Categories
Fréttir

Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku

Deila grein

08/02/2017

Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku

eyglo_vef_500x500„Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa borist fréttir af því að verið sé að bjóða allt að því 95% lán til kaupa á fasteignum. Ég vil fá að koma hér og lýsa yfir áhyggjum af þeirri þróun. Það kom fram í máli hagfræðings ASÍ í gær að í þeim lánum felst umtalsverð áhætta. Það þarf mjög lítið til að kaupandi lendi í vandræðum. Það hefur oft verið þannig og það verið rökstutt að erfitt sé fyrir ungt fólk að kaupa sér húsnæði. Tölur sýna hins vegar að í dag eru nýir kaupendur 20–25%, um fjórðungur til fimmtungur, af þeim kaupsamningum sem verið er að gera. Vandinn sem við erum að fást við snýr ekki að eftirspurn, hún er næg, heldur að framboði á húsnæði. Ég vil því minna þá sem hafa í hyggju að bjóða upp á þess háttar lánveitingar að þann 20. október sl. samþykkti Alþingi ný lög um fasteignalán. Þau taka gildi 1. apríl 2017. Þar er m.a. fjallað um slíkar lánveitingar þannig að það er ekki aðeins verið að eyrnamerkja þær sem eru með veði í fasteign heldur líka lán sem eru veitt í þeim tilgangi að kaupa eða viðhalda eignarrétti á fasteign. Þar er Fjármálaeftirlitinu, að fenginni tillögu frá fjármálastöðugleikaráðinu, sem ég vona svo sannarlega að Fjármálaeftirlitið hafi fengið, ætlað að setja reglur um hámark veðsetningarhlutfalls, sem getur verið 60–90%, og líka reglur um takmörkun í hlutfalli við tekjur neytanda, þess sem tekur lánið, annars vegar varðandi heildarfjárhæð og hins vegar greiðslubyrðina. Þessi ákvæði eru nokkuð sem Seðlabankinn hafði kallað eftir sem hluta af þeim þjóðhagsvarúðartækjum sem þyrftu að vera til að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika.
Það er ekki verið að veita lán af einskærri góðmennsku, við verðum að hafa það í huga, og það hefur svo sannarlega sýnt sig að lán er ekki sama og lukka.“
Eygló Harðardóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017: