Categories
Greinar

Í góðum félagsskap í dag – en hvað svo?

Deila grein

22/06/2017

Í góðum félagsskap í dag – en hvað svo?

Það er ánægjulegt að Ísland, ásamt Noregi, skipi þriðja til fjórða sæti yfir ríki heims í rannsókn sem mælir vísitölu félagslegra framfara. Þessi vísitala mælir hve vel hefur tekist að tryggja velferð og hvaða tækifæri eru til staðar fyrir íbúana. Árangur allra Norðurlandanna er tvímælalaust góður. Ísland er í fyrsta sæti þegar kemur að umburðarlyndi. Mismunun og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum mælist einna minnst á heimsvísu. Hins vegar er tvennt sem kemur ekki vel út. Annars vegar reynist erfitt að eignast húsnæði á viðráðanlegu verði og hins vegar eru íslenskir háskólar ekki á meðal þeirra fremstu. Þetta eru slæmar fréttir inn í framtíðina.

Húsnæðisverð hefur hækkað mikið síðustu misseri, því eftirspurnin er langt umfram framboð. Sum sveitarfélög hafa ekki mætt lóðaeftirspurninni og því er mikill húsnæðisvandi í Reykjavík. Vaxtastigið á Íslandi hefur verið hærra en í mörgum samanburðarríkjum sökum þess að íslenska hagkerfið hefur verið þróttmeira en mörg önnur hagkerfi. Til þess að vinna gegn háu vaxtastigi þurfa peninga- og ríkisfjármálastefnan að ganga í takt. Hagstjórnin má ekki einungis hvíla á herðum Seðlabankans. Nauðsynlegt er að ráðast í skipulagsbreytingar á ríkisrekstrinum sem miða að því að nýta fjármagnið betur.

Háskólarnir á Íslandi hafa sett sér það markmið að komast í fremstu röð háskóla á heimvísu. Til að ná þeim árangri þarf að efla rannsóknir og bjóða upp á framúrskarandi kennslu. Að óbreyttu er ekki hægt að ná þeim árangri, ef litið er til ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára. Staðreyndin er sú að fjárframlögin til háskólastigsins eru ekki metnaðarfull.

Það er helsta verkefni stjórnvalda að hlúa að þeim kynslóðum sem eru að vaxa úr grasi og tryggja að kjör þeirra séu með þeim hætti að þær vilji búa á Íslandi. Af þeim sökum þurfa væntingar um lífskjör að vera sambærilegar því sem best gerist í heiminum. Það þarf tvennt að koma til; annars vegar þarf að tryggja það að fólk hafi góðar væntingar um það að geta komið upp þaki yfir höfuðið og hins vegar þarf fleiri vel launuð störf fyrir ungt fólk sem verða best tryggð með þekkingu og nýsköpun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. júní 2017

Categories
Fréttir

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Deila grein

20/06/2017

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Kæru sveitungar og gestir – gleðilega þjóðhátíð!
Það er margt sem gaman væri að tala um hér í dag. Á stundum sem þessum horfum við gjarnan um öxl og vegum og metum, hvort við höfum gengið götuna áfram til góðs í gegnum árin og áratugina. Á því er engin vafi, í mínum huga, að nú um stundir er velsæld þjóðarinnar, mæld á efnahagslega mælistiku, meiri en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum. Þeim árangri má þakka mörgu og mörgum.  Ekki síst þeim kynslóðum sem á undan okkur fóru og skópu jarðveginn fyrir það nútíma Ísland sem við þekkjum í dag. Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust í sveita síns andlits við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd.  Næst því komumst við helst með því að rækja þá skyldu okkar að skila landi og samfélagi ekki verr, og helst nokkru bættara til komanda kynslóða og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum, virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru. Það eru vissulega áskoranir framundan í efnahagsmálum og ýmis verkefni óleyst, en þau eru öll þess eðlis að í augum fyrri kynslóða myndu þær áskoranir kallast lúxusvandamál. Það er samt mikilvægt að takast á við þau verkefni, eins og að stöðug styrking krónunnar mun að lokum koma okkur í koll ef ekki verður unnið að því að finna jafnvægi og það sem fyrst. Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð ber okkur að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.
Allt eru þetta mikilvæg mál og reyndar mörg fleiri.
En það er tvennt sem mig langar mest til að tala um hér í dag. Annars vegar þá lukku að hafa fæðst og alist upp í þessu samfélagi okkar hér, kosti þess og galla. Hinsvegar að hvetja allt unga fólkið okkar til dáða, vegna þess að það, eins og ég, er svo heppið að fá að alast upp í þessu umhverfi.  Oft hef ég haft það á orði að lítil samfélög, á landsbyggðinni eins og okkar samfélag hér í Hrunamannahreppi, eða jafnvel í uppsveitunum öllum og öllum sambærilegum samfélögum, að slík samfélög kalli margt það besta fram í okkur mannfólkinu.  Vegna fámennis verður hver og einn stærri og einstaklingurinn finnur að hann verður að taka þátt – jafnvel í mörgu. Því ef við í fámenninu viljum hafa sterkt félagslíf, menningarlíf, íþróttalíf og ekki síst atvinnulíf þá vitum við að skyldur okkar til að taka þátt eru meiri en þar sem fleiri búa og einstaklingurinn getur falið sig á bakvið fjöldann. Við einfaldlega eigum allt undir að hér sé allt það sem mannlegt eðli óskar sér. Frumþarfir eru atvinnulíf, góðir skólar, öflug heilsugæsla og þak yfir höfuðið. Hitt er ekki síður mikilvægt að eiga fjölbreytt og öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarf, starfsemi hagsmunafélaga, líknar- og mannúðarfélaga og svo mætti lengi telja.
Og, já ég reyndi að telja. Í þeirri talningu er auðvelt að fara yfir tuttugu mismunandi félög og jafnvel mun hærra ef allar deildir mismunandi félaga eru taldar sér. Nokkrar þær helstu má nefna. Sveitarstjórn með sínar stofnanir og nefndir, UMFH með sitt öfluga starf í mörgum deildum, Kvenfélagið, Björgunarsveitin Eyvindur og Vindur, Landgræðslufélag, hagsmunafélög-hrossabænda, nautgripabænda , sauðfjárbænda, garðyrkjubænda, allir kórarnir og svo framvegis. Við eigum sannarlegan öflugan mannauð í 800 manna samfélagi. En það gerist ekki af sjálfu sér, það þarf fólk til að taka þátt. Það er einmitt það jákvæða við okkar samfélag, fólk tekur þátt og það eru tækifæri til að láta til sín taka.
Í senn er það bæði þroskandi og gefandi að axla skyldur sínar í lýðræðislegu samfélagi, en ekki einungis krefjast réttinda sinna. Um leið er það undirstaða lýðræðisins sjálfs sem við fögnum hér í dag. Af þeim ástæðum tel ég það hafa verið mín forréttindi að hafa alist upp hér. Fengið haldgóða menntun á heimaslóð, tekið þátt í starfi UMFH, sveitarfélagsins, kirkju og kóra ásamt mörgu öðru sem samfélagið hér hefur gefið mér, fyrir það er ég og verð ævinlega þakklátur. Á stundum er talað um að gallar séu á litlum samfélögum að allir viti allt um alla. En ég spyr – er það ekki ein útgáfan á náungakærleik að vilja fylgast með og geta gripið inní eða þá létt undir ef eitthvað bjátar að hjá einhverjum?
Við finnum vel og þekkjum öll samstöðuna, stuðninginn og styrkinn sem maður fær þegar áföll dynja yfir, sorgin ber að dyrum. Sá stuðningur sem nærsamfélagið veitir er ómetanlegur, trúið mér – hér talar maður af reynslu. Vissulega eru gallar á fámennum samfélögum, til að mynda minni fjölbreytni meðal annars í atvinnulífi. Afl fjöldans er veikara, en eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þá eru á móti kostirnir þeir að hver einstaklingur er og verður að vera stærri til að vega slíkt upp, það er áskorunin við að búa í smærri samfélögum.
Kæru þjóðhátíðargestir,
það sem ég vildi segja að lokum og um leið beina orðum mínum til unga fólksins, ungu fólki á öllum aldri. Við búum í samfélagi jöfnuðar þar sem allir eiga jafnt tilkall til sömu tækifæra, til menntunar, til starfsframa, til heilbrigðs lífs. Vissulega er það svo að sumir þurfa að hafa meira fyrir því en aðrir, en það er hægt. Hver er sinnar gæfu smiður. Við stjórnmálamenn eigum að tryggja að slíkt samfélag þróist áfram í þá átt. Á Íslandi á að vera meiri jöfnuður en víðast. Við erum fá, þekkjum öll hvert annað eða erum skyld eða tengd. Auðlindir okkar eru gjöfular, þannig að 340 þúsund manna þjóð getur öll haft það gott á Íslandi.
En veldur hver á heldur. Hver og einn þarf að setja sér markmið og vinna að þeim. Þess vegna er gott að alast upp, búa og starfa í okkar samfélagi. Hér eru tækifærin til að hafa mikil áhrif, bæði á sína eigin framþróun en einnig á nærsamfélagið. Það er mín reynsla, að óháð fæðingarstað og búsetu getum við íbúar Íslands náð markmiðum okkar. Aðalatriðið er að vera virkur samfélagsþegn og hafa gaman að vinna að uppbyggingu samfélagsins okkar.  Þannig tryggjum við lýðræðið og getum haldið upp á þjóðhátíðardaginn 17. júní um ókomna framtíð.
Góðar stundir.

Categories
Fréttir

Ingveldur Sæmundsdóttir ráðin aðstoðarmaður formanns

Deila grein

15/06/2017

Ingveldur Sæmundsdóttir ráðin aðstoðarmaður formanns

Ingveldur Sæmundsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins.
Ingveldur var áður aðstoðarmaður Sigurðar Inga þegar hann var umhverfis- og auðlindaráðherra og síðar Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra þangað til í janúar sl.
Þá var Ingveldur kosningastjóri Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður fyrir alþingiskosningarnar 2013.
Hún er með B.Sc. próf frá Copenhagen Business School og diploma í alþjóðlegri markaðshagfræði frá Business Academy Copenhagen North. Þá stundar hún MBA nám við Háskóla Íslands.
„Ég hlakka til að vinna með öllu því kraftmikla og góða fólki sem er í flokknum okkar hringinn í kringum landið“, segir Ingveldur.

Categories
Greinar

Undarlegir atburðir við þinglok

Deila grein

13/06/2017

Undarlegir atburðir við þinglok

Þegar mál eru „keyrð í gegn“ á lokaspretti þingstarfa er allt of algengt að það leiði til ýmiss konar mistaka við lagasetningu. Stundum eru það „tæknileg mistök“ sem þarf þá að laga síðar, jafnvel eftir ábendingar dómstóla. En stundum eru afgreidd mál sem eru óskynsamleg og líkleg til að vinna gegn markmiðunum sem þeim er ætlað að ná. Hættan er sérstaklega mikil þegar um er að ræða mál sem þingmenn kunna hvorki við að gagnrýna né greiða atkvæði gegn.

Við síðustu þinglok urðu svo þau merku tíðindi að ríkisstjórnin fór fram á að mál yrði samþykkt um leið og hún viðurkenndi að það væri ekki tilbúið. Þingmönnum var sagt að samþykkja hið ókláraða mál en að því búnu yrði viðeigandi ráðuneyti falið að leysa úr því sem út af stæði.
Málið sem um ræðir var frumvarp félagsmálaráðherra um svokallaða jafnlaunavottun. Vitanlega greiddi meirihluti þingmanna atkvæði með málinu því ekki vilja menn hætta á að vera sagðir andsnúnir auknu jafnrétti, óháð því hvort málið stuðlar raunverulega að auknu jafnrétti eða ekki. Það sama á stundum við um frumvörp og fréttir, það er fyrirsögnin sem gildir.

Eina málið
Frumvarpið átti að vera helsta skrautfjöður Viðreisnar, flokks sem átt hefur heldur erfitt uppdráttar eftir að hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og gaf um leið eftir öll málin sem skömmu áður höfðu verið tíunduð sem ástæður þess að flokkurinn þyrfti að kljúfa sig frá Sjálfstæðisflokknum.

Þótt illa gengi með málið var því ekki um annað að ræða, að mati Viðreisnar, en að klára það á einn eða annan hátt. Á sama tíma þurfti Sjálfstæðisflokkurinn aðstoð við að staðfesta skipan Landsréttar. Mestu prinsippmenn þar á bæ voru því fóðraðir á krít og sagt að styðja vottunarmál Viðreisnar eða hafa verra af (kosningar). Þetta var þó ástæðulaus harka í garð gömlu góðu íhaldsmannanna því atkvæði þeirra reyndust óþörf við að koma frumvarpinu í gegn. Ljóst var orðið að vinstri-kerfisflokkarnir myndu stökkva á málið enda gátu þeir ekki verið þekktir fyrir að vera á móti máli sem héti svo góðu nafni.

Á tímum ímyndarstjórnmála skipta nöfn miklu meira máli en innihaldið og þegar tekst að setja eitt orð saman úr orðunum jafn, laun og vottun þurfa nútíma vinstrimenn ekki að heyra meira áður en þeir segja BINGÓ!

Innihald frumvarpsins
Ýmsir sem láta jafnréttismál sig miklu varða höfðu bent á galla við frumvarpið og að það væri ekki endilega til þess fallið að ná þeim árangri sem að væri stefnt. Þeir sem sjá um jafnlaunastaðalinn sem styðjast átti við bentu á að hann væri hannaður sem valfrjálst verkfæri en ekki sem kvöð.

