Categories
Fréttir

Pistill frá ritara

Deila grein

01/12/2016

Pistill frá ritara

jon-bjorn-hakonarsonKæru félagar!
Ég vill byrja á því að þakka ykkur öllum kærlega fyrir ykkar framlag til nýliðinnar kosningarbaráttu fyrir flokkinn okkar. Þrátt fyrir að úrslit þeirra hafi ekki verið eins og við hefðum helst kosið fyrir flokkinn þá er það þannig að slíkt á bara að efla okkur og hvetja til frekari dáða og horfa til framtíðar. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn alltaf gert í hundrað ára sögu sinni.
Þann 16. desember næstkomandi höldum við einmitt upp á þau merku tímamót þegar flokkurinn okkar fagnar formlega 100 ára afmæli sínu. Slíkt er einstakt í sögu flokks og þjóðar að stjórnmálaflokkur nái slíkum áfanga og sé enn meginstoð í lýðræðislegu kerfi lands-og sveitarstjórna á Íslandi. Hafi fylgt þjóðinni í gegnum tíma mikilli umbrota í sögu hennar og verið við stjórnvölinn stóran hluta þess tíma og tekið þátt í að leggja þannig grunn að því góða samfélagi sem við eigum hér á Íslandi. Slíkt hefði ekki verið hægt nema fyrir þann mikla félagsauð sem Framsóknarflokkurinn hefur alltaf átt í sínum flokksmönnum sem staðið hafa með flokknum sínum í gegnum þykkt og þunnt. Það er máttur hinna mörgu.
Þessum tímamótum ætlum við að fagna þann 16.desember næstkomandi annarsvegar með hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu og hinsvegar leitum við nú til ykkar, flokksmanna, með að gera þessa helgi 16.-18.desember sem glæsilegasta. Er það ósk okkar í forystu flokksins að félögin og kjördæmasamböndin um allt land taki höndum saman og haldi upp á 100 ára afmælið heima í sínum héröðum og landsfjórðungum. Þekkjandi þann kraft sem býr í framsóknarfólki veit ég að slíkt verður gert með glæsibrag. Skrifstofa flokksins er boðinn og búinn til aðstoðar og vona ég að samkomurnar verði sem flestar.
Megi svo aðventan verða ykkur öllum notalegur og góður tími í aðdraganda jóla.
Bestu kveðjur,
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins