„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og áskorun átta félagasamtaka sem vinna að þessum málum þar um og taka þau undir hvert orð í skýrslunni.
Það er augljóst að við tökum þessa áskorun alvarlega vegna þess að hér hafa fleiri hv. þingmenn rætt þetta mál, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og hv. þm. Páll Valur Björnsson.
Um er að ræða viðvarandi skipulags- og kerfisvanda þannig að þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda undanfarna áratugi til þess að bæta úr hefur það leitt til þess að meðal annars hafa safnast upp reglulega biðlistar þar sem við höfum reynt að takast á við þann vanda með reglubundnum átaksverkefnum.
Hér vantar samkvæmt skýrslunni mat á þjónustuþörfinni. Vísað er í erlendar rannsóknir og er áætlað að um 80% barna þurfi aldrei að leita út fyrir grunnþjónustuna, en þjónustustigin eru þrjú; grunn-, ítar- og sérþjónusta, og að um 16.000 börn og unglingar muni einhvern tíma þurfa á að halda ítar- eða sérþjónustu. Við árslok 2015 er biðlistinn eftir þeirri þjónustu samkvæmt skýrslunni 718 börn.
Það blasir auðvitað við samhæfingar- og skörunarvandi þar sem verkefnið er á borði fjölmargra aðila á ólíkum stjórnsýslu- og þjónustustigum. Þess vegna er kallað eftir skýrri leiðsögn stjórnvalda í þessum efnum, til þess að ná fram samhæfingu og samvinnu og skýrari verk- og ábyrgðarskiptingu þjónustuaðila.
Þingsályktunartillaga hæstv. heilbrigðisráðherra um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú í vinnslu hv. velferðarnefndar og þar er tækifæri til að ráðast að rótum vandans og styrkja grunnþjónustuna sem bætir kerfið í heild og til lengri tíma.
Ríkisendurskoðun telur ástandið algjörlega óviðunandi og ég vil því, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, hvetja hv. velferðarnefnd til að skoða sérstaklega ítar- og sérþjónustu, bæði með kerfislausnina í huga en ekki síður hvort ekki þurfi samhliða átak til að útrýma óæskilegum biðtíma og biðlistum.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.
Categories
Skýrari leiðsögn stjórnvalda í geðheilbrigðisþjónustu
26/02/2016
Skýrari leiðsögn stjórnvalda í geðheilbrigðisþjónustu