Greinargerð með frumvarpinu er mögnuð lesning og virðist lýsa þrám stjórnlyndra kerfiskarla fremur en vonum frjálslyndra jafnréttissinna. Það er þó utan við meginefni þessarar greinar sem snýst um þá furðulegu atburði sem gerðust eftir að Viðreisnarfólk ákvað að málið yrði að fara í gegn á fyrsta þingi ríkisstjórnarinnar, sama hvernig það liti út.

Þó þarf að fylgja sögunni að eftirlitsaðferðin sem til stendur að beita er bæði dýr og íþyngjandi fyrir fyrirtæki án þess að það sé ljóst að hún skili tilætluðum árangri. Sérstakir eftirlitsmenn leika þar stórt hlutverk. „Faggiltir vottunaraðilar“ heita þeir á kerfismáli en þeir munu hafa eftirlit með því að öll skilyrði staðalsins „ÍST 85:2012“ séu uppfyllt. Þegar faggilti vottunaraðilinn mætir á vettvang getur hann krafist hinna ýmsu upplýsinga til að kanna m.a. hvort fyrirtæki séu að meta verðmæti vinnu starfsmanna rétt miðað við staðalinn.

Breytingartillögur á elleftu stundu
Í tilraun til að keyra málið í gegn á lokasprettinum lagði meirihlutinn til breytingar á frumvarpinu tveimur dögum fyrir þinglok. Lögð var til frestun á gildistöku gagnvart fyrirtækjum (sígild leið þegar menn lenda í vandræðum með frumvörp) en í millitíðinni skyldi lögunum beitt á Alþingi, ráðuneyti og stofnanir.

Einnig var bætt inn ákvæði um að birta mætti staðalinn sem allt snerist um opinberlega. Það gerðist eftir að einhverjir fóru að hengja sig í smáatriði á borð við eftirfarandi spurningu: Ef við ætlum að skylda fólk til að vinna eftir sérstökum staðli, eða eiga ella á hættu innrás eftirlitsmanna og refsingar, ættum við þá ekki að leyfa fólkinu að vita hvað felst í staðlinum sem það á að uppfylla? Ef til vill voru einhverjir þingmenn líka forvitnir um hvað fælist í staðlinum sem þeir áttu að lögfesta.

Hugsa sér að á árinu 2017 séu menn enn að lenda í því að afskiptasamir þingmenn krefjist þess að fólk sé upplýst um hvað felist í lögunum sem því er ætlað að fylgja.

Lokadagurinn
Þegar stóð svo til að klára málið með breyttum tímasetningum og að viðbættri heimild til að upplýsa borgarana um hvaða reglum þeir yrðu dæmdir eftir kom babb í bátinn:

Staðlaráð Íslands, sem heldur utan um jafnlaunavottunarstaðalinn – ÍST 85:2012 sem til stóð að lögfesta, upplýsti löggjafann um að staðallinn væri höfundarréttarvarinn og óheimilt að birta hann eða nota í leyfisleysi.

Ráðherrann sagði þá Staðlaráði að það væri opinber stofnun og sem slík ætti hún ekki staðalinn né réði hvernig með hann væri farið. Staðlaráð var hins vegar ekki reiðubúið að votta skoðun ráðherrans. Ráðið væri alls ekki opinber stofnun og ætti því víst staðlaðan einkarétt. Deilur milli Staðlaráðs, ráðherra, ráðuneytis og lögmanna héldu áfram án þess að þær leiddu til niðurstöðu um hvort Staðlaráð væri stofnun eða hvort það hefði fundið upp staðalinn eða ætti hann eða hvort ríkið hefði heimild til að upplýsa almenning um hvað til stæði að leiða í lög.

Kaldhæðni málsins var sú að þingmenn Pírata voru duglegastir að minna á að staðallinn kynni að vera höfundarréttarvarinn. Þó er óviðeigandi að grínast með aðkomu Pírata að málinu því þeir stóðu sig öðrum betur við að draga fram helstu staðreyndir þess, ekki hvað síst varðandi hagsmuni ríkisins og gagnsæi í lagasetningu.

„Reddingin“
Nú voru góð ráð dýr, reyndar mjög dýr og enn er ekki vitað hversu dýr þau verða því niðurstaðan varð sú að samþykkja lög um jafnlaunavottun þar sem velferðarráðuneytinu var falið að semja við Staðlaráð um heimild til að nota staðalinn. Það er sem sagt búið að festa í lög að notast skuli við tiltekinn staðal áður en ríkið semur um hvað það eigi að greiða fyrir staðalinn. Ríkið hefur líklega sjaldan gengið til samninga með eins laka samningsstöðu. Það hlýtur líka að vera einsdæmi að ríkið setji lög sem rústa eigin samningsstöðu. …og þó, ég man eftir öðru dæmi.

