Categories
Greinar

Ástríðulaust samband

Deila grein

12/06/2017

Ástríðulaust samband

Þessi þingvetur hefur verið með þeim skrítnari. Ekki síst vegna þess að til kosninga var boðað í október, sem er óvenjulegt, og síðan tók óratíma að mynda nýja ríkisstjórn. Forseti veitti hverjum formanninum á fætur öðrum stjórnarmyndunarumboðið en skyldi þáverandi forsætisráðherra eftir, sem þó hafði tekið við keflunum á ólgutímum og stýrt ríkisstjórninni í nokkra mánuði með góðum árangri. Þar þótti mér forsetinn ekki sýna góða dómgreind og hlutlægni. Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur og gaf þau skilaboð að flokkurinn gæti unnið með öllum á meðan formenn hinna flokkanna sögðust vera búnir að útiloka hinn og þennan, sem þrengdi stöðuna. Björt framtíð og Viðreisn bundust órjúfanlegum böndum, gengu saman hönd í hönd í þeirri von að komast í hlýjan faðm Bjarnarins fyrir rest. Það tókst. Sambandið varð til í neyð og örvæntingu, en ekki ástríðu og það sýnir sig í stjórnarsamstarfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði samstarfi
Á meðan á þessu samtalið hægri flokkanna stóð þá var Framsókn farið að stinga saman nefjum með Vinstri grænum, sem voru búin að átta sig á að besta lausnin væri sterk stjórn með breiða skírskotun, þ.e. VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn. Slík stjórn gæti brúað bilið og komið á góðu jafnvægi í íslenskum stjórnmálum. Það gekk svo langt að VG og Framsókn gerðu drög að stjórnarsáttmála sem formaður Sjálfstæðisflokksins þekkti til – en hann valdi samstarf við BF og Viðreisn. Tækifærið var til staðar.

Fá mál frá ríkisstjórn
Þegar Alþingi kom saman eftir jól var hin nýja hægri stjórn tekin við, undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Sex af tíu ráðherrum ríkisstjórnarinnar koma úr Sjálfstæðisflokknum og það vakti einnig athygli að enginn ráðherra kom úr Suðurkjördæmi. Fremur rólegt var yfir nefndarstörfum framan af þar sem fá mál komu frá ríkisstjórninni. Helstu málin voru fjármálastefnan og síðan fjármálaáætlun. Þessi mál tóku drjúgan tíma af störfum þingsins enda stefnumarkandi langtímaáætlanir ríkisfjármála þar sem rammar málefnasviða eru ákveðnir.
Að öðru leyti gerðist fátt hjá ríkisstjórninni. Nokkur mál komu til þingsins undir lokin. Sum var hægt að klára með sómasamlegum hætti en önnur voru ófullbúin og því gafst ekki tími til að afgreiða þau með fullnægjandi hætti. Þannig að þegar framlagður málalisti ríkisstjórnarinnar er borinn saman við þau mál sem kláruðust á þessu þingi, þá sést hversu sorglega lítill árangur það er.

Meingölluð en engar breytingatillögur
Það er Alþingis að setja fram 5 ára fjármálaáætlun sem framkvæmdavaldinu er svo ætlað að byggja fjárlög haustsins á. Það kom berlega í ljós hversu ósamstíga ríkisstjórnin er við afgreiðslu fjármálaáætlunar. Meirihluti Fjárlaganefndar lagði fram nefndarálit en treysti sér hins vegar ekki til að leggja fram breytingatillögur – því þau voru ekki sammála um hvað þyrfti til, þrátt fyrir að sýnt þykir að áætlunin er meingölluð, bæði að innihaldi og framsetningu. Vandanum var ýtt yfir á fjárlög og til haustsins.

Ósammála í stóru málunum
Í ljós kom, t.d. í umsögn Fjármálaráðs og Ríkisendurskoðunar, að þær tölur sem lagðar væru til grundvallar að afkomumarkmiðum sveitarfélaganna, væru með öllu óraunhæfar og í raun galnar! Það liggur því í augum uppi að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um breytingartillögur. Þar eru menn ósammála í grundvallaratriðum. Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar hefur birst í fleiri stórum málum.
Nokkur dæmi: Formaður utanríkismálanefndar (Viðreisn) reifst við utanríkisráðherra (D) í ræðustól Alþingis um utanríkisstefnu Íslands. Fjármálaráðherra (V) og forsætisráðherra (D) greinir á um peningastefnu Íslands. Stóra mál Viðreisnar, jafnlaunavottunin, var afar umdeild hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins en fór þá í gegnum þingið fyrir rest, þó einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi sagt samþykkja hana með „æluna í hálsinum“. Já, það er víst ekki mikil sæla á stjórnarheimilinu.

Svikin loforð og einkavæðing
Þegar árangur hægri stjórnarinnar er metinn, þá er ljóst að þau hafa ekki náð að standa við kosningaloforð sín. Þau lofuðu innviða uppbyggingu en við það verður ekki staðið miðað við þá fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir skömmu. Sú fjármagnsaukning sem fer til heilbrigðismála og menntamála er falin í steypu, ekki í auknu rekstrarfé. Ríkisstjórnin skilar auður í samgöngumálum. Ráðherra talar enn um vegatolla. Maður veltir fyrir sér hvort sú sveltistefna sem ríkisstjórnin rekur undir forystu Sjálfstæðisflokksins, sé til þess ætluð að hrekja okkur í átt til aukinnar einkavæðingar á sem flestum sviðum?
Mér hugnast ekki sú sviðsmynd. Þjóðin þarf meiri félagshyggju – manngildi ofar auðgildi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir