Categories
Fréttir

Aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn

Deila grein

05/04/2019

Aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn

Húsnæðismál eru meðal megin áherslumála ríkisstjórnarinnar enda er öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiguverð íbúða farið mjög hækkandi og ungt fólk og tekjulágir eiga erfiðara með að eignast húsnæði en áður. Hlutfall þeirra sem leigja hefur því aukist á sama tíma og kannanir sýna að langflestir leigjendur myndu fremur kjósa að búa í eigin húsnæði. Verkefnisstjórn um aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn var skipuð af félags- og barnamálaráðherra þann 27. desember 2018 og tók þegar til starfa. Skipan starfshópsins er liður í því að fylgja eftir ákvæðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er varða húsnæðismál ungs fólks og tekjulágra.
Starfshópinn skipa Frosti Sigurjónsson, formaður, Hermann Jónasson, Íbúðalánasjóði, Bergþóra Benediktsdóttir, tiln. af forsætisráðuneytinu og Anna B. Olsen og til vara Sigurður Páll Ólafsson bæði tiln. af fjármálaráðuneytinu. Starfsmaður hópsins er Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Starfshópurinn hefur unnið fyrstu drög að tillögum en með fyrirvörum um nánari útfærslu, greiningu á kostnaði og áhrifum. Tillögurnar miða meðal annars að því að hraða öflun höfuðstóls og létta afborgunarbyrði lána hjá ungu fólki og tekjulágum hópum. Í tillögum starfshópsins er meðal annars að finna ný úrræði og breytingar á gildandi úrræðum svo þau beinist með markvissari hætti að þeim hópum sem eiga í erfiðleikum með að eignast íbúð.