Categories
Greinar

Betri kjör fyrir íslenska námsmenn í Bretlandi

Deila grein

30/04/2019

Betri kjör fyrir íslenska námsmenn í Bretlandi

Öflugt alþjóðlegt samstarf á sviði mennta- og vísindamála er afar mikilvægt. Besta leiðin til þess að stuðla að auknum framförum og uppbyggingu er með menntun og áreiðanlegum upplýsingum. Fyrir okkur, sem og aðrar þjóðir, er brýnt að þekking fái að ferðast og hafa áhrif til góðs.

Á fundi mínum með Chris Skidmore, ráðherra háskóla-, nýsköpunar- og vísindamála í Bretlandi ræddum við meðal annars farsæl samskipti landanna á sviði mennta- og rannsókna, ekki síst í ljósi fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ísland og Bretland eiga náið samstarf á sviði mennta- og vísindamála en síðan 2014 hafa rúmlega 2.000 nemendur í ríkjunum farið í nemenda- og starfsmannaskipti í gegnum Erasmus+ áætlunina. Þá er Bretland eitt helsta samstarfsland Íslands á vísindasviðinu í Sjóndeildarhring 2020 (e. Horizon 2020), áttundu rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að jafnræði ríki meðal landa á evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að skólagjöldum í breska háskóla eftir Brexit. Þetta myndi þýða mögulega lækkun á skólagjöldum fyrir íslenska námsmenn við breska háskóla en sem stendur greiða íslenskir nemendur hærri skólagjöld við breska háskóla en námsmenn frá ríkjum Evrópusambandsins.

Það er vilji beggja landa að efla samstarf á sviði mennta- og vísindamála, óháð Brexit. Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands og eitt helsta samstarfsland okkar í nemendaskiptum. Ég tel að hægt sé að gera enn betur þar og því lagði ég áherslu á að ræða sérstaklega lækkun skólagjalda fyrir íslenska námsmenn í breskum háskólum. Slíkt getur fjölgað íslenskum nemendum sem velja að læra í Bretlandi og eflt samband ríkjanna enn frekar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl 2019.

Categories
Greinar

Uppbygging skólastarfs á Suðurnesjum

Deila grein

27/04/2019

Uppbygging skólastarfs á Suðurnesjum

Húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja verður stækkað en skrifað var undir samning þess efnis af fulltrúum sveitarfélaga í vikunni. Viðbyggingin mun hýsa félagsrými nemenda og stórbæta aðstöðu þeirra. Stjórnvöld leggja mikla áherslu á að efla framhaldsskólastigið í landinu en framlög til þess í ár nema um 35 milljörðum króna en til samanburðar námu þau um 30 milljörðum árið 2017. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024 er gert ráð fyrir að þessi hækkun haldi sér. Við viljum að nemendur um allt land eigi greitt aðgengi að fjölbreyttri og framúrskarandi menntun og námsaðstöðu þar sem hver og einn getur fundið nám við sitt hæfi.

 

Stöðug framþróun skólastarfs 

Fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum hefur verið í stöðugri uppbyggingu frá stofnun árið 1976, en hann var annar fjölbrautaskólinn sem byggður var hér á landi. Nemendur við skólann eru rúmlega 830, á starfs-, bók- og verknámsbrautum. Mikið framboð er af öflugum og fjölbreytilegum námsleiðum og mikilvægt fyrir hvert byggðarlag að þar sé öflugt skólastarf. Það hefur verið mikil þörf á uppbyggingu við fjölbrautaskólann. Á þessu svæði hefur orðið mikil fólksfjölgun á síðustu árum og það er mikilvægt að skólasamfélagið geti tekið við þeim sem vilja stunda nám og boðið upp á góða aðstöðu. Því er afar ánægjulegt að hægt sé að bæta nemendaaðstöðuna en hún er hjartað í hverjum skóla.

 

Tækifærin eru til staðar 

Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf þar sem til staðar eru störf fyrir menntað fólk sem stuðlar að nýsköpun og þróun. Fjórða iðnbyltingin er hafin og hún felur í sér sjálfvirknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og samfélags. Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur bætir einnig námsframvindu. Námsframboð á framhaldsskólastiginu er fjölbreytt og sérstaklega í starfs- og tækninámi. Þau tækifæri sem bjóðast að námi loknu eru bæði mörg og spennandi enda mikil spurn eftir slíkri menntun í atvinnulífinu. Ég hvet alla þá sem hyggja á nám í framhaldsskóla að kynna sér vel nám og störf í iðn- og tæknigreinum því margbreytileiki þeirra mun án efa koma flestum á óvart. Það er ljóst að framtíðin er full af tækifærum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. apríl 2019.

Categories
Greinar

„Dáið er allt án drauma“

Deila grein

26/04/2019

„Dáið er allt án drauma“

Á dögunum var opnuð eftirtektarverð sýning í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni þar sem þess er minnst að nú eru 100 ár liðin frá útkomu fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness, Barni náttúrunnar. Yfirskrift sýningarinnar er »Að vera kjur eða fara burt?« en höfundurinn ungi valdi að kljást við þá eilífðarspurningu í æskuverki sínu en samband Íslands við umheiminn er eitt helsta viðfangsefni sögunnar.

Ég hvet fólk til þess að kynna sér þessa sýningu því hún er forvitnilegur aldaspegill, þar er leitast við að fanga tíðaranda og sögulegt samhengi, menningarlífið, bæjarbraginn og bakgrunn höfundarins sem þó var vart af barnsaldri árið 1919. Íslenskt samfélag var í örri mótun og þegar við hugsum til þess í dag hverjir það voru helst sem skilgreindu okkar samfélag áratugina á eftir þá leitar hugurinn ekki síst til skálda og listamanna.

Stórhuga menn
Í bók sinni Skáldalífi skrifar Halldór Guðmundsson um starfsbræður Halldórs Laxness, heimsmanninn Gunnar Gunnarsson og heimalninginn Þórberg Þórðarson – tvo aðra bændasyni sem dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og framtíð þjóðar. Það hefur sitthvað verið skrifað, rýnt og rannsakað um verk og lífshlaup þessara þriggja og þeir á köflum skilgreindir út frá því sem aðgreindi þá og sameinaði. Mér finnst einkar athyglisvert að hugsa til þess hvers konar samfélag mótaði þessa menn, hvað nærði metnað þeirra, sköpunarþrá og hugsjónir á sínum tíma.

Raddir unga fólksins
Bernskuverk Halldórs Laxness bar með sér fyrirheit og verkinu var tekið með nokkurri eftirvæntingu þótt ekki væri allir jafn hrifnir. Saga þessa verks er að mínu mati góð áminning þess fyrir okkur öll að huga vel að bernskuverkum. Að fagna þeim og hlusta á raddir unga fólksins okkar. Þó að hinn sautján ára Halldór Guðjónsson hafi verið fremur óvenjulegur ungur maður, og kominn til meiri þroska en flestir jafnaldrar hans þá og ekki síður nú, þá var hann ungmenni með erindi við heiminn. Það varð gæfa landsmanna og lesenda um allan heim að höfundurinn auðgaði með verkum sínum íslenskar bókmenntir og þar með bókmenntir heimsins með stílsnilli, hugviti og innsýn, og gerir enn.

Alþjóðleg verðlaun
Í dag er haldið alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld, húsi Vigdísar. Dagskráin er liður í Bókmenntahátíð í Reykjavík sem hófst í gær en á þinginu verður tilkynnt um hver hlýtur alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í fyrsta sinn. Verðlaunin verða veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa auk forsætisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2019.

Categories
Fréttir

Gleðilega páskahátíð

Deila grein

17/04/2019

Gleðilega páskahátíð

Vegna páskaleyfis verður skrifstofa Framsóknar lokuð frá 18. apríl til og með 22. apríl. Opnum aftur þriðjudaginn 23. apríl.
Ef þið viljið koma að fyrirspurnum eða upplýsingum um flokksstarf má senda erindið á netfangið framsokn@framsokn.is.
Skrifstofa Framsóknar óskar landsmönnum öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Skrifstofa Framsóknar

Categories
Greinar

Lýðskólar á Íslandi

Deila grein

15/04/2019

Lýðskólar á Íslandi

Á dögunum mælti ég fyrir frumvarpi sem festa mun í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla en markmiðið með nýja frumvarpinu er að renna stoðum undir starfsemi þeirra.

Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu, og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina.

Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla og á forsvarsfólk þeirra lof skilið fyrir frjótt og gott starf. Skólarnir hafa gætt nærsamfélög sín auknu lífi og gefið nemendum úr ýmsum áttum tækifæri til að dvelja þar.

Í frumvarpinu er kveðið á um hvaða skilyrði fræðsluaðilar þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu til að starfa undir heitinu lýðskóli. Þar eru meðal annars sett fram skilyrði um stjórnskipan lýðskóla, lágmarksstarfstíma og lágmarksfjölda nemenda. Einnig eru ákvæði um forvarnir og réttindi nemenda, aðbúnað og öryggi, hæfni starfsfólks og fyrirkomulag náms. Þá er mælst til þess að nám í lýðskólum nýtist nemendum til frekari verkefna eða til áframhaldandi náms, m.a. með aðferðum raunfærnimats, sem er þekkt aðferðafræði á vettvangi framhaldsskóla og framhaldsfræðslu.

Á þessum tímamótum verður mér hugsað hlýlega til Jónasar Jónssonar frá Hriflu, fyrrum menntamálaráðherra. Hann var talsmaður þess að hér á landi væri öflugt og fjölbreytt menntakerfi, þar sem meðal annars væri lögð áhersla á ræktun mannsandans og að nemendur gætu öðlast aukið sjálfstraust. Nýtt frumvarp um lýðskóla skapar svo sannarlega umgjörð utan um fjölbreyttari valkosti í íslensku menntakerfi og eykur líkurnar á að nemendur finni nám við hæfi.

Ég er virkilega ánægð með þær jákvæðu viðtökur sem frumvarpið hefur fengið á Alþingi og þann meðbyr sem ég finn með menntamálum í okkar samfélagi nú um stundir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2019.

Categories
Greinar

Samningar og samvinna

Deila grein

11/04/2019

Samningar og samvinna

Stór skref voru stigin við undirskrift lífskjarasamninga í vikunni sem aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um með stuðningi stjórnvalda. Þetta er liður í breiðri sátt til áframhaldandi lífskjara til rúmlega þriggja ára. Þessi samningur er ný nálgun á þeirri staðreynd að lífkjör á vinnumarkaði kemur við alla þjóðina og því verða stjórnvöld að vera í sama takti svo vel takist. Aðkoma stjórnvalda að lífskjarasamningi felur í sér fjölmargar leiðir sem slær taktinn með aðildarfélögum vinnumarkarins til að viðhalda stöðuleika.


Fjölskyldan í fyrirrúmi

Framsóknarmenn hafa lengi barist fyrir lengingu fæðingaorlofs og loks sjáum við hilla undir þessu markmiði. Fæðingarorlof lengist úr níu mánuðum í tíu mánuði í byrjun árs 2020 og í byrjun árs 2021 verður fæðingarorlof 12 mánuðir. Áfram verður horft til þess að hvort foreldri fyrir sig eigi sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs en hluti orlofsins verði til skiptanna. Foreldar lenda í tómarúmi milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og hefur það bæði skapað óvissu og tekjutap fyrir foreldra. Þarna er líka verið að svara ákalli sveitarfélaga sem hafa haft góðan vilja en stundum ekki getu til að brúa þetta bil. Á næsta ári eiga skerðingamörk barnabóta að hækka í 325 þúsund og eru þetta hvorutveggja ákvarðanir sem koma til með að nýtast fjölskyldufólki um allt land.


