„Hæstv. forseti. Nú er mikið rætt um framboð og því fylgja þá eðlilega umræður um eftirspurn. Þeir sem hyggja á framboð telja klárlega vera eftirspurn eftir kröftum þeirra og það er í flestum tilvikum gott. Í samtölum mínum við fólk, almenning í landinu, þjóðina sem er kölluð finn ég fyrir mikilli eftirspurn eftir uppbyggilegu og jákvæðu samtali sem leiðir okkur fram á veginn og styrkir okkur sem samfélag.
Hæstv. forseti. Ég ætla því að leyfa mér að vera á jákvæðum nótum hér í dag og benda á hagspá Alþýðusambands Íslands. Þar kemur fram að kaupmáttur heimilanna hefur vaxið mikið og svo ég vitni í orð Hennýjar Hinz, hagfræðings ASÍ, með leyfi forseta:
„Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur. Það jákvæða er að hann virðist byggður á traustum grunni. Enn sem komið er byggir hann á bættri fjárhagsstöðu. Við sjáum ekki enn merki um að skuldsetning sé að aukast.“
Hæstv. forseti. Þetta eru verulega góð tíðindi fyrir heimilin í landinu og hefði verið gaman ef forustumenn ASÍ hefðu haft tök á að minnast á þau við hátíðarhöldin 1. maí. Það skiptir máli hve mikið við fáum fyrir kaupið okkar.
Innihald þessarar spár á svo sannarlega erindi við okkur öll því að þar er spáð nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Þá er áfram spáð lágri verðbólgu. En spáin á líka erindi við okkur því að hún bendir einnig á atriði sem við verðum að standa vörð um og hópa sem við þurfum að verja. Reyndin er sú til dæmis að staða fólks á leigumarkaði er mjög þröng. Mikil hækkun fasteignaverðs hvetur mjög til þess að byggðar verði nægilega margar íbúðir til að hér rjúki ekki fasteignaverð upp úr öllu valdi. Það er því gríðarlega mikilvægt að við náum samstöðu um afgreiðslu húsnæðisfrumvarpa sem nú liggja fyrir þinginu.
Hæstv. forseti. Þessari góðu stöðu fylgja miklar áskoranir því að tryggja þarf að hagstjórn næstu ára viðhaldi efnahagslegum stöðugleika. Það er því ánægjulegt að hér á eftir verður lögð fram glæsileg fjármálastefna og fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem fela það í sér að hægt verður að búa enn betur í haginn fyrir komandi kynslóðir.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 3. maí 2016.
Categories
Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur
04/05/2016
Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur