Categories
Fréttir

Bæta þarf veginn um Kjalarnes

Deila grein

14/12/2016

Bæta þarf veginn um Kjalarnes

elsa_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Flest ef ekki öll viljum við bættar samgöngur og víða er mikilla úrbóta þörf, hvort sem það er á hringveginum eða annars staðar. Í því kjördæmi sem ég starfa hefur verið mikið ákall um bættar vegasamgöngur á Vestfjörðum enda löngu kominn tími til. Flestir ef ekki allir þingmenn kjördæmisins hafa staðið saman í þeirri baráttu að bregðast við því ákalli. Núna loksins glittir í að verulegar samgönguumbætur á Vestfjörðum verði að veruleika, en hins vegar er mikið ákall um bættar samgöngur á landinu öllu og get ég vel skilið það.

Í þessari stuttu ræðu langar mig að ræða vegarkafla sem er reyndar ekki oft í umræðunni, það er vegurinn um Kjalarnes. Nauðsynlegt er að tryggja að mikilvægar vegaumbætur um Kjalarnes fari af stað ekki síðar en árið 2018, en gert er ráð fyrir þeim framkvæmdum í samgönguáætlun sem hæstv. innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi og samþykkt var fyrir nokkrum vikum. Dag hvern fara um 6 þúsund bílar um Kjalarnes. Stór hluti þeirra sem fara um Kjalarnesið er fólk sem fer daglega til og frá vinnu og býr í sveitarfélögum norðan megin ganganna. Ég og margir þessara aðila höfum verulegar áhyggjur af stöðunni og umferðaröryggi þeirra sem fara þennan veg. Nú er það svo að komnar eru mjög djúpar rásir í veginn. Í miklu vatnsveðri eins og hefur verið í haust og vetur eru þessar rásir mjög varasamar. Þeir sem fara um veginn í slíku veðri verða helst að keyra út í vegarkanti til að hafa almennilega stjórn á bílnum. Einnig er það svo að á of stórum köflum vegarins vantar merkingar og jafnframt er leiðin mjög dimm. Skyggni getur verið erfitt og liggur oft við slysum í þeim umferðarþunga sem er þarna dag hvern.

Ég vil nýta þetta stutta tækifæri hér í störfum þingsins og minna á mikilvægi þessa þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að víða sé þörfin mikil.”

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 13. desember 2016. 

Categories
Fréttir

Menntakerfið er okkar fjöregg

Deila grein

14/12/2016

Menntakerfið er okkar fjöregg

silja_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Okkur verður tíðrætt um heilbrigðismál og samgöngumál í umræðunni um fjárlög, en í þessari stuttu ræðu minni í dag langar mig til að tala um menntakerfið. Menntakerfið er okkar fjöregg og að því verðum við að hlúa betur en við höfum gert hin síðari ár. Góð menntun er lykill okkar að framtíðinni og í raun gulls ígildi. Við segjum þetta nánast daglega við börnin okkar, hvetjum þau til að gera betur í skólanum, höldum reglulega „leiðinlega“ fyrirlestra um gildi menntunar, að það skipti máli að klára eitthvert nám til að eiga betri framtíðarmöguleika á vinnumarkaði. Á sama tíma getum við ekki leyft skólunum okkar að drabbast niður og kennurum að flýja starf sitt vegna lakra kjara. Við verðum að sýna í verki að góð menntun skipti okkur öll máli.

Þjóðhagslega skiptir gott menntunarstig verulegu máli og hefur jafnvel úrslitaþýðingu hvað varðar samkeppnisforskot okkar á alþjóðlegum markaði. Það er áhyggjuefni hversu illa grunnskólabörn okkar koma út úr mælingum. Þau dragast aftur úr jafnöldrum sínum í samanburðarlöndum. Ég vil þó nota tækifærið hér til að óska grunnskólum Reykjanesbæjar sérstaklega til hamingju með miklar framfarir í samræmdum prófum. Þann góða árangur má þakka samræmdu átaki heimila og skóla í Reykjanesbæ, þannig að góðir hlutir eru nú líka að gerast í skólakerfinu.

En góðir skólar verða ekki til án góðra kennara. Kjarabarátta grunnskólakennara er einnig á erfiðum stað og ekki fyrirséð hvar hún endar. Í því samhengi verðum við að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við getum ekki fært stóra og dýra málaflokka yfir til sveitarfélaga, eins og grunnskóla og málefni fatlaðra, án þess að endurskoðun á tekjuskiptingu fari fram á sama tíma. Þar höfum við ekki staðið okkur.”

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 13. desember 2016.

Categories
Fréttir

Afmælishátíð Framsóknarmanna

Deila grein

13/12/2016

Afmælishátíð Framsóknarmanna

Afmælishátíð Framsóknarmanna verður haldin í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 16. desember á 100 ára afmæli Framsóknarflokksins og hefst kl. 18.00.
Plakat

Categories
Greinar

Öryggissamvinna með djúpar rætur

Deila grein

12/12/2016

Öryggissamvinna með djúpar rætur

lilja____vef_500x500Beggja vegna Atlantshafsins ríkir nokkur óvissa í alþjóðamálum. Aðeins eru fáeinar vikur þar til nýr forseti tekur við embætti í Bandaríkjunum og í Evrópu mun fyrirhuguð útganga Breta úr Evrópusambandinu reyna á samstarf ESB-ríkjanna. Fram undan eru kosningar í nokkrum af áhrifamestu löndum Evrópu; Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi, og enn er ekki útséð með eftirmál valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi sl. sumar. Nýverið sagði forsætisráðherra Ítalíu af sér, eftir að þjóðin hafnaði í atkvæðagreiðslu stjórnarskrárbreytingum sem hefðu aukið vald ríkisstjórnarinnar á kostnað forseta og öldungadeildar þingsins.

Við aðstæður eins og þessar er mikilvægt að samskipti milli ríkja byggi á traustum grunni. Atlantshafsbandalagið er slíkur grunnur, sem staðið hefur af sér pólitíska sviptivinda í nær 70 ár. Bandalagið er hornsteinn vestrænnar öryggis- og varnarsamvinnu auk þess sem pólitískt vægi þess hefur aukist undanfarin ár, ekki síst vegna þeirra áskorana sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir.

Bandaríkin bjargföst

Í vikunni funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna í Brussel. Þetta var fyrsti ráðherrafundurinn eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og úrslitin voru kollegum mínum ofarlega í huga. Í kosningabaráttunni vestra vöknuðu spurningar um viðhorf nýrra valdhafa í Washington til stefnu Atlantshafsbandalagsins og á fundinum í Brussel var því horft til John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með nokkurri eftirvæntingu.

Að vanda talaði Kerry skýrt og sagði Bandaríkin bjargföst í skuldbindingum sínum gagnvart Atlantshafsbandalaginu og bandamönnum sínum. Tengslin yfir Atlantshafið væru sterk og samstaða mikilvægari nú en oftast áður, sökum versnandi öryggishorfa í Evrópu og á jaðri hennar á umliðnum árum. Frank Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, talaði á svipuðum nótum en fundurinn var að líkindum einnig hans síðasti. Aðrir tóku undir og samhljómurinn meðal fundarmanna var sterkur: Atlantshafsbandalagið væri sterkt og þótt aðildarríkin 28 væru ólík um margt stæðu þau sameinuð gegn utanaðkomandi öryggisógnum og styddu varnir hvert annars. Öryggissamvinnan ætti djúpar rætur í stjórnkerfum aðildarríkjanna og fyrirséðar breytingar í hópi leiðtoga áhrifamikilla þjóða breyttu ekki eðli samstarfsins. Um það er ég sannfærð.

