Categories
Fréttir

Fyrsta fasteign

Deila grein

17/08/2016

Fyrsta fasteign

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Nú í gær kynnti hæstv. ríkisstjórn tvö frumvörp til laga um kaup á fyrstu íbúð, þar sem sannarlega er hugað að fasteignakaupum ungs fólks, og svo frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þar horfum við til breytingar á lánafyrirkomulagi, sér í lagi sem snýr að 40 ára Íslandslánum svokölluðum, sem hafa þann eiginleika að bera vaxtavexti og mjög háan heildarkostnað þegar litið er til 40 ára. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar létu eðlilega ekki á sér standa en hún benti sannarlega á að hér er ekki um afnám að ræða, enda er miklu frekar mikilvægt að við breytum því lánafyrirkomulagi sem verið hefur. Ég held að allflestir viðurkenni að sá heildarkostnaður er hár sem fólk þarf að greiða allan þann tíma sem 40 árin eru á þessum Íslandslánum, sem ég held að flestir viðurkenni að eru erfið viðureignar, sérstaklega þegar efnahagurinn sveiflast, og þá stöndum við frammi fyrir því að ná fram skrefum í að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er það sem verið er að gera hér. Þess vegna má sannarlega kalla þetta áfangasigur, hæstv. forseti. Þetta er í eðli sínu þjóðþrifamál. Hvatinn til þess að taka óverðtryggð lán er sannarlega að finna í séreignarsparnaðarleiðinni og þar er jafnframt skattalegur hvati fyrir unga fólkið. Hér er verið að leita leiða til að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.