Categories
Fréttir

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

Deila grein

23/11/2016

Opnað fyrir umsóknir um húsnæðisbætur

husbot-isVinnumálastofnun opnaði 21. nóvember sl. Greiðslustofu húsnæðisbóta og upplýsinga- og umsóknarvefinn www.husbot.is  þar sem leigjendur geta sótt um húsnæðisbætur samkvæmt nýjum lögum um húsnæðisbætur sem taka gildi 1. janúar 2017.
Lög nr. 75/2006 um húsnæðisbætur voru samþykkti á Alþingi sl. sumar og taka gildi 1. janúar næstkomandi. Á sama tíma falla úr gildi lög um húsaleigubætur og hlutverk sveitarfélaganna varðandi útgreiðslu húsnæðisstuðnings til leigjenda flyst til Greiðslustofu húsnæðisbóta.
Markmið laga um húsnæðisbætur  er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.
Vinnumálastofnun annast framkvæmd húsnæðisbótakerfisins sem er fjármagnað að fullu úr ríkissjóði. Við útreikning húsnæðisbóta er tekið mið af fjölda heimilismanna óháð aldri, leigufjárhæð, öllum tekjum og nettó eign, þ.e. eignum að frádregnum skuldum.
Inni á nýja vefnum www.husbot.is er að finna allar upplýsingar sem varða húsnæðisbætur og umsóknarferlið sjálft auk þess sem þar er að finna reiknivél sem hjálpar leigjendum að átta sig á upphæð mögulegra húsnæðisbóta.
Fyrstu greiðslur samkvæmt lögum um húsnæðisbætur verða greiddar út 1. febrúar 2017.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is 

Categories
Fréttir

EFTA ríkin vinni nánar saman

Deila grein

23/11/2016

EFTA ríkin vinni nánar saman

iceland-liechtenstein2Samskipti EFTA-ríkjanna og Bretlands voru þungamiðjan í umræðum á ráðherrafundi EFTA sem haldin var í Genf fyrr í vikunni. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum, en Ísland leiðir starf EFTA um þessar mundir. Ráðherrarnir ákváðu að vinna nánar saman svo hagsmunir EFTA-ríkjanna verði tryggðir við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit.  Ísland mun hafa frumkvæði að því að boða til fundar á næstu vikum, þar sem viðbrögð EFTA-ríkjanna við Brexit verði undirbúin enn frekar.
,,Útganga Breta úr Evrópusambandinu er bæði söguleg og flókin í framkvæmd. Við þurfum að fylgjast mjög vandlega með þróun mála og vera viðbúin, sama hvernig Bretar ákveða að haga sinni útgöngu. Það er mikilvægt að EFTA-ríkin séu samstíga og láti ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið. Það er líka mikilvægt að EFTA standi vörð um fríverslun í heiminum, ekki síst í ljósi umræðunnar sem átti sér stað samhliða forsetakosningunum í Bandaríkjunum nýverið. Fyrir Ísland eru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Við munum leggja okkur öll fram við að gæta hagsmuna Íslands,” segir Lilja Alfreðsdóttir.
Fleiri fríverslunarsamningar í farvatninu
Á fundinum var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu og því fagnað sérstaklega að viðræður um gerð fríverslunarsamnings við Indland væru hafnar á nýjan leik og að nýlega hefðu hafist viðræður við Ekvador. Þá var mikil ánægja á fundinum með fyrirhugaðar fríverslunarviðræður EFTA og viðskiptabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela (kallað Mercosur) sem eiga að hefjast á næsta ári.
Ráðherrarnir fóru einnig yfir stöðu viðræðna um endurskoðun og uppfærslu gildandi samninga við Mexíkó og komandi viðræður við Síle. Varðandi aðra slíka samninga ítrekuðu ráðherrarnir áhuga EFTA ríkjanna að hefja á ný viðræður við Tyrkland og að hefja viðræður við Tollabandalag Suður Afríkuríkja (SACU). Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þess að áfram væri leitað leiða til að hefja viðræður um endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA og Kanada. Utanríkisráðherra stýrði einnig fundi EFTA ráðherranna með Þingmannanefnd EFTA þar sem fjallað var um stöðu mála varðandi fríverslunarviðræður EFTA ásamt því að farið var yfir þróun mála í samskiptum Bretlands og ESB.
Fríverslunarnet EFTA samanstendur af 27 samningum við 38 ríki og svæði. Tólf prósent af heildarútflutningi EFTA ríkja fer til þessara ríkja á meðan 7,5% innflutnings kemur frá þeim. Fundinn sátu auk Lilju; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Monica Mæland viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is 

