Categories
Fréttir

Árangur ríkisstjórnarinnar

Deila grein

17/08/2016

Árangur ríkisstjórnarinnar

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Síðustu tvo daga hefur landsmönnum verið boðið upp á furðulegan og hreint ótrúlegan málflutning í þingsölum. Það er látið að því liggja að núverandi ríkisstjórn hafi ekkert gert þau rúmu þrjú ár sem hún hefur starfað. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur gjörbreytt stöðu þjóðarbúsins og gjörbreytt stöðu heimilanna. Hæstv. fjármálaráðherra benti á í gær að á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009–2013. Að öllum líkindum verður meiri afgangur á þessu ári en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar. Í fimm ára áætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir 10% raunaukningu frumútgjalda ríkisins. Er það lítið? Nei, það er mikið, ekki síst þegar litið er til þess hvað hefur þegar verið gert á kjörtímabilinu. Og hvað er það? Farið var í skuldaleiðréttingu sem hefur gjörbreytt stöðu heimilanna. Bættur hagur heimila hefur leitt til aukins kaupmáttar og minni vanskila. Hagvöxtur er einn sá mesti sem þekkist á Vesturlöndum, ársverðbólga er komin undir 1% og um 6.000 ný störf urðu til á síðasta ári. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki og framlög til heilbrigðismála hafa verið stóraukin.

Þessi ríkisstjórn hafði þann kjark sem þurfti til að taka á kröfuhöfunum. Endapunktur þeirra mála verður væntanlega settur í dag eða á næstu dögum þegar síðasta haftafrumvarpið lítur dagsins ljós.

Það er vinsælt að þylja þá möntru að stjórnvöld séu alltaf að forgangsraða í þágu hinna ríku. Það er fjarri sanni, tekjuskattur lækkar og miðþrep tekjuskatts fellur niður um áramótin. Miðþrepið tekur við í um 240.000 kr. Nú fellur það út og búið er að lækka lægsta þrepið. Allir undir 800.000 kr. hafa fengið verulega lækkun tekjuskatts frá þessari ríkisstjórn. Þetta er fólkið sem vinstri stjórnin hækkaði skatta á.“

Karl Garðarsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.