Categories
Fréttir

Formaður og varaformaður Neytendasamtakanna mæta á laugardagsspjall FR

Deila grein

27/02/2013

Formaður og varaformaður Neytendasamtakanna mæta á laugardagsspjall FR

3mars2013

Categories
Fréttir

Ályktanir af flokksþingi 2013

Deila grein

27/02/2013

Ályktanir af flokksþingi 2013

framsoknarmappa
Ályktanir af flokksþingi Framsóknar sem haldið var helgina 8. – 10. febrúar 2013 eru komnar inn.
Hér getið þið nálgast ályktanirnar í heild

Categories
Fréttir

Málþing um Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins

Deila grein

27/02/2013

Málþing um Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins

olafurjohannesson
Í tilefni af 100 ára fæðingardegi Ólafs Jóhannessonar ætlar Framsóknarflokkurinn að standa fyrir málþingi um líf hans og störf í þágu þjóðarinnar.
 

Málþing um Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra 

1. mars Suðurlandsbraut 24, 17:00 – 19:00

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
Hátíðarávarp
Páll Pétursson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins
„Leiðtogi og landsfaðir“
Ágúst Þór Árnason, formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri
„Stjórnarskrárhugmyndir Ólafs Jóhannessonar“
Sigrún Magnúsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík og fyrrverandi borgarfulltrúi
„Varamaður Ólafs á þingi“
Hafsteinn Þór Hauksson, lektor  í almennri lögfræði og réttarheimspeki við lagadeild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
“Veðrabrigði og nátttröll”
Leó E. Löve, lögfræðingur og samferðamaður
„Kjölfesta, traust og heiðarleiki“
Guðmundur G Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrum samþingmaður í Reykjavík
„Vestmannaeyjagosið og uppbygging“
Helgi Ágústsson, fyrrverandi sendiherra og ráðuneytisstjóri
„Í utanríkisráðuneytinu“
Málþingsstjóri verður Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður í Reykjavík
 
Ólafur Jóhannesson var fæddur í Stórholti í Fljótum 1. mars 1913, og lést 20. maí 1984. Hann var kvæntur Dóru Guðrúnu Magdalenu Ástu Guðbjartsdóttur, en hún lést 3. sept. 2004. Eignuðust þau þrjú börn, Kristrúnu (1942), Guðbjart (1947) látinn, og Dóru (1951).
Ólafur lauk stúdentsprófi frá MA 1935. Lögfræðiprófi við HÍ 1939. Hann varð hdl. 1942. Stundaði framhaldsnám í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn 1945—1946. Hann starfaði sem lögfræðingur og endurskoðandi og varð prófessor við laga- og viðskiptadeild, síðar lagadeild Háskóla Íslands 1947—1978. Hann gegndi oft varadómarastarfi í Hæstarétti 1949—1971. Skipaður forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra 14. júlí 1971. Skipaður dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra, 28. ágúst 1974. Skipaður forsætisráðherra, 1. sept. 1978. Skipaður utanríkisráðherra, 8. febr. 1980.
Ólafur var alþingismaður Skagafjarðar 1959, alþingismaður Norðurlands vestra 1959—1979 og alþingismaður Reykjavíkur 1979—1984.
Ólafur kom víða við á ferli sínum og voru honum faldar ábyrgðastöður innan Framsóknarflokksins og utan. Að auki samdi hann kennslubækur og fræðibækur um lögfræði og fjölda greina sama efnis birtra í íslenskum og erlendum tímaritum auk skrifa um þjóðfélagsmál. Ólafsbók, afmælisrit, kom út 1983.
 

Dagskrá á PDF

Categories
Greinar

Verðtryggingin ólögleg?

Deila grein

27/02/2013

Verðtryggingin ólögleg?

“Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins er eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.“

Þetta var meðal þess sem var samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna sem fram fór helgina 8.–9. febrúar.

Skilaboð fulltrúa á þinginu til þjóðarinnar eru ótvírætt þau að leita eigi áfram leiða til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán sem stökkbreyttust í efnahagshruninu.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa frá árinu 2009 lagt fram tillögur um leiðréttingar á lánum heimila og aðgerðir til afnáms verðtryggingar á neytendalánum. Því miður hafa tillögurnar ekki náð fram að ganga og því búum við enn við óbreytt ástand. Verðtrygging húsnæðislána hefur lengi sætt mikilli gagnrýni. Eðlilega finnst mörgum undarlegt að þegar kaffi hækkar eða ríkisvaldið eykur álögur á bensín hækki húsnæðislánin þeirra. Margoft hefur verið bent á að verðtrygging sé ekki lögmál.

Brot gegn neytendalögum
En hvað gerist ef verðtrygging húsnæðislána verður dæmd ólögleg? Elvíra Mendez Pinedo, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands, hefur fært fyrir því sannfærandi rök að verðtrygging brjóti gegn neytendalögum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði lántakandi að geta séð hvernig höfuðstóll lánsins muni þróast út lánstímann og í öðru lagi megi ekki breyta lánsupphæð eftir á. Þá hefur Verkalýðsfélag Akraness höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um það hvort verðtrygging standist lög um verðbréfaviðskipti og tilskipun Evrópuréttar.

Hafi Elvíra rétt fyrir sér og/eða ef Héraðsdómur dæmir Verkalýðsfélaginu í hag mun það að sjálfsögðu undirstrika réttlæti og mikilvægi þess að lán verði leiðrétt.

Hvað sem því líður munu þingmenn Framsóknar halda áfram baráttunni fyrir leiðréttingu og afnámi verðtryggingar á nýjum neytendalánum þar sem fátt er jafn mikilvægt og að gera íslenskum fjölskyldum kleift að komast úr fjötrum skulda eins fljótt og frekast er unnt. Það að gera ekki neitt fyrir skuldsettar fjölskyldur getur varla verið valkostur því heimilin eru undirstaða alls efnahagslífsins.

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Deila grein

27/02/2013

Okkur ber að verja börn og unglinga gegn klámi

Strax og farið er að ræða um klám og klámvæðingu kemur upp spurningin hvað flokkist sem klám. Það má réttilega segja að í skilgreiningunni felist huglægt mat – gildismat, breytilegt frá kynslóð til kynslóðar og á milli menningarheima. Að mínu mati er klám orð eða efni sem sýnir kynlíf samofið misnotkun, valdbeitingu og niðurlægingu og líkist ekki samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun.

Ábyrgð allra
Í íslenskum lögum er klám refsivert, sbr. 210. grein í almennum hegningarlögum. Það er á ábyrgð opinberra aðila að setja mörk hvað varðar leyfi til birtingar eða sýningar. Eftirlitsaðilar eiga síðan að fylgja eftir lögum og reglum, foreldrar að ala upp börn og unglinga með dómgreind sem byggir á gildismati sem tekur afstöðu gegn ofbeldi, kúgun og misbeitingu valds. Síðan kemur til kasta skóla að skapa skólabrag og vinna með nemendum í anda námsskrár. Jafnrétti er ein af grunnstoðum í starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla og gefur það vonir um að skólakerfið komi til með að leggja enn meiri áherslu á jafnréttisfræðslu, kynfræðslu og þar með fræðslu og umræðu um klám. Vinna í góðu samstarfi við foreldra og þá aðila sem bjóða skólum upp á vandaða fræðslu. Ekki má gleyma ábyrgð fjölmiðla og allra þeirra sem með einum eða öðrum hætti koma að því að móta lífsstíl og gildismat barnanna okkar.

Áherslur Framsóknar og Barnasáttmálinn
Framsóknarmenn styðja endurskoðun barnalaga og þá sérstaklega með tilliti til Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Í honum er lögð áhersla á velferð barna, en einstaklingur telst barn til 18 ára aldurs. Allar ákvarðanir yfirvalda eiga að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst. Vernd gegn óæskilegu efni, kynferðislegu ofbeldi og þátttöku í klámiðnaði. Ég hef unnið með unglingum í yfir 30 ár og allan þann tíma fléttað kynfræðslu inn í starf mitt. Einn þáttur fræðslunnar hefur alltaf verið umfjöllun um klám. Unglingar hafa á reiðum höndum skilgreiningu á klámi, eiga auðvelt með að koma með dæmi, sjá hvað klám sýnir óraunverulega mynd af jákvæðu kynlífi en neita því ekki að hafa horft á klám – sérstaklega strákar. Að þeirra sögn er klám alls staðar og auðvelt að nálgast það. Ég sé mikinn mun á túlkun og umfjöllun unglinga í dag og unglinga fyrir áratugum. Fyrir 30 árum byggði skilgreining þeirra og dæmi á allt öðrum veruleika en í dag. Nú eru dæmin allt önnur, mun grófara ofbeldi, nákvæmari og nærgöngulli lýsingar af athöfnum. Tilkoma tölvuleikja sem flokkast ekki undir neitt annað en klám og ofbeldi og netið með allt sitt aðgengi og magn af efni hefur bæst við flóruna. Ég er viss um að foreldrar og þeir sem vinna með börnum og unglingum hafa áhyggjur af þessari þróun. Ég fagna nýju átaki þriggja ráðuneyta sem í samstarfi við skóla vilja vekja unglinga til umhugsunar um klám og kynferðislegt ofbeldi. Það má fagna myndinni Fáðu já en hún tekur á samskiptum kynjanna sem tengjast virðingu, samþykki, ábyrgð og jákvæðri upplifun af kynlífi.

Klámvæðingin
Kynferðislegar og klámfengnar tilvísanir er mjög víða að finna í lífi unglinga og línan á milli kynlífs, kláms og ofbeldis er alltaf að verða óljósari. Nýleg rannsókn sýnir að strákar neyta kláms í stórum stíl og himinn og haf er á milli notkunar stráka og stelpna. Mismunandi hlutverk og staða kynjanna kemur berlega í ljós í heimi klámvæðingar. Ef þeir sem ekki vilja sjá að í heimi kláms eru konur þolendur og hafa ekki völdin ættu í huganum að skipta um kyn á persónum og leikendum og sjá hvort skoðun þeirra breyttist ekki. Rannsóknir hafa sýnt að stöðvar í heilanum sem lesa og túlka tilfinningar mynda þol og við getum horft á grófara ofbeldi og klám án þess að bregðast við – þolmörkin færast til.

En hvað á að gera?

Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af börnum, unglingum og ungu fólki sem er að móta gildismat sitt og lífsstíl. Það má kalla þetta viðhorf mitt forræðishyggju og telja það neikvætt en ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Ef það er gerlegt að stemma stigu við því flóði af klámefni sem stendur börnum okkar og unglingum til boða þá er ég því fylgjandi. Alveg á sama hátt og okkur sem samfélagi á að finnast það eðlilegt að hefta aðgengi að ákveðnum kvikmyndum og tölvuleikjum. Ég er ekki sérfræðingur í netheimum og get því ekki skorið úr um hvort til séu aðgengilegar leiðir. Vegir netsins eru það óútreiknanlegir að ég óttast að erfitt reynist að festa hönd á óæskilegu efni án þess að reglur og eftirlit verði allt of íþyngjandi fyrir almenna notendur netsins. Það þarf að fara fram almenn umræða um forvarnir, skilgreina betur hvað fellur undir klám og refsirammann. En fyrst og síðast er það gildismatið í þjóðfélaginu sem þarf að taka afstöðu gegn klámi. Allir þurfa að gefa skýr skilaboð á heimavelli, vinnustöðum og opinberlega. Skýr afstaða er það aðhald sem ég held að virki vel. Það er skylda okkar að standa vörð um velferð barnanna okkar.