Categories
Fréttir

Happdrætti Framsóknar í Reykjavík

Deila grein

21/11/2016

Happdrætti Framsóknar í Reykjavík

reykjavik-happadraetti
 
Vinningsnúmerin eru:
136. – WOW – Ferð fyrir tvo til Kaupmannahafnar
419. – Recon – Inneign
497. – Hótel Glymur – Gisting fyrir tvo með kvöldverði
177. – Dún og fiður – sængur og koddar
444. – Herralagerinn, inneign
480. – Klaustur Icelandair Hotels – Gisting fyrir 2 með kvöldverði
412. – Notrulus – Spa meðferð
221. – Ginseng.is – Inneign
493. – Snyrtivöruverslun Glæsibær – Snyrtiaskja
575. – Esjufell – Gjafakarfa.
192. – Esjufell – Gjafakarfa.
Vinninga skal vitja hjá Stefáni Björnssyni, stefanbjo@solidclouds.com

Categories
Fréttir

Græn nýsköpun lykill að árangri

Deila grein

17/11/2016

Græn nýsköpun lykill að árangri

??????????????
Nú er kominn tími til að efna loforð Parísarsamningsins í loftslagsmálum, sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ræðu sinni í gær á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Marrakech í Marokkó. Allir þyrftu þar að leggja lóð á vogarskálarnar: stjórnvöld, atvinnulíf, vísindaheimurinn og almenningur. Nýsköpun í loftslagsvænni tækni og lausnum væri nauðsynleg til að ná settu marki.
Fundurinn í Marrakech er fyrsti alþjóðlegi ráðherrafundurinn um loftslagsmál eftir að Parísarsamningurinn gekk í gildi 4. nóvember sl. Um 110 ríki, þar á meðal Ísland, hafa fullgilt samninginn.
Sigrún Magnúsdóttir sagði að hrein orka væri mikilvæg og þörf á hnattrænu átaki í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Hún nefndi tilraunaverkefni Orkuveitu Reykjavíkur o.fl. á Hellisheiði, þar sem koldíoxíði er dælt í jarðlög, þar sem það breytist í steindir og binst til frambúðar í jarðlögum. Þar væri gróðurhúsalofttegundum breytt í grjót, en einnig væri mikilvægt að binda kolefni í trjám og jarðvegi með skógrækt og aðgerðum gegn landeyðingu.
Sigrún Magnúsdóttir gerði áhrif loftslagsbreytinga á hafið að umtalsefni og fagnaði aukinni athygli á þann þátt í loftslagsumræðunni. Hreinni skipatækni væri hluti af lausninni og mikilvægt að hlúa að henni á Íslandi og á heimsvísu.
Auk loftslagsvænni tækni væri nauðsynlegt að huga að daglegu lífi, svo sem með að draga úr matarsóun, til að ná settu marki. Jafnrétti kynjanna og virk þátttaka kvenna væri nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum.
Ræða ráðherra í heild (á ensku) (pdf-skjal).

 Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sótt fundi ráðherra og aðra viðburði á aðildarríkjaþinginu í Marrakech og átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands. Þar kom fram að aðstæður í ríkjunum væru að mörgu leyti líkar hvað loftslagsmál varðar. Bæði ríkin nýta jarðhita og hafa hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku, bæði horfa til lausna varðandi losun frá landbúnaði og landnotkun og bæði hafa samþykkt að berjast gegn niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Samþykkt var að koma á samvinnu varðandi loftslagsvænar lausnir í landbúnaði og ræða frekar annað samstarf í loftslagsmálum.

Íslenskar kynningar um hafið og niðurdælingu koldíoxíðs

Sérstök dagskrá var tileinkuð umræðu um afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið á sérstökum degi hafsins (Oceans Action Day), þar sem fulltrúi utanríkisráðuneytisins flutti erindi um mikilvægi uppbyggingar á þekkingu og tækni í ríkjum sem byggja afkomu sína á hafinu.
Ísland hélt tvo kynningarviðburði á norrænum bás á ráðstefnunni í Marrakech þar sem annars vegar var fjallað um hafið og hins vegar um jarðhita.
Á viðburði um hafið kynnti fulltrúi sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hið mikilvæga hlutverk skólans við að byggja upp þekkingu á loftslagsvænni sjávarútvegi. Fulltrúar frá Seychelles-eyjum og Máritíus ræddu nýsköpun og tækifæri sem tengjast hafinu, en þessi tvö eyríki eru meðal þeirra ríkja sem þegar takast á við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið.
Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur kynntu alþjóðlegt verkefni um bindingu á jarðhitagasi í grjót við Hellisheiðarvirkjun. Samstarfið leiddi til þróunar á nýrri aðferð sem er til muna hraðvirkari og ódýrari en hefðbundnar aðferðir og er unnt að nýta víðsvegar um heim. Verkefnið hefur vakið mikla athygli í vísindaheiminum og loftslagsumræðunni.
Fundirnir voru vel sóttir. Hægt er að sjá kynningarfundina á eftirfarandi vefsíðu:
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/troll-turned-to-stone-innovation-in-geothermal-energy-ministry-of-foreign-affairs-iceland
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/one-earth-one-ocean-ministry-of-foreign-affairs-iceland

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Greinar

Hvert stefna stjórnmálin?

Deila grein

16/11/2016

Hvert stefna stjórnmálin?

sigmundur_vef_500x500Frá því að ég hóf, nokkuð óvænt, þátttöku í pólitík hefur mér orðið tíðrætt um eðli stjórnmála og hvað betur mætti fara í þeim efnum. Stundum hef ég vitnað til orða sem Winston Churchill lét falla í breska þinginu tveimur árum eftir seinni heimsstyrjöldina: „Sagt hefur verið að lýðræði sé versta stjórnkerfið fyrir utan öll hin sem reynd hafa verið við og við.“

Lýðræði hefur vissulega aldrei verið gallalaust en síðustu misseri hafa þær miklu grundvallarbreytingar sem eru að verða á stjórnmálum á Vesturlöndum verið mér hugleiknar. Auk þess að flytja allmörg erindi um þessa þróun á undanförnum árum skrifaði ég grein fyrir erlend blöð síðastliðið vor en birti hana svo á heimasíðu minni nýverið. Viðfangsefnið líka útgangspunkturinn í ræðum mínum á miðstjórnarfundi og flokks- þingi Framsóknarmanna. Ástæðan er sú að ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn og -flokkar verði að gera sér grein fyrir þessari þróun og eiga svör við henni ef ekki á að fara illa.

Trump
Stærsta afleiðing þessara miklu breytinga til þessa er kjör Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Nokkuð sem flestir virtust telja óhugsandi þar til aðfaranótt síðastliðins miðvikudags.

Afskipti Trumps af stjórnmálum hafa verið óviðurkvæmileg frá því að hann gekk til liðs við hóp fólks sem krafðist þess að Obama forseti sannaði að hann hefði fæðst í Bandaríkjunum. Sami hópur hélt því svo fram að enginn kannaðist við að forsetinn hefði verið nemandi í Columbia-háskóla auk annarra tilrauna til að gera hann tortryggilegan. Allt var þetta pólitík á sérlega lágu plani. Síðan þá hefur Trump sagt ýmislegt sem ekki hefur verið til þess fallið að lyfta stjórnmálaumræðu á hærra plan. Óþarfi er að rekja það hér, enda búið að gera því öllu góð skil í fjölmiðlum undanfarna mánuði og ræða það margfalt meira en nokkuð sem við kemur æðstu stjórn Bandaríkjanna.

Augljóslega er ég ekki einn um að hafa efasemdir um framgöngu Donalds Trumps en mikilvægt er að átta sig á því að það er gagnslaust að ætla að skýra niðurstöðu forsetakosninganna með því að Bandaríkin séu full af heimsku fólki, byssuóðum rasistum og einangrunarsinnum. Það eru Bandaríkjamenn almennt ekki, hvorki kjósendur Demókrata né Repú- blikana. Langflestir þeirra sem kusu Trump gerðu það ekki vegna, heldur þrátt fyrir, framgöngu hans og talsmáta. Kjósendur Trumps töldu hann einu vonina um að hrist yrði upp í kerfi sem er hætt að virka sem skyldi fyrir almenning.

Ekki hjálpaði það heldur til að framboð fulltrúa miðju- og vinstrimanna var fjármagnað af „Íslandsvinum“ á borð við fjárfestingabankann Goldman Sachs og hópi vogunarsjóðastjóra með George Soros í fararbroddi.

Þetta gerist ekki að ástæðulausu
Sú sögulega breyting sem við verðum nú vitni að kom ekki til að ástæðulausu. Stjórnmálamenn á Vesturlöndum voru margir orðnir of meðvirkir með þróuninni, of líkir innbyrðis og of einsleitir í nálgun sinni. Óskrifaðar rétthugsunarreglur voru orðnar allsráðandi um það með hvaða hætti stjórnmálamenn ættu að haga sér og tjá sig. Hægt var að gefa sér fyrirfram hverju stjórnmálamenn myndu svara nánast hvaða spurningu sem þeir voru spurðir, hvort sem þeir skilgreindu sig til vinstri eða hægri.

Rökræða um grundvallaratriði og leitin að nýjum og frumlegum hugmyndum hafði látið undan fyrir óttanum við að vera umdeildur, segja eitthvað sem félli ekki að rétthugsuninni eða storkaði ráð- andi kerfi, jafnvel bara óttanum við að segja eitthvað sem gæti þurft að útskýra. Í staðinn reiddu menn sig á frasa um sjálfsagða hluti sem enginn gat verið á móti og storkuðu þannig engum en vöktu heldur enga umræðu og engar nýjar hugsanir.

Á sama tíma var „kerfinu“ í auknum mæli eftirlátið að stjórna. Embættismenn, stofnanir og innvígðir sérfræðingar kerfisins, auk ytri kerfa eins og fjármálageirans og samtaka á vinnumarkaði, lögðu línurnar og gera enn.

Stöðugt er dregið úr valdi kjörinna fulltrúa almennings og það fært annað en ábyrgðin þó skilin eftir hjá pólitíkusunum. Úr því verður hættuleg skekkja, vald án ábyrgðar og ábyrgð án valds. Það sem er þó verst er að með því er valdið tekið af almenningi og fært til ólýðræðislegs kerfis. Kerfisræði tekur við af lýðræði.

Þessu er almenningur á Vesturlöndum að átta sig á, meðvitað og ómeðvitað, og um leið átta menn sig á því að hið ráðandi kerfi er í takmörkuðum tengslum við almenning. Kerfið telur það fremur vera hlutverk sitt að segja fólki hvernig hlutirnir þurfi og eigi að vera en að hlusta á og lúta vilja almennings. Fyrir vikið er þeim stjórnmálamönnum og flokkum sem láta þetta viðgangast refsað, eins og eðlilegt er. Hættan er þó sú að ef hefðbundnir stjórnmálamenn og flokkar bregðast ekki við muni aðeins öfgamenn gera það.

Hvað er til ráða?
Hefðbundnir stjórnmálaflokkar þurfa að rifja upp hlutverk sitt. Þeir þurfa að geta rætt mál sem almenningur lætur sig varða. Flokkarnir þurfa að bjóða upp á lausnir á því hvernig hægt sé að laga gallað fjármálakerfi, þeir þurfa að þora að ræða viðkvæm en stór mál eins og innflytjendamál. Flokkar þurfa að geta rætt umdeild mál og vera reiðubúnir að verja hagsmuni ólíkra hópa samfélagsins. Þora að ræða bæði kosti og galla stórra breytinga á borð við alþjóðavæðingu, benda á að henni fylgi miklir kostir en líka gallar. Hún eigi t.d. ekki að þýða undirboð á vinnumarkaði eða undirboð á vörum eins og matvöru (af hverju leyfa menn sér að kalla það sérhagsmunagæslu ef reynt er að bæta starfsaðstæður bænda en ekki ef það sama er gert fyrir há- skólakennara?).

Flokkarnir þurfa svo eftir rökræðu byggða á staðreyndum að þora að taka afstöðu. Hvernig má það t.d. vera að enginn flokkur á Íslandi þorir að segja að hann vilji ganga í Evrópusambandið, jafnvel ekki flokkar sem voru stofnaðir út á það eitt? Í staðinn er talað í kringum hlutina með innihaldslausum frösum.