Hið nýja ákvæði um birtingu staðalsins var fjarlægt úr frumvarpinu. Niðurstaðan varð því sú að þingið samþykkti lög þar sem leynd hvílir yfir því hvað felst í lögunum og óljóst er hvað þau koma til með að kosta.

Þá er ekki allt upp talið því staðlar eins og jafnlaunastaðallinn taka breytingum eftir aðstæðum. Það verður því ekki annað séð en að með lögfestingu tiltekins staðals sé Alþingi að gera tilraun til að fela þeim sem munu þróa staðalinn löggjafarvald.

Kerfið fékk sitt
Þetta er það sem gerist þegar ímyndarstjórnmál og kerfisræði koma saman. Viðreisn taldi sig þurfa að fá alla vega eina fjöður í hattinn þótt það ætti eftir að semja um hvað hún kostaði. Aðrir kunnu svo ekki við að vera á móti máli með góðan tilgang.

Kerfinu var því falið að semja frumvarpið, semja um notkun, leyfi og greiðslur og framfylgja svo málinu eftir eigin uppskrift. Hjá fulltrúum kerfisins virðist afstaðan skýr, a.m.k. hjá sumum. Embættismaður sem vann að frumvarpinu sá t.d. ástæðu til að birta á facebook nöfn þeirra sem brutu gegn kerfisræðinu með því að leyfa sér að sitja hjá eða greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Meirihluti þingmanna slapp þó við þá „skömm“ með því að styðja málið þótt margir hafi nefnt að þeir gerðu það þrátt fyrir mikla galla vegna þess að það væri skref í rétta átt. En er það skref í rétta átt þegar unnið er að góðum málstað með skaðlegri aðferð? Ef það eitt að markmiðið sé gott á að nægja til að þingmenn samþykki mál, óháð aðferðinni, er voðinn vís. Allar öfgar og kreddur eru réttlættar með tilvísun í góðan málstað. Framfarir byggjast hins vegar á því að unnið sé að góðum málstað með góðum aðferðum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. júní 2017

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Categories
Greinar

Ástríðulaust samband

Deila grein

12/06/2017

Ástríðulaust samband

Þessi þingvetur hefur verið með þeim skrítnari. Ekki síst vegna þess að til kosninga var boðað í október, sem er óvenjulegt, og síðan tók óratíma að mynda nýja ríkisstjórn. Forseti veitti hverjum formanninum á fætur öðrum stjórnarmyndunarumboðið en skyldi þáverandi forsætisráðherra eftir, sem þó hafði tekið við keflunum á ólgutímum og stýrt ríkisstjórninni í nokkra mánuði með góðum árangri. Þar þótti mér forsetinn ekki sýna góða dómgreind og hlutlægni. Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur og gaf þau skilaboð að flokkurinn gæti unnið með öllum á meðan formenn hinna flokkanna sögðust vera búnir að útiloka hinn og þennan, sem þrengdi stöðuna. Björt framtíð og Viðreisn bundust órjúfanlegum böndum, gengu saman hönd í hönd í þeirri von að komast í hlýjan faðm Bjarnarins fyrir rest. Það tókst. Sambandið varð til í neyð og örvæntingu, en ekki ástríðu og það sýnir sig í stjórnarsamstarfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði samstarfi
Á meðan á þessu samtalið hægri flokkanna stóð þá var Framsókn farið að stinga saman nefjum með Vinstri grænum, sem voru búin að átta sig á að besta lausnin væri sterk stjórn með breiða skírskotun, þ.e. VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn. Slík stjórn gæti brúað bilið og komið á góðu jafnvægi í íslenskum stjórnmálum. Það gekk svo langt að VG og Framsókn gerðu drög að stjórnarsáttmála sem formaður Sjálfstæðisflokksins þekkti til – en hann valdi samstarf við BF og Viðreisn. Tækifærið var til staðar.

Fá mál frá ríkisstjórn
Þegar Alþingi kom saman eftir jól var hin nýja hægri stjórn tekin við, undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Sex af tíu ráðherrum ríkisstjórnarinnar koma úr Sjálfstæðisflokknum og það vakti einnig athygli að enginn ráðherra kom úr Suðurkjördæmi. Fremur rólegt var yfir nefndarstörfum framan af þar sem fá mál komu frá ríkisstjórninni. Helstu málin voru fjármálastefnan og síðan fjármálaáætlun. Þessi mál tóku drjúgan tíma af störfum þingsins enda stefnumarkandi langtímaáætlanir ríkisfjármála þar sem rammar málefnasviða eru ákveðnir.
Að öðru leyti gerðist fátt hjá ríkisstjórninni. Nokkur mál komu til þingsins undir lokin. Sum var hægt að klára með sómasamlegum hætti en önnur voru ófullbúin og því gafst ekki tími til að afgreiða þau með fullnægjandi hætti. Þannig að þegar framlagður málalisti ríkisstjórnarinnar er borinn saman við þau mál sem kláruðust á þessu þingi, þá sést hversu sorglega lítill árangur það er.

