Categories
Greinar

Landið allt í byggð!

Deila grein

28/07/2016

Landið allt í byggð!

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraEinn af þeim málaflokkum sem ég er að takast á við þessa dagana eru byggðamál. Þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki tekist með fullnægjandi hætti að sporna við þeim raunveruleika að sumar byggðir í landinu þurfi stanslaust að standa í baráttu við að verja sinn hlut og berjast gegn því að þjónusta minnki og að fólki fækki.

Skattkerfið
Þessu þarf að breyta. Við Íslendingar erum hinsvegar ekki eina þjóðin sem glímir við þennan vanda. Um allan heim hefur þessi þróun átt sér stað og því ekki úr vegi að líta á hvaða úrræði hafa gagnast vel þar.

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur skattkerfinu verið beitt til þess að styrkja byggðir og skapa þannig jákvæða hvata fyrir fólk að setjast að á dreifbýlum svæðum og hefur árangurinn af þessum aðgerðum verið góður. Það er okkur lífsnauðsynlegt að hringinn í kringum landið sé blómleg byggð og það er ekki bara tilfinning heldur einnig þjóðhagslega mikilvæg aðgerð.

Í ljósi þess hef ég því sett af stað vinnu sem miðar að því að skoða hvernig beita megi skattkerfinu með það að augnarmiði að styrkja byggðir landsins. Byggðastofnun leiðir þá vinnu.

Þetta er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkana sem innihélt sérstakan kafla um byggðamál og þar er lögð rík áhersla á að ná árangri í byggðamálum.

Opinber störf
Á seinustu árum hefur orðið mikil þróun er varðar möguleika til þess að störf geti verið án staðsetningar þökk sé tækniframförum og breyttum viðhorfum. Þetta gefur opinberum stofnunum svigrúm til þess að dreifa sínum starfsmönnum um landið þar sem starfsmenn geta valið sér sína starfsstöð og hafa nokkrar stofnanir gert það með góðum árangri. Það er ekkert lögmál að opinber störf skuli geirnegld á höfuðborgarsvæðið. Aðalmarkmið ríkisins hlýtur þó alltaf að vera að tryggja góða innviði svo mismunandi svæði á landinu séu samkeppnishæf og fjölbreytt atvinnulíf geti dafnað.

Byggðaáætlun
Um áramótin hófst svo vinna við að móta nýja byggðaáætlun til næstu sjö ára. Unnið er eftir nýjum lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Við gerð byggðaáætlunar er haft viðamikið samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga. Þar að auki getur almenningur sent inn tillögur á heimasíðu Byggðastofnunar. Með þessu næst yfirsýn yfir aðgerðir í byggðamálum þvert á stjórnsýsluna og áhersluatriði heimamanna fá að njóta sín.

Eitt af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á er að íbúar landsins alls njóti sömu tækifæra hvað varðar aðgengi að opinberri grunnþjónustu. Þar er um að ræða helstu svið opinberrar þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur, fjarskipti, löggæslu og menningu.

Að lokum
Það er okkur lífsnauðsynlegt sem þjóð að standa saman að uppbyggingu og framförum. Við verðum því að sameinast um að ráðast í aðgerðir sem tryggja að íbúar um land allt fái notið þeirrar þjónustu sem kröfur eru gerðar um í nútímasamfélagi.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á www.feykir.is 25. júní 2016.

Categories
Fréttir

Ertu með tillögu í Byggðaáætlun 2017-2023

Deila grein

27/07/2016

Ertu með tillögu í Byggðaáætlun 2017-2023

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraMarkviss vinna við nýja byggðaáætlun sem mun gilda fyrir árin 2017-2023 hefur staðið yfir undanfarna mánuði og hefur mikil áhersla verið lögð á samráð og samtal við sveitarfélög og einstaklinga um allt land. Nú gefst öllum kostur á að koma með tillögur í byggðaáætlunina.

Tillögurnar sem berast verða lagðar fyrir verkefnisstjórn byggðaáætlunar og tekur hún afstöðu til þeirra.

Á heimasíðu Byggðastofnunar er jafnframt að finna upplýsingar um áætlunarvinnuna, fyrri byggðaáætlanir og sóknaráætlanir landshluta.

