,,Ísland skipar efsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Þetta er mikil viðurkenning á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Við getum öll verið stolt af þessum árangri, sem hefur tekið áratugi að ná með mikilli vinnu og eljusemi þjóðarinnar. Efnahagsstaða þjóðarbúsins er nokkuð góð um þessar mundir, þótt vissulega séu blikur á lofti. Atvinnuleysi er lítið og hagvöxtur hefur verið stöðugur. Hins vegar er einnig ástæða til að staldra við og ígrunda stöðu Íslands í breiðara samhengi, ekki síst eftir nýlega ákvörðun forseta Alþingis að beita 71. grein stjórnarskrárinnar til slíta umræðum á þingi.
Í bók sinni Tíu reglur velmegunar þjóðríkja (e. The 10 Rules of Successful Nations) lýsir höfundurinn Ruchir Sharma tíu lykilþáttum sem einkenna þjóðríki sem ná árangri til lengri tíma. Þeir eru ekki bara efnahagslegir, heldur líka pólitískir og samfélagslegir. Aflvaki framfara eru friður, virkt lýðræði, traust stofnanakerfi og aðhald með valdhöfum. Þjóðir sem standa vörð um þessar stoðir eru líklegri til að vaxa og dafna til lengri tíma.
Í ljósi þessa vekur beiting 71. greinar stjórnarskrárinnar spurningar. Greinin heimilar forseta þingsins að ljúka umræðum um þingmál og krefjast atkvæðagreiðslu án þess að frekari umræða fari fram. Þótt þessi heimild sé stjórnarskrárbundin og lögmæt, þá hefur hún hingað til verið nýtt með mikilli varfærni, enda snertir hún sjálfan kjarna þingræðis og lýðræðislegrar umræðu.
Samkvæmt Sharma eru það einmitt þjóðríki sem leyfa gagnrýna umræðu, þola deilur og leiða deilur til lykta sem búa við velsæld. Lýðræðisleg umræða er ekki hindrun heldur styrkur enda var Alþingi Íslendinga stofnað árið 930, þannig að hin lýðræðislega hefð hefur mjög sterkar og djúpar rætur. Fordæmið sem skapast með virkjun 71. greinarinnar getur smám saman veikt þá lýðræðislegu hefð sem þinglokasamningar gegna á Alþingi, sem hafa verið undirstaða pólitísks stöðugleika milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta er ekki spurning um lagalegan rétt heldur siðferðislegt og lýðræðislegt mat hverju sinni. Þegar meirihluti beitir valdi sínu til að þrengja að þinglegri umræðu án þinglokasamninga, þá fer allt traust innan þingsins. Niðurstaða þessa þingvetrar er raunaleg, þar sem tiltölulega fá frumvörp náðu framgöngu vegna hugarfarsins sem ríkir nú á Alþingi.
Ísland stendur sterkt að vígi hvað varðar hagsæld en pólitísk festa og virðing fyrir lýðræðislegum leikreglum er ekki sjálfgefin.
Velsæld þjóðríkja byggist á samræðu, samvinnu og virðingu fyrir andstæðum sjónarmiðum. Brýnt er að þessi lýðræðishefð okkar sé virt til að tryggja áframhaldandi árangur þjóðarinnar og vöxt til framtíðar.”
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júlí 2025.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.