Evrópa leggi meira af mörkum

Hitt er ljóst að aukinn þrýstingur er á Evrópuríkin að leggja meira til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins. Sá þrýstingur er ekki nýr af nálinni heldur hefur um langt skeið verið að aukast, enda standa Bandaríkin undir um 70% af sameiginlegri varnargetu Atlantshafsbandalagsins. Öllum er ljóst að sú skipting er ekki réttlát og á síðustu árum hafa Evrópuríkin hækkað framlög sín til varnarmála og aukið viðbúnað og varnir, ekki síst hjá vinaþjóðum okkar í Eystrasaltinu sem eiga landamæri að Rússlandi. Norður-Atlantshafið og nærumhverfi Íslands er einnig hluti af hinu breytta öryggisumhverfi í Evrópu.

Norðurlandaríkin treysta böndin

Samstarf Norðurlandaríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála hefur farið mjög vaxandi og samvinna Finnlands og Svíþjóðar við Atlantshafsbandalagið eykst jöfnum skrefum. Vart er nú fundað í bandalaginu á ráðherrastigi án þess að kollegum mínum frá þessum vina- og nágrannaþjóðum sé boðið. Finnland og Svíþjóð eru meðal nánustu samstarfsríkja Atlantshafsbandalagsins og leggja ríkulega til aðgerða þess og verkefna. Á ráðherrafundinum í Brussel ræddum við þær sameiginlegu áskoranir sem að okkur steðja, svo sem netöryggi, öryggismál á hafi og aðgerðir til að koma á stöðugleika og friði.

Þá hefur varnarsamstarf Norðurlandaríkjanna undir formerkjum NORDEFCO vaxið mjög á umliðnum árum og hafa Svíar og Finnar, líkt og Ísland, treyst tvíhliða samskipti sín við Bandaríkin með tvíhliða yfirlýsingum um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Það á einnig við um Noreg, sem nýlega tilkynnti um tímabundna viðveru bandarísks herafla á norskri grund.

Ísland axlar ábyrgð

Framlag Íslands og þátttaka í störfum Atlantshafsbandalagsins er ávallt með borgaralegum formerkjum, enda hefur Ísland hvorki vilja né burði til að halda úti her. Borgaralegir sérfræðingar á vegum Íslands, hvort heldur er í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel eða á vettvangi í Afganistan, hafa getið sér gott orð fyrir dugnað og fagmennsku. Nú um stundir er um tugur Íslendinga að störfum fyrir Atlantshafsbandalagið og sinnir fjölbreyttum störfum á borð við jafnréttisráðgjöf, upplýsingamiðlun og áætlanagerð. Það er tvöföldun á framlagi okkar frá árinu 2014.

Hið sama gildir um starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem annast varnartengd verkefni, meðal annars í tengslum við loftrýmisgæslu og æfingar, og annast rekstur á samræmdu loftvarnarkerfi Atlantshafsbandalagsins hér á landi sem jafnframt eykur öryggi borgaralegs flugs í námunda við Ísland.

Á fjárlögum yfirstandandi árs var í fyrsta skipti samþykkt sérstakt varnarframlag til samstöðuaðgerða bandalagsins og í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í vikunni er áfram gert ráð fyrir auknum framlögum til varnarmála. Það er í fullu samræmi við skuldbindingar okkar um að axla aukna ábyrgð í öryggis- og varnarmálum.

Áskoranir samtímans kalla á heildstæða nálgun í öryggismálum og því markaði samþykkt Alþingis á þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland fyrr á þessu ári sannkölluð tímamót. Þjóðaröryggisstefnan tekur jafnt til virkrar utanríkisstefnu, almannaöryggis og varnarstefnu fyrir Ísland og leggur út af þeim grundvallargildum sem okkur eru kærust – virðingu fyrir lýðræðinu, réttarríkinu og mannréttindum – þeim sömu og Atlantshafsbandalagið hvílir á.

Ísland er hlekkur í keðju þjóða sem treysta hver á aðra og standa saman að öryggi og stöðugleika. Það er skylda okkar að standa vaktina með bandamönnum okkar – beggja vegna Atlantsála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2016. 

