Categories
Fréttir

Ég hlakka til alþingiskosninga – verið stigin risastór skref

Deila grein

17/08/2016

Ég hlakka til alþingiskosninga – verið stigin risastór skref

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Senn líður að kjördegi og viðburðaríkt þing líður undir lok. Ég taldi það ekki góða leið að flýta kosningum á sínum tíma, en þegar menn gefa loforð þá þarf að standa við þau. Við sem hér störfum þurftum að fá að vita hvernig dagskrá haustsins liti út. Nú liggur hún fyrir og það er vel. Ég hlakka til alþingiskosninga og ég er bjartsýn á gengi Framsóknarflokksins þar sem við erum afar vel mönnuð framsæknu fólki vítt og breitt um landið. Það er hugur í fólki enda er málefnastaða flokksins afar góð. Við leiðréttum stökkbreytt húsnæðislán sem náðu til tuga þúsunda heimila. Hlutfall fjárhæða niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri.

Fyrir örfáum árum, 2012, skulduðu heimilin í landinu 125% af vergri landsframleiðslu og voru með skuldsettustu heimilum í hinum vestræna heimi. Á síðasta ári voru skuldir heimilanna komnar niður í 84% af vergri landsframleiðslu og komnar niður fyrir það skuldahlutfall sem verið hefur hér á landi síðan fyrir aldamót. Þessi lækkun er að stærstum hluta til komin vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar með leiðréttingunni sem greidd var af kröfuhöfum bankanna.

Vík ég nú aftur að störfum þingsins. Þingstörfin gengu mjög vel í vor. Fjöldinn allur af málum var afgreiddur í breiðri sátt, t.d. stór mál eins og húsnæðisfrumvörpin fjögur. Ég á því ekki von á öðru en að þingstörfin munu einnig ganga vel nú og við náum að klára þau mál sem ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar hefur lagt til.

Í gær voru kynnt tvö frumvörp frá ríkisstjórn. Við fyrstu sýn líta þessi frumvörp ágætlega út þó að þau séu auðvitað ekki gallalaus, en ég á von á því að þeir gallar verði lagfærðir í þinglegri meðferð. Niðurstaða mín er því sú að með þessum aðgerðum hafi verið stigin risastór skref, þ.e. þeim aðgerðum sem kynntar voru í gær, undir forustu Framsóknarflokksins í átt að bættu fjármálakerfi.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 16. ágúst 2016.