Categories
Fréttir

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Deila grein

02/03/2016

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að geta nú í hádeginu afhent hæstv. félags- og húsnæðisráðherra skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, svokallaðrar Pétursnefndar sem heitir í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, þeim mikla sómamanni sem gegndi lengi forustu í þeirri nefnd.
Fjölmargir hafa komið að þessari vinnu. Samvinna í nefndinni var yfir höfuð góð þó að nokkuð drægi úr henni á síðustu metrunum, því miður. En þó er ljóst að niðurstöður skýrslunnar eru ávísun á mestu breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu á Íslandi í áratugi ef af verður. Breytingarnar snúa að einföldun almannatryggingakerfisins, sveigjanlegum starfslokum og upptöku starfsorkumats í stað örorkumats.
Það er næsta víst að þó að tillögurnar séu flestar mjög góðar sem fram koma í skýrslunni er enn þá margt ógert. Enn skortir á að við höfum greint nægilega vel vandamál einstakra hópa innan þessara stóru hópa, aldraðra og öryrkja. Það er ekki hægt að tala um þessa hópa sem eitt mengi vegna þess að aðstaða þeirra er mjög mismunandi. Það er núna verk okkar í framhaldi af skýrslunni að vinna enn betur að því að kanna sérstaklega stöðu þeirra sem verst standa innan þessara hópa og grípa þá til sérstakra ráða til þess að þeir megi búa við betri lífskjör.
Heilt yfir er ekki laust við að maður geti verið ánægður með að skýrslan skuli nú loksins vera fram komin. Ég vona sannarlega að í framhaldinu muni fylgja frumvörp frá hendi ráðherra sem uppfylla það sem hér er sett fram.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Deila grein

02/03/2016

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða þá stöðu sem er teiknast upp hér í þjóðarbúskapnum samhliða jákvæðum samfélagslegum tíðindum. Kaupmáttur hefur aukist til muna og skuldir landsmanna minnkað. Á sama tíma eru að berast mjög jákvæðar fréttir sem lesa má úr Félagsvísum sem Hagstofan birtir og finna má á vef velferðarráðuneytisins; mikilvægur gagnagrunnur, upplýsingar um velferð, vellíðan, heilbrigði og þarfir, gögn fyrir bætta stefnumótun og samfélagslegar aðgerðir þar sem þörfin er mest aðkallandi.
Margt má lesa úr þessu og meðal annars þá afar jákvæðu þróun að börn og unglingar verja nú í auknum mæli tíma með foreldrum sínum og þeim fjölgar sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Það er besta forvarnarstarfið, virðulegi forseti, og ber að huga að og vísbendingu þessa efnis má einnig finna í minni neyslu áfengis og vímuefna. Það er mikilvægt að við verjum það mikilvæga sjálfboðastarf sem unnið er á vettvangi æskulýðs-, ungmenna- og íþróttafélaga. Þetta er þróun sem við ættum með öllum mætti að verja og styðja enn frekar.
Tekjujöfnun er æskileg, ekki bara út frá félagslegum heldur einnig út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Því eru það afar mikilvæg tíðindi, sem lesa má úr þessum Hagvísum, að jöfnuður er sannarlega að aukast og er óvíða meiri. Skuldaleiðrétting, séreignarsparnaðarleið, mildar skattalækkanir, afnám vörugjalda og ýmissa tolla, kjarasamningar og verðstöðugleiki ásamt öðrum félagslegum og hagstjórnarlegum aðgerðum hafa því stuðlað að auknum kaupmætti, auknum jöfnuði, aukinni velferð.
Nú berast tíðindi um það að við siglum hratt inn í þensluskeið og það er verkefni sem við höfum oft klúðrað. Því mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn ef okkur á að takast að halda áfram á sömu braut, horfa til jöfnuðar, kaupmáttar, stöðugleika og móta það velferðarþjóðfélag sem við viljum búa í.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

Deila grein

02/03/2016

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Þessa dagana heyrum við fréttir af gríðarlegum hagnaði viðskiptabankanna þriggja. Samanlagt tóku þeir inn 80 milljarða króna hagnað á síðasta ári og er hagnaður þeirra þriggja frá hruni 370 milljarðar. Þessi hagnaður kemur á sama tíma og þessir sömu viðskiptabankar hafa verið að bæta við þjónustugjöldum og í mörgum tilfellum að hækka þau þjónustugjöld sem fyrir voru. Má þar meðal annars nefna úttektargjald, hraðbankagjald, svargjald bankaþjónustu, greiðslugjald, kortagjald og svona er hægt að telja áfram. Þessir gjaldaliðir eru um 30 talsins og hv. þm. Framsóknarflokksins Karl Garðarsson gerir ágætlega grein fyrir þeim í færslu á Eyjunni. Í færslu hans kemur jafnframt fram að fólki blöskri og það sé búið að fá nóg. Það er ekki annað hægt en að taka heils hugar undir þau orð hans þegar kemur að þessum þáttum í bankakerfinu. Við þurfum að skapa nýtt og heiðarlegra bankakerfi.
Herra forseti. Hér þarf að aðgreina á milli fjárfestingar- og viðskiptabanka. Hér þarf að afnema verðtryggingu og taka um leið á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Í því samhengi gæti líka verið afar gagnlegt að líta til hugmynda hv. þm. Frosta Sigurjónssonar um breytt peningakerfi. Á meðan sú vinna er í gangi eiga forsvarsmenn þessara fjármálastofnana að sýna sóma sinn í því að leyfa neytendum landsins að finna fyrir þeim gríðarlega hagnaði sem fjármálastofnanirnar hafa náð. Það ættu þeir að geta gert með því að kalla til baka þær hækkanir sem orðið hafa á þjónustugjöldum eða fækka þeim þjónustuliðum sem rukkað er fyrir og að lækka vexti. Það gæti orðið gríðarleg kjarabót fyrir heimili landsins.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.