Húsnæðisliður út úr verðtryggingu

Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni. Að því skal stefna í þeirri sátt sem undir var ritað. Þetta er í samræmi við niðurstöðu starfshóps um  peningastefnu landsins þar sem segir að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Þetta ýtir undir stöðuleika á húsnæðismarkaði. Auk þess er komið inn á 13 úrræði í húsnæðismálum  til stuðnings húsnæðisúrræða bæði fyrir kaupendur og leigjendur með sérstakri áherslu á fyrstu kaup. Úrræðið nær einnig til þeirra sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár.

Sú sátt sem ritað var undir bar merki um vor á vinnumarkaði eftir kvíðvænlegan vetur sem einkenndist af óvissu og svartsýni. En það er öflugri forystusveit félaga á vinnumarkaði og framsýnni ríkisstjórn að þakka að vorið er komið víst á ný.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Categories
Fréttir

Fyrst íslenskra kvenna fyrir 60 árum

Deila grein

11/04/2019

Fyrst íslenskra kvenna fyrir 60 árum

Í gær voru 60 ár, upp á dag, frá því að Rannveig Þorsteinsdóttir varð fyrst allra íslenskra kvenna til að öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti Íslands.
Rannveig Þorsteinsdóttir var alþingismaður Framsóknarflokksins 1949 til 1953. Í Húsfreyjunni frá 1959 segir svo frá: „FÖSTUDAGINN 10. apríl gerðist sá atburður, að íslenzk kona lauk málflutningi í síðasta prófmáli sínu fyrir hæstarétti. Þessi kona var Rannveig Þorsteinsdóttir, sem öllum lesendum „Húsfreyjunnar” er vel kunn. Að loknum málflutningi, mælti forseti hæstaréttar, Árni Tryggvason, nokkur orð, lýsti því fyrir hönd réttarins, að málflutningurinn hefði verið fullnægjandi próflausn, óskaði Rannveigu til hamingju og bauð hana velkomna í hóp hæstaréttarlögmanna, einkum með tilliti til þess, að hún er fyrsta íslenzka konan, sem prófi þessu lýkur og hlýtur þessi réttindi.“
Í minningarorðum á Alþingi í janúar 1987 mælti forseti sameinaðs þings svo: „Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður og fyrrv. alþingismaður, andaðist á Reykjalundi í fyrradag, sunnudaginn 18. janúar, 82 ára að aldri.
Rannveig Þorsteinsdóttir var fædd 6. júlí 1904 á Sléttu í Mjóafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Þorsteinn sjómaður þar Sigurðsson bónda, síðast að Hestgerði í Suðursveit, Gíslasonar og Ragnhildur Hansdóttir bónda á Keldunúpi á Síðu Jónssonar.
Hún hóf nám í kvölddeild Samvinnuskólans 1922, settist í eldri deild skólans haustið 1923 og lauk burtfararprófi vorið 1924. Næsta vetur var hún í framhaldsdeild skólans. Tveimur áratugum síðar hóf hún að nýju skólanám, lauk stúdentsprófi utanskóla í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands vorið 1949. Héraðsdómslögmaður varð hún 1952 og hæstaréttarlögmaður 1959. Afgreiðslumaður Tímans var hún 1925-1936 og jafnframt stundakennari við Samvinnuskólann 1926-1933. Hún var bréfritari við Tóbaksverslun Íslands 1934-1946. Frá 1949 rak hún málflutningsskrifstofu í Reykjavík til 1974.
Rannveig Þorsteinsdóttir var í stjórn Kvenfélagasambands Íslands 1947-1963, formaður þess frá 1959, og hún var formaður Félags íslenskra háskólakvenna og Kvenstúdentafélags Íslands 1949-1957. Árið 1949 var hún kjörin alþingismaður Framsfl. í Reykjavík og sat á þingi til 1953, á fjórum þingum þess kjörtímabils, en áður hafði hún verið þingskrifari frá 1942 til 1948. Dómari í verðlagsdómi Reykjavíkur var hún frá 1950 nokkur ár. Hún sat oft sem varafulltrúi á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins á árunum 1951-1964. Hún var í happdrættisráði Háskóla Íslands 1951-1977, í útvarpsráði 1953-1956 og síðar nokkra mánuði milli alþingiskosninganna árið 1959 og í yfirskattanefnd Reykjavíkur var hún 1957-1963.
Rannveig Þorsteinsdóttir hóf störf sín að félagsmálum í ungmennafélagshreyfingunni og hún var síðar mörg ár í stjórn Ungmennafélags Íslands. Hún var áhugasöm um réttindi kvenna og í samtökum þeirra var hún skipuð til forustu. Í málflutningsskrifstofu hennar áttu konur stuðning vísan ef á þurfti að halda. Hún var forkur dugleg til allra verka og það er ekki allra að hverfa úr föstu starfi um fertugt og ljúka menntaskóla- og háskólanámi á skömmum tíma.
Nú eru liðnir rúmir þrír áratugir síðan hún hvarf af Alþingi eftir fjögurra ára setu. Störf sín hér vann hún með röggsemi og dugnaði svo sem önnur ævistörf. Síðustu æviárin hlaut hún þó að draga sig í hlé sökum vanheilsu.“
Frétt í Tímanum frá 15. apríl 1959:

Categories
Fréttir

Suðurnesin munu fljótt ná fyrri styrk!

Deila grein

10/04/2019

Suðurnesin munu fljótt ná fyrri styrk!

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir í yfirlýsingu, í dag, að Suðurnesin standi „mjög vel saman, traust er á milli fólks og gleði þrátt fyrir mótbyr. Ég er viss um það að Suðurnesin ná fljótt fyrri styrk.“
Unnið hefur verið að því af hálfu Reykjanesbæjar að kortleggja áhrifin af gjaldþroti WOW í góðu samstarfi við sveitarfélögin á Suðurnesjum.
Síðan segir Jóhann Friðrik, „við höfum átt fundi með ýmsum hagsmunaaðilum, sér í lagi bæjarstjóri og starfsmenn auk framkvæmdastjóra SSS og hafa viðtökur verið góðar og ljóst að ekki stendur á viðbrögðum. Öll þessi vinna er þverpólitísk og er ánægjulegt að finna þann mikla samvinnuanda sem ríkir meðal aðila.“

Categories
Greinar

Áframhaldandi lífskjarasókn

Deila grein

05/04/2019

Áframhaldandi lífskjarasókn

Nýr lífs­kjara­samn­ing­ur 2019-2022, sem aðilar vinnu­markaðar­ins hafa náð sam­an um og stjórn­völd styðja við, bygg­ir und­ir áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn á Íslandi. Samn­ing­ur­inn er í senn fram­sýnn og ánægju­leg afurð þrot­lausr­ar vinnu aðila vinnu­markaðar­ins í sam­vinnu við stjórn­völd und­an­farna mánuði. Aðgerðirn­ar eru viðamikl­ar og snerta marg­ar hliðar þjóðlífs­ins sem miða all­ar að því sama; að auka lífs­kjör og lífs­gæði á Íslandi. Þær leggj­ast ofan á þá kraft­miklu innviðafjár­fest­ingu sem hef­ur átt sér stað í tíð þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, fé­lags- og heil­brigðismál­um, sam­göngu- og um­hverf­is­mál­um og ný­sköp­un­ar- og vís­inda­mál­um.