Categories
Greinar

Verkefnin í bráð og lengd

Deila grein

02/12/2016

Verkefnin í bráð og lengd

sigurduringi_vef_500x500Á þriðjudag kemur Alþingi saman. Tvö brýnustu verkefnin sem bíða úrlausnar í desember eru afgreiðsla fjárlagafrumvarps og að lögbinda jöfnun lífeyrisréttinda. Æskilegt er að ríkisstjórn með meirihluta þingmanna standi að baki þessum málum og tryggi framgang þeirra.

Það eru meira en 65 ár síðan starfsstjórn lagði fram fjárlagafrumvarp. Aðstæður sem hafa skapast eftir kosningarnar í október gera þessa óvenjulegu ráðstöfun nauðsynlega. Fjárlagafrumvarpið grundvallast á fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Að auki er tekið mið af samþykktum lögum og ákvörðunum ríkisstjórnar eftir samþykkt fjármálaáætlunar, svo sem hækkun almannatrygginga. Staða ríkisfjármála er góð en miklar áskoranir eru framundan og áhættuþættir margir.

Jöfnun lífeyrisréttinda snýst um samræmt og sveigjanlegra lífeyriskerfi til framtíðar. Allt launafólk mun þá njóta sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Jöfnun lífeyrisréttinda er forsenda áframhaldandi vinnu aðila vinnumarkaðarins að nýju vinnumarkaðslíkani (SALEK). Ríkið getur borið kostnað af jöfnun lífeyrisréttinda á þessu ári, þökk sé stöðugleikaframlögum sem færð eru ríkissjóði til tekna á þessu ári. Á næsta ári myndi kostnaðurinn leiða til mikils hallareksturs hjá ríkinu og því afar brýnt að Alþingi nái að afgreiða málið fyrir áramót. Að því leyti má segja að það reyni nú á Alþingi með nýjum hætti við óvenjulegar aðstæður.

Auðnist okkur stjórnmálamönnum að vinna saman að lausn þessa vanda erum við vel í stakk búin um áramót til að takast á við langtímaáskoranir. Þær eru einkum tvær; að tryggja efnahagslegan stöðugleika og byggja upp og treysta innviði. Stjórnmálamenn eiga ekki að láta pólitíska óvissu raska því starfi.

Efnahagslegur stöðugleiki verður ekki tryggður nema með sameiginlegu átaki stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Það þarf að stilla saman vinnumarkaðinn, opinber fjármál og peningastefnu Seðlabankans. Við þurfum að tryggja að launahækkanir verði ekki umfram getu þjóðarbúsins til að rísa undir þeim. Við þurfum að tryggja að opinber fjármál séu varfærin og magni ekki hagsveiflur. Og við þurfum að endurskoða peningastefnu Seðlabankans.

Nauðsynlegt er að ráðast í uppbyggingu innviða. Til dæmis í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngum og ferðaþjónustu. Þetta er brýnt verkefni á nýju kjörtímabili. Það leysist hvorki af sjálfu sér né á augabragði. Við þurfum að byggja upp innviði í öruggum skrefum eftir því sem fjárhagsleg geta leyfir. Verkefni næstu ríkisstjórnar verður að auka fé til innviðauppbyggingar samhliða því að bæta nýtingu þeirra miklu fjármuna sem nú þegar fara til þeirra. Ég vona að okkur sem sitjum á Alþingi og falin eru þessi mikilvægu verkefni til úrlausnar auðnist að gera það í sátt og samvinnu, öllum til heilla.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2016.

Categories
Fréttir

Pistill frá ritara

Deila grein

01/12/2016

Pistill frá ritara

jon-bjorn-hakonarsonKæru félagar!
Ég vill byrja á því að þakka ykkur öllum kærlega fyrir ykkar framlag til nýliðinnar kosningarbaráttu fyrir flokkinn okkar. Þrátt fyrir að úrslit þeirra hafi ekki verið eins og við hefðum helst kosið fyrir flokkinn þá er það þannig að slíkt á bara að efla okkur og hvetja til frekari dáða og horfa til framtíðar. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn alltaf gert í hundrað ára sögu sinni.
Þann 16. desember næstkomandi höldum við einmitt upp á þau merku tímamót þegar flokkurinn okkar fagnar formlega 100 ára afmæli sínu. Slíkt er einstakt í sögu flokks og þjóðar að stjórnmálaflokkur nái slíkum áfanga og sé enn meginstoð í lýðræðislegu kerfi lands-og sveitarstjórna á Íslandi. Hafi fylgt þjóðinni í gegnum tíma mikilli umbrota í sögu hennar og verið við stjórnvölinn stóran hluta þess tíma og tekið þátt í að leggja þannig grunn að því góða samfélagi sem við eigum hér á Íslandi. Slíkt hefði ekki verið hægt nema fyrir þann mikla félagsauð sem Framsóknarflokkurinn hefur alltaf átt í sínum flokksmönnum sem staðið hafa með flokknum sínum í gegnum þykkt og þunnt. Það er máttur hinna mörgu.
Þessum tímamótum ætlum við að fagna þann 16.desember næstkomandi annarsvegar með hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu og hinsvegar leitum við nú til ykkar, flokksmanna, með að gera þessa helgi 16.-18.desember sem glæsilegasta. Er það ósk okkar í forystu flokksins að félögin og kjördæmasamböndin um allt land taki höndum saman og haldi upp á 100 ára afmælið heima í sínum héröðum og landsfjórðungum. Þekkjandi þann kraft sem býr í framsóknarfólki veit ég að slíkt verður gert með glæsibrag. Skrifstofa flokksins er boðinn og búinn til aðstoðar og vona ég að samkomurnar verði sem flestar.
Megi svo aðventan verða ykkur öllum notalegur og góður tími í aðdraganda jóla.
Bestu kveðjur,
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins

Categories
Fréttir

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

Deila grein

23/11/2016

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

husbot-isVinnumálastofnun opnaði 21. nóvember sl. Greiðslustofu húsnæðisbóta og upplýsinga- og umsóknarvefinn www.husbot.is  þar sem leigjendur geta sótt um húsnæðisbætur samkvæmt nýjum lögum um húsnæðisbætur sem taka gildi 1. janúar 2017.
Lög nr. 75/2006 um húsnæðisbætur voru samþykkti á Alþingi sl. sumar og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Á sama tíma falla úr gildi lög um húsaleigubætur og hlutverk sveitarfélaganna varðandi útgreiðslu húsnæðisstuðnings til leigjenda flyst til Greiðslustofu húsnæðisbóta.
Markmið laga um húsnæðisbætur  er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.
Vinnumálastofnun annast framkvæmd húsnæðisbótakerfisins sem er fjármagnað að fullu úr ríkissjóði. Við útreikning húsnæðisbóta er tekið mið af fjölda heimilismanna óháð aldri, leigufjárhæð, öllum tekjum og nettó eign, þ.e. eignum að frádregnum skuldum.
Inni á nýja vefnum www.husbot.is er að finna allar upplýsingar sem varða húsnæðisbætur og umsóknarferlið sjálft auk þess sem þar er að finna reiknivél sem hjálpar leigjendum að átta sig á upphæð mögulegra húsnæðisbóta.
Fyrstu greiðslur samkvæmt lögum um húsnæðisbætur verða greiddar út 1. febrúar 2017.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is 

Categories
Fréttir

EFTA ríkin vinni nánar saman

Deila grein

23/11/2016

EFTA ríkin vinni nánar saman

iceland-liechtenstein2Samskipti EFTA-ríkjanna og Bretlands voru þungamiðjan í umræðum á ráðherrafundi EFTA sem haldin var í Genf fyrr í vikunni. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum, en Ísland leiðir starf EFTA um þessar mundir. Ráðherrarnir ákváðu að vinna nánar saman svo hagsmunir EFTA-ríkjanna verði tryggðir við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit.  Ísland mun hafa frumkvæði að því að boða til fundar á næstu vikum, þar sem viðbrögð EFTA-ríkjanna við Brexit verði undirbúin enn frekar.
,,Útganga Breta úr Evrópusambandinu er bæði söguleg og flókin í framkvæmd. Við þurfum að fylgjast mjög vandlega með þróun mála og vera viðbúin, sama hvernig Bretar ákveða að haga sinni útgöngu. Það er mikilvægt að EFTA-ríkin séu samstíga og láti ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið. Það er líka mikilvægt að EFTA standi vörð um fríverslun í heiminum, ekki síst í ljósi umræðunnar sem átti sér stað samhliða forsetakosningunum í Bandaríkjunum nýverið. Fyrir Ísland eru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Við munum leggja okkur öll fram við að gæta hagsmuna Íslands,” segir Lilja Alfreðsdóttir.
Fleiri fríverslunarsamningar í farvatninu
Á fundinum var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu og því fagnað sérstaklega að viðræður um gerð fríverslunarsamnings við Indland væru hafnar á nýjan leik og að nýlega hefðu hafist viðræður við Ekvador. Þá var mikil ánægja á fundinum með fyrirhugaðar fríverslunarviðræður EFTA og viðskiptabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela (kallað Mercosur) sem eiga að hefjast á næsta ári.
Ráðherrarnir fóru einnig yfir stöðu viðræðna um endurskoðun og uppfærslu gildandi samninga við Mexíkó og komandi viðræður við Síle. Varðandi aðra slíka samninga ítrekuðu ráðherrarnir áhuga EFTA ríkjanna að hefja á ný viðræður við Tyrkland og að hefja viðræður við Tollabandalag Suður Afríkuríkja (SACU). Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þess að áfram væri leitað leiða til að hefja viðræður um endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA og Kanada. Utanríkisráðherra stýrði einnig fundi EFTA ráðherranna með Þingmannanefnd EFTA þar sem fjallað var um stöðu mála varðandi fríverslunarviðræður EFTA ásamt því að farið var yfir þróun mála í samskiptum Bretlands og ESB.
Fríverslunarnet EFTA samanstendur af 27 samningum við 38 ríki og svæði. Tólf prósent af heildarútflutningi EFTA ríkja fer til þessara ríkja á meðan 7,5% innflutnings kemur frá þeim. Fundinn sátu auk Lilju; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Monica Mæland viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is 

Categories
Fréttir

Happdrætti Framsóknar í Reykjavík

Deila grein

21/11/2016

Happdrætti Framsóknar í Reykjavík

reykjavik-happadraetti
 
Vinningsnúmerin eru:
136. – WOW – Ferð fyrir tvo til Kaupmannahafnar
419. – Recon – Inneign
497. – Hótel Glymur – Gisting fyrir tvo með kvöldverði
177. – Dún og fiður – sængur og koddar
444. – Herralagerinn, inneign
480. – Klaustur Icelandair Hotels – Gisting fyrir 2 með kvöldverði
412. – Notrulus – Spa meðferð
221. – Ginseng.is – Inneign
493. – Snyrtivöruverslun Glæsibær – Snyrtiaskja
575. – Esjufell – Gjafakarfa.
192. – Esjufell – Gjafakarfa.
Vinninga skal vitja hjá Stefáni Björnssyni, stefanbjo@solidclouds.com