Fanný Gunnarsdóttir

Categories
Greinar

Lausn úr skuldafjötrum

Deila grein

27/02/2013

Lausn úr skuldafjötrum

Ung hjón keyptu íbúð með yfirtöku á tuttugu milljónir króna láni á tæplega 6% verðtryggðum vöxtum.  Nokkrum mánuðum áður hafði sambærileg íbúð selst á sautján milljónir. „Ég get ekki mælt með kaupum á þessari eign, íbúðin er of dýr og lánið óhagstætt.“ sagði fasteignasalinn þeirra.  Hjónin létu ekki segjast: „Við verðum að tryggja okkur öruggt húsnæði.  Góðar íbúðir í langtímaleigu eru eins og hvítir hrafnar, heldur sjaldgæfar.  Þetta er eini valkosturinn.“

Þar með var enn ein ung íslensk fjölskylda búin að sökkva sér í skuldir.

Evrópumeistarar í vanskilum

Hagstofan birti nýlega samanburð á lífskjörum íslenskra og evrópskra heimila fyrir árið 2010.  Í könnuninni kom margt athyglisvert fram.  Íslendingar virðast vera Evrópumeistarar í vanskilum húsnæðislána, en þjóðin hefur vermt efstu sætin í vanskilum í Evrópu um nokkurt skeið.  Þar af eru þrefalt fleiri heimili á Íslandi í miklum erfiðleikum með að standa undir útgjöldum en á hinum Norðurlöndunum.  Þetta er þrátt fyrir að mánaðarleg útgjöld íslenskra heimila vegna húsnæðis sem hlutfalls af ráðstöfunartekjum séu lægri en í mörgum öðrum Evrópulöndum.

Af hverju?  Í markaðspunktum Arion banka er því velt upp hvort ein helsta ástæðan geti verið að hér leggi fólk fyrr á sig að eignast húsnæði.  Jafnvel þótt það taki ansi langan tíma í mörgum tilvikum að eignast í raun eitthvað eigið fé í því.  Í samanburði við önnur Evrópulönd hefur verið tiltölulega auðvelt að taka lán og fjárfesta í húsnæði.  Erlendis er fólk eldra þegar það ákveður að kaupa húsnæði, erfiðara er að komast í gegnum greiðslumat og þar af leiðandi minni líkur á að viðkomandi íbúðareigandi lendi af og til í vanskilum.

Áratugum saman hefur íslensk húsnæðisstefna verið séreignastefna.  Árangur þess er meðal annars mikil fækkun leiguíbúða.  Árið 1920 voru 62,9% íbúða leiguíbúðir, um 1980 voru 17% íbúða á leigumarkaði og árið 2009 var hlutfallið komið niður í 13%.  Stuðningur hins opinbera hefur fyrst og fremst beinst að því að auðvelda einstaklingum að eignast eigið húsnæði.  Litið hefur verið á leigu sem skammtímalausn og nánast eingöngu fyrir þá sem vegna félagslegra aðstæðna geta ekki komið sér upp eigin húsnæði.

Að eiga húsnæði er hreinlega orðið órjúfanlegur hluti menningar okkar.

„Öruggt húsnæði

Eftir að eiginmaður minn og ég komum úr námi og tókum okkur fyrstu skref á leigumarkaðnum, var þess ekki langt að bíða að ættingjar og vinir færu að spyrja hvort við ætluðum ekki að fara að kaupa.  Sú spurning var næstum því jafn algeng og spurningin um hvort ekki væri von á einu litlu.  Eftir að frumburðurinn fæddist jókst svo þrýstingurinn á okkur að fjárfesta í íbúð enn meira.

Með góðri aðstoð okkar nánustu tókst að dekka útborgunina og við fluttum stolt í okkar fyrstu íbúð í útjaðri höfuðborgarinnar.  Við vorum komin í „öruggt“ húsnæði.  Allar vangaveltur um verðtryggingu, vexti og eigið fé máttu sín lítils í samanburði við pælingar um val á parketi og eldhústækjum.

Öllum létti.

Eftir á að hyggja vorum við einfaldlega að skipta um leigusala, frá yndislegu hjónunum á neðri hæðinni yfir í embættismennina hjá Íbúðalánasjóði.  Í dag dreymir okkur bara um að hætta að „leigja“ hjá sjóðnum, jafnvel þótt það eina sem bjóðist á hinum vanþróaða íslenska leigumarkaði séu tveggja til þriggja herbergja íbúðir.

Við værum allavega án skuldafjötranna, laus úr vistarböndunum.

Lærum af reynslunni

Eflaust hugsar einhver að þingmaður Framsóknarflokksins ætti ekki að tjá sig mikið um húsnæðismál.  Lög sem komu á verðtryggingu hafa verið kennd við fyrrum formann flokksins Ólaf Jóhannesson og eitt af helstu baráttumálum flokksins fyrir kosningarnar 2003 voru 90% lán Íbúðalánasjóðs.

Í ályktunum flokksins um húsnæðismál hefur áherslan verið á að hver og einn búi við öryggi í samræmi við hóflegar þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform.  Þetta hefur alltaf verið markmiðið og reynsla síðustu ára hefur sýnt okkur að séreignastefna getur ekki uppfyllt þessi markmið.  Gera verður breytingar á húsnæðiskerfinu.  Fólk er síður tilbúið að skuldsetja sig eftir áföll undanfarinna ára, en á í dag ekki marga aðra kosti líkt og sagan af ungu hjónunum segir okkur.

Því verðum við að tryggja raunverulegt val um búsetuform, auka hagkvæmni í byggingu húsnæðis og búa til sambærilegt húsnæðislánakerfi og þekkist í nágrannalöndunum.  Fjölga verður húsnæðissamvinnu- og leigufélögum, endurskoða byggingareglugerðir og fjölga ódýrum byggingalóðum fyrir þessar íbúðir.  Setja þarf lög um fasteignalán og endurskoða stöðu Íbúðalánasjóðs út frá mikilvægi hans við að tryggja öllum landsmönnum öruggt húsnæði.  Afnema þarf verðtryggingu á neytendamarkaði og setja 4% þak á hækkun verðbóta.

Við verðum að taka á vanda fortíðarinnar, bregðast við þörfum dagsins í dag og leggja drög að nýju kerfi til framtíðar.

Eygló Harðardóttir

(Birtist fyrst í DV 28. janúar 2013)

Categories
Greinar

Norsk byggðastefna og jöfnun húshitunarkostnaðar

Deila grein

27/02/2013

Norsk byggðastefna og jöfnun húshitunarkostnaðar

Rafmagnskostnaður í dreifbýli og á köldum svæðum er gríðarlega hár sé miðað við önnur svæði. Þetta er mjög óréttlátt í ljósi þess að rafmagn og húshitun á að flokkast sem sjálfsögð grunnþjónusta. Í Noregi er mjög virk byggðastefna sem m.a. felur í sér að íbúar á dreifbýlum svæðum greiða lægra rafmagnsverð heldur en í stórborgum. Framsóknarflokkurinn hefur lagt til að mótuð verði almenn byggðastefna og höfum við m.a. ítrekað talað fyrir tillögum um fulla jöfnun raforkuverðs.