Áhersla á ungt fólk og börn

Með aðgerðunum mun staða ungs fólks styrkj­ast. Á gild­is­tíma samn­ings­ins verða barna­bæt­ur hækkaðar og fæðing­ar­or­lof lengt úr níu mánuðum í tólf. Ungu fólki verður auðveldað að fjár­festa í fyrstu fast­eign með því að heim­ila notk­un á hluta skyldu­líf­eyr­is­sparnaðar til slíkra kaupa. Það kem­ur til viðbót­ar sér­eigna­sparnaðarleiðinni Fyrsta íbúð sem heim­il­ar fólki að nýta viðbót­ar­sparnað sinn í allt að 10 ár til kaupa og af­borg­ana. Ég vil einnig geta þess að vinna við heild­ar­end­ur­skoðun á Lána­sjóði ís­lenskra náms­manna geng­ur mjög vel en í nýju náms­styrkja- og lána­kerfi mun­um við fella niður 30% af höfuðstóli náms­manna að ákveðnum skil­yrðum full­nægðum auk þess að fram­færsla barna verður í formi styrkja í stað lána eins og er í dag. Að auki höf­um við hækkað frí­tekju­mark náms­manna um 43%.

Hærri laun og lægri skatt­ar

Til viðbót­ar við þær launa­hækk­an­ir sem hafa verið kynnt­ar í lífs­kjara­samn­ingn­um mun ríkið lækka skatta um 20 millj­arða og gefa þannig eft­ir um 10% af tekju­skatti ein­stak­linga. Tekju­skatt­ur alls launa­fólks mun lækka en sér­stök áhersla er lögð á tekju­lága hópa með nýju lág­tekju­skattsþrepi. Sú aðgerð mun auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur lág­tekju­hópa og auka jöfnuð. Þá munu gjald­skrár rík­is­ins ekki hækka á ár­inu 2019 um­fram það sem þegar er komið til fram­kvæmda og á ár­inu 2020 verður 2,5% há­mark sett á gjald­skrár­hækk­an­ir.

Betri lífs­kjör á Íslandi

Það er ljóst að lífs­kjara­samn­ing­ur­inn og aðgerðir tengd­ar hon­um munu skila okk­ur aukn­um lífs­gæðum. Mark­viss skref til af­náms verðtrygg­ing­ar verða tek­in, sveigj­an­leiki auk­inn á vinnu­stöðum, íbúðakaup gerð auðveld­ari, tekju­skatt­ur lækkaður, laun hækkuð, barna­bæt­ur aukn­ar og fæðing­ar­or­lof lengt. Árang­ur sem þessi er ekki sjálf­gef­inn. Hann er afrakst­ur sam­vinnu fjölda aðila sem all­ir hafa sama mark­mið að leiðarljósi, að gera gott land enn betra.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. apríl 2019.

Categories
Fréttir

Aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn

Deila grein

05/04/2019

Aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn

Húsnæðismál eru meðal megin áherslumála ríkisstjórnarinnar enda er öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiguverð íbúða farið mjög hækkandi og ungt fólk og tekjulágir eiga erfiðara með að eignast húsnæði en áður. Hlutfall þeirra sem leigja hefur því aukist á sama tíma og kannanir sýna að langflestir leigjendur myndu fremur kjósa að búa í eigin húsnæði. Verkefnisstjórn um aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn var skipuð af félags- og barnamálaráðherra þann 27. desember 2018 og tók þegar til starfa. Skipan starfshópsins er liður í því að fylgja eftir ákvæðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er varða húsnæðismál ungs fólks og tekjulágra.
Starfshópinn skipa Frosti Sigurjónsson, formaður, Hermann Jónasson, Íbúðalánasjóði, Bergþóra Benediktsdóttir, tiln. af forsætisráðuneytinu og Anna B. Olsen og til vara Sigurður Páll Ólafsson bæði tiln. af fjármálaráðuneytinu. Starfsmaður hópsins er Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Starfshópurinn hefur unnið fyrstu drög að tillögum en með fyrirvörum um nánari útfærslu, greiningu á kostnaði og áhrifum. Tillögurnar miða meðal annars að því að hraða öflun höfuðstóls og létta afborgunarbyrði lána hjá ungu fólki og tekjulágum hópum. Í tillögum starfshópsins er meðal annars að finna ný úrræði og breytingar á gildandi úrræðum svo þau beinist með markvissari hætti að þeim hópum sem eiga í erfiðleikum með að eignast íbúð.