Meingölluð en engar breytingatillögur
Það er Alþingis að setja fram 5 ára fjármálaáætlun sem framkvæmdavaldinu er svo ætlað að byggja fjárlög haustsins á. Það kom berlega í ljós hversu ósamstíga ríkisstjórnin er við afgreiðslu fjármálaáætlunar. Meirihluti Fjárlaganefndar lagði fram nefndarálit en treysti sér hins vegar ekki til að leggja fram breytingatillögur – því þau voru ekki sammála um hvað þyrfti til, þrátt fyrir að sýnt þykir að áætlunin er meingölluð, bæði að innihaldi og framsetningu. Vandanum var ýtt yfir á fjárlög og til haustsins.

Ósammála í stóru málunum
Í ljós kom, t.d. í umsögn Fjármálaráðs og Ríkisendurskoðunar, að þær tölur sem lagðar væru til grundvallar að afkomumarkmiðum sveitarfélaganna, væru með öllu óraunhæfar og í raun galnar! Það liggur því í augum uppi að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um breytingartillögur. Þar eru menn ósammála í grundvallaratriðum. Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar hefur birst í fleiri stórum málum.
Nokkur dæmi: Formaður utanríkismálanefndar (Viðreisn) reifst við utanríkisráðherra (D) í ræðustól Alþingis um utanríkisstefnu Íslands. Fjármálaráðherra (V) og forsætisráðherra (D) greinir á um peningastefnu Íslands. Stóra mál Viðreisnar, jafnlaunavottunin, var afar umdeild hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins en fór þá í gegnum þingið fyrir rest, þó einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi sagt samþykkja hana með „æluna í hálsinum“. Já, það er víst ekki mikil sæla á stjórnarheimilinu.

Svikin loforð og einkavæðing
Þegar árangur hægri stjórnarinnar er metinn, þá er ljóst að þau hafa ekki náð að standa við kosningaloforð sín. Þau lofuðu innviða uppbyggingu en við það verður ekki staðið miðað við þá fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir skömmu. Sú fjármagnsaukning sem fer til heilbrigðismála og menntamála er falin í steypu, ekki í auknu rekstrarfé. Ríkisstjórnin skilar auður í samgöngumálum. Ráðherra talar enn um vegatolla. Maður veltir fyrir sér hvort sú sveltistefna sem ríkisstjórnin rekur undir forystu Sjálfstæðisflokksins, sé til þess ætluð að hrekja okkur í átt til aukinnar einkavæðingar á sem flestum sviðum?
Mér hugnast ekki sú sviðsmynd. Þjóðin þarf meiri félagshyggju – manngildi ofar auðgildi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Fréttir

Sumarferð Framsóknar 10. júní

Deila grein

06/06/2017

Sumarferð Framsóknar 10. júní

Kæri félagi!
– Laugardagur 10. júní 2017 –
Nú er viðburðarríkum vetri lokið og því rétt að „slútta“ starfsárinu með viðeigandi hætti. Laugardaginn 10. júní ætlum við að heimsækja sveitarfélagið Ölfus en þar er B–listi Framfarasinna með hreinan meirihluta. Sveitarfélagið er í miklum vexti og verður áhugavert að fá kynningu á þessu samfélagi.
Það eina sem þú þarft að hafa með þér er góða skapið og 2.000 kr. sem öll herlegheitin kosta. Skipulagningar vegna er brýnt að þú skráir þig í síðasta lagi þriðjudaginn 6. júní. Skráning er birkirjon@gmail.com
 
 
Dagskrá ferðarinnar:
11:00 Brottför í rútu frá Bæjarlind 14-16 í Kópavogi
12:00 Strandarkirkja. Sr. Baldur Kristjánsson segir merka sögu kirkjunnar
12:40 Hádegisnæring í Þorlákshöfn, smurt brauð, kaffi, gos og öl.
13:30 Hátíðarhöld vegna sjómannadagsins á hafnarsvæðinu. Sveitarfélagið Ölfus kynnt – dagskrá í höndum heimamanna.
15:30 Hrossabúið að Sunnuhvoli heimsótt.
16:30 Heimsókn til Haraldar Einarssonar, fv. alþingismanns, á Urriðafossi. Fossinn skoðaður undir leiðsögn heimamanna.
17:40 Áætluð ferðalok í Bæjarlindinni
Við lofum skemmtilegri ferð þar sem gleðin verður í fyrirrúmi. Við munum gera vel við okkur í mat og drykk þennan dag. Allir félagar í Suðvesturkjördæmi eru hvattir til að taka þátt í þessari ferð. Ef einhverjar frekari upplýsingar vantar þá er velkomið að hringja í okkur.
Sumarkveðja,
Birkir Jón (s. 898-2446), Halldóra Magný (s. 617-7764) og Sigrún Aspelund (s. 894-3007)

Categories
Fréttir

Við erum í stóru málunum

Deila grein

06/06/2017

Við erum í stóru málunum

Þingflokkur Framsóknarmanna hefur verið mjög iðinn það sem af er. Það má í raun segja að við höfum haldið áfram frá þeim tíma sem við sátum og fórum fyrir ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili – við erum í stóru málunum. Málum sem skipta landsmenn miklu máli, hvort sem litið er til mála sem snerta einstaklinginn beint eða óbeint, t.d. salan á ARION banka og salan á landi ríkisins á Vífilsstöðum.
Hér má sjá megnið af þeim málum sem komið hafa frá þingflokknum.

Þingsályktanir, sérstakar umræður og annað sem snertir heimilin, ríkið og neytendur:

