Categories
Forsíðuborði Greinar

Fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf

Deila grein

31/12/2017

Fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf

Jól og áramót er tími samverustunda með fjölskyldum og vinum. Þá lítum við gjarnan yfir farinn veg, rifjum upp helstu viðburði og metum hvernig árið hefur verið fyrir okkur og þeim sem standa okkur næst. Sumum breytingum fögnum við, öðrum ekki eins og gengur. Óhætt er að segja að árið sem senn er á enda hefur verið viðburðaríkt og lærdómsríkt á hinu pólitíska sviði.

Kosningabaráttan á árinu var gefandi og skemmtileg og er ég gríðarlega þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem kjósendur sýndu okkur. Óeigingjörn vinna frá sterku baklandi skilaði sér þegar á brattann var að sækja allt fram á síðustu stundu. Dýrmætt og ómetanlegt var að finna einlæga gleði frá sameinuðum og sterkum hóp flokksmanna.

Þetta rifjar upp þá samstöðu og þann baráttuvilja sem ríkti meðal bænda sem komu saman til fundar að Þjórsártúni fyrir meira en hundrað árum síðan og vildu berjast fyrir jákvæðari byggðaþróun og uppbyggingu landsins. Framsóknarflokkurinn er umbótaflokkur og vill beita aðferðum vísinda og þekkingar til að ryðja framþróuninni braut. Um allt land var verk að vinna, rétt eins og nú. Sé litið til síðustu 100 ára hafa tæknibreytingar á öllum sviðum fært okkur úr stöðnuðum heimi fortíðar inn í nútímann sem frjáls og fullvalda þjóð.

Á öllum sviðum hefur þjóðin náð að nýta sjálfstæði sitt til framfara og þróunar. Vegir, hafnir, brýr, flugvellir, allt þetta varð að byggja frá grunni. Í því sambandi má minnast þess að þegar fyrir lá að Friðrik VIII Danakonungur heimsækti landið fyrir rúmri öld síðan réðust landsmenn í að byggja veg til að þjóðhöfðinginn gæti ferðast um Suðurland og séð áhugaverðustu ferðamannastaðina. Engir bílfærir vegir voru á landinu svo heitið gæti enda hafði fyrsti bíllinn komið til landsins einungis þremur árum áður.

Sterkt samfélag
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrsti ferðamannavegurinn var lagður. Atvinnuhættir þar sem áherslur hafa breyst frá landbúnaði yfir í sjávarútveg og síðan yfir í þjónustu og tæknistörf hafa tekið miklum stakkaskiptum. Tæknibreytingar og vélvæðing hafa leitt til fækkunar einhæfra starfa og margar blómlegar byggðir eiga undir högg að sækja, oft vegna skorts á öruggum samgöngum, raflögnum og nettengingum. Nú er svo komið að í einstökum byggðarlögum heyrir föst búseta jafnvel til undantekninga og sveitarfélög eiga í erfiðleikum með að halda uppi grunnþjónustu sem er hverju samfélagi nauðsynleg.

Núverandi ríkisstjórnarsamstarf þriggja stærstu þingflokkanna á Alþingi byggist á sameiginlegri sýn ólíkra flokka og hafa það sameiginlega markmið að vinna að ákveðnum lykilverkefnum sem koma Íslandi í fremstu röð. Þar skiptir mestu að auka samkeppnishæfni landsins til að unga fólkið okkar velji Ísland til búsetu. Efling atvinnulífs og nýsköpun þarf að vera í forgangi svo að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun og lífsgæðum um land allt. Einstaka svæði eiga í vök að verjast og leita þarf leiða til að snúa við vítahring íbúafækkunar og einhæfs atvinnulífs hjá fámennum byggðarlögum. Liður í því er að virkja námslánakerfið til að efla búsetu á þeim svæðum sem lið í uppbyggingu. Samgöngur og fjölbreyttir atvinnumöguleikar þurfa að haldast hönd í hönd og verka á hvert annað til að styrkja innviði samfélagsins. Sterk vinnusóknarsvæði með skilvirkum samgöngum sem tengja saman byggðakjarna þar sem landsmenn hafi jafnan aðgang að ásættanlegri heilbrigðisþjónustu og möguleikum til að afla sér menntunar, atvinnutækifærum og lífskjörum er forsenda þess að byggð haldist um landið.

