréttisvaktina og við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum. Við þurfum að líta til annarra landa og sjá hvernig við getum verið sú fyrirmynd sem við viljum vera. Við lesum um konur á flótta, konur sem eru eru barnshafandi og dreymir um að fæða börn sín inn í sanngjarnan heim en talið er að 12% kvenna sem ferðast yfir Miðjarðarhafið séu með barni. Margar eru með börn á brjósti eða ferðast með ungabörn með sér. Gríðarleg aukning hefur orðið á mæðradauða á meðal flóttakvenna síðastliðin ár. Þær hætta lifi sínu til að eiga börn sín í friðsælum aðstæðum og leita meðal annars til Evrópu. Þær ferðast fótgangandi oft að næturlagi í afskekktum héruðum fjarri lögreglu, á óupplýstum leiðum og ómalbikuðum vegum, halda til í niðurníddum lestum á nóttunni, eiga ekki í nein hús venda og búa við stöðugt öryggisleysi.
Margar konur eiga því börn sín á flótta og í flóttamannabúðum.
Konur eins og við.

Innilega til hamingu með daginn – höldum áfram að vera þær fyrirmyndir sem formæður okkar allra voru.

Anna Kolbrún Árnadóttir, Formaður Landssambands Framsóknarkvenna.

Categories
Fréttir

Hátíðarræða Sigurðar Inga forsætisráðherra á 17. júní

Deila grein

17/06/2016

Hátíðarræða Sigurðar Inga forsætisráðherra á 17. júní

Sigurður Ingi JóhannssonGóðir landsmenn, gleðilega hátíð.
Við sem jörðina gistum erum reglulega minnt á að samtíminn virðist stundum hafa harla lítið forspárgildi um framtíðina. Það er nefnilega þannig að hraði samtímans býður sjaldnast upp á að staldrað sé við og gaumgæft. Enda veltur tímans hjól fram veginn, en ekki aftur.
Líf okkar byggist á því sem áður hefur gerst. Hið liðna bærist með okkur í dag og mótar okkur og stýrir. Um leið reynum við að læra af þeirri þekkingu sem fortíðin hefur fært okkur og nýta hana til framtíðarverka. Staðan sem við Íslendingar erum í er summan af því sem liðið er. Væntanlega má halda því fram að land og þjóð hafi þokast fram veginn í ýmsum efnum þegar litið er eitt hundrað ár eða svo aftur í tímann.
Sú kynslóð sem stóð í stafni árið 1900 hafði aðrar væntingar og vonir en aldamótakynslóðin árið 2000. En vinna og þrautseigja hinnar fyrri lagði grunninn að því samfélagi sem við lifum í. Hún skilaði af sér góðu búi og það er sú skylda sem hvílir á okkur öllum, sama hvaða tíma við lifum, að skila af okkur góðu búi.
Upp úr síðustu aldamótum fór hér allt að ganga vel, jafnvel svo að undrum sætti. Gengu þá margir heldur rösklegar um gleðinnar dyr en hollt gat talist. Því fór sem fór og margir efuðust um að Íslendingar gætu verið þjóð meðal þjóða, svo beygð sem hún var. Fáir munu halda því fram í dag að framtíðin sé dökk. Nú er sannarlega lag að bæta kjör allra og færa til betri vegar ýmislegt sem miður fór.
Stjórnmálamönnum, sá er hér stendur er þar ekki undanskilinn, er tamt að tala um tækifæri, alls konar tækifæri sem bíða þess að verða gripin og nýtt til hins ýtrasta til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það er rétt að tækifæri Íslands eru mörg og mikil, þjóðin ung og framtakssöm og þekking á atvinnuháttum góð. En við erum fá sem búum hér. Fámennið hefur gert það að verkum að „allir þekkja alla“, eins og sagt er. Það er því mikilvægt þegar við nýtum það sem landið hefur upp á að bjóða að sem flestir njóti með einum eða öðrum hætti.
Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð eigum við að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.
Fólk gerir ekki kröfu um að allir séu jafnsettir, en fólk hefur ekki þol fyrir óréttlátri skiptingu þar sem sumir fá að njóta á meðan aðrir gera það ekki. Sérstaklega á þetta við þegar tilfinning fólks er sú að sumir fái fleiri og betri tækifæri en aðrir. En gleymum því ekki heldur að hver er sinnar gæfu smiður.
17. júní komum við saman og gleðjumst með fjölskyldu og vinum, hefjum fánann á loft og minnumst þess sem sameinar okkur sem þjóð, sem saman fetar veginn í gleði og sorg, leik og starfi. Margir hafa kosið að flytjast hingað til lands og leggja vinnu sína og örlög í faðm Íslands og þannig auðgað íslenskt þjóðlíf. Enda er landið okkar gjöfult fyrir þá sem vilja gera það að heimili sínu.
Landar okkar dreifast nú líka enn meira um jarðarkringluna en áður. Svo virðist sem sífellt fleiri líti á heiminn allan sem sína fósturjörð. Og möguleikar til starfa og góðrar framtíðar liggja að sjálfsögðu víðar en hér á Íslandi. Það er sú samkeppni sem blasir við og þeirri samkeppni eigum við að fagna – en einnig að taka alvarlega.
Munum um leið að það að vera hluti af þjóð er að eiga heimili. Hvar í veröldinni sem við Íslendingar kjósum að búa og starfa erum við tengd landinu okkar órofa böndum og vitum að hér eigum við ætíð samastað hvert sem lífið leiðir okkur.
Helgi Tómasson orðaði einmitt þessa hugsun á dögunum þegar hann sagðist vera kominn „heim“ með San Francisco-ballettinn. Hann hefur búið erlendis öll sín fullorðinsár en fyrir honum er Ísland ætíð „heima“. Það ætti að vera okkur keppikefli að sem flestum Íslendingum sem búa og starfa erlendis, um lengri eða skemmri tíma, sé eins innanbrjósts.
Kæru landsmenn.
Við stöndum hér á Austurvelli undir vökulu augliti þeirra Ingibjargar H. Bjarnason og Jóns Sigurðssonar. Líf og starf þeirra beggja minna okkur Íslendinga á að barátta fyrir málstað og umbótum í samfélaginu hefst með þrotlausri vinnu, einurð og þrautseigju. Þau minna okkur einnig á að þau réttindi sem við teljum í dag eðlileg og sjálfsögð eru alls ekki sjálfgefin. Fyrir þeim var unnið, þau voru sótt af harðfylgi og færð okkur af þeim kynslóðum sem á undan okkur gengu.
Lágmynd Einars Jónssonar hér á stallinum – Brautryðjandinn – er okkur til ævarandi áminningar um þetta.
Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust og strituðu í sveita síns andlitis við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd. Næst því komumst við með því að rækja þá skyldu okkar að skila því ekki verr, og helst nokkru bættara, til komandi kynslóða, og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru.
Þannig getum við tryggt að Ísland verði ætíð áfram heimili þeirra og samastaður í síbreytilegri veröld, hvert sem lífið kann að leiða þau að öðru leyti. Þannig getum við í sameiningu haldið á lofti vinnu og draumum feðra okkar og mæðra.
Allt er breytingum undirorpið og nýjar kynslóðir þurfa að takast á við ný verkefni með nýrri hugsun og nýjum aðferðum. Það er óvarlegt að ætla að kynslóð hinna eldri sé, þrátt fyrir reynslu, betur til þess fallin að ákveða hvað er unga fólkinu fyrir bestu.
Á sama hátt er ekki sjálfgefið að þeir sem yngri eru viti best hvað hinum eldri er fyrir bestu. Því samfélag ersamvinnuverkefni þar sem best niðurstaða fæst þegar hver og einn leggur til reynslu sína, hugmyndir og vinnu.
Samtalið milli kynslóða þarf að vera lifandi og virðing ríkja fyrir stöðu fólks á hverjum stað á lífsleiðinni. Öllum á að líða vel, hvar sem þeir kjósa að vera, og ég tel að við Íslendingar höfum ekki staðið okkur verr í þessum efnum en aðrar þjóðir. Við erum kannski ekki „best í heimi“ eins og stundum er sagt, en við erum sannarlega góð.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að samfélagið okkar og landið sé ætíð samkeppnishæft við það besta sem gerist í heiminum; að sjá til þess að heimili okkar, Ísland, sé ætíð verðugur, friðsæll og góður samastaður. Það er verkefni sem ég veit að við getum öll unnið að í sameiningu af heilum hug.
Kæru landsmenn.
Af ýmsu er að taka þegar tækifæri gefst til þess að ávarpa þjóðina 17. júní, svo margs sem vert væri að geta. Vart verður hjá því komist að minnast á glæsilegan árangur íþróttafólksins okkar sem hefur staðið sig frábærlega að undanförnu. Má þar nefna knattspyrnulandsliðin okkar í fremstu röð í Evrópu, sundmenn á verðlaunapalli, frjálsíþróttafólk að setja met og svo handboltalandsliðin okkar.
Það yljar óneitanlega um hjartarætur þegar fulltrúar okkar ná svo langt á alþjóðlegum vettvangi. Það er sannarlega eitt mesta stolt lítillar þjóðar að eiga svo margt íþróttafólk og listamenn og vísindamenn í fremstu röð í heiminum. Á þjóðhátíðardaginn eigum við leyfa okkur að rækta það stolt, gleðjast yfir afrekum landa okkar og því góða sem landið og samfélagið hafa gefið okkur. Betri hvatningu fyrir litla þjóð sem við ysta haf unir við hátign jökla og bláan sæ, hvatningu til að vinna að enn betri árangri á grunni þess sem þegar er unnið, er vart hægt að hugsa sér.
Vormenn Íslands, vorsins boðar,
vel sé yður, frjálsu menn!
Morgunn skóga’ og rósir roðar,
rækt og tryggð er græðir senn.
Notið, vinir, vorsins stundir,
verjið tíma’ og kröftum rétt,
búið sólskært sumar undir
sérhvern hug og gróðurblett!

Categories
Fréttir

Tvö íslensk smáforrit tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Deila grein

15/06/2016

Tvö íslensk smáforrit tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Tvö íslensk smáforrit eru tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Annars vegar er um að ræða smáforritið e1 sem tengir saman rafbílaeigendur og eigendur hleðslustöðva og hins vegar Strætó-appið, en með því geta farþegar keypt farmiða í strætó og fylgst með ferðum hans.
Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár er stafræn nýsköpun sem ýtir undir sjálfbæran lífsstíl. Verðlaunin verða veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi ýtir undir sjálfbæran lífsstíl með skapandi stafrænum lausnum.
Auk íslensku smáforritana voru þrjú verkefni frá Danmörku tilnefnd til verðlaunanna, tvö frá Finnlandi, eitt frá Svíþjóð og eitt frá Svíþjóð og Noregi sameiginlega.
Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur en verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn þann 1. nóvember næstkomandi.
umhverfisverðlaun norðurlandaráðs 2016
Ljósmynd: norden.org
Frétt Norðurlandaráðs af tilnefningunum

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Greinar

Síld og fiskur

Deila grein

11/06/2016

Síld og fiskur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Hinn 1. ágúst kemur til framkvæmda nýr samningur milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) sem felur í sér verulega aukningu á tollfrjálsum innflutningskvótum til ESB á íslenskum humri, heilfrystri síld, ferskum karfaflökum og niðursoðinni lifur. Samningurinn er afrakstur vinnu sérfræðinga utanríkisráðuneytisins, sem daglega vinna markvisst að því að tryggja viðskiptahagsmuni Íslands á erlendri grundu. Með nýja samningnum verður stór hluti viðskipta með humar í raun tollfrjáls auk þess sem niðursoðin lifur er nú í fyrsta skipti hluti af samningi af þessu tagi við ESB.

Með EES-samningnum árið 1994 var íslenskum fisk­útflytjendum tryggður greiðari aðgangur að evrópskum mörkuðum. Tollar af ferskum þorsk- og ýsuflökum féllu niður, sem skapaði grundvöll fyrir aukinni vinnslu á ferskum afurðum hérlendis fyrir stóran erlendan markað. Fyrir vikið er meira magn en áður unnið hér á landi fyrir Evrópumarkað og verðmætið er mun meira. Mikilvægi þessa fyrir þjóðarhag hefur verið ótvírætt á undanförnum tveimur áratugum, enda eru um 2/3 hlutar allra útfluttra sjávarafurða frá Íslandi seldir til Evrópu.

Tollaákvæðum í samningum milli Íslands og ESB hefur nokkrum sinnum verið breytt. Með breytingunum hefur aðgengið að innri markaði Evrópu aukist og samkeppnisstaða Íslands verið bætt. En betur má ef duga skal. Enn eru til staðar hindranir í viðskiptum við ESB í formi tolla á ýmsar tegundir sjávarafurða. Við hljótum að stefna að því að skapa forsendur fyrir frekara tollaafnámi, enda er mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf að afrakstur af sjávarauðlindinni sé sem mestur. Að sem minnst af verðmætinu fari í greiðslu tolla í viðskiptum milli landa.

Talsverður vöxtur hefur verið í útflutningi á vöru og þjónustu síðastliðin ár. Aukningin hefur að mestu verið á sviði þjónustu og því er sérstaklega ánægjulegt að nú skapist tækifæri til aukins vöruútflutnings.

Íslenskur útflutningur hvílir nú á fleiri stoðum en áður. Auk sjávarútvegs og stóriðju hafa ferðaþjónusta og hugverkaiðnaður skapað gjaldeyristekjur sem stuðla að sjálfbærum viðskiptajöfnuði. Það er staða sem allar þjóðir sækjast eftir.

Lilja Alfreðsdóttir

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 11. júní 2016.