Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Reykjanesbæ

Deila grein

28/02/2018

Framboðslisti Framsóknar í Reykjanesbæ

Framboðslisti Framsóknar í Reykjanesbæ var samþykktur á félagsfundi fimmtudaginn 22. febrúar. Listann leiðir Jóhann Friðrik Friðriksson, lýðheilsufræðingur, annað sætir skipar Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar og það þriðja Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, kennsluráðgjafi. Framboðslistann skipa 11 konur og 11 karlar.
Listi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ:

 1.  Jóhann Friðrik Friðriksson, lýðheilsufræðingur
 2.  Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar
 3. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, kennsluráðgjafi
 4. Trausti Arngrímsson, viðskiptafræðingur
 5. Bjarni Páll Tryggvason, flugumferðarstjóri
 6. Eva Stefánsdóttir, viðskiptafræðingur
 7. Sigurður Guðjónsson, löggiltur bifreiðasali
 8. Halldór Ármannsson, útgerðarmaður
 9. Magnea Herborg Björnsdóttir, leikskólakennari
 10. Jóhanna María Kristinsdóttir, söngkona
 11. Andri Fannar Freysson, tölvunarfræðingur
 12. Aðalheiður Halldórsdóttir, grunnskólakennari
 13. Guðmundur Stefán Gunnarsson, ráðgjafi á velferðarsviði og júdókappi
 14. Drífa Sigfúsdóttir, fyrrv. forseti bæjarstjórnar
 15. Róbert Jóhann Guðmundsson, málarameistari
 16. Andrea Ásgrímsdóttir, PGA golfkennari
 17. Hólmfríður Guðmundsdóttir, hússtjórnarkennari​
 18. Freyr Sverrisson, knattspyrnuþjálfari
 19. Ólafía Guðrún Lóa Bragadóttir, tollvörður
 20. Oddný Mattadóttir, húsmóðir
 21. Ingvi Þór Hákonarson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður
 22. Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi og viðskiptafræðingur
Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Deila grein

28/02/2018

Framboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Framboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí n.k. var einróma samþykktur á aðalfundi Framsóknarfélags Austur-Skaftafellinga þann 26. febrúar 2018. Listann leiðir Ásgerður K. Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri, Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri, skipar annað sætið og Erla Þórhallsdóttir, leiðsögumaður, skipar það þriðja. Listann skipa 7 konur og 7 karlar.
Framboðslisti Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði:

 1. Ásgerður K. Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri
 2. Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri
 3. Erla Þórhallsdóttir, leiðsögumaður
 4. Björgvin Óskar Sigurjónsson, verkfræðingur
 5. Kristján S. Guðnason, matreiðslumaður
 6. Íris Heiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri
 7. Finnur Smári Torfason, forritari
 8. Nejra Mesetovic, verkefnastjóri
 9. Steinþór Jóhannsson, framkvæmdastóri
 10. Arna Ósk Harðardóttir, skrifstofumaður
 11. Hjalti Þór Vignisson, framkvæmdastjóri
 12. Erla Rún Guðmundsdóttir, bóndi
 13. Kolbrún Reynisdóttir, þroskaþjálfi
 14. Reynir Arnarson, framkvæmdastjóri

Ljóst er með þennan öfluga hóp af frambærilegu fólki ganga Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra fullir eldmóðs til kosninga.

Categories
Fréttir

Framsókn og óháðir bjóða fram í Hafnarfirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Deila grein

28/02/2018

Framsókn og óháðir bjóða fram í Hafnarfirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Á fundi fulltrúaráðs Framsóknarflokksins í Hafnarfirði var samþykkt að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum undir merkjum Framsóknar og óháðra. Markmið framboðsins er að lækka álögur á fjölskyldufólk, auka þjónustu, stuðla að meiri sátt og vinna að auknu samstarfi milli kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn.
Ákveðið hefur verið að stilla upp á lista. Uppstillinganefnd hefur verið skipuð og hefur þegar hafið störf. Óskað er eftir framboðum á lista Framsóknar og óháðra fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og skal framboðum skilað inn á netfangið xbohadir@gmail.com fyrir kl. 12 á hádegi þriðjudaginn 6. mars.
Gert er ráð fyrir að uppstillingu efstu 10 verði lokið 9. mars næstkomandi.
Stjórn fulltrúaráðs Framsóknarflokksins í Hafnarfirði, 27. febrúar 2018.

Categories
Greinar

Smálán – ólán fyrir ungt fólk og efnalítið

Deila grein

27/02/2018

Smálán – ólán fyrir ungt fólk og efnalítið

Taka svokallaðra smálána er ört vaxandi liður í greiðsluerfiðleikum ungs fólks. Þessi tegund lána virðist hrein viðbót við aðrar tegundir skammtímaskulda. Árið 2017 voru um 70% fólks 18 – 29 ára sem sóttu um ráðgjöf og greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara með smálán. Þetta kemur fram í greiningu umboðsmanns sem ég óskaði eftir. Markaðssetningu smálánafyrirtækjanna virðist beint að ungu fólki sem á erfitt með að fóta sig á þessum lánamarkaði og lendir í greiðsluvanda. Þetta er veruleiki sem verður að bregðast við áður en staðan versnar enn frekar.

Ungt fólk leitar í vaxandi mæli til umboðsmanns skuldara

Síðastliðin tvö ár hefur þeim sem leita úrræða hjá umboðsmanni skuldara vegna greiðsluerfiðleika fjölgað um tæp 25% og voru árið 2017 tæplega 1.440. Mest hefur fjölgað í aldurshópnum 18 – 29 ára og hlutfall smálána af heildarskuldum þessa aldurshóps hefur aukist umtalsvert. Fjárhæðirnar sem þessi aldurshópur skuldar vegna smálána fara einnig hækkandi. Árið 2016 nam fjárhæð smálána að jafnaði um 400.000 kr. hjá umsækjendum um greiðsluaðlögun en var tæpar 600.000 kr. árið 2017.

Mjög hefur dregið úr vægi fasteignalána sl. tvö ár hjá þeim sem sækja um úrræði hjá umboðsmanni. Á sama tíma hefur hlutfall umsækjenda með smálán farið úr 13% í 43%.

Markhópur í veikri stöðu

Í greiningu umboðsmanns kemur fram að meirihluti þess unga fólks (18 – 29 ára) sem sótti um greiðsluaðlögun á liðnu ári bjó í leiguhúsnæði, þar af allmargir í félagslegu leiguhúsnæði. Aðeins 2,8% bjuggu í eigin fasteign og margir bjuggu í foreldrahúsum. Þorri hópsins hafði ekki lokið menntun umfram grunnskólapróf, fæstir voru í skóla, aðeins um 34% hópsins voru í vinnu og rúmur fjórðungur ungmennanna voru örorkulífeyrisþegar.

Umboðsmaður bendir á að markaðssetning smálánafyrirtækjanna beinist að ungu fólki og hópurinn sé í veikri stöðu. Einfalt er að sækja um lánin á vefnum, aðeins þarf að gefa upplýsingar um kennitölu og bankareikning og einu skilyrðin fyrir lánveitingu er að vera ekki á vanskilaskrá.

Það verður að segjast sem er að starfsemi smálánafyrirtækja þrífst á gráu svæði, lagaramminn er ófullnægjandi og hún er ekki eftirlitsskyld á sama hátt og fjármálafyrirtæki.

Aðkallandi að bregðast við

Það er orðið aðkallandi að bregðast við til að sporna við því að ungt fólk í hópi þeirra tekjulægstu

lendi í skuldavanda vegna lána sem það tekur í fljótræði án þess að gera sér grein fyrir kostnaðinum og sjá fyrir afleiðingarnar. Við þurfum að beina sjónum að starfsemi smálánafyrirtækjanna varðandi umgjörð og eftirlit og auka þarf fræðslu um fjármál svo ungt fólk verði betur í stakk búið til að taka fjárhagslegar ákvarðanir.

Á fundi ríkisstjórnar í gær kynnti ég greiningu umboðsmanns sem dregur fram þessa alvarlegu stöðu. Aðgerða er þörf og mikilvægt að taka höndum saman, þvert á ráðuneyti og málaflokka og sem fyrst til að koma í veg fyrir að staðan versni enn frekar.

 

Ásmundur Einar Daðason

Félags – og jafnréttismálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2018

 

Categories
Greinar

Samgöngur á sjó

Deila grein

23/02/2018

Samgöngur á sjó

Fjölmennur íbúafundur í Vestmannaeyjum í gærkvöldi var enn og aftur til marks um það að samgöngur til og frá Eyjum eru mál málanna. Samgöngur milli lands og Eyja eru langhlaup sem halda þarf áfram.  Finna verður varanlega lausn sem allir geta sætt sig við.