Traust á tækninni
En samgöngur eru ekki einungis flutningur fólks og varnings eftir vegum, á láði eða í lofti. Þeim hefur jafnan fylgt flutningur upplýsinga og hugmynda. Á sama hátt og þær tengja svæði þarf að tryggja að landið sé tengt öðrum löndum með sæstrengjum sem búa yfir mikilli getu til gagnaflutninga. Ljósleiðartenging til allra landsmanna sem verður lokið innan þriggja ára mun skipa okkur í fremstu röð upplýsinga- og tæknisamfélaga. Atvinnutækifærum landsmanna fjölgar og velferð fólks eykst.

Að því sögðu mun tækniþróunin sem slík ekki hljóta framgang ef öryggi og traust á henni er ekki til staðar. Á sama hátt og við erum stöðugt að efla öryggi samgangna, sem er lykillinn að framförum að okkar samfélagi og lífsgæðum fólks, þurfum við að geta treyst því að upplýsingarnar fari eftir öruggum leiðum í netheimum. Án trausts á tækninni nýtum við ekki fjarskiptamöguleikana til samskipta, viðskipta eða öflunar fróðleiks. Örugg upplýsingatækni  mun jafnframt hafa mikil áhrif á samgöngur framtíðarinnar. Í því sambandi má nefna að auknir möguleikar til eftirlits og sjálfsstýringar geta dregið úr slysum í samgöngum, sem er ekki einungis mannlegur harmleikur, heldur einnig beinn og óbeinn þjóðfélagslegur kostnaður.

Tölum íslensku
Þó að tæknin og sjálftæknivæðing geti ýtt undir verðmætasköpun þá megum við ekki slá af kröfum til varðveislu tungumálsins okkar. Íslenskan og fjarlægð þess voru okkur áður viss vörn gegn mörgum ógnum en svo er ekki lengur. Varðveisla tungumálsins sem sameinar okkur sem þjóð og stöðu hennar í hinum starfræna heimi er verkefni sem okkur ber stöðugt að vinna að. Aðgerðaráætlun um máltækni hefur nú verið hrundið fram og fyrstu skref tekin í áttina að því að íslenskan verði hluti af stafrænum heimi framtíðarinnar. Við þurfum að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu til að varðveita hana eins og best verður á kosið, eins og okkur sem búum hér, er falið að gera.

Góðir landsmenn.
Við sem búum hér hundrað árum eftir að fyrsti bíllinn kom til landsins stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri í samgöngumálum. Loftslagsbreytingar og tækninýjunar munu hafa áhrif á þróun samgangna, uppbyggingu þeirra í þéttbýli og í allri byggðaþróun. Tryggja þarf örugga raforku fyrir alla landsmenn til að flutnings- og dreifikerfið mæti betur þörfum atvinnulífs og almennings.

Með skýrri stefnu í samgöngumálum getum við náð forskoti á aðrar þjóðir í innleiðingu tækninýjunga í orkuskiptum. Við forgangsröðun í samgöngum verður litið til ólíkra stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggisjónarmiða. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við getum sem best tryggt að byggð haldist um landið og þjónað íbúum og ferðamönnum við að komast á öruggan hátt á milli svæða.

Innanlandsflug þarf að vera mikilvægari hluti af almenningssamgöngum sem við þurfum að tengja betur við alla landshluta og verða hagkvæmari kostur fyrir íbúa landsbyggðanna. Samgöngunetið þarf að tvinnast saman, verða ein heild og hver hluti tengjast öðrum í byggðarkjörnum svo hér fái allir sem jafnasta þjónustu. Ákvarðanir um staðsetningu flugvalla hljóta alltaf að þurfa að taka mið af hvað sé best fyrir landsmenn til lengri tíma.

Já, skrefin eru vissulega mörg og sum munu taka lengri tíma en  önnur. Það sem skiptir mestu máli er að þetta séu verkefni sem skipta velferð íbúa landsins miklu. Það mun hjálpa til séum við öll sammála um hvert við erum að fara. Það er hægt og þá mun okkur farnast vel um ókomna framtíð.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2017.