Categories
Fréttir

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Deila grein

03/02/2016

Umsögn Seðlabankans jákvæð

Elsa-Lara-mynd01-vefurHæstv. forseti. Þessa dagana vinnur hv. velferðarnefnd þingsins með húsnæðisfrumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Í gær birti Seðlabankinn umsögn sína vegna þessara mikilvægu mála. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við þau markmið sem frumvörpunum er ætlað að ná, þ.e. að koma til móts við húsnæðiskostnað leigjenda. Það er skoðun bankans að áhrif frumvarpanna verði í samræmi við markmið þeirra að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem eru á leigumarkaði með auknum húsnæðisbótum og auknu framboði á húsnæði fyrir efnaminni leigjendur. Um frumvarp um húsnæðisbætur segir í umsögn Seðlabankans, með leyfi forseta:
„Það felur í sér að þær fjölskyldur sem njóta kostnaðarþátttöku ríkisins samkvæmt frumvarpinu munu með tímanum þurfa að ráðstafa nokkru minni hluta tekna sinna en ella til húsnæðis og þar af leiðandi hafa meira til ráðstöfunar í aðrar neysluvörur og sparnað.“
Í umsögn Seðlabankans um almennar íbúðir fyrir efnaminni leigjendur segir, með leyfi forseta:
„Með frumvarpinu er lagt til að verulegum fjárhæðum verði varið til uppbyggingar á leiguhúsnæði sem verði ráðstafað til tekjulágra og annarra sem tilgreindir eru í frumvarpinu. Að öðru óbreyttu mun slíkt leiða til þess að leiguverð á slíkum íbúðum lækkar.“
Þessi umsögn er í samræmi við það sem ráðgjafarfyrirtækið Analytica benti á í umsögn sinni þegar umrædd frumvörp voru til vinnslu innan velferðarráðuneytisins. Ríkið hefur sett verulega fjármuni í húsnæðismál undanfarin ár eða frá árinu 2008 en þar er um að ræða útgjöld til Íbúðalánasjóðs, útgjöld í vaxtabætur, sérstakar vaxtabætur og útgjöld til niðurfellingar á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna. Sá hópur sem umrædd frumvörp eiga að ná til og eru í vinnslu innan hv. velferðarnefndar hefur ekki fengið úrbætur í húsnæðismálum. Því er mikilvægt að þessi frumvörp nái fram að ganga. Allir hv. þingmenn verða að hafa það í huga að umrædd frumvörp eru tengd kjarasamningum og hluti þess að kjarasamningar tókust á almennum vinnumarkaði síðasta vor.
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

Deila grein

03/02/2016

Aðildarríkjum EES ber að leyfa innflutning á fersku kjöti

líneikVirðulegi forseti. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem skilað var í gær veldur mér áhyggjum. Samkvæmt áliti dómstólsins kveður EES-samningurinn á um að aðildarríkjum hans beri að leyfa innflutning á fersku kjöti svo framarlega sem það hefur staðist heilbrigðiseftirlit í heimalandinu. Ekki sé heimilt að gera þá kröfu að afurðirnar verði frystar eins og íslenskt stjórnvöld hafa alltaf krafist. Ég vil þó árétta það að álitið er ráðgefandi og afnemur ekki sjálfkrafa gildandi reglur á Íslandi.
Í gegnum árin hafa dýralæknar og aðrir sérfræðingar sem best þekkja til á þessu sviði varað við innflutningi á fersku kjöti. Með leyfi forseta langar mig að vitna í orð Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, í Fréttablaðinu þar sem hann segir þessa niðurstöðu sorgartíðindi fyrir þá sem bera líf og dýraheilsu fyrir brjósti:
„Innflutningur á hráu kjöti til Íslands er bannaður vegna varna gegn dýrasjúkdómum og voru fyrstu lög í þá átt sett 1882. Staða Íslands með tilliti til dýrasjúkdóma er einstæð í heiminum og hana ber að varðveita með öllum tiltækum ráðum. Tilgangur bannsins er margþættur og er meðal annars að tryggja sem heilnæmasta innlenda matvöru, stuðla að dýravelferð, varðveita erfðafjölbreytileika eða erfðaauðlindir, draga úr lyfjakostnaði, vernda lýðheilsu og fleira. Liður í velferð dýra er að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu með því að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins. Um leið er lagður grunnur að því að áfram verði framleiddar heilnæmar búfjárafurðir í landinu, lausar við afleiðingar tiltekinna sjúkdóma eða lyfjaleifar þeim tengdum. Þar fyrir utan mætti svo auðvitað ræða æskileg umhverfisáhrif af flutningi kjöts, en það er annað mál.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

Deila grein

03/02/2016

Allir séu á sömu blaðsíðunni um öryggi og mikilvæga þjónustu

ÞórunnHæstv. forseti. Í liðinni viku barst þingmönnum Norðausturkjördæmis bréf frá flugrekstrarstjóra Norlandair og þjálfunarstjóra Mýflugs sem hafa aðsetur á Akureyrarflugvelli. Innihald bréfsins er þess efnis að það vekur áhyggjur því að leiddar eru líkur að því að hugmyndir Isavia um skert þjónustustig leiði einnig til skertra öryggishagsmuna notenda þjónustunnar.
Akureyrarflugvöllur er þriðji stærsti flugvöllur landsins á eftir Reykjavík og Keflavík. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður frá náttúrunnar hendi og mikla flugumferð hefur flugumferðarstjórum tekist að halda uppi háum öryggisstuðli. Sá árangur grundvallast á radarstöð sem staðsett er við hlið flugbrautarinnar og stjórnast af flugumferðarstjórum í flugturni. Af ýmsum ástæðum stefnir í að flugumferðarstjórum fækki úr sex í þrjá. Ekki fyrr en nýlega hafa verið gerðar ráðstafanir til nýráðninga og þjálfunar á nýjum flugumferðarstjórum. Vitað er að þjálfun þeirra tekur tíma og hafa starfandi flugumferðarstjórar boðist til að dekka tímabilið með skipulagningu vakta, líkt og þeir hafa reyndar gert fram að þessu samkvæmt upplýsingum mínum.
Hæstv. forseti. Stefnan virðist vera sú að manna vaktir með starfsmönnum sem hafa einungis brot af þeirri menntun, starfsþjálfun og réttindum sem flugumferðarstjórar hafa. Þessir starfsmenn hafa til dæmis ekki réttindi til að veita radarþjónustu og því er það öryggi sem sú stöð veitir ekki til staðar þegar þeir verða á vakt.
Í ljósi mikillar flugumferðar um Akureyrarflugvöll og þess að hann er miðstöð sjúkraflugþjónustu sýnist mér afar mikilvægt að þessi þjónusta sé ekki skert. Ekki má gleyma því að flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir bæði innanlands- og utanlandsflug allan sólarhringinn. Mikilvægi þess að veita þjónustu með radarleiðsögn hafa dæmin sannað, en ekki gefst tími til að telja þau upp hér. Ágreiningur virðist um túlkun á því hvað skert þjónusta er. Það gengur ekki. Menn verða að vera á sömu blaðsíðunni þegar mál sem varða öryggi og mikilvæga þjónustu eru rædd. Ég efast ekki um að innanríkisráðherra skoðar þetta mál vel og treysti því að farsæl lausn finnist.
Þórunn Egilsdóttir — í störfum þingsins 2. febrúar 2016.