 

20-35% lægra orkuverð á dreifbýlum svæðum í Noregi

Norsk byggðastefna byggir á almennum aðgerðum fremur en sértækum. Fyrirkomulag raforkumála er gott dæmi um hvernig almenn byggðastefna í Noregi virkar. Á dreifbýlum svæðum er sérstakt dreifbýlisþak sett á rafmagnskostnað. Heimili á þessum svæðum greiða aldrei hærra verð fyrir raforku en sem nemur ákveðinni krónutölu á ári. Í norður Noregi greiða íbúar að jafnaði um 20% lægra verð fyrir raforku heldur en í suður Noregi. Dreifbýlisþakið lækkar síðan eftir því sem norðar dregur og íbúar Tromsfylki og Finnmörk sem eru nyrstu fylkin í Noregi búa síðan við dreifbýlisþak sem tryggir þeim að jafnaði 35% lægra raforkuverð. Stjórnvöld í Noregi hafa ákveðið að auka enn frekar við þennan stuðning enda hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að íbúum í norður- Noregi fjölgar á ný eftir mikla fólksfækkun undanfarinna áratuga.

 

RARIK og Orkubú Vestfjarða krafið um arðgreiðslur í ríkissjóð

Íslendingar eru ekki komnir jafn langt í byggðajafnrétti og mikinn skilning skortir á málinu. Þetta kom vel fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2013. Með fjárlögum ársins 2013 er RARIK krafið um 310 milljónir og Orkubú Vestfjarða um 60 milljónir í arðgreiðslur til ríkissjóðs. Af þessari upphæð er einungis 175 milljónum veitt til aukningar á niðurgreiðslum til húshitunar á köldum svæðum og er sú tala um þrisvar sinnum lægri en þarf til að jafna húshitunarkostnað að fullu.

 

Framsókn ítrekað lagt til fulla jöfnun húshitunarkostnaðar

Í desember 2011 skilaði starfshópur um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar skýrslu og lagði til breytingar á fyrirkomulagi til niðurgreiðslu húshitunar. Lagt var til að komið yrði á fót sérstökum jöfnunarsjóði sem fjármagnaður yrði með 0,10 kr skattlagningu á hverja kWst. Fjármagnið yrði síðan notað til að niðurgreiða flutning og dreifingu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis í dreifbýli og á köldum svæðum. Framsókn hefur lagt fram tillögu um að koma upp slíkum jöfnunarsjóði. Þessar tillögur hafa ekki hlotið brautargengi á Alþingi en hinsvegar var sérstakur orkuskattur sem var settur á árið 2009 framlengdur nú um áramótin. Upphæð skattsins er 0,12 kr. á hverja kWst af seldri raforku en 2% af smásöluverði á heitu vatni. Ekki skortir vilja til þess að innheimta orkuskatt en hinsvegar virðist ríkisstjórnina skorta pólitískan vilja til að veita fjármununum beint til jöfnun húshitunarkostnaðar. Framsókn mun halda áfram að þrýsta á þetta mál og við höfum ítrekað hvatt til þess að þingmenn vinni saman að því að koma upp slíku jöfnunarkerfi.

 

Norsk byggðastefna á Íslandi?

Framsóknarflokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil lagt til á Alþingi að fulltrúar ríkisvalds og sveitarfélaga móti í sameiningu stefnu í byggðamálum sem byggir á norskri hugmyndafræði. Landinu verði skipt upp í ákveðin dreifbýlissvæði og á þeim grunni lagðar til almennar byggðajafnréttisaðgerðir. Þessar aðgerðir byggja á því að t.d. skattar, gjöld á einstaklinga og fyrirtæki, afborgunarbirgði námslána, barnabætur, orkukostnaður er hagstæðara eftir því sem lengra er komið frá frá þéttbýlli svæðum. Reynsla Norðmanna sýnir að með bættri umgjörð og almennum byggðaaðgerðum er mögulegt að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem landsbyggðin býður uppá. Almennar byggðaaðgerðir efla ekki einungis dreifbýl svæði landsins heldur fær ríkissjóður og þjóðin öll þetta margfalt til baka í aukinni verðmætasköpun og gjaldeyristekjum.

Ásmundur Einar Daðason