Categories
Greinar

Öryggissamvinna með djúpar rætur

Deila grein

12/12/2016

Öryggissamvinna með djúpar rætur

lilja____vef_500x500Beggja vegna Atlantshafsins ríkir nokkur óvissa í alþjóðamálum. Aðeins eru fáeinar vikur þar til nýr forseti tekur við embætti í Bandaríkjunum og í Evrópu mun fyrirhuguð útganga Breta úr Evrópusambandinu reyna á samstarf ESB-ríkjanna. Fram undan eru kosningar í nokkrum af áhrifamestu löndum Evrópu; Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi, og enn er ekki útséð með eftirmál valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi sl. sumar. Nýverið sagði forsætisráðherra Ítalíu af sér, eftir að þjóðin hafnaði í atkvæðagreiðslu stjórnarskrárbreytingum sem hefðu aukið vald ríkisstjórnarinnar á kostnað forseta og öldungadeildar þingsins.

Við aðstæður eins og þessar er mikilvægt að samskipti milli ríkja byggi á traustum grunni. Atlantshafsbandalagið er slíkur grunnur, sem staðið hefur af sér pólitíska sviptivinda í nær 70 ár. Bandalagið er hornsteinn vestrænnar öryggis- og varnarsamvinnu auk þess sem pólitískt vægi þess hefur aukist undanfarin ár, ekki síst vegna þeirra áskorana sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir.

Bandaríkin bjargföst

Í vikunni funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna í Brussel. Þetta var fyrsti ráðherrafundurinn eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og úrslitin voru kollegum mínum ofarlega í huga. Í kosningabaráttunni vestra vöknuðu spurningar um viðhorf nýrra valdhafa í Washington til stefnu Atlantshafsbandalagsins og á fundinum í Brussel var því horft til John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með nokkurri eftirvæntingu.

Að vanda talaði Kerry skýrt og sagði Bandaríkin bjargföst í skuldbindingum sínum gagnvart Atlantshafsbandalaginu og bandamönnum sínum. Tengslin yfir Atlantshafið væru sterk og samstaða mikilvægari nú en oftast áður, sökum versnandi öryggishorfa í Evrópu og á jaðri hennar á umliðnum árum. Frank Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, talaði á svipuðum nótum en fundurinn var að líkindum einnig hans síðasti. Aðrir tóku undir og samhljómurinn meðal fundarmanna var sterkur: Atlantshafsbandalagið væri sterkt og þótt aðildarríkin 28 væru ólík um margt stæðu þau sameinuð gegn utanaðkomandi öryggisógnum og styddu varnir hvert annars. Öryggissamvinnan ætti djúpar rætur í stjórnkerfum aðildarríkjanna og fyrirséðar breytingar í hópi leiðtoga áhrifamikilla þjóða breyttu ekki eðli samstarfsins. Um það er ég sannfærð.

Evrópa leggi meira af mörkum

Hitt er ljóst að aukinn þrýstingur er á Evrópuríkin að leggja meira til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins. Sá þrýstingur er ekki nýr af nálinni heldur hefur um langt skeið verið að aukast, enda standa Bandaríkin undir um 70% af sameiginlegri varnargetu Atlantshafsbandalagsins. Öllum er ljóst að sú skipting er ekki réttlát og á síðustu árum hafa Evrópuríkin hækkað framlög sín til varnarmála og aukið viðbúnað og varnir, ekki síst hjá vinaþjóðum okkar í Eystrasaltinu sem eiga landamæri að Rússlandi. Norður-Atlantshafið og nærumhverfi Íslands er einnig hluti af hinu breytta öryggisumhverfi í Evrópu.

Norðurlandaríkin treysta böndin

Samstarf Norðurlandaríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála hefur farið mjög vaxandi og samvinna Finnlands og Svíþjóðar við Atlantshafsbandalagið eykst jöfnum skrefum. Vart er nú fundað í bandalaginu á ráðherrastigi án þess að kollegum mínum frá þessum vina- og nágrannaþjóðum sé boðið. Finnland og Svíþjóð eru meðal nánustu samstarfsríkja Atlantshafsbandalagsins og leggja ríkulega til aðgerða þess og verkefna. Á ráðherrafundinum í Brussel ræddum við þær sameiginlegu áskoranir sem að okkur steðja, svo sem netöryggi, öryggismál á hafi og aðgerðir til að koma á stöðugleika og friði.

Þá hefur varnarsamstarf Norðurlandaríkjanna undir formerkjum NORDEFCO vaxið mjög á umliðnum árum og hafa Svíar og Finnar, líkt og Ísland, treyst tvíhliða samskipti sín við Bandaríkin með tvíhliða yfirlýsingum um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Það á einnig við um Noreg, sem nýlega tilkynnti um tímabundna viðveru bandarísks herafla á norskri grund.

Ísland axlar ábyrgð

Framlag Íslands og þátttaka í störfum Atlantshafsbandalagsins er ávallt með borgaralegum formerkjum, enda hefur Ísland hvorki vilja né burði til að halda úti her. Borgaralegir sérfræðingar á vegum Íslands, hvort heldur er í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel eða á vettvangi í Afganistan, hafa getið sér gott orð fyrir dugnað og fagmennsku. Nú um stundir er um tugur Íslendinga að störfum fyrir Atlantshafsbandalagið og sinnir fjölbreyttum störfum á borð við jafnréttisráðgjöf, upplýsingamiðlun og áætlanagerð. Það er tvöföldun á framlagi okkar frá árinu 2014.

Hið sama gildir um starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem annast varnartengd verkefni, meðal annars í tengslum við loftrýmisgæslu og æfingar, og annast rekstur á samræmdu loftvarnarkerfi Atlantshafsbandalagsins hér á landi sem jafnframt eykur öryggi borgaralegs flugs í námunda við Ísland.

Á fjárlögum yfirstandandi árs var í fyrsta skipti samþykkt sérstakt varnarframlag til samstöðuaðgerða bandalagsins og í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í vikunni er áfram gert ráð fyrir auknum framlögum til varnarmála. Það er í fullu samræmi við skuldbindingar okkar um að axla aukna ábyrgð í öryggis- og varnarmálum.

Áskoranir samtímans kalla á heildstæða nálgun í öryggismálum og því markaði samþykkt Alþingis á þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland fyrr á þessu ári sannkölluð tímamót. Þjóðaröryggisstefnan tekur jafnt til virkrar utanríkisstefnu, almannaöryggis og varnarstefnu fyrir Ísland og leggur út af þeim grundvallargildum sem okkur eru kærust – virðingu fyrir lýðræðinu, réttarríkinu og mannréttindum – þeim sömu og Atlantshafsbandalagið hvílir á.

Ísland er hlekkur í keðju þjóða sem treysta hver á aðra og standa saman að öryggi og stöðugleika. Það er skylda okkar að standa vaktina með bandamönnum okkar – beggja vegna Atlantsála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2016.