Í mínum huga var mikilvægt að hitta og hlusta á íbúana sem eiga allt sitt undir að leiðin á milli lands og Eyja sé sem skilvirkust. Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða þess að samfélagið geti þrifist á eðlilegan hátt í atvinnumálum, menningarmálum, í öryggi og þróun byggðarlagsins. Samgöngur hafa gríðarlega mikil áhrif á íbúaþróun í Eyjum og hvort unga fólkið vill koma heim eftir nám og setjast þar að.

Á fundinum komu sjónarmið heimamanna skýrt fram, bæði hvað varðar nafnið á nýrri ferju og kröfur um að bæta þurfi þjónustu við íbúaana í samgöngum á sjó. Ýmsa þætti þarf að skoða með opnum huga til að koma til móts við þarfir íbúanna, fyrirtækja og ferðamanna.

Kostnaður getur verið hár, sérstaklega fyrir fjölskyldur, ef sigla þarf til og frá Þorlákshöfn. Þess vegna hef ég hug á því að tryggja sama fargjald, óháð því í hvora höfnina er siglt.

Markmiðið er að leiðin á milli lands og Eyja sé skilvirk og greið með þarfir íbúanna að leiðarljósi. Í því augnamiði erum við að skoða fjóra kosti á rekstrarformi.

Valkostirnir eru:

 1. Vegagerðin reki ferjuna í upphafi til reynslu þar sem ýmsir óvissuþættir eru í rekstri.
 2. Útboð til tveggja ára.
 3. Útboð til fimm ára.
 4. Samstarf við Vestmannaeyjabæ.

Leið eitt, að Vegagerðin reki ferjuna um skamma hríð færir okkur vitneskju um hvernig nýtt skip reynist og gefur færi á að þróa ýmsa þætti í samræmi við þarfir íbúanna.

Leið tvö er einnig vænleg en leið þrjú er síst. Almenna reglan hjá ríkinu er að bjóða út almenningssamgöngur og því skiptir máli á hvaða forsendum  slíkir samningar eru byggðir. Ein mikil forsenda er til að mynda sama fargjald, óháð því hvaðan siglt er.

Að mínu mati gæti leið fjögur komið til greina þegar við erum búin að afla þekkingar á skipinu og Landeyjahöfn er komin í betra ástand en nú er.

Því er brýnt að Landeyjahöfn og nýja ferjan finni taktinn saman. Halda þarf áfram að hanna höfnina og þróa. Skynsamlegt gæti reynst að fá nýjan óháðan aðila til að taka út höfnina, eftir að reynsla er komin á nýja ferju.

Að lokum langar mig að þakka Vestmannaeyingum fyrir góða þátttöku og málefnalegan fund, sem og bæjaryfirvöldum fyrir gott samstarf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist í Eyjafréttum, þann 22.  febrúar 2018

Categories
Greinar

Myndlist er skapandi afl

Deila grein

22/02/2018

Myndlist er skapandi afl

Myndlistin gegnir mikilvægu hlutverki í þjóðlífinu, hvort sem er á heimilum, á vinnustöðum eða í hinu opinbera rými. Hún hreyfir við okkur, vekur spurningar og gleður augað. Það yrði vissulega fátæklegt um að litast ef hún væri ekki til staðar.

Listin er löng en lífið er stutt. Á okkar lífsferli njótum ekki aðeins þeirrar listar sem er sköpuð á okkar tímum, heldur einnig þess sem fyrri tímar hafa skilið eftir okkur til handa, til að læra af, njóta og byggja enn frekar á til framtíðar.

Hlutverk stjórnvalda á sviði myndlistar er almennt að reyna að skapa þeim sem vilja helga sig listinni eins gott starfsumhverfi og kostur er hverju sinni. Að frátöldum rekstri veigamikilla stofnana eins og Listasafni Íslands lýtur hlutverk ríkisins á þessu sviði einkum að því að búa í haginn fyrir starf sem aðrir eiga frumkvæði að og stuðla að því eftir föngum að slíkt frumkvæði fái notið sín. Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í skapandi samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að efla umhverfi menningar og skapandi greina og það munum við gera.

Til að vekja athygli á mikilvægi skapandi myndlistar verða íslensku myndlistarverðlaunin afhent í fyrsta sinn í dag, til að fagna því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi og til að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra. Með þessum viðburði er fram haldið þeirri tilraun sem hófst með afhendingu svonefndra

Sjónlistarverðlauna fyrir um áratug síðan, enda er vert að myndlistin, líkt og aðrar listgreinar, hafi tækifæri til að fagna því sem vel er gert.

Í myndlistinni eru það myndlistarmennirnir sem eru hið skapandi afl. Við óskum þeim til hamingju með daginn og þökkum mikilsvert framlag þeirra til íslenskrar menningar og þjóðlífs.

 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Menntamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu, þann 22. febrúar 2018

 

Categories
Greinar

Vatnajökulsþjóðgarður á heimsminjaskrá

Deila grein

21/02/2018

Vatnajökulsþjóðgarður á heimsminjaskrá

Íslensk stjórnvöld vinna að því að Vatnajökulsþjóðgarður fari á heimsminjaskrá UNESCO og verður tilnefning þess efnis send inn 1.febrúar næstkomandi. Heimsminjasamningur UNESCO var samþykktur árið 1972 og þykir hafa heppnast vel. Af 195 ríkjum sem eiga aðild að UNESCO hafa 193 fullgilt hann sem er mjög hátt hlutfall.

Það sem er sérstakt við heimsminjasamninginn er að í honum er fjallað um verndun náttúru- og menningarminja í einum samningi. Þó svo heimsminjaskráin sé sá hluti samningsins sem hvað mestrar athygli nýtur meðal almennings, þá fjallar hann um margt annað, m.a. skuldbindingar ríkja til að gæta vel að menningar- og náttúruarfi sínum í hvívetna, hvort sem minjarnar eru þýðingarmiklar fyrir nánasta umhverfið, landið allt eða heiminn.

Krefjandi ferli

Það eru mörg atriði sem þarf að huga að til að komast á heimsminjaskrána. Skila þarf tilnefningu til heimsminjaskrifstofu UNESCO í París fyrir tiltekna dagsetningu og er tilnefningunni ætlað að sannfæra heimsminjanefndina um að viðkomandi staður sé einstakur á heimsvísu. Alþjóðleg samtök sérfræðinga á sviði menningarminja eða náttúruminja meta síðan staðina og skila um þá skýrslu til heimsminjanefndarinnar. Allt það ferli tekur minnst hálft annað ár en þá vonandi tekur nefndin jákvæða ákvörðun. Þess vegna bindum við vonir við sumarið 2019.

Ísland fullgilti heimsminjasamninginn í desember 1995. Frá upphafi hafa mennta- og menningarmálaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem bera ábyrgð á samningnum hér á landi unnið náið saman að innleiðingu hans og hefur það vakið athygli í alþjóðasamfélaginu. Nú þegar eru tveir staðir á Íslandi á heimsminjaskrá UNESCO, annars vegar Þingvellir (2004) og hins vegar Surtsey (2008).

Tækifæri samfélagsins

Það eru mörg tækifæri fólgin í því að efla þjóðgarðinn með þessum hætti, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna í þjóðgarðinum og umhverfi hans. Að hafa stað á heimsminjaskrá UNESCO innan sinna vébanda er um allan heim talin óskastaða fyrir sérhvert sveitarfélag og komast færri að en vilja. Ég efa ekki að byggðirnar í nágrenni garðsins og umhverfis hann munu styrkjast komist þjóðgarðurinn á heimsminjaskrána.

Ég vil þakka þáverandi ráðherrum Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að setja af þessa vinnu árið 2016. Síðast en ekki síst vil ég þakka öllu því fólki sem vann á metnaðarfullan hátt að gerð tilnefningarinnar. Ég er full bjartsýni á að Vatnajökulsþjóðgarður bætist við heimsminjaskránna árið 2019 og verði þar að leiðandi þriðji staðurinn á Íslandi sem fer á heimsminjaskrá UNESCO.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Menntamálaráðherra

Categories
Greinar

Fjármálalæsi er grunnfærni

Deila grein

21/02/2018

Fjármálalæsi er grunnfærni

Fjármálalæsi er grunnfærni sem er mikilvæg samfélagi okkar. Ljóst er að gott fjármálalæsi skilar sér í betri ákvarðanatöku einstaklinga í fjármálum og stuðlar að fjármálastöðugleika. Markmiðið er að efla  fjármálalæsi til þess að einstaklingar séu í betri aðstöðu að meta fjárhagslegastöðu sína og taka upplýstar ákvarðanir í kjölfarið. Lífsgæði verða meiri og því er mikilvægt  að auka veg fjármálalæsis í íslenska menntakerfinu.

Nýverið tók ég því þá ákvörðun að Íslandi yrði með í valkvæðum hluta PISA-könnunarinnar árið 2021 sem snýr að fjármálalæsi. PISA er umfangsmikil alþjóðleg langtímarannsókn á vegum Efnahags- og framfærastofnunarinnar á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúrufræði og læsi á stærðfræði. Auk þessara kjarnagreina geta löndin valið um að taka þátt í nokkrum viðbótarkönnunum sem eru annað hvort í formi spurningalista eða prófs. Fjármálalæsi er eitt af þessum valkvæðu sviðum og hefur verið í boði síðan árið 2012. 15-18 lönd hafa tekið þátt í þeim hluta PISA-könnunarinnar. Tilgangur þessa hluta PISA er að meta hæfni nemenda til að beita fjármálalegri þekkingu sinni og leikni í raunverulegum aðstæðum, þar með talið að taka fjármálalegar ákvarðanir.

Það er mikilvægt að búa börnin okkar undir þátttöku í sífellt flóknari heimi, þar sem örar tæknibreytingar og breytileg neyslumynstur eru hluti af daglegi lífi fólks. Við höfum séð hraða þróun í  verslun og fjármálaþjónustu þar sem neytendum býðst að greiða fyrir vörur og þjónustu á fjölbreyttari máta en áður hefur þekkst. Með nokkrum aðgerðum í snjallsímanum geta neytendur til dæmis hækkað yfirdráttarheimildina, skipt greiðslukortagreikningnum og keypt varning með mismunandi greiðslumiðlunum. Það eru óneitanlega margvísleg þægindi sem fylgja þjónustu sem þessum en áskoranirnar eru sömuleiðis af ýmsum toga. Þægindin geta verið skammvin ef greitt aðgengi að lánsfé verður til þess að fólk steypir sér í óhóflegar skuldir umfram greiðslugetu. Ungt fólk þarf að læra að stjórna áhættu, vera í stakk búið til að gera áætlanir til framtíðar geta greint mismunandi valkosti í fjármálum. Skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum á fyrri árum æviskeiðsins geta skilað sér margfalt til baka inn í efri árin. Það er þess vegna sem ég legg jafn ríka áherslu á að prófa fjármálalæsi ungs fólks með jafn viðamiklum hætti og PISA prófin eru. Þannig fáum við líka samanburð á hvar æska okkar stendur í fjármálalæsi miðað við önnur ríki. Fjármálalæsi er mikilvæg grunnfærni í hverju þjóðfélagi og við ætlum okkur að efla þá grunnfærni.

 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Menntamálaráðherra

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Categories
Greinar

Umferðaröryggi

Deila grein

21/02/2018

Umferðaröryggi

Umferðarslys eru harmleikur og eru banaslys og alvarleg slys í umferðinni alltof mörg. Árið 2017 voru alvarleg slys 145 talsins, minniháttar slys 711 og árið þar á undan voru alvarleg slys 183 og minni háttar 785. Reiknað hefur verið að hvert og eitt alvarlegt umferðarslys kostar kringum 90 milljónir króna, slys með minni meiðslum um 30 milljónir og að samfélagslegur kostnaður vegna banaslysa sé yfir 600 milljónir króna. Ofan á þetta bætist hinn mannlegi harmleikur sem slysin hafa í för með sér og verður aldrei metinn í peningum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggisjónarmiða.

Á þessu ári er áætlað að verja auknu fé til aðgerða á sviði umferðaröryggis. Aðgerðirnar snerta fræðslu og eftirlit með okkur ökumönnum, aðgerðir á vegakerfinu og rannsóknir á hegðun okkar í umferðinni. Markmiðið er að fækka umferðarslysum.

Í mínum huga er alveg ljóst að hver króna sem fer til þess að auka umferðaröryggi okkar skilar sér. Er þá sama hvert litið er. Eftirlit lögreglu nær þeim sem brjóta umferðarreglur og kennir okkur lexíu, fræðslan nær til allra aldurshópa vegfarenda og stuðlar að því að gera okkur að betri vegfarendum, aðgerðir og endurbætur á vegum miða að því að minnka áhættu og draga úr afleiðingum umferðarslysa og færa okkur vitneskju um hvar við getum bætt úr.

Þá eru úttektir EuroRAP áhugaverðar sem felast í góðum ábendingum um hvað betur má fara til að bæta öryggi okkar allra, en þær eru byggðar á því að vegir landsins eru skoðaðir með tilliti til öryggisþátta.

Nýjar eftirlitmyndavélar

Umferðaröryggisáætlun er sett fram með samgönguáætlun og nú er til skoðunar aðgerðaáætlun áranna 2018 til 2021. Eitt fjárfrekasta einstaka verkefnið nú er að endurnýja eftirlitsmyndavélar með ökuhraða og er gert ráð fyrir að kaupa nokkrar nýjar myndavélar á hverju þessara fjögurra ára. Undanfarin ár hafa verið skráð milli 20 og 45 þúsund brot á ári hverju og eykst fjöldinn í réttu hlutfalli við fjölgun eftirlitsmyndavéla. Þá má nefna að innheimt sektarfjárhæð vegna hraðakstursbrota eftir myndavélaeftirlit námu 217-293 milljónum króna árin 2015-2017.

Meðalhraðaeftirlit tekið upp

Verið er að undirbúa nýjung varðandi hraðaeftirlit sem er fólgin í því að taka upp myndavélaeftirlit með meðalhraða. Eru þá tvær eftirlitsmyndavélar settar upp á ákveðnum vegarkafla og tími ökutækja mældur á milli vélanna. Með því er hægt að ná þeim sem freistast til að gefa í um leið og þeir aka framhjá myndavél og halda að þeir sleppi ef þeir hægja á sér við næstu myndavél. Hafi þeir verið grunsamlega fljótir á milli véla er nokkuð ljóst að þeir hafa farið yfir leyfileg hraðamörk. Slíkt meðalhraðaeftirlit hefur gefið góða raun í nágrannalöndum.

Meira aðhald

Annað atriði sem veitir okkur aðhald í umferðinni eru sektirnar sem við fáum ef við erum staðin að því að brjóta umferðarreglur. Ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum verður bráðlega gefin út. Lágmarkssektarupphæð verður þá 20 þúsund krónur en var áður 5 þúsund kr. Undantekning er þó sekt við því að hafa ekki ökuskírteini meðferðis, hún verður 10 þúsund krónur. Þá mun sekt fyrir að nota farsíma við stýrið án handfrjáls búnaðar hækka í 40 þúsund krónur. Sektir fyrir að brjóta umferðarlög eiga að koma við kaunin á okkur enda er það dauðans alvara að virða ekki þessar reglur.

Þessi breyting tekur gildi 1. maí og er ég sannfærður um að þetta þýðir að við hugsum okkur tvisvar um áður en við förum á svig við reglurnar. Ég er nokkuð viss um að yfirleitt gerum við okkur mjög vel grein fyrir því ef við brjótum umferðarreglur, hvort sem er að aka yfir leyfilegum hámarkshraða, nota símann við stýrið eða aka gegn rauðu ljósi. Við teljum bara að reglurnar eigi ekki við okkur.

Þrátt fyrir allar þessar aðgerðir er það fyrst og fremst við sjálf sem ráðum því hvaða árangri við náum í umferðaröryggi og slysavörnum. Lítum í eigin barm.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

 

Categories
Greinar

Húsbyggingar á landsbyggðinni geta verið hagkvæmar

Deila grein

19/02/2018

Húsbyggingar á landsbyggðinni geta verið hagkvæmar

Nú kunna einhverjir lesendur Morgunblaðsins að hvá við. Hefur ekki einmitt verið sagt að nær ekkert hafi verið byggt af nýju íbúðarhúsnæði á þéttbýlissvæðum utan suðvestur-hornsins síðustu ár. Víst er það svo en heiti þessarar greinar minnar, sem er önnur af þremur sem ég rita um húsnæðismál á landsbyggðinni, vísar til þeirrar staðreyndar að margar þjóðir sem glímt hafa við sams konar vanda hafa fundið á honum lausnir. Ég ætla í þessari grein að fjalla um þær leiðir sem aðrar þjóðir hafa beitt og hvað sé til ráða þegar nýbygging íbúða hefur stöðvast á mörgum svæðum í dreifbýli þrátt fyrir að þau búi við fulla atvinnu og næga eftirspurn eftir húsnæði?

Ýmiss konar inngrip stjórnvalda á húsnæðismarkaði og húsnæðisstuðningur við almenning af fjárhagslegum toga tíðkast hvarvetna í hinum vestræna heimi. Hér á landi hefur stuðningur hins opinbera falist í lánveitingum Íbúðalánasjóðs, í formi vaxtabóta, húsnæðisbóta og ýmiss konar skattaafslátta sem veittir eru fasteignaeigendum. Þessi niðurgreiðsla á húsnæðiskostnaði er réttlætt með því að það sé hagur okkar allra að fólk hafi húsaskjól enda er húsnæði, rétt eins og fæði og klæði, ein af grunnþörfummannsins. Raunar hafa sumar þjóðir gengið enn lengra síðustu ár og skilgreina nú aðgang að húsnæði sem grundvallarmannréttindi.

Eins og fram kom í grein minni, hér á þessum sama stað þann 12. febrúar síðastliðinn, hefur verið mikill húsnæðisskortur á landinu öllu undanfarin ár en einna alvarlegastur er vandinn þó á landsbyggðinni. Þrátt fyrir að íbúum þar hafi fjölgað mikið hefur lítil uppbygging átt sér stað síðustu árin. Á sumum landsvæðum, líkt og á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, hefur vart verið byggt síðan um aldamótin og á Austurlandi hefur nær ekkert íbúðarhúsnæði verið byggt frá árinu 2008. Dæmi eru um að þessi skortur á íbúðarhúsnæði hafi hamlað atvinnutækifærum og að öflug fyrirtæki í minni byggðum missi starfsfólk einfaldlega vegna þess að nægilega hentugt húsnæði er ekki til staðar.

Sams konar vandi er til staðar á dreifbýlum svæðum í Noregi. Í skýrslu norsku Byggðastofnunarinnar frá árinu 2014, sem fjallar um átak í húsnæðismálum sveitarfélaga, segir m.a. að húsnæðismarkaður í um helmingi sveitarfélaga í Noregi sé „lítill, ótryggur eða staðnaður“. Þessar aðstæður hafa á mörgum stöðum haft skaðleg áhrif á atvinnulíf, enda getur fólk ekki flust þangað sem ekkert húsnæði er til staðar. Ástæðurnar eru sagðar vera eftirfarandi: Lágt markaðsvirði íbúða sem gerir það að verkum að erfitt er að fá fjármögnun, tiltrú á hagnað af sölu er lítill þar sem húsnæðismarkaður er staðnaður og verð eru lág og margar íbúðir eru tómar og nýttar sem frístundahúsnæði en ekki til leigu eða sölu á almennum markaði. Þá er leiguverð félagslegra íbúða yfirleitt of lágt. Byggingaraðilar sjá þá ekki hag sinn í því að byggja íbúðir til útleigu á þessum stöðum. Það er áhugavert að skoða hvernig norska ríkið í samvinnu við sveitarfélögin hefur tekist á við þennan vanda sem minnir um margt á stöðuna hér á landi. Árið 2009 voru settar af stað þróunaráætlanir í húsnæðismálum sveitarfélaga í Noregi og leiddi norski Husbanken, sem er þarlend systurstofnun Íbúðalánasjóðs, samræmingu þeirra. Husbanken hefur gert fjölmargar samvinnusamninga, sem meðal annars taka mið af stærð og mismunandi framboði húsnæðis innan sveitarfélaga. Á grundvelli þeirra eru sett af stað uppbyggingarverkefni sem njóta hagkvæmrar lánafyrirgreiðslu. Sveitarfélagið Hamarøy tók fyrir nokkrum árum þátt í einu slíku verkefni. Mikill skortur var á íbúðarhúsnæði bæði fyrir almennan markað og fyrir skjólstæðinga félagsþjónustunnar í Hamarøy. Sveitarfélagið glímdi við slæma fjárhagsstöðu og gat því ekki staðið sjálft að uppbyggingunni en fékk byggingaraðila til liðs við sig á grundvelli útboðs. Niðurstaða þeirrar samvinnu var sú að jafnmargar íbúðir voru byggðar fyrir skjólstæðinga félagsþjónustu sveitarfélagsins og fyrir almennan markað. Byggingaraðilinn fékk styrk frá Husbanken á grundvelli sérstaks landsbyggðarverkefnis til byggingar á félagslegu íbúðunum og sveitarfélagið leigir þær íbúðir í a.m.k. 20 ár. Byggingaraðilinn gat síðan sjálfur ákveðið hvernig hann ráðstafaði restinni af íbúðunum. Þremur og hálfu ári síðar höfðu rúmlega 100 íbúðir verið byggðar, án þess að sveitarfélagið hafi sjálft haft kostnað af byggingu íbúðanna. Annað sveitarfélag, Gildaskål, seldi byggingaraðila gamla skólabyggingu sem breyta mátti í íbúðarhúsnæði. Byggingaraðilinn fékk styrk vegna leiguíbúðanna, en ekki vegna íbúðanna sem hann seldi á almennum markaði. Í báðum tilvikum varð fólksfjölgun í sveitarfélögunum, frekari uppbygging fór af stað og bjartsýni jókst á fasteignamarkaðnum sem áður var metinn ótryggur eða staðnaður. Þá eru í Noregi dæmi um að sveitarfélög hafi auglýst styrki og lán til standsetningar á húsnæði, gegn því að eigandi húsnæðis flytji þangað sjálfur eða að húsnæðið sé leigt út til langs tíma. Þetta hefur gefið góða raun í sveitarfélögum þar sem mikið er af tómum íbúðum sem nýttar eru sem frístundahúsnæði um leið og mikill skortur er á leiguhúsnæði.

Í Finnlandi hefur ARA, hin finnska systurstofnun Íbúðalánasjóðs, veitt styrki til fólks í landsbyggðarsveitarfélögum til þess að breyta eldra húsnæði og gera það hentugra fyrir eldri borgara svo fólk geti búið lengur í húsum sínum og þurfi ekki að flytja um langan veg á elliheimili. Það er til að mynda hægt að fá styrki til þess að setja upp lyftu í eldri húsum og getur hámarksstyrkur numið 45% af kostnaði við framkvæmdina. Á árunum 1993-2016 hefur ARA veitt um 3.700 slík lyftulán sem hafa verið þó nokkur lyftistöng fyrir húsnæðisverð og nýtingu í dreifðari byggðum Finnlands.

Í Svíþjóð eru veittir sérstakir styrkir til uppbyggingar leiguhúsnæðis á svæðum þar sem mikil skortur er á húsnæði. Kerfið er ekki ósvipað almenna íbúðakerfinu sem komið hefur verið á fót á Íslandi þar sem Íbúðalánasjóður og sveitarfélög veita stofnframlög til uppbyggingar leiguheimila. Í Svíþjóð er jafnframt til skoðunar um þessar mundir að ríkið komi að því að lána til bygginga og endurbóta á húsnæði á svæðum þar sem framboð lánsfjár frá hefðbundnum fjármálastofnunum er lítið.

Samkvæmt upplýsingum frá þessum helstu nágrannaþjóðum okkar hefur útlánatap verið í lágmarki vegna þessara sérstöku lána og stuðningsúrræða. Húsnæðisstuðningur sem veittur er vegna markaðsbrests á ákveðnum svæðum er talinn hafa gefið góða raun. Þetta er hughreystandi að heyra en það er staðreynd að íslensku landsbyggðirnar glíma nú við alvarlegan markaðsbrest á húsnæðismarkaði. Atvinnutækifærin eru til staðar, fólksfjölgun er mjög víða um land en uppbyggingaráform íbúðarhúsnæðis hafa engu að síður látið á sér standa. Allt þjóðfélagið geldur fyrir það þegar ójafnvægi ríkir. Því þarf að bregðast við um leið og þess er að gætt að stuðla ekki að óhóflegum og óskynsamlegum fjárfestingum. Landsbyggðin hefur setið eftir í úrræðum stjórnvalda síðustu misseri. Unnið er að undirbúningi sérstakra úrræða til að örva íbúðaframkvæmdir utan suðvestur-hornsins. Nái þau fram að ganga og skili þau sambærilegum árangri og náðst hefur í Noregi og víðar, munu stjórnvöld hafa stigið mikilvægt skref til að uppfylla skyldur sínar gagnvart því að tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna.

Ásmundur Einar Daðason

Félags – og jafnréttismálaráðherra.