Categories
Fréttir

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

Deila grein

07/07/2016

Aukin atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf fyrir fólk með fötlun

 
eyglooggissurEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt Vinnumálastofnun sjö milljóna króna framlag í verkefni sem hefur þann tilgang að fjölga starfstækifærum fyrir fólk með fötlun og auka fjölbreytni starfstilboða. Féð er veitt á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks.
Eygló Harðardóttir og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, hafa undirritað samning um verkefnið en Vinnumálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd þess. Byggt er á þeirri áherslu að nýta vinnuframlag sem flestra og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og útilokun fatlaðs fólks frá vinnumarkaði og virkri samfélagsþátttöku. Sérstök áhersla verður lögð á atvinnutækifæri fyrir ungt fatlað fólk sem lokið hefur námi á starfsbrautum framhaldsskólanna eða diplómanámi frá Háskóla Íslands. Stefnt er að því að hlutaðeigandi fái starf og stuðning til að sinna því til lengri tíma.
Leitast verður við að þróa ráðgjöf og stuðning við atvinnuleitendur með fötlun sem eru í atvinnuleit, m.a. með valdeflingu og fræðslu og starfsþjálfum á vinnustöðum. Einnig verður efnt til fræðslu fyrir atvinnurekendur til að kynna tækifæri og áskoranir sem felast í því að ráða fatlað fólk til vinnu.
Markmið að til verði 30 ný störf fyrir fatlað fólk
Skipulag og undirbúningur verkefnisins hefst 1. september en verklok eru áætluð 1. september 2017. Stefnt er að því að í lok tímabilsins hafi orðið til 30 ný störf fyrir fötluð ungmenni sem lokið hafa námi á starfsbrautum eða diplómanámi frá Háskóla Íslands.
Samstarfsaðilar Vinnumálastofnunar í verkefninu verða Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og opinberar stofnanir og sveitarfélög sem tekið hafa virkan þátt í verkefninu Virkjum hæfileikana.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is