Við höfum lagt fram með þingsályktun um að Landsvirkjun verði að fullu og öllu leyti í eigu ríkisins.
Ein stærsta og gjöfulasta auðlind íslensku þjóðarinnar eru fallvötn hennar og sú orka sem úr þeim má vinna. Þótt nýting auðlindarinnar hafi á köflum verið umdeild er það hafið yfir vafa virkjanir á vegum Landsvirkjunar hafa skilað og munu skila eiganda sínum háum fjárhæðum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga.
Með þingsályktun þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga. Nokkuð er um að einstaklingar eigi frístundahús eða jörð, án þess að þar sé stundaður búskapur, í öðru sveitarfélagi en lögheimili er. Útsvarstekjur einstaklings renna til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili og þar með renna engar útsvarstekjur til sveitarfélagsins þar sem frístundahús eða jörð viðkomandi er staðsett.
Við höfum lagt fram þingsályktun um vexti og gengi krónunnar.
Flutningsmenn telja það mikilvægt að skýrt og greinilega verði gerð grein fyrir sambandi stýrivaxta Seðlabanka Íslands og vaxtastigs ríkisskuldabréfa í íslenskri krónu. Vaxtakostnaður ríkissjóðs sem hlutfall af heildartekjum hans er hár í alþjóðlegum samanburði og því vert að skilja til hlítar allar hugsanlegar ástæður þess.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um nýtingu forkaupsréttar vegna sölunnar á Arion banka.
Með samþykki kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja á svokölluðum stöðugleikaskilyrðum féllust þau á að afhenda íslenska ríkinu eignir sem væru nægjanlega miklar til að það gerði stjórnvöldum kleift að aflétta fjármagnshöftum án þess að stefna greiðslujöfnuði í voða.
Við höfum lagt fram þingsályktun um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.
Umræða um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem rekið yrði af Landhelgisgæslu Íslands, sbr. samning frá 30. júlí 2014 milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra um að ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæsla Íslands annist tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum nr. 34/2008, hefur staðið um nokkurra missera skeið.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.
Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.
Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru margir á þeirri skoðun að bæta þyrfti heilbrigðiskerfið á Íslandi og voru Framsóknarmenn þeirra á meðal. Sérstaklega var rætt um mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fjármagn til málaflokksins, eins og gert var á síðasta kjörtímabili undir stjórn Framsóknarflokksins.
Við höfum lagt fram þingsályktun um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs.
Hér á landi Hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs (VNV) sem mælikvarða á verðbólgu og til útreiknings á verðtryggingu síðan árið 1995. Í Evrópusambandsríkjunum er hins vegar stuðst við svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs (SVN) en tilgangur hennar er m.a. að tryggja samræmda verðbólgumælingu í þeim ríkjum þar sem evra er gjaldmiðill.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um skattaafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.
Fyrir liggur að í danska skattkerfinu fá allir afslátt ef þeir þurfa að ferðast tiltekna vegalengd vegna vinnu óháð því hvort ferðast er á bifreið, hjóli eða með almenningssamgöngum. Mat flutningsmanna er að það að láta skattafsláttinn ná til fleiri samgöngumáta en bifreiða sé til þess fallið að hvetja fólk til að kynna sér nýja samgöngumáta, auk þess sem það getur skapað þrýsting á byggðarkjarna að koma upp góðum og öflugum almenningssamgöngum milli sveitarfélaga.
Við höfum lagt fram þingsályktun um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.
Með þingsályktun þessari er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að beita sér fyrir því að NA/SV-flugbraut Reykjavíkurflugvallar (06/24), sem einnig hefur verið kölluð neyðarbrautin, verði opnuð á ný en henni var lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2016 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjavíkurborg (mál nr. 268/2016).
Við höfum lagt fram frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof (fæðingarhjálp).
Nokkrum hópi fólks stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingarhjálp í heimabyggð og þarf því að dveljast fjarri heimili sínu fyrir fæðingu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp þegar að fæðingu kemur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um fjarfundi á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar.
Á 145. löggjafarþingi voru lagðar fram átta fyrirspurnir til ráðherra þáverandi ríkisstjórnar (693.–700. mál) sem vörðuðu fundahöld ráðuneytanna með starfsmönnum sínum og undirstofnana sem eru á landsbyggðinni, notkun fjarfundabúnaðar á slíkum fundum, tæknilega þjálfun starfsmanna á slíkan búnað og fleiri tengd atriði. Af svörum við fyrirspurnunum má ráða að sinn er siður í hverju ráðuneyti þegar kemur að fjarfundum og notkun búnaðar til slíkra funda.
Við höfum lagt fram þingsályktun um styttingu biðlista á kvennadeildum.
Upplýsingar eru um að um 300 konur bíði eftir því að komast í aðgerð á kvennadeild Landspítala og biðtíminn geti verið allt að þrjú ár. Aðgerðirnar sem hér um ræðir eru einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka.
Við höfum lagt fram þingsályktun um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um auðlindir og auðlindagjöld.
Í tillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra feli starfshópi að kanna hvort innheimta skuli afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá af hvaða auðlindum. Einnig er lagt til að starfshópurinn leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða. Þá verði teknar saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku sé háttað í nágrannaríkjunum, einkum á Norðurlöndunum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um samstarf Íslands og Bretlands samhliða úrsagnarferli Bretlands úr Evrópusambandinu.
Þessi tillaga skýrir sig sjálf.
Við höfum lagt fram þingsályktun um rétt barna til að vita um uppruna sinn.
Með henni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að undirbúa lagabreytingu sem tryggir að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og gjafaeggi og/eða gjafasæði eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn.
Við höfum lagt fram þingsályktun um mótun klasastefnu.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan skuli fela í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir.
Við höfum lagt fram frumvarp um málefni aldraðra (akstursþjónusta).
Aldraðir skulu eiga kost á akstursþjónustu á vegum sveitarfélags sem miðar að því að þeir geti farið allra sinna ferða á þann hátt sem þeir kjósa og á þeim tíma sem þeir velja gegn viðráðanlegu gjaldi.
Við höfum lagt fram frumvarp um atvinnuleysistryggingar (bótaréttur fanga).
Nú hefur maður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. setið í gæsluvarðhaldi, eða afplánað refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga, og skal hann þá teljast tryggður samkvæmt lögum þessum eins og hann hefði verið í launaðri vinnu á sama tímabili, enda uppfylli hann önnur skilyrði til þess að teljast tryggður samkvæmt lögum þessum.
Við höfum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (fánatími).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna til að rýmka þann tíma sem fáninn má vera við hún og auka þannig almenna notkun hans. Lagt er til að efnisákvæði um fánatíma færist í lögin og reglugerð ráðherra lúti því einungis að fánadögum.
Við höfum lagt fram frumvarp um brottnám líffæra (ætlað samþykki).
Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að miðað verði við „ætlað samþykki“, þ.e. gert verði ráð fyrir að hinn látni hefði verið samþykkur brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema tilefni sé til að ætla annað.
Við höfum átt frumkvæði af sérstökum umræðum um:

  • matvælaöryggi og matvælaframleiðslu.
  • greiðsluþátttöku sjúklinga.
  • stöðuna í ferðamálum – leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.
  • áherslur í skipulagi haf og standsvæða.
  • matvælaframleiðslu og loftslagsmál.
  • söluna/gjöfina á Vífilsstöðum.

Annað

Við höfum lagt áherslu á stofnun stöðugleikasjóðs til að bregðast við sveiflum í íslensku hagkerfi.
Við höfum talað fyrir komugjöldum og verið er að vinna að nánar útlistun á gjaldtöku ferðamanna.
 
Þórunn Egilsdóttir,
þingflokksformaður Framsóknarmanna