Categories
Fréttir

Græn nýsköpun lykill að árangri

Deila grein

17/11/2016

Græn nýsköpun lykill að árangri

??????????????
Nú er kominn tími til að efna loforð Parísarsamningsins í loftslagsmálum, sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ræðu sinni í gær á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Marrakech í Marokkó. Allir þyrftu þar að leggja lóð á vogarskálarnar: stjórnvöld, atvinnulíf, vísindaheimurinn og almenningur. Nýsköpun í loftslagsvænni tækni og lausnum væri nauðsynleg til að ná settu marki.
Fundurinn í Marrakech er fyrsti alþjóðlegi ráðherrafundurinn um loftslagsmál eftir að Parísarsamningurinn gekk í gildi 4. nóvember sl. Um 110 ríki, þar á meðal Ísland, hafa fullgilt samninginn.
Sigrún Magnúsdóttir sagði að hrein orka væri mikilvæg og þörf á hnattrænu átaki í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Hún nefndi tilraunaverkefni Orkuveitu Reykjavíkur o.fl. á Hellisheiði, þar sem koldíoxíði er dælt í jarðlög, þar sem það breytist í steindir og binst til frambúðar í jarðlögum. Þar væri gróðurhúsalofttegundum breytt í grjót, en einnig væri mikilvægt að binda kolefni í trjám og jarðvegi með skógrækt og aðgerðum gegn landeyðingu.
Sigrún Magnúsdóttir gerði áhrif loftslagsbreytinga á hafið að umtalsefni og fagnaði aukinni athygli á þann þátt í loftslagsumræðunni. Hreinni skipatækni væri hluti af lausninni og mikilvægt að hlúa að henni á Íslandi og á heimsvísu.
Auk loftslagsvænni tækni væri nauðsynlegt að huga að daglegu lífi, svo sem með að draga úr matarsóun, til að ná settu marki. Jafnrétti kynjanna og virk þátttaka kvenna væri nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum.
Ræða ráðherra í heild (á ensku) (pdf-skjal).

 Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sótt fundi ráðherra og aðra viðburði á aðildarríkjaþinginu í Marrakech og átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands. Þar kom fram að aðstæður í ríkjunum væru að mörgu leyti líkar hvað loftslagsmál varðar. Bæði ríkin nýta jarðhita og hafa hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku, bæði horfa til lausna varðandi losun frá landbúnaði og landnotkun og bæði hafa samþykkt að berjast gegn niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Samþykkt var að koma á samvinnu varðandi loftslagsvænar lausnir í landbúnaði og ræða frekar annað samstarf í loftslagsmálum.

Íslenskar kynningar um hafið og niðurdælingu koldíoxíðs

Sérstök dagskrá var tileinkuð umræðu um afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið á sérstökum degi hafsins (Oceans Action Day), þar sem fulltrúi utanríkisráðuneytisins flutti erindi um mikilvægi uppbyggingar á þekkingu og tækni í ríkjum sem byggja afkomu sína á hafinu.
Ísland hélt tvo kynningarviðburði á norrænum bás á ráðstefnunni í Marrakech þar sem annars vegar var fjallað um hafið og hins vegar um jarðhita.
Á viðburði um hafið kynnti fulltrúi sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hið mikilvæga hlutverk skólans við að byggja upp þekkingu á loftslagsvænni sjávarútvegi. Fulltrúar frá Seychelles-eyjum og Máritíus ræddu nýsköpun og tækifæri sem tengjast hafinu, en þessi tvö eyríki eru meðal þeirra ríkja sem þegar takast á við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið.
Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur kynntu alþjóðlegt verkefni um bindingu á jarðhitagasi í grjót við Hellisheiðarvirkjun. Samstarfið leiddi til þróunar á nýrri aðferð sem er til muna hraðvirkari og ódýrari en hefðbundnar aðferðir og er unnt að nýta víðsvegar um heim. Verkefnið hefur vakið mikla athygli í vísindaheiminum og loftslagsumræðunni.
Fundirnir voru vel sóttir. Hægt er að sjá kynningarfundina á eftirfarandi vefsíðu:
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/troll-turned-to-stone-innovation-in-geothermal-energy-ministry-of-foreign-affairs-iceland
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/one-earth-one-ocean-ministry-of-foreign-affairs-iceland

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is