Í haust verður haldið Byggðaþing þar sem drög að nýrri byggðaáætlun verða rædd. Tillaga að nýrri byggðaáætlun á að liggja fyrir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu 1. nóvember. Ráðherra byggðamála leggur þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun 2017-2023 fyrir Alþingi.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

Categories
Greinar

Það sem ekki má bíða

Deila grein

26/07/2016

Það sem ekki má bíða

Sigmundur-davíðÞað er sama til hvaða mælikvarða er litið. Á þremur árum hefur ríkisstjórn Íslands náð árangri sem er einstakur í samanburði við önnur þróuð ríki. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér.

Ég hef áður bent á hversu mikilvægt er að halda því til haga að þegar viðraðar voru hugmyndir um að flýta kosningum var það háð því að fyrst tækist að klára mikilvæg verkefni ríkisstjórnarinnar.

Áætlunin

Þegar ríkisstjórnin var mynduð gerðum við samning til fjögurra ára. Eins og ég hef áður lýst unnum við eftir heildaráætlun um hvernig við gætum náð markmiðum okkar á þessum fjórum árum. Áætlunin, fjögurra ára planið, skiptist í megindráttum í tvennt. Fyrri áfanginn snerist um hvernig taka ætti á þeim stóra vanda sem beið okkar, seinni hlutinn um hvernig standa ætti að sókninni og uppbyggingunni sem svo ætti, og þyrfti, að taka við. Fyrri hlutinn snerist um að takast á við vandamál, seinni hlutinn um að nýta tækifæri.

Til að leysa vandamálin þurfti að mínu mati að blanda saman erfiðum en margreyndum aðgerðum annars vegar og óhefðbundnum og róttækum aðgerðum hins vegar. Það þurfti til dæmis einbeittan vilja til að hætta skuldasöfnun og reka ríkissjóð með afgangi öll ár kjörtímabilsins samhliða því að innleiða hvata til fjárfestingar og verðmætasköpunar. En ríkisstjórnin þurfti líka að vera reiðubúin til að ráðast í aðgerðir sem engin stjórnvöld nokkurs staðar höfðu nokkurn tíma reynt, hluti á borð við almenna skuldaleiðréttingu og aðgerðir til að fá kröfuhafa bankanna til að afsala sér hundruðum milljarða króna samhliða afnámi fjármagnshafta – hluti sem sagðir voru óraunhæfur popúlismi, skýjaborgir, og ólögmæt eignaupptaka svo nefnd séu dæmi um hófstilltari hluta gagnrýninnar sem við kvað.

Árangurinn

Þrátt fyrir þetta var ég bjartsýnn. Ég hafði trú á verkefninu. Ég var sannfærður um að þetta væri allt hægt og efaðist ekki um tækifæri landsins. En þrátt fyrir að ég hafi verið bjartsýnn við upphaf vinnunnar gekk hún betur en jafnvel ég þorði að vona.

Það gerðist á hinn bóginn ekki af sjálfu sér, síður en svo. Lagabreytingar til að örva verðmætasköpun og aðhaldssöm fjárlög kölluðu á stöðuga og oft á tíðum harða gagnrýni síðustu fjóra mánuði hvers árs. Það var þó ekkert miðað við stríðið sem leiddi af áformum um að láta vogunarsjóði og aðra kröfuhafa föllnu bankanna borga fyrir losun gjaldeyrishafta og endurreisn efnahagslífsins, eins og ég mun greina betur frá síðar. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum muna þó væntanlega eftir dæmum um það sem á gekk í þeim slag, slag þar sem vogunarsjóðirnir vörðu á skömmum tíma 20 milljörðum króna í hagsmunagæslu.

Afrakstur vinnunnar birtist í vel yfir 1.000 milljarða króna viðsnúningi á stöðu ríkisins, líklega nær 1.500 milljörðum. Breytingin fyrir samfélagið í heild er enn meiri. Enn hefur ekki verið bent á annan eins efnahagslegan viðsnúning í seinni tíma hagsögu. Lee Buchheit kallaði enda þann þátt sem sneri að losun hafta og fjárútlátum kröfuhafa einstakan í fjármálasögu heimsins.

