Categories
Greinar

Verkefnin í bráð og lengd

Deila grein

02/12/2016

Verkefnin í bráð og lengd

sigurduringi_vef_500x500Á þriðjudag kemur Alþingi saman. Tvö brýnustu verkefnin sem bíða úrlausnar í desember eru afgreiðsla fjárlagafrumvarps og að lögbinda jöfnun lífeyrisréttinda. Æskilegt er að ríkisstjórn með meirihluta þingmanna standi að baki þessum málum og tryggi framgang þeirra.

Það eru meira en 65 ár síðan starfsstjórn lagði fram fjárlagafrumvarp. Aðstæður sem hafa skapast eftir kosningarnar í október gera þessa óvenjulegu ráðstöfun nauðsynlega. Fjárlagafrumvarpið grundvallast á fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Að auki er tekið mið af samþykktum lögum og ákvörðunum ríkisstjórnar eftir samþykkt fjármálaáætlunar, svo sem hækkun almannatrygginga. Staða ríkisfjármála er góð en miklar áskoranir eru framundan og áhættuþættir margir.

Jöfnun lífeyrisréttinda snýst um samræmt og sveigjanlegra lífeyriskerfi til framtíðar. Allt launafólk mun þá njóta sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Jöfnun lífeyrisréttinda er forsenda áframhaldandi vinnu aðila vinnumarkaðarins að nýju vinnumarkaðslíkani (SALEK). Ríkið getur borið kostnað af jöfnun lífeyrisréttinda á þessu ári, þökk sé stöðugleikaframlögum sem færð eru ríkissjóði til tekna á þessu ári. Á næsta ári myndi kostnaðurinn leiða til mikils hallareksturs hjá ríkinu og því afar brýnt að Alþingi nái að afgreiða málið fyrir áramót. Að því leyti má segja að það reyni nú á Alþingi með nýjum hætti við óvenjulegar aðstæður.

Auðnist okkur stjórnmálamönnum að vinna saman að lausn þessa vanda erum við vel í stakk búin um áramót til að takast á við langtímaáskoranir. Þær eru einkum tvær; að tryggja efnahagslegan stöðugleika og byggja upp og treysta innviði. Stjórnmálamenn eiga ekki að láta pólitíska óvissu raska því starfi.

Efnahagslegur stöðugleiki verður ekki tryggður nema með sameiginlegu átaki stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Það þarf að stilla saman vinnumarkaðinn, opinber fjármál og peningastefnu Seðlabankans. Við þurfum að tryggja að launahækkanir verði ekki umfram getu þjóðarbúsins til að rísa undir þeim. Við þurfum að tryggja að opinber fjármál séu varfærin og magni ekki hagsveiflur. Og við þurfum að endurskoða peningastefnu Seðlabankans.

Nauðsynlegt er að ráðast í uppbyggingu innviða. Til dæmis í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, samgöngum og ferðaþjónustu. Þetta er brýnt verkefni á nýju kjörtímabili. Það leysist hvorki af sjálfu sér né á augabragði. Við þurfum að byggja upp innviði í öruggum skrefum eftir því sem fjárhagsleg geta leyfir. Verkefni næstu ríkisstjórnar verður að auka fé til innviðauppbyggingar samhliða því að bæta nýtingu þeirra miklu fjármuna sem nú þegar fara til þeirra. Ég vona að okkur sem sitjum á Alþingi og falin eru þessi mikilvægu verkefni til úrlausnar auðnist að gera það í sátt og samvinnu, öllum til heilla.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2016.