„Virðulegi forseti. Bjartsýni landsmanna um þessar mundir á sér góðar og gildar skýringar. Hagur heimilanna hefur vænkast verulega undanfarin missiri. Skuldir hafa minnkað, fasteignir hækkað í verði og starfandi Íslendingum fjölgað jafnt og þétt. Síðast en ekki síst hafa laun hækkað hratt á sama tíma og verðbólga hefur verið afar hófleg, m.a. vegna styrkingar krónu og hagfelldrar verðþróunar á hrávörum og eldsneyti erlendis frá. Aukning kaupmáttar launa hefur því verið mun meiri undanfarið en á sambærilegum tímabilum mikilla launahækkana á undanförnum áratugum þegar verðbólga var veruleg á sama tíma. Ekkert bendir til annars á þessari stundu en að þessi þróun geti haldið áfram ef við Íslendingar berum gæfu til að taka skynsamlegar ákvarðanir.
Nýlegar tölur Hagstofunnar um launa- og kaupmáttarþróun draga þetta skýrt fram. Í júní hækkaði launavísitala Hagstofunnar verulega frá mánuðinum á undan. Frá sama mánuði í fyrra nemur hækkunin 12,5%. Á sama tímabili mældist verðbólga hverfandi og kaupmáttur launa jókst því umtalsvert á tímabilinu, þ.e. yfir tíu af hundraði. Slík kaupmáttaraukning er vafalítið afar fátíð.
Ársverðbólga nú í ágúst er reiknuð undir 1%. Verðbólgan hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tvö og hálft ár, í 30 mánuði. Gangi spáin eftir fer verðbólgan undir neðri fráviksmörk Seðlabankans sem er óhætt að segja að sé alveg ný staða fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans. Útlit er fyrir litla verðbólgu næstu mánuði og að hún haldist undir verðbólgumarkmiði vel inn á næsta ár hið minnsta. Að því leyti má segja að við Íslendingar njótum nú einstaks tímabils verðstöðugleika og, eins og áður sagði, umtalsverðrar kaupmáttaraukningar.
Á síðasta ári urðu til 6.000 ný störf hér á landi. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða hefur ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2009. Hlutfall starfandi er nú jafn hátt og í janúar 2006 og atvinnuleysi komið á svipaðar slóðir og í upphafi árs 2003. Hlutfall þeirra sem hafa vinnu hefur hækkað nær stanslaust frá upphafi árs 2013 og fátt sem bendir til þess að það breytist á næstunni.
Þá hefur atvinnuþátttaka farið ört vaxandi og nálgast nú það sem best hefur verið. Nýjar tölur sýna að Íslendingar erlendis eru aftur farnir að sjá tækifæri á Íslandi og séu að koma heim. Sjaldgæft er að aðfluttir Íslendingar séu fleiri en brottfluttir, en nú er útlit fyrir að þetta ár verði það þriðja af síðustu 17 árum þar sem fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja til landsins en frá því.
Flestar spár eru Íslendingum hagfelldar nú um stundir. Gangi spár um hagvöxt eftir verður landsframleiðsla á mann árið 2016 hærri en árið 2007. Það sem skiptir þó mestu er að hagvöxtur nú er mun heilbrigðari en árið 2007 þegar hann var að miklu leyti byggður á aukinni skuldsetningu. Hagvöxtur nú er knúinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu. Því má búast við að einkaneysla aukist samhliða auknum kaupmætti en ríkisstjórnin mun halda áfram að styðja við heimilin svo þau geti haldið áfram að grynnka á skuldum eða auka sparnað. Þar skiptir miklu að samhliða bættri eignastöðu fyrirtækja og heimila eru vanskil að dragast saman. Ný skýrsla Íbúðalánasjóðs sýnir að vanskil einstaklinga dragast hratt saman, þ.e. um tæplega helming frá því í júní í fyrra. Það er því ekki að ástæðulausu að matsfyrirtækið Moody’s hefur tilkynnt að lánshæfismat Íbúðalánasjóðs verði endurmetið með mögulega hækkun í huga.
Þessi bætti hagur heimila og fyrirtækja skilar sér einnig í bættum ríkisrekstri, en núverandi ríkisstjórn hefur náð einstökum árangri í ríkisfjármálum eins og lesa má úr skýrslum lánshæfisfyrirtækja. Ef sömu stefnu er fylgt er þess ekki langt að bíða að Ísland færist aftur upp í A-flokk á hinum alþjóðlega lánamarkaði. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum missirum? Um leið mun vaxtakostnaður ríkissjóðs lækka mikið eins og hann hefur reyndar gert allt þetta kjörtímabil.
Skattstofnar hafa styrkst þrátt fyrri lægri skattálagningu og gjaldendum fjölgar. Þegar horft er til útgjalda er ríkissjóður nú kominn aftur til tímans fyrir efnahagskrísu og bankahrun. Þar munar mestu að útgjöld til velferðarmála hafa hækkað gríðarlega í tíð þessarar ríkisstjórnar og eru nú tæplega 12 milljörðum kr. hærri að raunvirði en 2007.
Ríkisstjórnin hefur undanfarið kynnt margvíslegar tillögur um aðrar umbætur í velferðarmálum, svo sem stórátak í þágu þeirra sem kaupa sína fyrstu fasteign eins og greint var frá fyrr í dag.
Stundum er rætt um punktstöðu til að árétta að staðan sé svona núna en óvíst sé með framhaldið. Punktstaðan fyrir íslenska hagkerfið hefur verið ansi góð lengi og ekkert lát virðist á, eins og hér hefur verið rakið. Meira að segja hin þekkta væntingavísitala Gallups nálgast hratt hámarkið fyrir bankahrunið 2008 en vísitalan mælir tiltrú á væntingar fólks til efnahagslífsins, atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Bjartsýni hefur aukist á sama tíma og störfum hefur fjölgað mikið og kaupmáttur fólks aukist. Sömu sögu er að segja um viðhorf stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins og telja þeir stöðu atvinnulífsins góða, en vísitala efnahagslífsins hefur aðeins í tvö skipti mælst hærri af síðustu 49 skiptum. Því má með nokkrum sanni leyfa sér að fullyrða að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar núna sé óvenjugott, jafnvel einstakt um margt. Þessi ríkisstjórn hefur unnið að því að breyta, bæta og lagfæra það sem þarf að gera síður en að bylta. Við getum því verið stolt af stöðu mála núna í hagkerfinu. Því má halda fram að endurreisn efnahagslífsins og aðgerðum eftir efnahagskrísu og bankahrun sé lokið. Nú þurfum við að fara að horfa fram á veginn til langrar framtíðar.
Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin setti sér markmið í upphafi kjörtímabils. Þau hafa verið að nást eitt af öðru, skuldaleiðréttingin sem tókst afburðavel og hefur skilað tilætluðum árangri, hvernig tekið var á slitabúum bankanna og kröfuhöfum sem hefur skilað því að næsta verkefni er afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki.
Í dag voru kynnt og sett fram úrræði fyrir þá sem hyggjast kaupa sína fyrstu fasteign. Þótt á ýmsu hafi gengið hefur ríkisstjórnin aldrei misst sjónar af markmiðum sínum. Til þess þarf staðfestu og áræðni.
Við Íslendingar eigum mikil tækifæri í því árferði sem nú ríkir. Ytri og innri skilyrði eru og hafa verið hagstæð. Það skiptir þó máli hvað menn gera úr þeim tækifærum sem á vegi þeirra verða. Það skiptir máli að allir fái að njóta, ekki bara sumir. Sagan segir okkur að það sé engin trygging fyrir því að ástandið verði svona áfram. Höfum í huga að það skiptir máli hverjir sitja við stjórnvölinn. Veldur hver á heldur.
Við erum nú að hefja síðsumarsþing þar sem fyrir liggja mörg mikilvæg mál fyrir landsmenn sem mikilvægt er að ljúka áður en gengið er til kosninga í haust. Ég vænti þess að með skipulagðri vinnu á þinginu næstu vikur muni það ganga eftir, sérstaklega ef horft er til þess vinnulags og þeirrar skilvirkni sem við sáum á síðustu mánuðum vorþingsins.
Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir hina sönnu stöðu efnahagsmála landsins með vísan til staðreynda og hagvísa. Mikilvægt er fyrir okkur öll að staðan nú sé ljós. Við getum síðan haft mismunandi skoðanir á því hvert við eigum að stefna héðan.
Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr. Árangur síðustu missira varðar veginn.“
Munnleg skýrsla Sigurður Inga Jóhannssonar forsætisráðherra á Alþingi um stöðu þjóðmála 15. ágúst 2016.