Framhaldið

Við erum því einstaklega vel í stakk búin til að framfylgja seinni hluta áætlunarinnar, betur en nokkur hefði trúað, og það verðum við að gera. Þótt lengst af hafi gengið vel að framfylgja stjórnarsáttmálanum eru nokkur mikilvæg verkefni ókláruð. Það eru verkefni sem teljast til seinni hluta fjögurra ára plansins. Nú eru forsendur til að klára þau öll og ótækt að gera það ekki.

Sum þessara verkefna snúast um aðkallandi framhald vinnu við það sem kalla mætti endurbætur á reglunum sem samfélagið starfar eftir. Önnur snúa að fjárfestingu og því að nýta hinn mikla efnahagslega árangur til uppbyggingar.

Leiðrétting fyrir eldri borgara

Um síðustu áramót gáfum við fyrirheit um að áfram yrði lögð áhersla á að bæta kjör eldri borgara og tryggja að efnahagslegur árangur skilaði sér í bættum lífskjörum lífeyrisþega. Samhliða því stóð til að endurskoða örorkubætur og raunar bótakerfið í heild. Pétursnefndin svo kallaða (kennd við Pétur H. Blöndal og síðar undir forystu Þorsteins Sæmundssonar) hefur skilað af sér tillögum um mikilvægar úrbætur í lífeyriskerfinu. Það er óhugsandi fyrir ríkisstjórn sem náð hefur þeim árangri sem við höfum skilað á síðast liðnum þremur árum að vanrækja að skila þeim árangri áfram til fólksins sem byggði upp samfélagið sem við njótum nú góðs af.

Búsetujafnrétti

Frá upphafi hef ég lagt áherslu á að eitt af mikilvægustu verkefnum þessarar ríkisstjórnar væri að vinna að umfangsmiklum úrbótum á því sem nefna má búsetujafnrétti. Reyndar snýst það um meira en jafnrétti landsmanna óháð búsetu. Það snýst um að tryggja að árangur Íslendinga nýtist landinu öllu svo að landið allt nýtist við að ná árangri fyrir Íslendinga.

Í þjóðhátíðardagsræðu var ég afdráttarlaus um að úrbætur í þessu efni væru forgangsmál á seinni hluta kjörtímabilsins. Ég útskýrði að við stæðum á þeim tímamótum að ekki væri forsvaranlegt að bíða lengur með að vinna að bættum fjarskiptum um allt land, einkum ljósleiðaravæðingu, samgöngubótum, endurreisn heilbrigðis- og menntakerfisins á landsbyggðinni auk þess að tryggja forsendur fyrir eðlilegri atvinnusköpun. Hið síðastnefnda snýst um að stjórnvöld skapi þær aðstæður að ný störf verði til um allt land, bæði hjá hinu opinbera og með einkarekstri.

Þessi ríkisstjórn verður að skila áþreifanlegum árangri fyrir byggðir landsins. Klári hún það ekki mun önnur ríkisstjórn ekki gera það. Skaðinn af því að vanrækja stærstan hluta landsins yrði mikill fyrir landið allt.

Aðrir innviðir

Óþarfi er að telja upp þá fjölmörgu mikilvægu innviði landsins sem nauðsynlegt er að halda áfram að bæta nú þegar við höfum efni á því og tækifæri til þess. Á mörgum sviðum höfum við þó ekki aðeins tækifæri til að setja meiri peninga í verkefnin, við getum líka leyft okkur að hugsa upp á nýtt með hvaða hætti við stöndum að uppbyggingunni. Það á ekki hvað síst við á sviði heilbrigðismála.

Fjármálakerfið og verðtrygging

Loks nefni ég mikilvægi þess að ríkisstjórnin hverfi ekki frá því gríðarmikilvæga verkefni að laga fjármálakerfið á Íslandi og losa samfélagið úr viðjum verðtryggingar. Samhliða því þarf að gera ungu fólki auðveldara og ódýrara að taka óverðtryggð lán og eignast húsnæði. Allt er þetta hægt enda hefur það verið í undirbúningi í þrjú ár. Sá undirbúningur fólst í því að búa til forsendurnar (ríkið hefur t.a.m. yfirtekið fjármálakerfið að mestu leyti) og svo að hanna bestu leiðina. Það er allt til reiðu. Fjögurra ára planið hefur gengið upp til þessa. Nú er viljinn allt sem þarf til að klára það.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. júlí 2016.

Categories
Greinar

Sanngjarnan stuðning frekar en skuldir

Deila grein

19/07/2016

Sanngjarnan stuðning frekar en skuldir

Eygló HarðardóttirFyrir stuttu hafði fjölskyldufaðir með fjögur börn á framfæri samband við mig. Þau hjónin voru með 600 þús. kr. ráðstöfunartekjur á mánuði og bjuggu í hóflegu húsnæði. Hann hafði verið að fara yfir fjármál fjölskyldunnar og sá enga leið færa aðra en að endurfjármagna og lengja í húsnæðislánum fjölskyldunnar til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði þeirra.

Á þessu kjörtímabili hef ég lagt áherslu á að auka stuðning við fjölskyldur. Því hef ég barist fyrir því að húsnæðisstuðningur í gegnum húsaleigu- og vaxtabótakerfi, yrði sameinaður í eitt húsnæðisbótakerfi þar sem byggt yrði á efnahag fjölskyldunnar frekar en að umbuna þeim sem geta tekið sem hæst lán líkt og vaxtabótakerfið gerir. Því miður náðist ekki samstaða um það og lög um nýtt húsnæðisbótakerfi sem taka gildi um áramótin taka aðeins til leigjenda en ekki allra heimila. Þar er þó stuðningur við fjölskyldur með lágar og meðaltekjur aukinn verulega.

Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ, bendir á að vaxtabætur hafa rýrnað mikið frá árinu 2013. Vaxtabætur lækkuðu um 25 prósent á árinu 2015 og þeim sem fá þær fækkaði um 21prósent. Sömuleiðis fækkar þeim sem fá barnabætur greiddar. Í fjármálaáætlun fjármálaráðherra til næstu fimm ára er boðað að draga eigi enn frekar úr barnabótum og vaxtabótum. Slík forgangsröðun fjármálaráðuneytisins var ástæða þess að ég setti alvarlega fyrirvara við þessa áætlun þegar hún var samþykkt í ríkisstjórn.

Ég tel því mikilvægt að opna umræðu um að færa stuðning við heimili landsins yfir til velferðarráðuneytisins, þar sem velferð frekar en skattar er í fyrirrúmi. Sameina ætti vaxtabætur nýju húsnæðisbótakerfi og taka stuðning við barnafjölskyldur til gagngerrar endurskoðunar. Þar hefur verkalýðshreyfingin bent á tillögur um barnatryggingar þar sem barnalífeyrir almannatrygginga og barnabætur yrðu sameinaðar.

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem veita á fólki sanngjarnan stuðning, en ekki þvinga það til skuldsetningar.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júlí 2016.

Categories
Greinar

Glataðir snillingar

Deila grein

16/07/2016

Glataðir snillingar

Karl_SRGBFæreyski rithöfundurinn William Heinesen skrifaði fyrir margt löngu sögu sem nefndist „Glataðir snillingar“ í íslenskri þýðingu.

Oft hefur þessi titill komið upp í hugann þegar ég hef hlustað á snillinga hinnar íslensku þjóðfélagsumræðu. Ekki það að ég telji þá glataða, miklu frekar snillinga. Slíkt fólk tjáir sig daglega á samfélagsmiðlum, sumir úr ræðustól Alþingis.  Þetta er fólk sem hefur ekki bara skoðanir, heldur líka réttu skoðanirnar. Það verður gjarnan pirrað og reitt ef aðrir eru með efasemdir. Þetta er fólk sem vill stjórna og veit betur.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir nokkru sagði að tilhneigingin væri sú að að hinir stjórnlyndu teldu sig gjarnan eiga meira erindi í stjórnmál og opinbera umræðu en aðrir, enda grundvöllur stefnunnar ekki síst sá að telja sig vita betur en almenningur hvað honum er fyrir bestu. Þetta valdi því að viðhorf stjórnlyndis fái mikið vægi í umræðunni.