Umfram allt þurfa stjórnmálaflokkar að endurheimta kjark. Þora að standa fyrir eitthvað þótt því fylgi að vera umdeildir. Stjórnmálamenn vinna beinlínis við að vera umdeildir. Það er hlutverk þeirra að gefa fólki val og láta það finna að valið skipti máli.

Augljóslega þurfa menn svo oft að geta miðlað málum til að ná meirihluta en svo kölluð samræðustjórnmál eru í raun ekki annað en samsæri stjórnmálamanna gegn kjósendum. Ef það á að vera hlutverk stjórnmálamanna að sameinast helst allir um lægsta samnefnarann í hverju máli er lýð- ræðislegur vilji fyrir borð borinn og á meðan fer kerfið sínu fram. Það er hættuleg og ólýðræðisleg þróun.

Síðar mun ég fjalla um þær miklu hindranir sem stjórnmálamenn og flokkar mæta við það að takast á við kerfið og hvernig bregðast megi við þeim. Auk þess mun ég svo fjalla um þau stóru álitaefni sem bíða okkar Íslendinga og leggja til lausnir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2016.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

Deila grein

15/11/2016

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Kópavogi 13. nóvember 2016 ályktar eftirfarandi:
Árangur í efnahagsmálum
Kjördæmisþingið lýsir ánægju með hinn mikla árangur sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili, ekki síst í lækkun skulda einstaklinga og þjóðarbúsins. Skuldir heimilanna hafa ekki verið lægri síðan árið 2003.
Kaupmáttur launa hefur hækkað um rúmlega 20% á kjörtímabilinu og hefur aldrei verið meiri. Störfum hefur fjölgað um rúmlega 15.000 og atvinnuleysi er með lægsta móti. Fólkið í landinu mun senn njóta að fullu losunar haftanna.
Framsóknarflokkurinn vill að millistéttin og hinir tekjulægri hafi meira á milli handanna. Neðsta skattþrep verði lækkað verulega og skattkerfið verði vinnuhvetjandi.
Mikill árangur í húsnæðismálum
Kjördæmisþingið fagnar þeim árangri sem náðst hefur í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. Samþykkt hafa verið ný lög um almennar íbúðir, lög um húsnæðisbætur, lög um húsnæðissamvinnufélög, lög um fasteignalán, húsaleigulög og lög um Fyrstu fasteign. Þá hefur átt sér stað algjör viðsnúningur í rekstri Íbúðalánasjóðs sem gerir hann reiðubúinn að takast á við öll þau verkefni sem honum hafa verið falin.
Mikill árangur er af Leiðréttingunni þar sem skuldir heimilanna eru nú með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum. Fyrsta fasteign er rökrétt framhald af Leiðréttingunni. Aðgerðin auðveldar fólki að eignast þak yfir höfuðið og hvetur til töku óverðtryggðra lána.
Fyrstu skrefin í afnámi verðtryggingar hafa verið stigin í samræmi við tillögur verðtryggingarnefndar og húsnæðisöryggi landsmanna aukið til framtíðar.
Risaskref í þágu lífeyrisþega
Kjördæmisþingið lýsir yfir ánægju með samþykkt nýrra laga um almannatryggingar þar sem lífeyrir var hækkaður verulega. Lífeyriskerfi aldraðra var einfaldað, sveigjanleiki aukinn, skerðing krónu á móti krónu afnumin og lágmarkslífeyrir til samræmis við lágmarkslaun á vinnumarkaði.
Mikilvægt er að heildarendurskoðuninni verði lokið á kjörtímabilinu í þágu allra lífeyrisþega.
Efling opinberrar þjónustu
Innviðir samfélagsins og opinber þjónusta urðu fyrir skakkaföllum í kjölfar hrunsins árið 2008. Nú, þegar tekist hefur að reisa við fjárhag ríkisins, þarf að leggja mikla áherslu á eflingu opinberrar þjónustu. Einkum á þetta við um heilbrigðisþjónustu, menntakerfið og löggæslu.
Kjördæmisþingið lýsir vilja til þess að nýr Landspítali verði byggður á Vífilsstöðum.
Samgöngumál
Vegakerfið hefur látið á sjá síðustu ár og kemur þar aðallega tvennt til, annars vegar afleiðingar hrunsins og hins vegar aukin umferð vegna mikils hagvaxtar og fjölgunar ferðamanna. Gera þarf átak til að bæta vegakerfið, enda eru slíkar umbætur mjög arðsamar.
Sérstaka áherslu þarf að leggja á samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, en vandræðaástand hefur skapast vegna vanrækslu sveitarstjórna þar, við skipulagningu og uppbyggingu samgönguæða. Segja má að sumar mikilvægustu samgönguæðar séu nánast ófærar klukkutímum saman á degi hverjum. Miklar umferðartafir valda ómældum kostnaði í þjóðfélaginu og gífurlegri mengun vegna bifreiða sem komast vart áfram og menga því margfalt meira en eðlilegt væri. Á þetta ekki síst við um Hringbraut og Miklubraut sem leiðir til efasemda um skynsemi þeirrar ákvörðunar að byggja nýjan Landspítala þar.
Kjördæmisþingið leggur mikla áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni og bendir í því sambandi á skyldur Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar við landsmenn, að hún segi sig ekki frá höfuðborgarhlutverkinu með því að þrengja að flugvellinum eða loka honum.
Umhverfismál
Leggja þarf kapp á aðgerðir til að uppfylla fyrirheit Íslands um aðgerðir í loftslagsmálum. Í því skyni þarf m.a. að flýta rafbílavæðingu og bæta dreifingu rafmagns um landið, bæði til að gera rafbíla nýtilega um allt land og einnig til að geta boðið skipum í höfn upp á rafmagn frá landi.

Categories
Fréttir

Eygló staðgengill forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi

Deila grein

02/11/2016

Eygló staðgengill forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi

eyglo_vef_500x500Eygló Harðardóttir,  félags- og húsnæðismálaráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda og staðgengill forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs, tók í gær og í dag þátt í störfum Norðurlandaráðsþings í Kaupmannahöfn.
Flutti ráðherra meðal annars ræðu um vinnu Íslands við framkvæmd Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og tók þátt í umræðum á þinginu.
Þá funduðu forsætisráðherrar Norðurlanda með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og fjölluðu m.a. um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og framkvæmd Norðurlanda.
Á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna var m.a. til umræðu umbylting í stafrænni tækni, umhverfis og loftslagsmál og þá sérstaklega umbreyting orkugjafa í samgöngum.
nordurlandaradsthingForsætisráðherrar Norðurlandanna funduðu einnig með leiðtogum Grænlands, Færeyja og Álandseyja. Fjallað var um formennskuáætlun  Noregs í samstarfi Norðurlandanna á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2017, stjórnsýsluhindranir, norrænt samstarf er varðar Evrópusambands- og alþjóðamál og sameiginlegar landkynningar Norðurlandanna.
Þá funduðu forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þar sem rætt var um samstarf þessara ríkja , umhverfis og loftslagsmál og öryggis- og varnarmál. Rætt var um eftirfylgni leiðtogafundar NATO, sem haldinn var í Varsjá sl. sumar, stöðu mála í Sýrlandi og Úkraínu og ákvörðun Bretlands um að segja sig úr Evrópusambandinu.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni

Deila grein

01/11/2016

Bréf frá formanni

sigurduringi_vef_500x500Kæru félagar!
Kosningar eru að baki, niðurstaðan liggur fyrir og er ekki sú sem stefnt var að. Á síðasta kjörtímabili náðist mikill árangur á flestum sviðum samfélagsins. Undir forystu Framsóknarflokksins voru stóru málin kláruð samanber Leiðréttinguna, uppgjörið við kröfuhafa sem gjörbreytti stöðu ríkissjóðs til hins betra ásamt öðrum þjóðþrifamálum. Öll okkar vinna hefur miðað að því að vinna framfara málum.
Baráttan var stutt og snörp og sem fyrr voru það þið, kæru vinir, sem báruð hitann og þungan af henni. Verkefni dagsins er sem fyrr að gera gagn fyrir land og þjóð. Það verður best gert með því að horfa fram á veginn og hafa að leiðarljósi samstöðu og samvinnu, eins og hefur einkennt flokkinn. Fortíð hans, samtíð og framtíð hefur ætíð byggst á þeim félagsauði sem í Framsóknarflokknum býr.
Þið eigið öll miklar og góðar þakkir skildar.
Sigurður Ingi Jóhannsson