Categories
Forsíðuborði Greinar

Íþróttir skipa mikilvægan sess í íslensku þjóðlífi

Deila grein

03/01/2018

Íþróttir skipa mikilvægan sess í íslensku þjóðlífi

Allt frá upphafi byggðar á Íslandi hefur íþróttaiðkun fylgt þjóðinni og verið mikilvæg bæði fyrir sýn Íslendinga á heilbrigði og hreysti en ekki síður gefið þjóðinni gleðistundir þegar att hefur verið kappi við aðrar þjóðir í hinum ýmsu greinum íþrótta.

Sterk umgjörð íþróttastarfs skilar árangri
Umgjörð íþróttastarfs á Íslandi þróaðist að mestu frá miðri 19. öld og fram að miðja 20. öldina. Stofnun íþrótta- og ungmennafélaga í byrjun 20. aldar leiddi fljótlega til stofnunar heildarsamtaka Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) árið 1907 og síðan Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) árið 1912. Íþrótta- og ungmennafélögin höfðu mikil áhrif á útbreiðslu og fjölda íþróttagreina á hér á landi. Það er merkilegt að elstu íþróttafélög landsins hafa starfað lengur en stjórnmálaflokkarnir og hefur grunnskipulag í kringum þau verið að mestu óbreytt og starfsemin gegnir nú sem fyrr mikilvægu og fjölbreyttu samfélagslegu hlutverki. Vissulega hefur orðið breyting á hvernig horft er á þetta hlutverk og má segja að í dag sé hlutverk íþrótta margþættara en áður. Hinir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar eiga mikið lof skilið fyrir framlagi sitt í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Íþróttir gera samfélagið öflugra
Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að íþróttir eru mikilvægar í uppeldi barna okkar og unglinga. Þjóðin er einhuga um að hlúa vel að íþróttastarfi og efla það enn frekar. Stuðningur ríkis, sveitarfélaga, og atvinnulífs við uppbyggingu aðstöðu og grasrótarstarfs íþróttahreyfingarinnar leggja grunninn að því að öflugt íþróttastarf haldi áfram að vaxa og dafna. Forvarnargildi skipulagðs íþróttastarfs hefur sannað gildi sitt. Rannsóknir hafa sýnt að skipulagt íþróttastarf þar sem aðstaða er góð og unnið er undir handleiðslu ábyrgra og vel menntaðra þjálfara og leiðbeinenda hefur meira forvarnargildi þegar kemur að ýmiskonar áhættuhegðun. Einnig eru sterkar vísbendingar og fleiri rannsóknir sem sýna fram á sterkt samband á milli aukinnar hreyfingar og frammistöðu í námi. Því skiptir miklu máli að áfram verði haldið á þeirri braut að efla umgjörð og gæði í starfi skipulagðs íþróttastarfs.

Jafnt aðgengi að íþróttastarfi mikilvægt
Íþrótta- og tómstundastarf er oft á tíðum dýrt. Brýnt er að aðgengi að slíku starfi sé öllum börnum fært, sérstaklega í ljósi þess hversu mikið lífsgæði barna aukast. Sveitarfélög hafa stigið mikilvægt skref í þá átt að gera börnum og unglingum kleift að stunda íþróttir með frístundakortum. Þetta virkar sem ákveðið jöfnunartæki þegar kemur að aðgengi að skipulögðu íþróttastarfi. Á sama tíma er mikilvægt að íþróttahreyfingin efli enn frekar áherslur sínar á faglega umsjón með iðkendum með vel menntuðum og hæfum þjálfurum og öruggri umgjörð að öðru leyti.

Afreksíþróttir og stórmót framundan
Á undanförnum árum hefur afreksfólk okkar Íslendinga náð einstökum árangri. Fyrst og fremst er það afreksfólkið sjálft sem hefur lagt á sig þrotlausar æfingar til þess að ná því markmiði að geta keppt við besta íþróttafólk veraldar. En hitt skiptir einnig miklu að sköpuð séu skilyrði fyrir afreksfólk til þess að hægt sé að ná langt. Þátttaka Íslands í stórum íþróttamótum hefur ávallt verið talin mikilvæg og gríðarlegur metnaður er til staðar hjá íþróttafólki að standa sig vel í alþjóðlegum samanburði. Stjórnvöld hafa með nýlegum samningum við íþróttahreyfinguna lagt til aukinn stuðning til afreksstarfs til þess að styðja betur við þessa þróun og efla árangur afreksíþróttafólks enn frekar. Mörg stórmót eru framundan á árinu. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik heldur í byrjun næsta árs til Króatíu og tekur þátt í Evrópukeppninni. Vetrarólympíuleikarnir í PyeongChang í Suður-Kóreu eru í febrúar og svo er heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla næsta sumar. Án efa munu margir Íslendingar leggja leið sína á þessi mót til þess að styðja okkar fólk.

Íþróttamaður ársins
Kjör á íþróttamanni ársins fer fram í dag. Þessi viðburður á sér sögu frá árinu 1956 þegar nokkrir starfandi íþróttafréttamenn stofnuðu Samtök íþróttafréttamanna til þess að vinna að betri aðstöðu fyrir störf sín á vettvangi. Aðalhvatamenn voru þeir Atli Steinarsson, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson.

Síðan þá hafa samtökin staðið fyrir þessu kjöri sem orðið er að mikilvægri hefð í íslensku íþróttalífi þar sem hvert ár er gert upp. Íþróttafólk ársins í öllum greinum kemur saman og tekur við viðurkenningum fyrir góðan árangur á árinu sem er að líða. Íþróttamaður ársins er kjörinn úr hópi sem að mati íþróttafréttamanna eru taldir hafa skarað fram úr á árinu. Eftir að samtökin tóku upp samstarf við ÍSÍ, þar sem öllum íþróttagreinum eru gerð skil áður en íþróttamaður ársins er kjörinn úr hópi 10 efstu íþróttamanna, hefur viðburðurinn stækkað talsvert.

Kjöri íþróttamanns ársins hefur í áranna rás verið lýst í beinni útsendingu í sjónvarpi og þannig öðlast fastan sess í jólahaldi landsmanna. Sitt sýnist þó hverjum um valið hverju sinni, sem er til merkis um þá ástríðu sem Íslendingar hafa fyrir íþróttum. Að lokum óska ég öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2017