Það er mikið til í þessu. Sjálfur hef ég ekki hundsvit á fjölmörgum þeirra mála sem rædd hafa verið á þingi. Í þeim tilvikum hef ég reynt að halda mig til hlés í stað þess að blaðra ábyrgðarlaust út í loftið. Þannig hef ég valið fá, en það sem ég tel vera góð mál, og barist fyrir þeim. Þar get ég nefnt baráttu gegn skattaundanskotum og kennitöluflakki,  að geðheilbrigði barna og ungmenna sé bætt, að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra o.sv.frv.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um að þessi mál hafa ekki verið samþykkt, nema að heilbrigðisráðherra taldi tilvalið að taka geðheilbrigðishugmyndina inn í langtímaáætlun sína. Það var gott. Öðrum málum hefur samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ekki haft áhuga á – frelsi einstaklingsins til að haga sér eins og hann vill er ofar öllu öðru í hugmyndafræði þess flokks. Þess vegna er ekki vilji til að taka á skattaundanskotum og kennitöluflakki. Þá er lítill áhugi þar innandyra á embætti umboðsmanns aldraðra – vegna þess að það myndi þýða enn eina stofnunina. Það vegur þyngra en notagildi hennar.

Ég lít á mig sem talsmann einstaklingsfrelsis. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga. Hagsmunir fjöldans eru alltaf mikilvægari en einstaklingsins.

Það líður að kosningum. Enn og aftur er enginn skortur á þeim sem vilja leiðbeina okkur hinum sem hafa villst af leið. Ég dáist innst inni af þeim sem vita betur. Þeim sem telja sig vita best hvernig náunginn á að lifa lífinu – hvað honum sé fyrir bestu. Það er ekki öllum gefið.

Sú hugsun hlýtur að vera áleitin hvort ekki sé rétt að hleypa þessu fólki að.

Allavega gengur ekki að hafa glataða snillinga í þingsal.

Karl Garðarsson

Greinin birtist á www.blog.pressan.is/karlg 15. júní 2016.

Categories
Fréttir

Ferskvatn og loftslagsbreytingar

Deila grein

14/07/2016

Ferskvatn og loftslagsbreytingar

sigrunmagnusdottir-vefmyndLoftslagsbreytingar og áhrif þeirra á vatnsbúskap voru í brennidepli á fundi evrópskra umhverfisráðherra í Bratislava í Slóvakíu 11.-12. júlí. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Ráðherra sagði að hröð rýrnun jökla væri áhyggjuefni, en hún gæti meðal annars haft áhrif á vatnsbúskap og nýtingu vatnsorku.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði að Ísland ætti gnægð af ferskvatni og ekki væri fyrirsjáanlegur vandi hvað það varðar. Loftslagsbreytingar hefðu þó áhrif á vatnsbúskap á Íslandi, því vísindamenn spá að jöklar landsins gætu horfið að mestu leyti á einni eða tveimur öldum ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda. Jöklar Íslands væru sýnileg birtingarmynd loftslagsbreytinga og unnið sé að verkefni til að fræða þá sem heimsækja þjóðgarða um samspil jökla og loftslags.
Ráðherra sagði að skoða þyrfti votlendi sérstaklega í samhengi við ferskvatn og loftslagsmál. Endurheimt votlendis gæti haft jákvæð áhrif með því að draga úr losun koldíoxíðs.
Ráðherra vakti athygli á rannsóknum og nýsköpun í loftslagsvænum lausnum á Íslandi. Nýjar niðurstöður úr tilraunaverkefni sýndu að niðurdæling koldíoxíðs og binding þess í steindum væri raunhæfur kostur í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Tilraunaverkefni varðandi græna skipatækni væru líka að skila árangri. Ísland hefði áhuga á samstarfi við önnur ríki á þessum og fleiri sviðum.

Þurrkar, flóð og flóttamannavandi

Fram kom á fundinum að búist væri við miklum breytingum á úrkomu og vatnafari í Evrópu á þessari öld vegna loftslagsbreytinga. Tjón vegna bæði flóða og þurrka myndu aukast. Spár gera ráð fyrir aukinni úrkomu í norðanverðri Evrópu, en minni úrkomu í sunnanverðri álfunni. Sérstaklega er óttast að þurrkar á sumrum verði mikill vandi í suður-Evrópu þegar líður á öldina. Í lok 21. aldar gæti úrkoma þar verið svipuð og er í norður-Afríku nú. Þetta kallar á miklu betri nýtingu vatns, ekki síst í landbúnaði til að viðhalda fæðuframleiðslu.
Horfur varðandi ferskvatn væru slæmar í mörgum heimshlutum vegna aukinna þurrka og álags vegna fólksfjölgunar. Hætta væri á þurrkum og vatnsskorti í Miðausturlöndum og stórum hlutum Afríku, sem gæti stóraukið á flóttamannavanda.
Fundinn í Bratislava sóttu umhverfisráðherrar ríkja Evrópusambandsins og EFTA, auk Tyrklands og Albaníu.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

Deila grein

07/07/2016

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

 
eyglooggissurEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt Vinnumálastofnun sjö milljóna króna framlag í verkefni sem hefur þann tilgang að fjölga starfstækifærum fyrir fólk með fötlun og auka fjölbreytni starfstilboða. Féð er veitt á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks.
Eygló Harðardóttir og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, hafa undirritað samning um verkefnið en Vinnumálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd þess. Byggt er á þeirri áherslu að nýta vinnuframlag sem flestra og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og útilokun fatlaðs fólks frá vinnumarkaði og virkri samfélagsþátttöku. Sérstök áhersla verður lögð á atvinnutækifæri fyrir ungt fatlað fólk sem lokið hefur námi á starfsbrautum framhaldsskólanna eða diplómanámi frá Háskóla Íslands. Stefnt er að því að hlutaðeigandi fái starf og stuðning til að sinna því til lengri tíma.
Leitast verður við að þróa ráðgjöf og stuðning við atvinnuleitendur með fötlun sem eru í atvinnuleit, m.a. með valdeflingu og fræðslu og starfsþjálfum á vinnustöðum. Einnig verður efnt til fræðslu fyrir atvinnurekendur til að kynna tækifæri og áskoranir sem felast í því að ráða fatlað fólk til vinnu.
Markmið að til verði 30 ný störf fyrir fatlað fólk
Skipulag og undirbúningur verkefnisins hefst 1. september en verklok eru áætluð 1. september 2017. Stefnt er að því að í lok tímabilsins hafi orðið til 30 ný störf fyrir fötluð ungmenni sem lokið hafa námi á starfsbrautum eða diplómanámi frá Háskóla Íslands.
Samstarfsaðilar Vinnumálastofnunar í verkefninu verða Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og opinberar stofnanir og sveitarfélög sem tekið hafa virkan þátt í verkefninu Virkjum hæfileikana.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Ferð þú í framboð?

Deila grein

06/07/2016

Ferð þú í framboð?

Kjördæmasamband Framsóknarfélaganna í Reykjavík (KFR) óskar eftir framboðum á lista flokksins í komandi alþingiskosningum. Röðun á lista flokksins í Reykjavík fer fram á tvöföldu kjördæmaþingi í Reykjavík laugardaginn 27. ágúst 2016.
Kosið er um fimm efstu sætin í hvoru kjördæmi í Reykjavík.
Frambjóðendur verða að hafa verið skráðir í Framsóknarflokkinn a.m.k. frá 27. júlí 2016. Það á einnig við um fulltrúa á kjördæmaþinginu sem valdir eru á félagsfundi félaganna í Reykjavík.
Framboðum skal skila á netfangið frambod-reykjavik@framsokn.is eigi síðar en föstudaginn 12. ágúst 2016, kl. 12:00.
Framboð-Reykjavík
 

Categories
Greinar

Jöfn kjör kynjanna

Deila grein

05/07/2016

Jöfn kjör kynjanna

SGMAnna-Kolbrun-ArnadottirNúna er til umsagnar á heimasíðu velferðarráðuneytisins drög að frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á almannatryggingum. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem unnið hefur verið að um árabil.

Áhugavert er að skoða áhrif frumvarpsins á kynin en undirritaðar vilja benda sérstaklega á jafnréttismarkmið frumvarpsins sem miða að því að jafna stöðu kynjanna og tækifæri með auknu efnahagslegu jafnræði. Það þýðir að markmiðin ná til efnahagslegs jafnræðis kynjanna, jafnrar félagslegrar virkni og sjálfstæðis ásamt jöfnum tækifærum til góðrar heilsu.

Ein af þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir er að stærra hlutfall þjóðarinnar mun eiga rétt á lífeyrisgreiðslum. Því er nauðsynlegt að hækka lífeyristökualdurinn í áföngum í 70 ár. Í þessum drögum er tekið á því en meðfram þessari breytingu verður sveigjanleiki við starfslok aukinn og hvati skapaður til þess að einstaklingar geti haldið áfram á vinnumarkaði allt eftir getu hvers og eins.

Einnig er ætlunin að einfalda kerfið; sameina bótaflokka og fækka, afnema frítekjumörk og einfalda útreikninga. Þessar breytingar snerta sérstaklega konur þar sem bæta á kjör þeirra sem hafa áunnið sér lítinn eða engan rétt í lögbundna lífeyrissjóðakerfinu og þurfa því að reiða sig á almannatryggingakerfið hvað varðar framfærslu á efri árum. Með þessari breytingu verður fest í sessi lágmarksfjárhæð sem uppbótin tryggir þeim sem lægstar tekjur hafa og bætir þar með kjör þeirra.

Það er nefnilega þannig að þetta snertir konur sem eru nú 56% ellilífeyrisþega og því er ánægjulegt að í frumvarpinu eru breytingar sem ætlað er að auka réttindi þeirra þar sem staðreyndin hefur lengi verið að konur hafa lakari rétt til framfærslu en karlar. Að þessu sögðu er rétt að benda á að karlar í sömu stöðu munu njóta sambærilegra breytinga en þar sem konur eiga almennt minni rétt í lífeyrissjóðakerfinu má ætla að breytingarnar komi þeim til góða í meiri mæli og dragi úr mun á kjörum kynjanna.

Það er því með sanni hægt að segja að með þessu frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra til breytinga á lögum um almannatryggingar, sé stigið ákveðið og mikilvægt skref í þá átt að jafna stöðu kynjanna, í því felast möguleikar til félagslegrar virkni, sjálfstæði og góðrar heilsu og vert er að þakka fyrir það.

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir

Greinin birtist á www.visir.is 1. júlí 2016.

Categories
Fréttir

Skýrsla starfshóps um Friðland að fjallabaki

Deila grein

02/07/2016

Skýrsla starfshóps um Friðland að fjallabaki

sigrunmagnusdottir-vefmyndStarfshópur sem Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði hefur skilað skýrslu sinni um Friðland að Fjallabaki. Í skýrslunni eru ýmsar tillögur um hvernig megi styrkja innviði friðlandsins, efla stjórnun og starfsemi auk þess sem hópurinn telur áhugavert og unnt að skapa skilyrði til stækkunar svæðisins.
Friðland að Fjallabaki, sem friðlýst var árið 1979 og í raun Suðurhálendið allt, er einstakt svæði og hefur hátt verndargildi á heimsvísu. Innan Friðlandsins eru Landmannalaugar, eitt af mest sóttu ferðamanna og útivistarsvæðum á hálendi Íslands og þaðan liggur ein vinsælasta gönguleið landsins, Laugavegurinn, sem er gönguleið milli Landmannalaugar og Þórsmerkur. Á þessu svæði eru því bæði merk og viðkvæm náttúruverðmæti, en jafnframt mikið og ört vaxandi álag vegna ferðaþjónustunnar.
Ráðherra skipaði starfshópinn í lok júlí 2015 og fól honum með því að leita leiða til að styrkja stöðu svæðis, efla rekstur þess og kanna hvort tækifæri væru til að stækka svæðið.
Í starfshópnum sátu fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar auk þeirra sveitarfélaga sem friðlandið nær til. Í niðurstöðum starfshópsins er bent á fjölmörg umbótaverkefni sem nýtast ráðuneytinu og Umhverfisstofnun við forgangsröðun verkefna og að leita leiða til að efla starfssemi og stjórnun á svæðinu. Í sumar hefur verið aukið við landvörslu á svæðinu og eins er unnið að ýmsum verkefnum á svæðinu sem falla vel að tillögum skýrslunnar. Umhverfisstofnun vinnur nú jafnframt að gerð verndaráætlunar fyrir svæðið og munu  niðurstöður skýrslunnar nýtast við þá vinnu.
Þá mun skýrsla starfshópsins með hugmyndum um stækkun friðlandsins gagnast við vinnunefndar  sem kanna á forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu, en þar er ætlað að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins.
Friðland að Fjallabaki – Skýrsla starfshóps (pdf)

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is