„Hæstv. forseti. Undanfarin missiri hefur Seðlabanki Íslands hangið á vaxtaákvörðun sem tekin var í fáti í kjölfar síðustu kjarasamninga þegar stýrivextir voru hækkaðir í tveimur áföngum. Nú loksins eftir um það bil 18 mánuði eða svo hefur peningastefnunefnd Seðlabankans ákveðið að sjá ljósið eða alla vega smátíru og lækka stýrivexti um 0,5%. Þeirri ákvörðun hefur verið vel tekið. Það sést á markaði, kröftug hækkun hefur verið á markaði. Málið er að auðvitað er þetta allt of lítið og allt of seint. Það sem ég staldraði við voru skýringar seðlabankastjóra í morgun, sem eru m.a. þær að útlit sé fyrir kröftugan hagvöxt. Kröftugur hagvöxtur var einmitt undirstaða þess fyrir nokkrum missirum eða mánuðum að hækka eða halda stýrivöxtum óbreyttum. Þannig að enn halda menn áfram að elta rófuna á sér í Seðlabankanum í staðinn fyrir að líta upp og taka rökum skynsamra manna eins og dr. Ólafs Margeirssonar og fleiri sem bent hafa á að stýrivextir á Íslandi eru úr takti við það sem gerist alls staðar annars staðar í heiminum.
Ég ætla enn einu sinni að minnast á verðbólgumælingar Seðlabankans sem eru ekki með sama hætti og verðbólgumælingar í OECD-ríkjunum sem hafa orðið til þess að verðbólgumæling þó að hún sé verulega lág og árangur hafi náðst, þá er verðbólgumælingin á Íslandi of há af því að húsnæðisliðurinn er inni. Þetta hefur kostað almenning í landinu verulegt fé á síðustu mánuðum og missirum vegna þess að lán þeirra aðila hafa hækkað í takti við þá verðbólgu sem lögð er til grundvallar hjá Seðlabanka Íslands. Ég vona auðvitað að þetta verði til þess fyrst menn hafa aðeins öðlast kjark að hann endist þeim og þetta sé einungis fyrsta skrefið af fleirum vegna þess að hvað sem öðru líður eru stýrivextir á Íslandi enn þá allt of háir og ekki í neinu samræmi við þær efnahagshorfur og efnahagsástand sem hér er ríkjandi í landinu.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 24. ágúst 2016.
Categories
Seðlabankinn hefur hangið á vaxtaákvörðuninni
29/08/2016
Seðlabankinn hefur hangið á vaxtaákvörðuninni